Kvikmyndir

The Body

Leikstjórn: Jonas McCord
Handrit: Jonas McCord, byggt á skáldsögu eftir Richard Sapir, en hann skrifaði hana undir nafninu Richard Ben Sapir
Leikarar: Antonio Banderas, Olivia Williams, John Shrapnel, Derek Jacobi, Jason Flemyng
Upprunaland: Bandaríkin og Ísrael
Ár: 2000
Lengd: 108mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0201485#writers
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Fornleifafræðingur í Ísrael finnur beinagrind af karlmanni í ríkmannlegri gröf sem hafði verið krossfestur á tímum Krists. Spurningin er bara hvort hér séu líkamsleifar frelsarans sjálfs og hvaða afleiðingar slík uppgötvun myndi hafa. Væri stoðunum kippt undan hjálpræði kristindómsins ef upprisan væri horfin? Hvaða pólitískar afleiðingar í mið austurlöndum myndi slík niðurstaða hafa?

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Nýjasta kvikmyndin með Antonio Banderas, The Body, er vægast sagt áhugavert og bíður upp á mjög spennandi úrvinnslu. En þrátt fyrir þessa eldfimu og snjöllu hugmynd mistekst aðstandendum nánast á öllum vígstöðum. Handritið og leikstjórnin eru það alversta við þessa kvikmynd. Það vantar röklegt samhengi í söguþráðinn og myndin er full af útjöskuðum klisjum. Kardínálarnir eru valdasjúkir plottarar og aðalpersónan sem er prestur verður ástfanginn af kvenhetjunni. Ég veit ekki hve oft ég hef séð þetta plott, en ég verð að viðurkenna að ég er orðinn ansi þreyttur á því. En nóg um vankanta myndarinnar.

Boðskapurinn í The Body er um margt áhugaverður og margbrotinn. Í fyrsta lagi er megin spurning myndarinnar hver sé grunnur kristindómsins. Getur boðskapur Krists staðið einn, án upprisunnar eða er upprisan forsenda trúarinnar, eins og Pall heldur fram? Myndin lætur áhorfendanum það eftir að svara þessari spurningu. Að mínu mati gengur hún hins vegar ekki nógu langt í að spyrja þessarar spurningar. Afleiðingar slíkrar uppgötunnar eru t.d. sjaldan ræddar og það er aldrei farið verulega djúpt í málið.

Annað viðfangsefni myndarinnar er trúin sem slík og hversu sterk eða brothætt hún getur verið á raunastundu. Þeir sem byggja trú sína og heimsmynd alfarið á vísindalegum niðurstöðum og hafa ekkert pláss fyrir Guð eru sleipari á svellinu en þeir sem hafa trú og treysta Drottni. Í raun má segja að megin boðskapur myndarinnar sé sá að ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert (Mt 10:26 og Lk 12:2). Einn presturinn í myndinni hamrar einmitt á þessum skilaboðum, og í sama streng er tekið í lok myndarinnar (og hér kjafta ég frá endinum) þegar það kemur í ljós að þetta var ekki Jesús Kristur. Ef fulltrúar trúarinnar, hin kaþólska kirkja, hefði aðeins treyst á Guð hefði öllum orðið sannleikurinn ljós en vegna þess að kirkjan treysti ekki orðum Krists gróf hún undan sjálfri sér. Annar ritningarstaður sem oft er vitnað til eða að sannleikurinn muni gera okkur frjáls (Jh 8:32), en vantraust kirkjunnar kom einmitt í veg fyrir slíka frelsun. Myndin fjallar því að stórum hluta um trú og vantrú og afleiðingar þess.

Annað áhugavert viðfangsefni í myndinni er andstæða vísinda og trúar. Þegar ég segi ,,andstæða“ vísinda og trúar þá á ég ekki við eðlislæga andstæðu heldur skapaða andstæðu. Það sem ég á við eru hörmulegar afleiðingar þess þegar fólk trúir í blindni á annað hvort trú eða vísindi og á erfitt með að sameina hvoru tveggja. Í raun áttu vísindi og trú samleið en vegna einstrengingslegrar bókstafstrúar glatast sannleikurinn að eilífu.

Að lokum er að finna þann boðskap í myndinni að trú og pólitík eiga enga samleið. Í raun er aldrei reynt að rökstyðja boðskapinn. Eina ástæðan sem gefin er er sú að slíkt hafi slæmar afleiðingar. Vissulega er margt til í því en það hefði engu að síður verið sterkara ef færð hefðu verið rök fyrir málinu, sérstaklega í ljósi þess að presturinn sem fenginn er til að rannsaka fornleifafundinn hlýtur prestþjálfun sína hjá frelsunarguðfræðingi, en þeir eru þekktir fyrir allt annað en að líta svo á að trú og pólitík eiga enga samleið. Áhorfandinn fær því aldrei að vita hvort presturinn snérist gegn skoðunum læriföður síns eða hvort handritshöfundurinn hafi bara verið að ljóstra upp um fáfræði sína.

Niðurstaða þessarar gagnrýni er því sú að umfjöllunarefnið er frábært en úrvinnslan ömurleg. Þeir sem hafa áhuga á guðfræði ættu að sjá myndina, en aðrir ættu að sleppa henni. Nú er bara að vona að einhver taki sig til að endurgeri myndina. Martin Scorsese væri t.d. tilvalinn í hlutverkið.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Talmúd – „Hinir dauðu eru heilagir“, Biblían, Dn 7-8, Guðspjöllin, Mt 10:26, Mt 21-28, Mk 11-16, Lk 12:2, Lk 19-24, Jh 8:32, Jh 12-21, Opinberunarbókin
Persónur úr trúarritum: Guð, Jesús Kristur, Jósep (ríki), páskakanínan, Pétur postuli, vampýra
Sögulegar persónur: Nostradamus
Guðfræðistef: endurkoma Krists, frelsunarguðfræði, heimsslit, hjálpræðið, hvíldardagurinn, svínakjöt, synd, upprisan
Siðfræðistef: lygi, morð, pólitík, sjálfsvíg
Trúarbrögð: gyðingdómur, Islam, kristni, rómversk kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: altari, grátmúrinn, helvíti, Jerúsalem, kirkja, moksa, Róm, sínagóga, Vatikanið
Trúarleg tákn: fiskur, kirkjuklukkur, kross, róðukross, talnaband, þrír hringir
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, bænakall, eiður, messa, signun, síðustu sakramentin