Kvikmyndir

The Apartment

Leikstjórn: Billy Wilder
Handrit: I. A. L. Diamond, Billy Wilder
Leikarar: Jack Lemmon, Shirley MacLaine, Fred MacMurray
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1960
Lengd: 125mín.
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
The Apartment greinir á gamansaman hátt frá starfsmanni í tryggingafyrirtæki, C. C. Baxter að nafni. Hann hefur komið sér í þá stöðu að lána yfirmönnum sínum íbúð sína til framhjáhalds. Baxter lendir í klemmu þegar sú staða kemur upp að einn yfirmannanna heldur við lyftustúlku sem Baxter er skotinn í sjálfur.

Almennt um myndina:
Billy Wilder leikstýrði The Apartment en hann kom einnig að handriti myndarinnar. Hann er einn af þekktari leikstjórum þessa tímabils og gerði margar góðar myndir. Myndin var tilnefnd til fjölda óskarsverðlauna og fékk m.a. óskarinn sem besta myndin, fyrir leikstjórn og handritsgerð.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Öðru fremur geymir The Apartment áhugaverð siðferðisstef og vangaveltur. Í því sambandi má einkum tala um þrennt:

1. Baxter lánar yfirmönnum sínum íbúðina til að þeir geti framið hjúskaparbrot þar.

2. Sem endurgjald fyrir lánið lofa þeir honum því að leggja inn gott orð þannig að hann fái stöðuhækkun. Þetta er að vísu ekki ástæða þess að hann lánaði íbúðina í fyrsta skipti, en virðist vera þáttur í áframhaldandi láni hans á íbúðinni.

3. Hann lendir í klemmu þegar sú staða kemur upp að einn yfirmaðurinn, Sheldrake að nafni, heldur við frk. Kubelik, konu sem Baxter er sjálfur hrifinn af. Hann fylgist með úr fjarlægð til að byrja með, en síðar stendur hann frammi fyrir því að þurfa að velja á milli þess að gangast við hrifningu sinni eða þess að halda vinnunni (þannig er þessu stillt upp).

Hin siðferðilegu álitamál snúa því einkum að þrennu: Í fyrsta lagi framhjáhaldi. Að vissu leyti mætti segja að Baxter stuðlaði að slíku hátterni (til dæmis með því að bjóða íbúðina sína fram sem stað þar sem hægt er að stunda slíkt). Í öðru og þriðja lagi lygi. Annars vegar lygi á vinnustaðnum, þar sem yfirmennirnir bjóðast til að mæla með því að Baxter fái stöðuhækkkun. Þetta gera þeir þó ekki á grundvelli verðleika hans eða vinnusemi heldur sökum þess að hann lánar þeim íbúðina. Hins vegar lygi Baxters gagnvart sjálfum sér, sem birtist í vanda hans við að gangast við ást sinni til frk. Kubelik.

Í lok myndarinnar er áhugaverð sena þar sem Baxter sýnir töluvert hugrekki. Hann er staddur á skrifstofu Sheldrake og segir honum að hann sé sjálfur ástfanginn af frk. Kubelik og að Sheldrake fái ekki að nota íbúðina framar. Þeir þrátta um þetta nokkra stund og Sheldrake gerir honum grein fyrir því að þetta geti haft áhrif á starfsframa hans og kallar hann flón. Baxter svarar þá eitthvað á þessa leið: „Ég er ekki flón, ég er manneskja [Mensch].“

Þýska orðið „Mensch“ sem hann notar þarna til að lýsa sjálfum sér og því hvernig hann ætlar ekki lengur að láta vaða yfir sig er mjög áhugavert. Það er notað áður í myndinni og þá sem hvatning til Baxter. Orðalagið gæti átt rætur að rekja til guðfræðilegrar orðræðu. Til dæmis má láta sér detta í hug að þetta sé komið frá Reinhold eða H. Richard Niebuhr, eða jafnvel Paul Tillich. Allir þrír voru atkvæðamiklir guðfræðingar í Bandaríkjunum á þessum tíma. Ef svo er þá væri hér á ferðinni athyglisvert dæmi um það hvernig guðfræðilegt orðalag ratar inn í kvikmyndir. En auðvitað gæti þetta líka verið ættað úr sálfræði, félagsfræði eða öðrum fræðum. Og eitt þarf kannski ekki að útiloka annað.

Guðfræðistef: mannskilningur, kærleikur
Siðfræðistef: framhjáhald, lygi, sannleikur, verðleikar, hugrekki