Leikstjórn: David Lynch
Handrit: Christopher De Vore, Eric Bergren og David Lynch, byggt á bókunum The Elephant Man and Other Reminiscences eftir Frederick Treves og The Elephant Man: A Study in Human Dignity eftir Ashley Montagu
Leikarar: Anthony Hopkins, John Hurt, Anne Bancroft, John Gielgud, Wendy Hiller, Freddie Jones, Michael Elphick og John Standing
Upprunaland: Bretland og Bandaríkin
Ár: 1980
Lengd: 118mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 4
Ágrip af söguþræði:
John Merrick er með meðfæddan sjúkdóm sem hefur afskræmt útlit hans svo mjög að hann hefur hlotið viðurnefnið „fílamaðurinn“. Læknirinn Frederick Treves hjálpar Merrick að endurheimta sjálfsvirðingu sína eftir að hafa verið í áraraðir til sýnis í fjölleikahúsum, almenningi til skemmtunar.
Almennt um myndina:
Fílamaðurinn er önnur mynd meistara Lynch, ef frá eru taldar fjórar últra sýrðar stuttmyndir. Það er í raun stórmerkilegt að honum hafi verið boðið að leikstýra verkinu þar sem fyrsta mynd hans, Eraserhead (1977), var langt frá því að vera auðmeltanleg eða líkleg til vinsælda. Það er engu að síður vegna þeirrar óhugnanlegu og furðulegu myndar sem Mel Brooks, einn framleiðandi myndarinnar, réði hann til verksins. Mel Brooks barðist einnig fyrir því að David Lynch fengi að taka myndina upp í svart-hvítu. Nafn hans kom þó hvergi fram vegna þess að hann óttaðist að tengsl sín við gamanmyndir myndi gefa rangar vísbendingar.
Strax við frumsýningu var ljóst að Mel Brooks veðjaði ekki á rangan hest. Myndin hlaut fjöldann allan af tilnefningum og veðlaunum. Hún var tilnefnd til 8 óskarsverðlauna, þ.m.t. besta myndin, besti leikstjórinn, besti leikarinn í aðalhlutverki og besta handritið. Þá hlaut hún BAFTA verðlaunin sem besta myndin, fyrir bestu sviðsetninguna og John Hurt fyrir besta leikinn í aðalhlutverki. Hún var jafnframt tilnefnd til sömu verðlauna fyrir bestu kvikmyndatöku, leikstjórn, klippingu og handrit. Þá fékk hún Césarverðlaunin sem og verðlaun franskra kvikmyndagagnrýnenda sem besta erlenda myndin en hún var einnig tilnefnd til Golden Globe verðlaunanna fyrir bestu leikstjórnina, bestu dramatísk myndina, besta aðalleikarann í dramahlutverki og besta handritið, svo eitthvað sé nefnt.
Myndin er sannsöguleg en hún byggir á minnispunktum Dr. Treves og öðrum vitnisburðum um Joseph Carey Merrick sem fæddist í Leicester í Englandi 5. ágúst 1862 og lést 11 apríl 1890 á The Royal London Hospital aðeins 27 ára gamall. Förðunin á John Hurt var gerð eftir afsteypum af Merrick sjálfum en förðunin tók 12 tíma í hvert skipti.
Fílamaðurinn er að flestu leyti stórkostleg mynd og á það sérstaklega við um kvikmyndatöku, klippingu, hljóðsetningu og leikstjórn. Sem dæmi um snilld Lynch má nefna að við fáum ekki að sjá framan í Merrick fyrr en 13 mínútur eru liðnar af myndinni og þá aðeins í nokkrar sekúndur. Það sést síðan ekki aftur framan í hann fyrr en hálftími er liðinn af myndinni. Hverjum öðrum en Lynch dytti í hug að sýna ekki vel framan í aðalleikara myndarinnar fyrr en að hálftíma liðnum?
Þess má geta að handrit myndarinnar er að finna á slóðinni http://blake.prohosting.com/awsm/script/elephantman.txt en myndin fylgir því þó ekki alveg eftir. Þá má geta þess að 23. sálmur, sem er uppáhaldssálmur Merrick í myndinni, kemur einnig fyrir í myndinni Wild at Heart sem David Lynch leikstýrði tíu árum síðar.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það kom mér á óvart hversu trúarleg Fílamaðurinn er þegar ég sá hana aftur. Fyrsta vísunin í kvikmyndinni er í söguna af Adam og Evu en hinir vansköpuðu (John Merrick eða fílamaðurinn þar meðtalinn) eru sagðir vera ávöxtur erfðarsyndarinnar. Greina má meira að segja mynd af Evu með epli í bakgrunninum. Þessi vísun slær strax tóninn fyrir þann fjandskap sem ríkir í garð vanskapaðra í myndinni. Þeir eru í raun þrælar sem eru neyddir til að sýna smán sína öðrum til skemmtunar. Bytes segist t.d. vera eigandi Johns Merrick en hann kemur fram við „eign sína“ af einskærri mannvonsku.
Myndin veltir einmitt upp þeirri áhugaverðu spurningu hvor sé í raun skrímsli, sá sem er afskræmdur að útliti eða sá sem hæðist að honum og nýtir smán hans sér til framdráttar. Dr. Frederick Treves segir einmitt við næturvörð sem svívirðir John Merrick að hann sé skrímslið, ekki Merrick.
Þá fjallar myndin einnig á áhugaverðan hátt um ,,gluggagægisþörf“ mannsins. Er það t.d. einhver minni glæpur að selja almenningi á götunni inn á John Merrick en að reyna að slá um sig með því að fara með hann á læknaþing eða bjóða hefðarfólkinu að heimsækja hann? Vissulega fékk John Merrick miklu betri meðferð hjá Dr. Frederick Treves en hjá „eiganda“ sínum Bytes, en hann var engu að síður sami sýningargripurinn. Treves efast einmitt um hvatir sínar á tímabili þegar hann áttar sig á því að hann er í sama hlutverki og Bytes. Hann hefur gert John Merrick að sýningargrip þar sem hástétt Lundúnaborgar keppist um að hitta hann til að geta hreykt sig af því við vini sína síðar meir. Flestir virðast nefnilega gleyma því að John Merrick er ekki dýr heldur manneskja, eða eins og hann orðar það sjálfur í einu frægasta atriði myndarinnar þegar múgurinn eltir hann á járnbrautastöð: „I am not an animal! I am a human being! I am a man!“
Framkoma manna við John Merrick er stöðugt tengd kristninni. Alexandra Prinsessa (sem kemur fram fyrir hönd Viktoríu drottningu) segir t.d. að það sé kristin skylda að annast um John af ást og umhyggju. Þá byrjar John að módel smíða af dómkirkju um leið og hann fær sitt eigið herbergi en kirkjan er lögð í rúst þegar hann er svívirtur og honum rænt. Þegar Merrick snýr svo aftur hefst hann handa við að smíða kirkjuna á nýjan leik. Þannig er uppbygging og fegurð kirkjunnar nátengd framkomu annarra við John. Þetta minnir á fleyg orð Jesú: ,,Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“ (Mt 25:40).
Þegar John klárar dómkirkjuna skrifar hann nafn sitt undir og segir: „Því er lokið“. Þá leggst hann lárétt niður, vitandi vits að sú stelling muni ganga að honum dauðum. Við hlið hans liggur Biblía á borðinu og dómkirkjan með stóran kross á efsta turninum. Þá hverfur kvikmyndavélin upp í geiminn þar sem andlit móður Johns birtist og rödd segir að ekkert deyi. Það var einmitt heitasta ósk Johns að fá að líta móður sína aftur augum.
Í þessu atriði má e.t.v. greina vissa hliðstæðu við Krist. Síðustu orð hans á krossinum voru: „Það er fullkomnað!“ (Jh 19:30.) Og vissulega byggði Jesús kirkju sína hér á jörðu og steig upp að því loknu. Með þessu er ég ekki að segja að verið sé að gefa til kynna í myndinni að John Merrick sé kristsgervingur heldur tel ég að verið sé að ýja að því að þótt líf hans hafi lengst af verið vesæld þá hafi hann hlotið kristinn kærleik síðustu ævidaga sína. Í raun má segja að hann hafi fengið hlutdeild í eða upplifað kærleikann í fórn Jesú kvöldið sem hann dó, fyrir atbeina kristinn kærleika annarra.
Og þessi boðskapur kemur einnig skýrt fram í tengslum við 23. sálm. Um miðbik myndarinnar þarf John Merrick að sanna að hann sé vitsmunavera. Ef honum tekst það ekki verður hann sendur burt af sjúkrahúsinu. John sannar sig með því að fara með 23. sálm í heild sinni en sálmurinn er svo hljóðandi:
„Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu
fyrir sakir nafns síns.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
óttast ég ekkert illt,
því að þú ert hjá mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.
Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyr höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína,
og í húsi Drottins bý ég langa ævi.“
Þegar Merrick er spurður hvernig stóð á því að hann kunni sálminn utan að segir hann að hann sé uppáhaldsritningartextinn sinn. Það er áhugavert að skoða sálminn í ljósi síðustu orða Merricks við Dr. Frederick Treves en hann segir eitthvað á þessa leið: ,,Ég er hamingjusamur núna, hvern einasta dag ævi minnar. Ég hef hlotið lífsfyllingu því að ég veit að ég er elskaður og að ég hef fundið sjálfan mig.“ Sálmur 23 fjallar um líf í fullri gnægð en það er einmitt hlutskipti Merricks daginn sem hann deyr. Því má vel líta svo á að sálmur 23 hafi um síðir ræst í lífi Johns Merrick. Hann fær flestar óskir sínar uppfylltar, þ.e. ást, virðingu og vináttu og er um leið öruggur fyrir græðgi og illsku fjandmanna sinna. Þá fær hann að líta ásjónu móður sinnar aftur og að sofa eins og barnið á myndinni í herbergi hans. Bikar hans er svo sannarlega barmafullur og hann hefur verið leiddur á þann stað þar sem hann má „næðis njóta“.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 3; Sl 23
Hliðstæður við texta trúarrits: Sl 23 Mt 25:40; Jh 19:30
Persónur úr trúarritum: Eva, engill
Sögulegar persónur: Viktoría drottning
Guðfræðistef: kærleikur, líf eftir dauðann, synd, erfðarsynd
Siðfræðistef: vinátta, fordómar, misþyrming, ofbeldi, grimmd, illska, ótti
Trúarbrögð: kristindómur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: dómkirkja
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: signun, bæn