Kvikmyndir

The Awful Dr. Orlof

Leikstjórn: Jesús Franco [undir nafninu Jess Frank]
Handrit: Jesús Franco [undir nafninu David Khune]
Leikarar: Howard Vernon, Conrad San Martin, Diana Lorys, Mary Silvers, Ricardo Valle, Mara Laso, Perla Cristal og Jesús Franco
Upprunaland: Spánn og Frakkland
Ár: 1962
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0056040
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Þegar nokkrar ungar léttlyndar dömur hverfa ein af annarri í Frakklandi árið 1912, er lögreglumaðurinn Tanner fenginn til að rannsaka málið. Í ljós kemur að lýtalæknirinn dr. Orlof hefur rænt þeim með hjálp blinda aðstoðarmannsins síns Morphos til að græða húð þeirra á dóttur sína, sem nokkru áður hafði afmyndast hroðalega í eldsvoða.

Almennt um myndina:
Sennilega hefur enginn kvikmyndagerðarmaður verið jafn afkastamikill og spánski ruslmyndagerðarmaðurinn Jesús Franco. Á Internet Movie Data Base er hann skráður leikstjóri fyrir 175 kvikmyndum en sögusagnir ganga um að hann hafi í raun gert á þriðja hundrað mynda. Sjálfur segist Franco ekki hafa hugmynd um hversu margar kvikmyndir hann hafi gert, en hann hefur sent frá sér allt að 14 myndir á ári allt frá sjötta áratugnum, oftar en ekki undir alls kyns dulnefnum og stundum með því að raða saman ýmsum bútum úr eldri myndum sínum.

Enda þótt flestar kvikmyndir Francos þyki mjög lélegar, á hann furðu stóran aðdáendahóp og eru fjölmargar heimasíður á netinu tileinkaðar honum. The Awful Dr. Orlof er tvímælalaust besta kvikmyndin, sem ég hef séð eftir Franco, en fram til þessa hefur hann aldrei fengið hærra en *½ frá mér, auk þess sem hann á þann vafasama heiður að hafa gert hrollvekjuna Exorcism, verstu kvikmynd sem ég hef séð.

Það sem bætir The Awful Dr. Orlof er ekki síst myndatakan, sem er óvenju góð, en aldrei þessu vant sá Franco ekki um hana sjálfur heldur Godofredo Pacheco. Einnig má benda á sýrða avant garde tónlistina sem gerir kvikmyndina alveg einstaka. Því má svo ekki gleyma að kvikmyndin telst sögulega alláhugaverð, enda var hún upphafið á mjög svo blómlegum hryllingsmyndaiðnaði Spánverja.

Því miður er DVD útgáfan frá Image Entertainment í Bandaríkjunum stytt um nokkrar mínútur, en myndin mun aðeins vera fáanleg óstytt á Spáni á myndbandsspólu með spánsku tali. Sem dæmi um styttingar, sem gerðar hafa verið á myndinni, mætti nefna upphafsatriðið þar sem drukkin stúlka staulast heim til sín og finnur Morpho í fataskápnum. Á DVD diskinum opnar hún skápinn alklædd en er síðan skyndilega orðin léttklædd þegar Morpho stekkur út og ræðst á hana. Í lengri útgáfunni tekur stúlkan hins vegar kjól úr skápnum án þess að taka eftir Morpho og byrjar að skipta um föt áður en hún opnar skápinn á nýjan leik og sér boðflennuna.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Efnislega getur hrollvekjan um hinn hroðalega dr. Orlof samt vart talist frumleg, enda augljóslega sótt til ótal annarra þekktra kvikmynda eins og Les yeux sans visage eftir Georges Franju, auk þess sem nafn vísindamannsins Orlofs er fengið úr skáldsögu eftir Edgar Wallace.

Meginþemað er siðblindur vísindamaður, sem lætur ekkert aftra áformum sínum, en að hætti Frankensteins tjaslar dr. Orlof sköpun sinni saman úr líki dauðadæmds morðingja, sem hann vekur síðan til lífs og gerir að aðstoðarmanninum sínum Morpho. Dr. Orlof gengur þó lengra en Frankenstein því að hann rænir ólánsömum gleðikonum og húðflettir þær í von um að geta hjálpað dóttur sinni (sem reyndar er nefnd systir hans á kápu DVD disksins).

Þegar lagskona dr. Orlofs sakar hann um siðleysi og grimmd gagnvart fórnarlömbum sínum, svarar hann strax hæðnislega að vissulega verðskuldi hann refsingu Guðs. Gjörðir hans séu engu að síður alveg réttlætanlegar þar sem líf stúlknanna hafi hvort sem er verið einskis virði og þjáningar þeirra skipti engu máli. Í rauninni tekur dr. Orlof sér stöðu Guðs með tilraunum sínum á sköpunarverkinu og lofar Morpho því meira að segja að umbreyta lagskonunni í konu handa honum, enda sjálfur orðinn þreyttur á henni. (Sbr. I. Mós. 2:18.)

Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 2:18
Guðfræðistef: sköpun, refsing Guðs
Siðfræðistef: siðblinda, fegurð, morð, lækning
Trúarleg tákn: kross