Kvikmyndir

Tender Mercies

Leikstjórn: Bruce Beresford
Handrit: Horton Foote
Leikarar: Robert Duvall, Tess Harper, Betty Buckley, Wilford Brimley, Ellen Barkin, Allan Hubbard
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1983
Lengd: 92mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0086423
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Mac Sledge er áfengissjúklingur sem hefur brennt allar brýr að baki sér. Áður fyrr var hann frægur sveitasöngvari en vínið rændi hann náðargáfunni, fjölskyldunni og öllu því sem honum var kært. Eftir að Mac kynnist hinni trúuðu Tess Harper hættir hann að drekka og reynir að vera betri maður. En þegar fortíðin bankar upp á hjá Mac hefst hin raunverulega eldskírn.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Tender Mercies var tilnefnd til fimm óskarsverðlauna (t.d. fyrir bestu leikstjórn og sem besta myndin) og hlaut tvenn, þ.e. fyrir besta handritið og besta leikinn (Robert Duvall).

Nafn myndarinnar er sótt í sjötta vers 25 sálms en á ensku (KJV) byrjar hann svona: „Remember, O LORD, thy tender mercies and thy lovingkindnesses“. Í raun má segja að myndin sé útlegging á þessum sálmi, en sálmurinn er angursálmur syndara. Um miðbik myndarinnar fer Tess með fjórða og fimmta vers sálmsins en þar segir: „Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína. Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig.“ Þessi orð eiga vel við Mac en þau eru sögð þegar Mac á í hvað mestri innri baráttu og vanlíðan og þarf á leiðsögn að halda. Svo virðist sem bæn Tess sé svarað því Mac stenst freistingarnar og gengur rétta vegu.

Mac er þjakaður af samviskubiti og lýsa eftirfarandi vers úr sálminum honum vel (vers 7-8): „Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni sakir gæsku þinnar, Drottinn. Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn.“ Í versum 16-17 segir einnig „Snú þér til mín og líkna mig, því ég er einmanna og hrjáður. Angist sturlar hjarta mitt, leið mig úr nauðum mínum.“ Eins og ljóðmælandinn í sálminum er Mac einnig einmanna og hrjáð sál. Samviskan nagar hann að innan en hann var ofbeldisfullur með vínið og barði eiginkonu sína. Honum finnst hann því ekki vera verðugur miskunnar Guðs en samt þráir hann hjálpræðið og endurlausn.

Skírnin er annað stef í myndinni en hún er tengd þrá Mac fyrir náð og fyrirgefningu Guðs. Það kemur snemma fram í myndinni að Mac er trúaður en hefur enn ekki tekið skírn. Skírnin hafði þó oft verið honum hugleikin, en hann söng t.d. eftirfarandi ljóðlínu fyrir dóttur sína þegar hún var yngri: „Jesús fór niður að ánni, og var skírður á hefðbundinn hátt. Og við skírnarlokin, blessaði hann son sinn og á fannhvítum dúfnavængjum veitti hann af sínum kærleiksbrunni. Á vængjum fannhvítrar dúfu, kom tær ást hans að ofan.“

Í fyrrgreindu atviki þegar Tess fór með versin úr 25. sálmi keyrir Mac eins og brjálæðingur fram hjá skilti þar sem á er letrað: „Ath. bæn! Bænarstaður!“ Leiðsögn Guðs og náð er allstaðar, Mac þarf aðeins taka við henni. Að lokum hættir Mac að refsa sjálfum sér og tekur við miskunn og kærleika Guðs með því að taka niðurdýfingarskírn.

En það að ganga á vegi Drottins er engin trygging gegn erfiðleikum í lífinu því stuttu síðar deyr dóttir hans í bílslysi. Munurinn er þó sá að Mac þarf ekki lengur að kljást einn við sorgina og erfiðleika lífsins. Hann hefur Drottinn sér við hlið og sorgbitinn raular hann fyrir munni sér skírnarlagið sem hann söng áður fyrir dóttur sína.

Lýsa mætti boðskap myndarinnar vel með einkunnarorðum Lúthers: Lögmál og fagnaðarerindi. Lögmálið dæmir einstaklinginn og hrekur hann í náðarfaðm Drottins. Þetta er ferlið sem Mac gengur í gegnum.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Sl 25:4-6
Hliðstæður við texta trúarrits: Sl 25
Persónur úr trúarritum: Guð, Jesús Kristur,
Guðfræðistef: dauði, freistingar, fyrirgefning Guðs, hamingjan, miskunn Guðs, missir, náð Guðs, niðurdýfningarskírn, hjálpræði, reiði út í Guð, skírn, sorg, synd, uppgjör,
Siðfræðistef: áfengissýki, morð,
Trúarbrögð: hvítasunnukirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: bænahús, kirkja
Trúarleg tákn: dúfa
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, messa, sálmasöngur, skírn
Trúarleg reynsla: afturhvarf, endurlausn, frelsun, iðrun, uppgjör