Leikstjórn: Veljko Bulajic
Handrit: Stevan Bulajic, Veljko Bulajic, Ratko Djurovic og Ugo Pirro
Leikarar: Yul Brynner, Sergei Bondarchuk, Curd Jürgens, Franco Nero, Hardy Krüger, Sylva Koscina, Orson Welles, Anthony Dawson, Howard Ross, Ljubisa Samardjic, Lojze Rozman, Milena Dravic, Oleg Vidov, Bata Zivojinovic, Fabijan Sovagovic og Boris Dvornik
Upprunaland: Júgóslavía, Ítalía, Þýzkaland og Bretland
Ár: 1969
Lengd: 127mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0064091
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Í janúar 1943 gerir þýzki herinn ásamt helstu bandamönnum sínum stórsókn gegn skæruliðum kommúnista í fjalllendi Júgóslavíu. Eina von skæruliðanna um að geta haldið baráttunni áfram er að ná yfirráðum yfir mikilvægri brú við ána Neretva.
Almennt um myndina:
Þessi sannsögulega stórmynd var tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta erlenda kvikmyndin árið 1970 en hún fékk víðast hvar frábæra dóma í upprunalegri útgáfu sinni. Þá var hún þrír tímar að lengd og töluðu sögupersónurnar allar sitt eigið tungumál, Þjóðverjar töluðu þýzku, Ítalir ítölsku og Júgóslavar serbnesku. Þegar myndin var hins vegar sett á almennan markað, var hún víðast hvar talsett upp á nýtt með misjöfnum árangri og stytt verulega. Í Þýzkalandi er hún 154 mín., á Ítalíu 134 mín., í Bretlandi 127 mín. og í Bandaríkjunum 106 mín. en ensku útgáfurnar eru talsettar á ensku í heild sinni. Flestar kvikmyndahandbækur gefa bandarísku útgáfunni tvær stjörnur og kvarta undan því að myndin sé nær óskiljanleg þar sem hún hafi verið stytt svo svakalega mikið. Breska útgáfan, sem hér er til umfjöllunar, ber þess líka merki að hafa verið stytt verulega en telst engu að síður mjög góð.
Höfundur tónlistarinnar í upprunalegu útgáfu myndarinnar er Vladimir Kraus-Rajteric en Bernard Hermann samdi tónlistina fyrir styttri útgáfurnar. Hermann er tvímælalaust einn af bestu kvikmyndatónlistarhöfundunum ásamt þeim Ennio Morricone og Miklós Rózsa, en Hermann samdi tónlistina fyrir margar af bestu myndum Alfreds Hitchcock. Tónlist Hermanns við The Battle on the River Neretva er með því besta, sem hann hefur gert.
Kvikmyndatakan er frábær og orrusturnar vel útfærðar með upprunalegum vopnum. Að vísu hefur þýzki herinn á að skipa sovéskum T 34 skriðdrekum og bandarískum Sherman skriðdrekum ásamt þýzku Tiger skriðdrekunum en aðeins þeir sovésku og bandarísku eru eyðilagðir, sennilega vegna þess hversu fágætir og dýrir þeir þýzku eru.
Tilfinningasemin meðal skæruliðanna er töluverð enda gráta þeir oftar en ekki fallna félaga. Þjóðverjarnir eru hins vegar sýndir sem samviskusamir atvinnuhermenn, sem berjast til síðasta manns, meðan Ítalarnir eru óstundvísir, fljótir að gefast upp og ganga jafnvel til liðs við skæruliðana í baráttunni gegn kúgun fasistanna.
Leikararnir eru margir fínir en Curd Jürgens og Hardy Krüger leika að sjálfsögðu þýzku herforingjana með glæsibrag. Franco Nero er óvenju góður í hlutverki ítalsks liðsforingja, sem gengur til liðs við skæruliðana, en Yul Brynner, Sylva Koscina og Sergei Bondarchuk (sem gerði meðal annars sovésku stórmyndina Stríð og friður um svipað leyti) leika öll skæruliða. Orson Welles er sömuleiðis frábær í hlutverki ráðherra serbneskra konungssinna, sem sagðir eru berjast með Þjóðverjum, og Anthony Dawson stendur sig vel sem óstundvís ítalskur herforingi.
Þess er óskandi að stríðsmyndin The Battle on the River Neretva verði bráðlega gefin út á DVD, helst af öllu bæði óstytt með tónlist Kraus-Rajteric og í bresku útgáfunni með tónlist Hermanns þar sem hún er svo góð.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Konungssinnaðir serbneskir þjóðernissinnar, sem sagðir eru styðja Þjóðverja í stríðinu, sækja guðsþjónustu áður en þeir halda í orrustu við skæruliða kommúnista. Um leið og guðsþjónustunni líkur stígur ráðherra þeirra upp á pall og hrópar til hermanna sinna að Guð sé styrkur þeirra, en allir taka þeir undir það einum rómi. Minna fer hins vegar fyrir slíku tali meðal skæruliðanna að því undanskildu að aðeins er minnst á Maríu mey og einn skæruliðinn biður félaga sinn blessunar Guðs.
Vel getur verið að eitthvað meira af trúarstefum leynist í óstyttu útgáfu myndarinnar en hún er því miður ófáanleg sem stendur.
Persónur úr trúarritum: Guð, María mey
Guðfræðistef: guðsmóðir, Guð með okkur
Siðfræðistef: manndráp, stríð, stríðsglæpur, aftaka
Trúarbrögð: Rétttrúnaðarkirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: guðsþjónusta, sálmasöngur