Leikstjórn: Teodoro Ricci
Handrit: Piero Regnoli og Teodoro Ricci
Leikarar: George Hilton, Klaus Kinski [undir nafninu Klaus Kinsky], Rai Saunders, Betsy Bell, Bruno Adinolfi, Piero Mazzinghi, Enrico Pagano og Roberto Pagano
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1969
Lengd: 88mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var 2.35:1)
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Bandarískum lautenant er falið að taka af lífi tvo dauðadæmda hermenn úr liði bandamanna á Ítalíu í síðari heimsstyjöldinni. Á leiðinni með fangana á aftökustaðinn villist lautenantinn hins vegar yfir á yfirráðasvæði Þjóðverja með þeim afleiðingum að aftökusveitin er öll stráfelld. Aðeins lautenantinn og dauðadæmdu hermennirnir tveir komast undan og er þeim tekið sem frelsishetjum þegar þeir ná loks til afskekts smábæjar á fjallstoppi. Þeir lenda þó brátt í hörðum átökum við fjölmenna þýzka hersveit, sem leggur leið sína um bæinn í gagnsókn gegn herjum bandamanna, en dauðadæmdu hermennirnir vilja frekar láta lífið en að vera handsamaðir af Þjóðverjum.
Almennt um myndina:
Eins og svo margar ítalskar harðhausamyndir, spaghettí-vestrarar, mafíumyndir, löggumyndir og svo framvegis, er þessi síðari heimsstyrjaldarmynd gegnsýrð af bölsýni. Aðalsögupersónurnar eru lánlausar andhetjur sem fæstar eru líklegar til að komast lífs af.
George Hilton er lengst af trúverðugur sem lautenantinn sem í hroka sínum hlustar ekki á ráðleggingar undirmanna sinna og anar beint í flasið á óvininum með þeim afleiðingum að menn hans týna allir lífi. Rai Saunders og Klaus Kinski eru sömuleiðis fínir sem dauðadæmdu hermennirnir og er sá síðar nefndi sérstaklega vel valinn í það hlutverk með sinn óviðjafnanlega brjálæðisglampa í augunum. Enda þótt aðalleikararnir standi þannig vel fyrir sínu er ekki hægt að segja það sama um suma aukaleikarana, sem eiga það til að ofleika, en slæm ensk talsetning á þar auðvitað hlut að máli. Dramatísk hernaðartónlist Riz Ortolani er samt viðeigandi.
Sögufléttan er vissulega langsótt en margar verri stríðsmyndir hafa svo sem líka verið gerðar. Versti gallinn við myndina er þó myndbandsútgáfan, sem hér er til umfjöllunar, en hálfa „pan and scan“ útgáfan kemur óvenju illa út, ekki síst vegna þess að það sést sjaldnast á sjónvarpsskjánum hvað sé að gerast á breiðtjaldinu. Þar sem hliðarkantarnir á upprunalega 2.35:1 breiðtjaldsrammanum eru notaður til fulls, er stöðugt reynt að færa til 1.33:1 „pan and scan“ hluta myndarinnar í samræmi við hvað sé að gerast hverju sinni. Vandinn er bara sá að það tekst sjaldnast að halda í við atburðarrásina á tjaldinu og því fer hún oftar en ekki fyrir ofan garð og neðan hjá áhorfandanum. Búast má við því að myndin eigi eftir að skána töluvert sjónrænt séð þegar hún verður fáanleg í réttum breiðtjaldshlutföllum, hvenær svo sem það verður.
Þess má geta að breska myndbandaútgáfufyrirtækið Diamond Films gaf þessa kvikmynd út tvisvar sinnum árið 1986, fyrst undir titlinum The Dirty Two þar sem þýzkur hermaður er sýndur ásamt skriðdreka í orrustu á rauðri kápu en síðan aftur undir titlinum War Fever með kápumynd af bandarískum hermönnum hjá herþyrlu sem virðist eiga að vísa til Víetnamstríðsins.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Bölsýni kvikmyndarinnar á hlutskipti mannsins birtist í upphafsorðum hennar, sem lesin eru beint úr Biblíunni, en þar er greint frá sköpun heimsins og syndafallinu.
Meðan sýndar eru myndir af náttúrunni, fjöllum, himninum og hafinu segir lesarinn: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. Jörðin var þá auð og tóm, og myrkur grúði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum. Guð sagði: „Verði ljós!“ Og það varð ljós. … Guð kallaði þurrlendið jörð, en safn vatnanna kallaði hann sjó.” (I. Mós. 1:1-3, 10.) Lesarinn lýkur síðan máli sínu með tilvitnun sem greinir frá afleiðingum syndafallsins, en í beinu framhaldi af því er skipt yfir til síðari heimsstyrjaldarinnar. „Drottinn Guð sagði: „Sjá, maðurinn er orðinn sem einn af oss, þar sem hann veit skyn góðs og ills.““ (I. Mós. 3:22.) Boðskapur myndarinnar kristallast í raun í þessari tilvitnun enda er hún líka notuð sem einkunnarorð hennar á kápu myndbandsins.
Annar dauðadæmdu fanganna er heittrúaður blökkumaður sem leitar til Guðs í neyð sinni en hinn hæðist að honum fyrir það og krefst þess að þaggað verði niður í bænahaldi hans. Þrátt fyrir þetta kveðst blökkumaðurinn ekki skilja hvar Guð geti verið í öllu þessu böli mannsins og segist einna helst halda að hann hafi gert mistök með sköpun sinni. Það sjáist t.d. af því að hann skuli hafa gefið hluta mannkynsins of mikinn húðlit meðan aðrir hafi fengið of lítið af honum.
Ofan á allt saman halda herir bandamanna og Þjóðverja því svo báðir fram að Guð sé með þeim einum í baráttunni gegn andstæðingunum. Þannig lýsir bandarískur herforingi því yfir við undirmenn sína að Guð sé sannarlega með þeim þegar þeir halda til orrustu. En um leið kemur fram að á beltissylgjum þýzku hermannanna standi einnig orðin „Gott mitt uns“, þ.e. „Guð með okkur“.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 1M 1:1-3, 10, 1M 3:22
Persónur úr trúarritum: Guð, engill
Guðfræðistef: syndafall, sköpun Guðs, þekking, hið góða, hið illa, miskun Guðs, brauðsbrotning, trú, Guð með oss
Siðfræðistef: stríð, manndráp, dauðarefsing, vændi, heiður, hetjudáð
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: altarissakramenti, kross á hjálmi herprests, safnaðarprestur, róðukross, kross í hálsmeni
Trúarleg embætti: herprestur, safnaðarprestur, nunna
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, sálmasöngur, trúboð, kirkjuklukknahringing, prósessía, tíðargjörð