Leikstjórn: Jonathan Mostow
Handrit: John D. Brancato, Michael Ferris og Tedi Sarafian, byggt á persónum eftir James Cameron og Gale Anne Hurd
Leikarar: Arnold Schwarzenegger, Nick Stahl, Claire Danes, Kristanna Loken, David Andrews, Mark Famiglietti, Earl Boen, Moira Harris, Chopper Bernet og Christopher Lawford
Upprunaland: Bandaríkin og Þýskaland
Ár: 2003
Lengd: 108mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Áratugur er liðinn frá því þegar John Connor tókst að koma í veg fyrir heimsslit 29. ágúst 1997 og því varð dómsdagurinn eins og hver annar dagur almanaksins. En örlögin verða samt ekki umflúin. Connor hafði aðeins tekist að fresta dómsdeginum en til þess að koma í veg fyrir uppreisn mannkynsins í framtíðinni senda vélarnar enn betri gjöreyðanda, kvenvélmennið T-X, aftur í tímann til að drepa þennan bjargvætt mannkynsins. Connor fær hins vegar gamla Terminator vélmennið sent aftur (þó nýtt eintak) sér til aðstoðar.
Almennt um myndina:
Margir Terminator-aðdáendur höfðu frá upphafi gefið þessa mynd upp á bátinn vegna þess að James Cameron neitaði að koma nálægt henni, en hann leikstýrði fyrstu tveimur myndunum. Í raun eru aðeins tveir leikarar í þessari mynd sem komu einnig við sögu í fyrri myndunum tveimur, þ.e. Arnold Schwarzenegger og Earl Boen sem leikur taugaveiklaða sálfræðinginn Dr. Silberman, sem lifir í stöðugri afneitun um að hann hafi séð vélmenni.
Edward Furlong átti reyndar að endurtaka hlutverk sitt sem John Connor en vegna eiturlyfjavandamála var honum sparkað og Nick Stahl ráðinn í stað hans. Nick Stahl sló í gegn sem mótleikari Mel Gibson í The Man Without a Face (Mel Gibson: 1993), en .náði ekki að fylgja velgengninni eftir og sást lengst af eftir það aðeins í mörgum lítt þekktum og lélegum myndum. Hann vakti þó aftur athygli á sér í Disturbing Behavior (David Nutter: 1998) og The Thin Red Line (Terrence Malick: 1998) og svo nýlega í hinni stórgóðu mynd In the Bedroom (Todd Field: 2001). Nick Stahl stendur sig nokkuð vel í myndinni, þótt maður hafi oft séð hann betri.
Af öllum leikurum myndarinnar kom norsk-bandaríska ofurfyrirsætan Kristanna Loken mest á óvart. Fyrir utan módelstörf sín hafði hún nær eingöngu komið fram í sjónvarpsmyndum. Hér fær hún það hlutverk að leika T-X vélmennið og tekst það með eindæmum vel. Kristanna Loken bætti við sig um sjö kílóum af vöfðum til að undirbúa sig fyrir hlutverkið. Þá lærði hún einnig látbragðsleik til að geta tjáð sig með svipbrigðunum einum, en persóna hennar segir nánast ekkert út alla myndina.
Þá var gaman að sjá Claire Danes í myndinni en hún lék Jenny eftirminnilega í U-Turn (Oliver Stone: 1997) sem og Júlíu í Romeo + Juliet (Baz Luhrmann: 1996). Hér leikur hún Kate Brewster, en hún mun víst verða eiginkona Johns Connor í framtíðinni. Claire Danes sýnir reyndar engan stórleik hér en stendur sig í heildina þó ágætlega. Arnold Schwarzenegger gerir það sem hann hefur alltaf gert og því litlu við það að bæta. Ég hef reyndar alltaf litið svo á að það fari honum best að „leika“ vélmenni.
Framleiðendur myndarinnar ætluðu sér greinilega stóra hluti en upphaflega fjárhagsáætlunin hljóðaði upp á 170 milljónir dollara. Þetta er hæsta upphaflega fjárhagsáætlun fram til þessa, þótt aðrar myndir hafi reyndar kostað meira þegar upp var staðið. Í ljósi þessa kemur nokkuð á óvart að Jonathan Mostow skuli hafa verið ráðinn til að leikstýra myndinni, enda nánast óþekktur. Hann hefur leikstýrt alls sex myndum og fór frekar hljótt þar til hann gerði hina ofmetnu kafbátamynd U-571 (2000), en þetta er fyrsta mynd hans síðan þá. Ang Lee var reyndar boðið að leikstýra myndinni en hann hafnaði boðinu og ákvað að leikstýra The Hulk (2003) í staðinn. Jonathan Mostow hefur engan persónulegan stíl og skilar í raun af sér verkinu eins og hver annar handverksmaður, sem gerir það sem honum er sagt og lítið meira en það.
Handritshöfundar myndarinnar eru tveir, þeir John D. Brancato og Michael Ferris. Þeir hafa frá upphafi skrifað öll sín handrit saman og sérhæft sig í spennumyndum á borð við Into the Sun (Fritz Kiersch: 1992), The Net (Irwin Winkler: 1995) og The Game (David Fincher: 1997). Hér tekst þeim ágætlega til, þótt finna megi nokkrar vandræðalegar gloppur í handritu. Sem dæmi má nefna að þótt T-X geti fjarstýrt bílum dettur henni ekki í hug að fjarstýra bíl Johns Connors þegar hún eltir hann niður hverja götuna á fætur annarri.
Í það heila er hér á ferðinni þokkaleg poppkornsmynd. Þá er augljóst að framleiðendurnir ætla að mjólka Terminator betur því að í lok myndarinnar er lagt upp fyrir næstu mynd. Að lokum má til gamans geta þess að upphaflegt slagorð myndarinnar átti að vera: „Stríðið hefst 2003“. Hætt var við slagorðið vegna stríðsins í Írak og það breytt í „Væntanleg 2003.“
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Söguþráður skyldur guðspjöllunum og OpinberunarbókinniSöguþráður Terminator myndanna svipar að ýmsu leyti til guðspjallanna og Opinberunarbókarinnar. Í raun má segja að þær séu nokkurs konar útlegging á sögu Jesú Krists. Í fyrstu myndinni er frelsarinn (John Connor) getinn af manni úr framtíðinni. Upphafsstafir Johns Connor eru þeir sömu og upphafsstafir Jesú Krists á ensku. Sara Connor er því eins konar Maríugervingur (eða hliðstæða við Maríu), en hún fær þær fréttir frá manni úr framtíðinni að hún gangi með frelsara mannkynsins undir belti. Í þessari mynd er það einnig áréttað að Connor sé frelsari mannkynsins og þar kemur meira að segja fram að hann muni að lokum láta lífið. Allt minnir þetta á söguna af Jesú Kristi.
Það er þó áhugavert að kristsvísanirnar í myndinni tengjast ekki John Connor heldur vélmennunum tveimur. (Þeir sem vilja ekki vita hvernig myndin endar ættu að sleppa þessari málsgrein.) Vélmennið T-X er krossfest við stóran rafeindahraðal, en ólíkt Kristi losar hún sjálfa sig af „krossinum“ með því að eyðileggja hraðalinn. Þá fórnar gereyðandinn (Arnold Schwarzenegger) sér í lok myndarinnar og bjargar þar með „hjónakornunum“ Kate Brewster og John Connor.
T3 sem dómsdagsmyndTil eru margs konar dómsdagsmyndir. Einum flokki þeirra má kalla rómversk-kaþólska geirann en myndir sem falla undir hann eiga það sameiginlegt að fjalla um tilraunir rómversk-kaþólskra til að koma í veg fyrir að Satan nái heimsyfirráðum. Þess ber þó að geta að þessar myndir endurspegla ekki viðhorf rómversk-kaþólsku kirkjunnar, heldur vill svo til að kvikmyndir af þessu tagi eru nær alltaf settar í rómverskt-kaþólskt samhengi. Sem dæmi um slíkar myndir má nefna Bless the Child (Chuck Russell: 2000), Child of Darkness, Child of Light (Marina Sargenti: 1991), El Día de la bestia (Álex de la Iglesia: 1995), End of Days (Peter Hyams: 1999), The First Power (Robert Resnikoff: 1990), Lost Souls (Janusz Kaminski: 2000) og Omen myndirnar (Richard Donner: 1976; Don Taylor: 1978; Graham Baker: 1981; Jorge Montesi og Dominique Othenin-Girard: 1991).
Það áhugaverðasta við kvikmyndir í þessum flokki er að því er aldrei svarað hvers vegna söguhetjurnar vilja ávallt koma í veg fyrir heimsslitin. Samkvæmt hefðbundnum kristnum hugmyndum um dómsdaginn ætti hann að vera hinum trúuðu fagnaðarefni því að þá klári Kristur verk sitt og geri jörðina að nýrri Eden, þar sem dauði og synd heyri sögunni til. En í stað þess að fanga tímamótunum reyna hinir trúuðu að koma í veg fyrir heimsslitin með því að stöðva djöfulinn. Niðurstaðan virðist því vera sú að samfélag nútímans sé ákjósanlegra en himnaríki á jörðu!
Margar „veraldlegri“ heimsslitamyndir svipa mjög til rómversk-kaþólska geirans, en þar má t.d. nefna The Lord of the Rings myndirnar (Peter Jackson: 2001, 2002 og 2003), Harry Potter myndirnar (Chris Columbus: 2001 og 2002), The Dark Crystal (Jim Henson og Frank Oz: 1982) og Lara Croft: Tomb Raider (Simon West: 2001). Fyrstu tvær Terminator myndirnar falla einnig í sama flokk. Vélmennin sem send eru til að drepa Söru og John Connor eru í raun í svipuðu hlutverki og Satan en eins og vanalega tekst mannkyninu alltaf að koma í veg fyrir heimsslitin á síðustu stundu.
Þriðja Terminator myndin er í raun andóf gegn rómversk-kaþólska geiranum, en í myndinni er litið svo á að dómsdagurinn sé óumflýjanlegur. Við getum ekki stöðvað hann heldur aðeins frestað honum, eða eins og John Connor orðar það sjálfur: „Örlög mín voru aldrei að koma í veg fyrir dómsdaginn heldur að lifa hann af.“ Og á öðrum stað segir hann: „Ímyndaðu þér heiminn sem endalaust myrkur, þar sem vélar stjórna örlögum mannsins. Ímyndaðu þér að þú sért sá eini sem getur stöðvað þær. En áður en þú gerir það verður eitthvað hræðilegt að gerast.“ Ólíkt fyrri myndunum er einfaldlega ekki hægt að koma í veg fyrir dómsdaginn. Þriðja myndin á því í raun meira skylt við bókstafstrúargeirann en svo kallast sá flokkur dómsdagskvikmynda sem gerðar hafa verið af hvítasunnumönnum og öðrum bókstafstrúarmönnum í Bandaríkjunum, sem trúa á burthrifninguna og nokkurra ára þrengingartímabil fyrir tilkomu þúsund ára ríkisins.
Í burthrifningunni hrífur Guð hina sannkristnu upp til himna, en Andkristur notfærir sér öngþveitið sem skapast við það til að ná heimsyfirráðum. Þeir sem hafa tekið trú eftir burthrifninguna neita hins vegar flestir að taka á sig merki andkristsins og eru því hundeltir og drepnir ef þeir nást. Þeir fá ekki að kaupa mat, hafa engan rétt til eigna eða atvinnu og verða að fara huldu höfðu. Þannig verða þeir sem ekki vilja selja djöflinum sál sína að þrauka í sjö hryllileg ár.
Í þessum myndum birtist einnig oft neikvæð afstaða til tækninnar. Í kvikmyndinni A Thief in the Night (Donald W. Thompson: 1972) og framhaldsmyndum hennar, A Distant Thunder (Donald W. Thompson: 1978), The Image of the Beast (Donald W. Thompson: 1980) og The Prodigal Planet (Donald W. Thompson: 1983) eru tölvur t.d. komnar frá djöflinum. Aðrar kvikmyndir í þessum flokki eru t.d. The Late Great Planet Earth (Robert Amram og Rolf Forsberg: 1976), Apocalypse (Peter Gerretsen: 1998), Revelation (Andre van Heerden: 1999), Tribulation (Andre van Heerden: 2000), Judgement (Andre van Heerden: 2001), The Omega Code (Robert Marcarelli: 1999), Megiddo: The Omega Code 2 (Paul J. Lombardi og Brian Trenchard-Smith: 2001), Left Behind (Victor Sarin: 2000) og Left Behind II: Tribulation Force (Bill Corcoran: 2002).
Í Terminator 3 er einmitt lögð áhersla á að lifa dómsdaginn af, ekki að koma í veg fyrir hann eins og í fyrri myndum. Þá er það áhugavert að tölvutæknin er einnig holdgervingur hins illa í myndinni, rétt eins og í sumum myndum bókstafstrúargeirans. Hér má greina hliðstæðu við söguna af Adam og Evu en fall þeirra tengist einmitt þekkingunni/vísindum, þ.e. þau eta af ávexti skilningstrés góðs og ills.
ForlagatrúForlagatrú er fyrirferðamikil í myndinni, en svo kallast sú kenning að lífshlaup okkar sé fyrirfram ákveðið. Þegar hefur verið minnst á dómsdaginn og hversu óumflýjanlegur hann er. Annað dæmi er t.d. að Kate Brewster og John Connor áttu að byrja saman sem unglingar en vegna atburðanna í Terminator 2 frestaðist upphaf sambandsins um tíu ár. Það er hins vegar engin leið að flýja örlögin og því munu þau taka saman að lokum, hvort sem þeim líkar það betur eða verr.
Vandinn við forlagatrú er sá að hún gerir lítið úr frjálsum vilja mannsins. Og ef við föllumst á kenninguna verðum við einnig að trúa því að hræðileg ofbeldisverk séu forákvörðuð og því í raun engum um að kenna nema þeim sem ákvað forlög heimsins. Hvað þessa mynd varðar má vel spyrja hvers vegna vélmenni er sent aftur til fortíðarinnar til að verja John Connor. Ef forlög hans eru ráðin mun ekkert geta komið í veg fyrir þau, ekki einu sinni T-X vélmenni. Því er í raun óþarfi að senda honum liðsauka. En hér komum við að spurningunni um tíma-þverstæður (temporal paradoxes) sem lúta að því hvernig vélmenni getur farið aftur í tíma til að breyta atburðum sem myndu þá hafa áhrif á framtíðina og þar með þá atburði sem hefðu leitt til sköpunar þessa tiltekna vélmennis og þess hvenær og við hvaða aðstæður það væri sent til baka.
Sálmur 23 - Dalur og friðurÍ myndinni er mögulega að finna vísun í Sálm 23 í atriðinu þegar Connor og Terminator ræna líkbíl frá útfararstofunni „Valley and Peace“. Sálmur 23 hefur lengi verið tengdur dauðanum en ástæðan er sú að í ensku þýðingu fjórða versins segir: ,,Yea, though I walk through the valley of the Shadow of Death I will fear no evil“. Þetta myndi útleggjast á íslensku: „Þótt ég fari um dauðans skugga dal óttast ég ekkert illt.“ Gömul hefð er fyrir því að túlka „dauðans skugga dal“ sem vísun til dauðans, ekki síst í ensku mælandi löndum. Dauðadalur þessi er greinilega svo þekktur í amerísku samfélagi að jafnvel útfararstofa er nefnd í höfuðið á honum, þ.e. „Valley and Peace“ eða „Dalur og friður“ á íslensku.
Þróun vélmenna – jafnréttisbaráttanAð lokum er áhugavert að skoða þróun vélmennanna í Terminator myndunum. Fyrsta vélmennið er stórt og vöðvamikið. Í T2 er nýjasta útgáfan af vélmenninu hins vegar grannur karlmaður. Í þriðju myndinni er besta vélmennið orðið kona. Í raun svipar þetta til þróunar annarra rafeindartækja, en þau eru alltaf að verða smærri og fágaðri en á sama tíma fullkomnari. Hvað þetta segir um jafnréttisbaráttuna skal ósagt látið en það er áhugavert að þegar T-X rís upp úr rústunum á dýraspítalanum réttir hún upp hönd sína og vísifingur á sams konar hátt og Adam gerir á frægu málverki Michelangelos þar sem fingurgómar hans og Guðs mætast.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Sl 23
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 3, guðspjöllin, Opinberunarbókin
Persónur úr trúarritum: engill, Guð
Guðfræðistef: forlög, dómsdagur, heimsendir, frelsari, fórn
Siðfræðistef: morð, stríð, þjófnaður, eiturlyfjaneysla, reiði, kjarnorkuvopn
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkjugarður, grafhýsi
Trúarleg tákn: snákur, eldhringur, krossfesting, kross
Trúarlegt atferli og siðir: bæn