Kvikmyndir

The Bounty Killer

Leikstjórn: Eugenio Martín
Handrit: José Gutiérrez Maesso, Eugenio Martín og Don Prindle, byggt á sögu eftir Marvin H. Albert
Leikarar: Tomas Milian, Richard Wyler, Ella Karin [undir nafninu Ilya Karin], Mario Brega, Hugo Blanco, Frank Braña, Manuel Zarzo, Luis Barboo, Charo Bermejo, Ricardo Canales, Antonio Cintado, Glenn Foster, Tito García, Enrique Navarro, Rafael Vaquero og Ricardo Palacios
Upprunaland: Ítalía og Spánn
Ár: 1966
Lengd: 90mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Þorpsbúar skjóta skjólshúsi yfir mexíkanskan bófaforingja eftir að vinkona hans þar bjargar honum úr höndum lögreglumanna sem flytja áttu hann í rammgerðasta fangelsi Bandaríkjanna. Þegar mannaveiðari mætir á staðinn í leit að bófaforingjanum, fær hann óblíðar móttökur frá þorpsbúunum sem handsama hann og fjötra undir berum himni. Smám saman fá þó þorpsbúarnir og vinkonan nóg af yfirgangi og ofbeldi bófaforingjans og manna hans og leysa því mannaveiðarann úr böndum sem síðan leggur til atlögu við illþýðið með riffil og skammbyssu á lofti.

Almennt um myndina:
Þessi spaghettí-vestri verður að teljast verulega betri en sumir þeirra sem síðar áttu eftir að koma frá leikstjóranum Eugenio Martín, einkum þó Bad Man’s River (1972) og Pancho Villa (1973) sem eru báðir meðal þeirra allra verstu. Sjálfsagt hefur það haft töluvert að segja að við gerð myndarinnar störfuðu nokkrir hæfileikamenn með Martín sem fljótlega áttu eftir að ávinna sér góðan orðstír, aðallega þó Enzo Barboni, Stelvio Cipriani og Tomas Milian.

Enzo Barboni var nokkuð hæfileikaríkur kvikmyndatökumaður sem síðar varð heimsfrægur fyrir spaghettí-vestra-gamanmyndirnar They Call Me Trinity (1970) og Trinity Is Still My Name (1971) með þeim Terence Hill og Bud Spencer í aðalhlutverkum. Stelvio Cipriani er eitt af bestu og afkastamestu kvikmyndatónskáldum Ítala en þetta var fyrsta kvikmyndin sem hann samdi tónlist við og er óhætt að segja að frumraunin hafi tekist nokkuð vel þrátt fyrir að hún virki eilítið einhæf á köflum. Þekktastur er þó sennilega kúbanski leikarinn Tomas Milian sem átti eftir að verða einn af vinsælustu leikurum ítalskra b-mynda. Mexíkanski bófaforinginn í þessari mynd var fyrsta stóra hlutverkið hans, en það átti hann eftir að útfæra enn frekar í ótal spaghettí-vestrum, löggumyndum og gamanmyndum til viðbótar næstu áratugina. Kvikmyndir Milians eru orðnar á annað hundrað en nú á síðari árum hefur hann einkum starfað í Bandaríkjunum.

DVD diskurinn frá Marketing Film í Þýzkalandi er fínn og með slatta af áhugaverðu aukaefni. Tvær útgáfur af myndinni eru á diskinum, önnur óstytt með m.a. enskri talsetningu en hin verulega stytt, í síðri myndgæðum og bara með þýzku tali. Að sjálfsögðu velur maður bara óstyttu útgáfuna, sem er í fínum myndgæðum en ensku talsetningunni er eins og í flestum svona myndum ábótavant. Enski titillinn The Bounty Killer er notaður í myndarbyrjun í óstyttu útgáfunni en sú styttri notar sama þýzka titilinn og er á kápu DVD disksins, þ.e. Ohne Dollar keinen Sarg.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þetta er einn af þessum spaghettí-vestrum þar sem mannslíf bófanna eru einskis virði fyrr en þeir eru dauðir. Mannaveiðarinn, sem framfleytir sér með því að handsama eftirlýsta bófa og koma þeim (oftast dauðum) í hendur laganna varða, er ótvíræð hetja myndarinnar, jafnvel þótt hann sæti lengst af andúð almúgans sem hættir til að taka upp málstað hinna eftirlýstu og útskúfuðu í harðri lífsbaráttunni. Í spaghettí-vestranum The Great Silence (Sergio Corbucci: 1968), sem á ýmislegt sameiginlegt með þessum, er dæminu hins vegar snúið við, en þar eru mannaveiðararnir raunverulegu skúrkarnir og flestir hinna eftirlýstu aðeins venjulegir menn sem orðið hafa undir í lífsbaráttunni en njóta yfirleitt samúðar almennings.

Við greftrun eins af fórnarlömbum bófanna er lesið úr Jobsbók 1:21 þar sem segir: „Drottinn gaf og Drottinn tók, lofað veri nafn Drottins.“ Þar með er þó ekki endilega verið að gera Guð ábyrgan fyrir fólskuverkum bófanna í myndinni, enda merkingin miklu frekar almenn í þessu samhengi. Þó svo að lífið sé gjöf Guðs eru því takmörk sett enda vilji hans að allir deyi að lokum í þessum fallna og synduga heimi.

Athygli vekur að góðhjörtuð og elskuleg vinkona bófaforingjans skuli heita Eden, en nafnið er án efa sótt til aldingarðsins Eden í I. Mósebók.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, Jb 1:21
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 2:10
Guðfræðistef: Eden
Siðfræðistef: manndráp, mannaveiðar, ofbeldi, ofbeldi gegn konum
Trúarleg tákn: kross á leiði
Trúarlegt atferli og siðir: biblíulestur, jarðarför