Kvikmyndir

The Battle of El Alamain

Leikstjórn: Giorgio Ferroni [undir nafninu Calvin Jackson Padget]
Handrit: Remigio Del Grosso og Ernesto Gastaldi
Leikarar: Frederick Stafford, George Hilton, Robert Hossein, Michael Rennie, Enrico Maria Salerno, Gérard Herter, Nello Pazzafini, Marco Guglielmi, Sal Borgese, Edoardo Toniolo, Renato Romano, Giuseppe Addobbati, Ira von Fürstenberg, Ettore Manni, Tom Felleghy, Massimo Righi, Luciano Catenacci og Ugo Adinolfi
Upprunaland: Ítalía og Frakkland
Ár: 1968
Lengd: 96mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Sumarið 1942 skipar Mussolini herjum sínum að verða á undan þýzka hernum til Alexandríu í Egyptalandi, en Bretar ná að stöðva sókn þeirra allra við El Alamain. Þegar Rommel sér sig svo tilneyddan til að bjarga herjum sínum með undanhaldi til Líbýu, berst fámenn ítölsk hersveit áfram gegn ofureflinu og nær að tefja fyrir framsókn bandamanna með miklu mannfalli.

Almennt um myndina:
Að mörgu leyti fín ítölsk-frönsk stríðsmynd með nokkrum góðum evrópskum leikurum. Robert Hossein er t.d. sérstaklega góður í hlutverki Rommels og George Hilton er vel valinn í hlutverk heiðarlegs bresks liðsforingja.

Allneikvæð mynd er þó dregin upp af sumum bresku herforingjunum, sem hika ekki við að drepa varnarlausa þýzka hermenn með köldu blóði eftir uppgjöf þeirra. Þessum stríðsglæpum félaga sinna mótmælir reyndar einn af bresku liðsforingjunum, leikinn af George Hilton, en á hann er tæpast hlustað. Þjóðverjar átta sig hins vegar brátt á stríðsglæpum bandamanna og er þeim mjög brugðið.

Myndin er þó að mestu sögð frá sjónarhóli ítalskra hermanna sem berjast nánast til síðasta manns gegn ofureflinu. Fyrir vikið er sýnt hvar bresku hermennirnir heilsa þeim örfáu ítölsku hermönnum, sem enn eru á lífi að orrustunni lokinni, með mikilli virðingu að hermannasið. Í fyrstu skellir Rommel skuldinni á ófarirnar í Egyptalandi á Ítalana, sem hafi ekki komið eldsneytisbirðunum nægilega hratt áleiðis, en þeir verja sig með því að bandamönnum hafi tekist að tortýma stórum hluta af þeim á langri leiðinni. Síðar skellir Rommel skuldinni á einræðisherrann Adolf Hitler, sem hann segir brjálæðing. Örlög ítölsku hermannanna við El Alamein hafi því fyrst og fremst verið Hitler um að kenna en ekki honum.

Framganga ítalska hersins í síðari heimsstyrjöldinni einkenndist af miklum hrakförum, sem að lokum leiddu til uppgjafar hans og ósigurs, en barist var um mest alla Ítalíu með miklu mannfalli síðustu tvö ár styrjaldarinnar. Þrátt fyrir að allneikvæð mynd sé dregin upp af stríðsrekstrinum í myndinni, er hér engu að síður um hetjumynd að ræða þar sem framgöngu ítölsku hermannanna er sérstaklega hampað. Í því sambandi verður að teljast athyglisvert að myndin skuli vera gerð með stuðningi frá Ítalska varnarmálaráðuneytinu og ítalska hernum, en það er tekið fram með stórum stöfum í byrjun hennar.

Bardagaatriði myndarinnar eru mörg fín, en þó skemmir slæmt atriði um miðbikið töluvert fyrir þar sem sýnt er hvar fallbyssur bandamanna tortýma stórri þýzkri skriðdrekaherdeild. Augljóst er í því atriði að skriðdrekarnir eru aðeins lítil leikfangamódel.

Kvikmyndin er fáanleg á nokkrum ódýrum DVD diskum í hörmulegum myndgæðum, stytt og í hálfri „pan and scan“ útgáfu. Óstytta breiðtjaldsútgáfan er hins vegar fáanleg í þolanlegum myndgæðum frá bandaríska DVD fyrirtækinu Marengo Films, en hún er þar aukamynd með bandarísku stríðsmyndinni Go for Broke! (Robert Pirosh: 1950) á einum diski.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það er sígilt stef í stríðsmyndum að stríðsaðilarnir lýsi því yfir að Guð sé á bandi þeirra einna. Í sumum stríðsmyndum, ekki síst þeim elstu sem varða heimsstyrjaldirnar tvær, er því beinlínis haldið fram að Guð sé á bandi söguhetjanna, þ.e. bandamanna. Í öðrum stríðsmyndum er ýmist sýnt hvernig stríðsaðilarnir lýsa því yfir hver fyrir sig að Guð sé með þeim einum í baráttu þeirra eða leita eftir liðsinnis hans, en stríðsmyndin The Battle of El Alamain er gott dæmi um það síðast nefnda. Þegar Rommel heldur aftur til Afríku eftir veikindaleyfi heima í Þýzkalandi, biður einn herforinginn þess, að Guð verði með honum í því, sem hann þurfi að gera. Breski herforinginn Montgomery hvetur hins vegar menn sína áfram fyrir orrustu með þeirri bænaryfirlýsingu að orrustuguðinn (the battle god) megi vera með þeim. Montgomery talar því ekki bara um Guð heldur sérstakan stríðsguð.

Persónur úr trúarritum: orrustuguð, Guð
Guðfræðistef: fyrirgefning Guðs, Guð með oss
Siðfræðistef: stríð, manndráp, stríðsglæpur, hetjudáð, samviskan
Trúarlegt atferli og siðir: bænaryfirlýsing
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: jól