Kvikmyndir

The Day of the Cobra

Leikstjórn: Enzo G. Castellari
Handrit: Fabio Carpi, Tito Carpi og Aldo Lado
Leikarar: Franco Nero, Sybil Danning, William Berger, Mickey Knox, Ennio Girolami, Massimo Vanni, Romano Puppo, Michele Soavi og Enzo G. Castellari
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1980
Lengd: 91mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0082451
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Einkalögreglumaðurinn Larry Staziami, sem kallar sig Kóbruna, heldur rakleiðis til Ítalíu í leit að erkióvini sínum Kandinsky eftir að fyrrverandi yfirmaður hans í eiturlyfjadeild lögreglunnar í San Francisco upplýsir hann um að hann sé þar að finna.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Alveg skelfilega slæm ítölsk harðhausamynd með nokkrum slökum leikurum og illa skrifuðu handriti. Fátt er þó verra en titillagið „Mér er skítsama! Ég er Kóbran!“, sem leikið er öðru hverju í gegnum alla myndina.

Snemma í kvikmyndinni varar besti vinur Staziamis hann við að láta hefndarþorstann ekki ná tökum á sér, enda segi Biblían, að Guð sé endanlegur dómari allra hluta, hvort sem er leyndra góðverka eða leyndra illverka. Staziami svarar honum þá því til, að hann og Guð hafi ekki talast við í langan tíma og skiptir síðan umsvifalaust um umræðuefni. Síðar í myndinni hvetur hann þó félaga sinn til bænar, þegar hann heldur út í hættulegan leiðangur. Félaginn segir honum þá, að ef Guð sé með honum, muni honum ganga allt í haginn. Spurning er hins vegar hvort svo hafi verið því að þótt Staziami felli hvern þann, sem geri á hlut hans, drepa illmennin að lokum son hans.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían
Hliðstæður við texta trúarrits: Opb 20:11-13
Guðfræðistef: Guð með oss, dómur Guðs
Siðfræðistef: manndráp, hefnd, svik, samkynhneigð
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: klaustur
Trúarlegt atferli og siðir: bæn