Kvikmyndir

The First Power

Leikstjórn: Robert Resnikoff
Handrit: Robert Resnikoff
Leikarar: Lou Diamond Phillips, Tracy Griffith, Jeff Kober, Mykelti Williamson og Elizabeth Arlen
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1990
Lengd: 98mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0099578
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Fjöldamorðingi gengur laus í Los Angels, en öll fórnarlömb hans eru merkt með fimm arma stjörnu (tákni djöfulsins). Lögreglumaðurinn Logan er svalasta löggan í bænum og staðráðinn í því að stöðva þennan óþokka. Með hjálp miðils tekst honum að fanga morðingjann og fá hann dæmdan til dauða. En fyrst þá verður þrjóturinn hættulegur því hann rís upp í sál (og e.t.v. líkama) og andsetur áfengissjúklinga og eiturlyfjafíkla.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
The First Power er á margan hátt hefðbundin heimsslitamynd þar sem kaþólska kirkjan kemur fyrir. Flestar ganga þessar myndir út á það að Satan hyggst ná völdum á jörðinni en löggur, prestar, munkar eða nunnur reyna að stöðva hann. Hvers vegna þetta fólk vill koma í veg fyrir heimsslitin er mér hulin ráðgáta. Ætli þau kæri sig nokkuð um guðsríki á jörðu eða telji e.t.v. fórnarkostnaðinn of háann. Í þessari mynd eru það þrír einstaklingar sem leggja í krossför gegn útsendara djöfulsins, þ.e. lögreglumaður, nunna og miðill. Miðlar eru reyndar frekar sjaldséðir í svona myndum en það er líklega það eina frumlega við myndina. Eins og vanalega áttar einhver sig innan kirkjunnar á því hvað er á seiði en kardílálinn (sem af einhverjum ástæðum eru alltaf vondur í kvikmyndum) neitar að taka rökum. Hinn fámenni hópur neyðist því til að vinna upp á eigin spýtur.

Myndin minnir um margt á The Fallen og End of Days en það telst henni þó til tekna að hún er eldri en þær báðar. Eins og í End of Days er aðalpersónan kaþólsk lögga sem missti trú sína vegna andláts ástvinar. Barátta löggunnar er því jafnframt barátta hans við trúna. Og eins og í The Fallen andsetur sál fjöldamorðingja saklaust fólk og notar það til illra verka. Og ekki vantar hefðbundin stef. Fimm arma stjarnan skítur stöðugt upp kollinum og helgitáknum er snúið við. Ein persónan fær t.d. blóðugar fimm arma stjörnur í lófana (djöfla-“kristssár”) og morðinginn fer með faðirvorið aftur á bak.

Vandi myndarinnar er fyrst og fremst grunnhyggin guðfræði, ef hún er þá til staðar á annað borð. Við upphaf myndar er það kynnt að heimsslit séu í nánd. Þá er fulltrúi Satans sýndur en hann á líklega á að vera andkristur, þótt nafnið sé aldrei notað. Morðinginn er t.d. afkvæmi sifjaspells, en það er algeng trú að ólíkt Kristi sem er getinn á syndlausan hátt, verði andkristur getin í blóðskömm, sjá t.d. Lost Souls og Devils Advocate. Við þetta bætist að það eina sem getur drepið óþokkann er krossrýtingur, áþekkur þeim sem er notaður til að drepa andkrist í The Omen. Því er hins vegar aldrei svarað hvers vegna þessi krossrýtingur er svona máttugur. Myndin leggur því allan nauðsynlegan grunn fyrir hefðbundna heimsslitamynd. Þegar líður á myndina virðist heimsendir gjörsamlega gleymast og breytist myndin brátt í hefðbundna hasarmynd um harðjaxlalöggu á hælunum á fjöldamorðingja. Áhorfandinn fær t.d. aldrei að vita hvers vegna þessi útsendari djöfulsins (andkristur?) ógnar heiminum meira en hefðbundinn fjöldamorðingi, né hvernig hann hyggst sigra heiminn eða koma heimsslitunum á.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 6:9-13, Lk 11:2-4, Opinberunarbókin, Opb 11:7-8, Maríubæn
Persónur úr trúarritum: Jesús Kristur, María mey, Satan
Guðfræðistef: auðmýkt, ára, heimsslit, krossfesting, upprisa
Siðfræðistef: áfengisneysla, eiturlyfjaneysla, morð
Trúarbrögð: rómversk kaþólska kirkjan, djöfladýrkun
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: helvíti, kirkja
Trúarleg tákn: fimm arma stjarna, róðukross, talnaband, vúdúdúka
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, fórn, signing, skriftir
Trúarleg reynsla: andsetning, trúarmissir, sýn