Kvikmyndir

The Big Gundown

Leikstjórn: Sergio Sollima
Handrit: Sergio Sollima, Sergio Donati og Tulio Demicheli, byggt á sögu eftir Fernando Morandi og Franco Solinas
Leikarar: Lee van Cleef, Tomas Milian, Nieves Navarro, Walter Barnes, Gérard Herter, Fernando Sancho, Luisa Rivelli, Ángel del Pozo, José Torres, Nello Pazzafini, Roberto Camardiel, Tom Felleghy, Benito Stefanelli, María Granada og Antonio Molino Rojo
Upprunaland: Ítalía og Spánn
Ár: 1966
Lengd: 89mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0063501
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Jonathan Corbett er fyrrverandi lögreglustjóri sem gerst hefur mannaveiðari í villta vestrinu en hefur hug á því að bjóða sig fram til þingmennsku. Einn helsti stuðningsmaður hans, auðkýfingurinn Brokston, fær hann þó fyrst til að hafa uppi á Mexíkananum Cuchillo Sanchez, fyrrverandi starfsmanni sínum við járnbrautalagningar, sem sakaður er um að hafa nauðgað og myrt fjórtán ára gamla unglingsstúlku. Mexíkaninn, sem er afbragðs hnífakastari, reynist hins vegar ekki auðveldlega handsamaður og neyðist Corbett til að elta hann þvert yfir Texas alla leið til Mexíkó, þar sem Brokston mætir með menn sína honum til aðstoðar við eftirförina, en þá er Corbett farinn að draga sekt mannsins í efa.

Almennt um myndina:
Kvikmyndin The Big Gundown er af mörgum talin besti spaghettí-vestrinn á eftir bestu myndum Sergios Leone, Once Upon a Time in the West, The Good, the Bad and the Ugly og mögulega For a Few Dollars More. Efnislega er hér um að ræða vel heppnaða spennumynd þar sem frumlega er unnið með ýmis sígild stef úr vestrahefðinni og þau samofin vinstrisinnuðum lífsviðhorfum Sergios Sollima, besta spaghettí-vestra kvikmyndagerðarmannsins á eftir Leone.

Kvikmyndataka Carlos Carlini er sérlega glæsileg og klippingarnar flottar, ekki síst í einvígunum undir lok myndarinnar. Tónlist Ennios Morricone er þó með því allra besta, sem frá honum hefur komið, enda hefur tónlist myndarinnar notið mikilla vinsælda og eru nokkur af þekktustu lögum hans þar að finna. Sérstaklega er það eftirminnilegt hvernig Morricone vefur tónlist sína saman við Elise-stef Beethovens í einvígi Corbetts og einkalífvarðar Brokstons, austurríska barónsins von Schulenbergs. Lee van Cleef er fullkominn í hlutverki mannaveiðarans Jonathans Corbetts og Tomas Milian sem Mexíkaninn Cuchillo Sanchez hefur sjaldan ef nokkurn tímann verið betri. Nieves Navarro er sömuleiðis afbragðsgóð sem ekkjan stjórnsama, sem tekið hefur upp fjölveri sem sambúðarform, og franski leikarinn Gérard Herter þýzkar yfir sig með glæsibrag í hlutverki austurríska barónsins.

Því miður hefur spaghettí-vestrinn The Big Gundown verið illfáanlegur öðruvísi en í verulega styttum útgáfum, en upphaflega mun hann hafa verið allt að 114 mín. að lengd, en það er sú útgáfa sem sérfræðingar hafa hampað hvað mest. (Að vísu segja sumir óstyttu útgáfuna aðeins vera 105 mín. að lengd á NTSC kerfinu.) Sú útgáfa sem hér er til umfjöllunar er hins vegar 89 mín. að lengd á pal kerfinu, en hún hefur einnig verið fáanleg í 85 mín. útgáfu þar sem allar vísbendingarnar voru teknar burt um að unglingsstúlku hefði verið nauðgað og hún myrt. Eins og gefur að skilja missir myndin alveg marks þegar forsendum söguþráðarins er sleppt og ber því að varast þá útgáfu eins og heitan eldinn.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Ástæða er til að vekja athygli á því að hér verður ljóstrað upp um plott myndarinnar, sem kann að skemma fyrir þeim, sem ekki hafa séð hana. Það er hins vegar nauðsynlegt til þess að unnt verði að gera almennilega grein fyrir efni hennar.

Þó svo að hetjur spaghettí-vestranna séu sjaldnast algóðar og í sumum tilfellum jafnvel algjörir þrjótar, hefur persónusköpunin yfirleitt verið með einfaldasta móti og sekt aðalskúrkanna hafin yfir allan vafa. Upphafsatriðið í The Big Gundown fylgir þessari hefð þar sem Jonathan Corbett situr fyrir þremur bófum í óbyggðum Colorado og sallar þá niður um leið og þeir snerta byssur sínar. Corbett dregur ekki heldur í efa sekt Mexíkanans Cuchillos Sanchez þegar hann er sakaður um nauðgun og morð á unglingsstúlku og heldur umsvifalaust á eftir honum. Þó svo að Cuchillo hagi sér eins og hver annar útlagi, áttar Corbett sig hins vegar smám saman á því, að ekki er allt eins og það sýnist.

Cuchillo reynist að lokum blóraböggull auðkýfingsins Brokstons, sem leggur fæð á hann fyrir þátttöku hans í misheppnaðri smábændauppreisn í Mexíkó og ætlar að notafæra sér hann til að hylma yfir tengdarson sinn, er myrti unglingsstúlkuna. Brokston er holdgervingur hins siðlausa auðvaldssinna sem notar fjármagn sitt og völd til að koma sínu fram og skeytir engu um hag alþýðunnar. Hann giftir meira að segja dóttur sína barnaníðingi til þess eins að komast yfir mikilvægar landareignir og kemur þeim stjórnmálamönnum til valda sem hann hefur í vasanum, eða eins og Corbett orðar það undir lok myndarinnar, mönnum sem skjóta fyrst og hugsa svo. Við það kímir Brokston lítið eitt og svarar: „Þú ert í rauninni alltof greindur til að verða þingmaður.“

Líta má á Cuchillo sem fulltrúa kúgaðrar alþýðu er leitar í örvæntingu sinni að réttlátu samfélagsformi. Upphaflega hafði hann gengið til liðs við mexíkanskan byltingarleiðtoga, sem beið síðar ósigur fyrir stjórnvöldum. Þegar Cuchillo flýr yfir landamærin, er hann kúgaður af handhöfum auðvaldsins og gerður að blóraböggli fyrir glæp, sem hann framdi ekki. Á flóttanum leitar hann svo skjóls í hvert samfélagsformið á fætur öðru en hrökklast ávallt á brott.

Fyrst leitar hann til byggða fátækra spænskumælandi Bandaríkjamanna í Texas en forðar sér þaðan um leið og Corbett mætir á vettvang. Þá leitar hann skjóls hjá trúflokki mormóna en Corbett hefur einnig uppi á honum þar. Corbett verður mjög brugðið þegar einn mormóninn segir honum að Cuchillo hafi skroppið frá til að sækja vatn með hinni þrettán ára gömlu Söru, en eftir að hafa bjargað stúlkunni úr klóm hins meinta barnaníðings, kemst hann að því, að hún er í raun fjórða eiginkona mormónans, enda fjölkvæni samþykkt af mormónakirkjunni mest alla nítjándu öldina. Enda þótt eiginkonur mormónskra fjölkvænismanna hafi oftast verið a.m.k. nokkrum árum eldri en þetta, eru samt dæmi um að svo ungar stúlkur hafi gengið í hjónaband innan trúarhópsins. Þannig var t.d. þrítugasta eiginkona spámannsins Jósefs Smith aðeins fjórtán ára þegar þau gengu í hjónaband.

Á flóttanum leitar Cuchillo næst hælis á bóndabæ, þar sem ekkja hefur safnað að sér fjölda karlmanna, sem hún býr með í fjölveri og stjórnar eins og einvaldur. Körlunum er öllum uppsigað við Cuchillo en engu að síður ákveður ekkjan að bæta honum í hópinn. Þegar Corbett birtist svo líka og þiggur heimboð ekkjunnar, snúast karlarnir allir gegn honum í afbrýðiskasti og reyna að fella hann í miklum skotbardaga, en Cuchillo kemst enn einu sinni undan.

Á heimleiðinni til Mexíkó leitar Cuchillo svo skjóls í munkaklaustri en þann hluta er aðeins að finna í óstyttu útgáfu myndarinnar. Samkvæmt handbókum um spaghettí-vestra kemur þar við sögu munkurinn ,Bróðir Smith og Wesson’, sem reynist vera fyrrverandi stórskytta, er sá að sér og sneri baki við manndrápum.

Jafnvel á heimaslóðum sínum er Cuchillo einskis metinn og fær Brokston landeigandann þar auðveldlega til að safna liði og aðstoða við eftirförina. En Corbett, sem farinn er að átta sig á því hversu spillt og óréttlátt samfélagið er, sér nú að eitthvað meira býr að baki hjá Brokston en einlægur ásetningur um að koma barnamorðingjanum í hendur réttvísinnar. Eftir að Cuchillo hefur verið hrakinn á flótta yfir stóra kornakra upp í fjalllendið með fjölda reiðmanna og leitarhunda á hælunum, gengur Corbett því til liðs við hann og leiðir sannleikann í ljós.

Í sögunni sem kvikmyndin byggir á er endirinn mun neikvæðari því að þar fellir Corbett Mexíkanann án þess að gera sér grein fyrir sakleysi hans. Sollima kaus hins vegar að enda myndina með nokkrum vel útfærðum einvígum í staðinn til að auka spennuna og gera boðskap hennar jákvæðari. Þrátt fyrir allt samfélagslegt óréttlætið þar sem auðvaldssinnar misnota hiklaust völd sín til að tryggja hagsmuni sína, lætur Sollima því réttlætið ná fram að ganga. Andúð hans á auðvaldssinnum er hins vegar augljós og er gagnrýni hans beitt á þau samfélagsform, sem grundvölluð eru á kúgun alþýðunnar, hvort sem hún birtist í vinnuþrælkun, fjölkvæni, fjölveri eða einlífi á trúarlegum forsendum. Það er t.d. engin tilviljun að evrópski aðallinn skuli standa vörð um líf auðvaldssinnans í nýja heiminum, en þegar þeir hafa verið felldir, verða mexíkönsku smábændurnir fyrst frjálsir.

Spaghettí-vestrinn The Big Gundown er frábær spennumynd, sem nýtur góðs af góðu handriti, frábærum leikurum, glæsilegri kvikmyndatöku og stórfenglegri tónlist.

Persónur úr trúarritum: María mey
Guðfræðistef: réttlæti
Siðfræðistef: manndráp, fjölkvæni, fjölveri, einlífi, svik, gestrisni, kynþáttafordómar, vændi, nauðgun, kynferðisleg misnotkun, lygi
Trúarbrögð: Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu (mormónar)
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarlegt atferli og siðir: signing, sálmasöngur