Kvikmyndir

The Godfather

Leikstjórn: Francis Ford Coppola
Handrit: Mario Puzzo og Francis Ford Coppola, byggt á skáldsögu eftir Mario Puzzo
Leikarar: Marlon Brando, Al Pacino, James Caan, Richard S. Castellano, Robert Duvall, Sterling Hayden, John Marley, Richard Conte, Al Lettieri, Diane Keaton, Abe Vigoda, Talia Shire, Gianni Russo, John Cazale, Rudy Bond, Al Martino, Morgana King, Lenny Montana, John Martino, Salvatore Corsitto, Simonetta Stefanelli, Sofia Coppola og Alex Rocco
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1972
Lengd: 175mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Myndin gerist í New York á eftirstríðsárunum. Corleone fjölskyldan hefur náð undirtökunum í undirheimum New York og því hafa aðrar mafíufjölskyldur í huga að færa út landamæri sín og hefja eiturlyfjasölu í borginni. En áður en til þess kemur verður Don Vito Corleone (Marlon Brando), Guðföðurinn, að gefa blessun sína yfir ráðahagnum. Don Vito er mjög mótfallinn þessari nýbreytni enda telur hann það ekki hæfa ,,virðingu mafíunnar að hefja sölu á eiturlyfjum til barna og gera menn að aumingjum.“

Þetta álíta hinar mafíufjölskyldurnar sem vanvirðingu við reglu mafíunnar, þar sem menn eigi að deila völdum sínum með starfsbræðrum sínum. Þetta endar með því Don Corleone er sýnt banatilræði, lögmanni fjölskyldunnar rænt og Corleone fjölskyldunni er stillt upp við vegg af tveim ástæðum. Önnur vegna þess að höfuð fjölskyldunnar liggur fyrir dauðanum og hin að henni er nú stjórnað af Santino „Sonny“ Corleone (James Caan) skapbráðum og ekkert allt of gáfuðum arftaka.

Þá kemur til sögunnar Miceal Corleone (Al Pacino), sonurinn sem ekkert vildi með hin „daglega“ rekstur fjölskyldunnar hafa, en dregst smátt og smátt inn í spilltan heim mafíunnar.

Almennt um myndina:
Leikstjórinn Francis Ford Coppola er fæddur 1939 í Detroit en fluttist snemma til úthverfa New York borga þar sem hann ólst upp. Hann útskrifaðist frá UCLA í kvikmyndagerð. Hann stofnaði með George Lucas (Star Wars) kvikmyndafyrirtæki sem framleiddi fyrstu tvær myndir Lucas, THX 1138, og American Graffiti, sem skaut nafni Lucas upp á stjörnuhimininn. Það þarf því ekkert að koma á óvart að Lucas aðstoðaði við gerð myndarinnar en ekki er minnst á hann á kreditlistanum.

Nafn Coppola varð þó ekki þekkt fyrr en kvikmyndin um Corleone fjölskylduna, Guðföðurinn, kom fram. Hann fylgdi þeirri mynd eftir með framhaldsmynd (Godfather II) sem naut engu síðri vinsælda og svo þrekvirkinu Apocalypse Now (1979) sem setti kvikmyndafyrirtækið hans á hausinn. Á fyrri hluta níunda áratugarins sendi Coppola frá sér kvikmyndirnar Outsiders (1983) og Rumble Fish (1984) sem í dag eru taldar „cult“ myndir og gamanmyndina Peggy Sue Got Married með frænda sínum Nicholas Cage í aðalhlutverki. Í upphafi tíunda áratugarins lokaði Coppola svo Guðföður trílógíunni, sem af mörgum er talin sísta myndin. Undarlega hljótt hefur verið um Coppolo síðan The Rainmaker (1997) og hafa kjaftasögur verið í gangi um að hann sé sestur í helgan stein og ætli að einbeita sér að framleiðslu kvikmynda.

Það er enginn tilviljun að bæði Corleone nafnið og Guðföður nafnið skuli vera notuð í þessari mynd. Corleone er nafn á smábæ á Sikiley. Upphaf skipulagðra glæpastarfsemi í New York má m.a rekja til Ítala að nafni Ciro Morello en hann fluttist frá Corleone bænum 1892 til New York. Þetta sjáum við Vito Corleone gera í mynd tvö, en þá flytur hann frá Corleone bænum til New York við lok 19. aldar. Nánast allar mafíumyndir sem gerðar hafa verið eftir Guðföðurinn eru með tilvísanir í myndina. „Luca Brasi is sleeping with the Fishes“ og „Going to the matresses,“ eru ódauðleg tilsvör sem vísað er til í óteljandi kvikmyndum. Svo djúpt mætti jafnvel taka í árina að Guðföðurinn væri Biblía mafíumynda. Í henni birtast nánast allar þær erkitýpur sem síðar hafa birst á hvíta tjaldinu í fjölmörgum mafíutengdum kvikmyndum.

Myndin hlaut Óskarinn sem besta myndin (Albert S. Rudy) fyrir besta leikara í aðalhlutverki en Marlon Brando hafnaði því að taka við óskarnum og sendi þess í stað unga óþekkta Hollywood leikkonu, klædda upp sem Indijána til þess að minna á bága réttarstöðu þeirra. Myndin fékk einnig óskarinn fyrir besta handrit (Puzzo og Coppola). Þar að auki fengu þeir James Caan, Al Pacino og Robert Duvall óskarstilnefningu, sem og Coppola fyrir leikstjórn. Margri söknuðu nafns Johns Cazale á listanum en hann lék í fimm kvikmyndum sem allar hlutu óskarsverðlaun sem besta kvikmyndin. Hljóð og búningar fengu einnig tilnefningu. Myndina er yfirleitt að finna á topp tíu listum kvikmyndaáhugamanna og verður að teljast sem ein af tíu bestu myndum allra tíma. Tónlist Nino Rota er frábær og stef Guðföðurins þekkir hvert mannsbarn. Tilnefning hans til óskarsverðlauna var hinsvegar dregin til baka vegna þess að tónlistin þótti minna um of á tónlist sem hann hafði gert við aðra mynd Fortunella.

Myndin er hluti af gullöldinni í Hollywood á 7. og 8. áratugnum þar sem ungir kvikmyndagerðarmenn, Coppola, Scorsese, Friedkin og de Palma sendu frá sér sínar bestu kvikmyndir. Eins og áður sagði voru gerðar tvær framhaldsmyndir og verður þessi þríleikur Coppola um blóðuga sögu Corleone fjölskyldunnar að teljast, ásamt Star Wars og Lord of the Rings, einn eftirminnalegasti sögubálkur hvíta tjaldsins.

Áferðin, sem er mjög dökk í þessari mynd, vakti nú ekki mikla hylli hjá kvikmyndaverunum en Coppola var staðráðin í að halda henni svona. Því miður eru það ekki alltaf listamennirnir sem ráða heldur peningakarlarnir en Coppola fékk sínu framgengt í mörgu öðru. Hann fékk Marlon Brando sem þá hafði nánast rústað mannorði sínu með framgöngu sinni í Uppreisninni á Bounty. Þetta var þrátt fyrir að sir Laurence Olivier væri efstur á óskalistanum. Coppola sannfærði Al Pacino til þess að taka þátt í myndinni þótt kvikmyndaverinu þætti nú Burt Reynolds vera gróðavænlegri. Marlon Brando hafnaði líka Burt Reynolds, taldi hann vera of mikinn sjónvarpsleikara. Þess má geta að bæði Peter Bogdanawich og Sergio Leone höfnuðu því að leikstýra kvikmyndinni.

Kvikmyndin Guðföðurinn er einhver allra besta mynd sem ég hef séð. Það er eitthvað við kvikmyndagerð Coppola á þessum tíma, því Guðföðurinn I og II sem og meistaraverkið Apocalypse Now eru myndir sem hafa notið gífurlegrar hylli meðal kvikmyndaáhugamanna. Leikurinn í þessari mynd er hreint út sagt frábær. Bæði Pacino og Brando voru með tæki frá tannlækni, Brando til þess að blása út kinnarnar og Pacino til þess að láta kjálkann líta út fyrir að vera úr lið. James Caan leikur þarna hlutverk sem er sniðið fyrir hann og Robert Duvall er frábær sem Tom Hagen. Hin sálugi John Cazale sýnir einnig skemmtilega takta og Alex Rocco er stórskemmtilegur sem Moe Green.

Tveir leikarar héldu áfram að starfa með Coppola eftir tvær fyrstu guðföðurmyndirnar, þ.e. Marlon Brando og Robert Duvall en þeir léku einnig í Apocalypse Now. Klippingin er mjög góð og segir sagan að það hafi verið klippararnir sem hafi átt hugmyndina að skírnaratriðinu, til að gera afneitun djöfulsins áhrifameiri, með því að klippa inn morðin sem Micheal hafði fyrirskipað. Handrit Puzzo og Coppola er mjög gott en að ósekju vantar einhverja feminíska hlið inn í heildarspilið. Þetta er karlaheimur, heimur mafíunnar.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Höfuðeinkenni fjölskyldunnar er virðing og heiður fjölskyldunnar eða eins og Micheal orðar það í myndinni: „Fredo, þú ert eldri bróðir minn og ég elska þig en aldrei taka upp hanskann gegn fjölskyldunni. Aldrei.“ Grundvallaratriðið er að vernda fjölskylduna með öllum tiltækum ráðum. Fredo, eldri bróðir Micheal, fannst bróðir sinn kannski of harður í viðskiptum sínum við Moe Green, hóteleiganda í Las Megas, og eflaust hafði Fredo rétt fyrir sér. En málið snérist alls ekki um það, heldur fyrst og fremst um að standa með fjölskyldunni, sama hversu rangt málið virðist. Ef velja þurfti á milli rétts og rangs varð alltaf að gæta heiðurs fjölskyldunnar og passa að virðing hennar héldist.

Einnig er þó nokkuð um að menn séu skammaðir fyrir að sýna óvirðingu, eins og líkhúsmaðurinn Bonazera eða þegar Santino grípur frammí fyrir föður sínum Athyglisvert er einnig að leiða hugann að fjölskylduskilningi kaþólsku kirkjunnar. Þó að hvergi séu eiginlegar tilvísanir í Biblíuna um mikilvægi fjölskyldunnar er áhugavert að skoða heilræði Don Vito Corleone til sonar síns, Sonny: ,,Maður sem eyðir ekki tíma með fjölskyldunni sinni getur aldrei orðið alvöru maður.“ Þetta er nokkurn vegin hliðstæða í Gen 2:24: ,,Þess vegna yfirgefur maðurinn föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold.“ Hjá kaþólikkum er mjög mikilvægt að sinna fjölskyldunni, fjölskyldan er grunneiningin sem ber að virða og varðveita. Þessi ótakmarkaða virðing fyrir fjölskyldunni verður Sonny að bana en hefur Micheal Corleone upp til vegs og virðingar.

Eitt mikilvægasta og jafnframt duldasta trúarstefið í kvikmyndinni er hlutverk Guðföðurins. Þegar Tom Hagen fer til Hollywood til þess að sannfæra kvikmyndaframleiðanda, að nafni Woltz, um að láta Johnny Fontaine fá hlutverk í næstu mynd leggur hann áherslu á mikilvægi þess að Johnny Fontaine sé guðbarn Corleone og fyrir kaþólikka sé það eitt mikilvægasta hlutverk sem þeir geti fengið: ,,Corleone er guðfaðir Johnnys. Í augum Ítala er þetta mjög trúarlegt, heilagt samband.

Mikilvægi embættisins birtist einnig þegar Connie, systir Micheal, biður hann um að vera guðfaðir barnsins hennar. Hann vill fá að hugsa málið, enda hafði hann þá sennilega ráðgert að drepa barnsföður hennar. Guðföðurhlutverkið þjónar því tveimur hlutverkum í myndinni. Annars vegar sem skírnarvottur í skírnarritúalinu, þar sem aðilinn hafnar verkum djöfulsins og axlar þá ábyrgð að vernda skírnarþegann eftir öllum mætti. Hinsvegar er það guðföðurhlutverkið innan mafíunnar.

Guðföður nafnið er fengið að láni frá Carlo Gambino en hann var einn þekktasti mafíuforingi New York borgar og gekk alltaf undir nafninu „Godfather“. Til eru í New York hinar fimm fjölskyldur (líkt og í Guðföðurnum) en þær eru Lucchese, Colombo, Bonano, Gambino, Genovese. Sá var kallaður foringi foringjana eða Guðfaðir, sem stjórnaði í sinni eigin fjölskyldu og átti heiðurinn af því að hinir fjórir „fjölskyldufeður“ væru við völd. Menn ættu því völd sín Guðföðurnum að þakka.

Sá sem er guðfaðir mafíunnar á að vernda hina meðlimi fjölskyldnanna. Honum hefur verið vottuð virðing sem Guðfaðir. Það er einmitt þetta sem verður Vito að falli þegar hann hafnar því að veita vernd fyrir eiturlyfjasölu. Það hefði átt að vera í hans verkahring. Hér birtast því tvennskonar merkingar á guðföðurhlutverkinu, annars vegar mjög trúarlegur skilningur og hinsvegar mjög veraldlegur.

Umbreyting Micheal CorleoneÁ Internet Movie Database er aðalplott sögunnar kynnt svona: „Saklaus sonur mafíuforingja flækist inní blóðug viðskipti fjölskyldu sinnar þegar föður hans er sýnt banatilræði.“ Micheal Corleone er sonurinn sem aldrei ætlaði að taka þátt í „óþverraviðskiptum“ fjölskyldu sinnar en hann segir t.d við kærustuna sína eftir að hafa sagt henni söguna af hljómsveitarstjóranum sem fékk tilboð sem hann gat ekki hafnað: „Þetta er fjölskyldan mín, Kay, þetta er ekki ég.“

Micheal er kynntur til sögunnar sem óskabarn fjölskyldunnar, stríðshetja úr seinni heimstyrjöldinni sem eigi eftir að ná frama á lögbundinn hátt. Óskabarnið Micheal er því nokkurn veginn tákngervingur í upphafi myndarinnar hins réttsýna manns, sem kann muninn á góðu og illu, réttu og röngu , óháð fjölskyldunni. En banatilræðið við föður hans gjörbreytir þeirri lífsmynd og eftir að hann kemst í kynni við spilltan lögregluforingja verður honum ljóst að hin einfalda lífsmynd er e.t.v ekki sú rétta og heiðurstilfinningin fyrir fjölskyldunni fer vaxandi. Munurinn á góðu og illu liggur í því hvað sé best fyrir fjölskylduna og viðskipti hennar, ekki einstaklinginn eða samfélagið í heild. Ekkert er persónulegt, allt eru viðskipti.

Annað trúarstef er mikilvægi trúarathafna fyrir umbreytingu Micheals í kvikmyndinni, hvernig þær brjóta upp myndina og mynda ýmist upphaf eða endi um mikilvægra kafla í þessari umbreytingu.

1) Brúðkaup dóttur Don Corleone og Carlo Rizzi þar sem fjölskyldan er kynnt. Micheal hafnar sinni hlutdeild í spilltri fjölskyldu.
2) Brúðkaup Micheal Corleone og Sikileysku konunnar þar sem Micheal hafnar Bandaríkjunum og tekur upp ítalska siði og hefðir. Samkvæmt IMDb setur Micheal ekki upp hatt fyrr en hann er orðinn fullgildur meðlimur fjölskyldunnar. Jafnvel þótt að hermannabúningurinn hans hafi krafist þess.
3) Jarðaför Don Corleone þar sem Micheal er boðaður á fund af manni sem af þeim orsökum reynist svikari.
4) Skírn Micheal Francis Rizzi þar sem Micheal afneitar djöflinum og verkum hans á meðan verið er að drepa höfuð hinna fimm fjölskyldna í New York.

Upphaf myndarinnar lýsir fjölskyldunni og ekki síst upphafinu að breytingu Micheal Corleone. Um miðbik hennar fer hann til Sikileyjar, nánast í klaustur mafíunnar þar sem hann finnur sjálfan sig og ástina. Sú ást er tekin frá honum í banatilræði og Micheal snýr aftur til New York, breyttur maður, sem ef til vill sést best á samtali hans við Kay Adams, tilvonandi eiginkonu sína:

Micheal: Faðir minn er ekkert öðruvísi en aðrir valdamiklir menn, eins og forsetinn eða þingmenn.
Kay: Veistu hversu barnalega þú hljómar? Forsetar og þingmenn láta ekki drepa menn.
Micheal: Hver er núna barnaleg?

Í brúðkaupi systur sinnar hafði Micheal sannfært unnustu sína um að hann mundi aldrei verða eins og faðir sinn, gera mönnum tilboð sem þeir gátu ekki hafnað. Hann ætlaði sér að verða mikilsvirtur maður í löglegu starfi og í engu sambandi við hina mjög svo ólögmætu starfsemi Corleone fjölskyldunnar. Í byrjun gerir Micheal sér ekki grein fyrir sínum óhjákvæmilegu örlögum.

Skírnarathöfnin og hinar þrjár lygarÍ sögunni um Adam og Evu í Eden segir frá forboðnum ávexti og höggorminum sem tælir konuna til falls og á endanum karlmanninn líka. Örlög mannsins voru þó alltaf að óhlýðnast Guði, að bíta af hinum forboðna ávexti. Hlutskipti Micheals var að verða Guðfaðir, það kemur glögglega fram í samtali hans við föður sinn: „Ég hélt að þegar þinn tími kæmi værir þú orðin þingmaðurinn Corleone, ríkistjórinn Corleone. Það var einfaldlega ekki tími til þess.“ Micheal Corleone átti að vera hinn fyrsti heiðvirði Guðfaðir, en örlög hans reyndust ekki vera í höndum föður hans heldur í höndum snáksins, Solazzo.

Það er fyrir tilstilli óvirðingar Sonnys (sem áður hefur verið getið) að Solazzo ákveður að ryðja Don Corleone úr vegi. Við þessa örlagaríku ákvörðun dregst Micheal inn í blóðuga veröld hinna fimm fjölskyldna. Tilræðið var því hinn forboðni ávöxtur sem Micheal bítur í með því að drepa Solazzo og lögregluforingjann McCluskey.

Þegar Micheal stendur svo frammi fyrir Guði sem Guðfaðir barns Connie og Carlo er hann beðinn um að afneita djöflinum og verkum hans þrisvar. Í hinni kristnu hefð er talað um þrjár lygar þegar bitið hafði verið í forboðna ávöxtinn í Paradís. Adam lýgur, Eva lýgur og snákurinn lýgur. Skírnarathöfn hinnar Rómversk-kaþólsku kirkju gengur út frá þessum lygum og byggist á því að afneita djöflinum þrisvar. Hafna þessum þremur örlagaríku lygum. Með því að ljúga að Guði, þrisvar, líkt og Micheal gerir, er vísunin í Adam orðin nokkuð ljós. Hann fremur morð á öllum helstu fjandmönnum sínum meðan hann sver við nafn Guðs að hann afneiti verkum djöfulsins. Þar með er Micheal orðinn hinn fallni Adam. Því er skírnarathöfnin eitt lykilatriða myndarinnar, vegna þess að hún sýnir á einstakan hátt hvernig Micheal tekur lokaskrefið til móts við hina föllnu veröld. Hann lýkur svo þessari yfirreið sinni með því að drepa barnsföður systur sinnar, og lýgur svo að konunni sinni að hann hafi ekki gert það. Myndinni lýkur svo á því að Micheal Corleone er vottuð virðing sem Guðfaðir, þ.e. hér eftir eiga hin fimm höfuð völd sín undir Don Micheal Corleone.

SiðfræðistefStaða konunnar í mafíumyndum minnir um margt á stöðu konunnar í hinum fornu feðraveldum. Hún á að sjá um fjölskylduna, elda og vera sæt og fín. Í raun hið æðsta skart heimilisins. Hún er líka vernduð eins og sést á viðbrögðum Sonny þegar hann heyrir um barsmíðar Carlos á Connie, systur sinni.

Hana varðar hinsvegar ekkert um hvað það sé sem fjölskyldan er að aðhafast. Bæði sést það á litlu hlutverki frú Corleone en hún sést varla í myndinni. Einnig þegar Kay spyr Micheal hvort hann hafi drepið Carlo, þá öskrar hann: „Ekki spyrja mig um viðskipti mín.“ Konan á að standa fyrir utan og virða og elska sinn mann. Það er eðlilegt að karlmaðurinn eigi sér frillu og á konan að virða þarfir hans fyrir að leita út fyrir hjónabandið til þess að fullnægja sínum hvötum. Þetta kemur mjög glögglega fram í hjónabandi Sonny og eins í hjónabandi Carlo og Connie. Það liggur við að karlmenn fari með sömu bæn og gyðingar hér til forna, þar sem þeir þakki fyrir að vera ítalir, fyrir að vera í mafíuna og fyrir að vera ekki kona. Luca Bracci óskar Guðföðurnum hjónunum einnig að fyrsta barnið verði sveinbarn.

Það sést ekki svartur maður í myndinni, þrátt fyrir að hún eigi að gerast í New York. Afstaða Ítala til svartra endurspeglast hvað best í hugmyndum hennar um heppileg svæði til þess að selja eiturlyf. Í hverfum svartra því ,,þeir eru hvort sem er dýr.” Mafíunni gremst einnig sú hugmynd að svartir séu að öðlast peninga og völd og álíta það ógnun við stöðu sína.

Þótt ótrúlega megi virðast er mjög neikvæð sýn á hefndina myndinni. Hefnd er fyrir hina veiklunduðu og borgar sig ekki nema í mjög sérstökum ástæðum. Micheal drepur ekki hefndarinnar vegna, heldur eingöngu viðskiptanna vegna. Sonny er drepinn þegar hann ætlar að hefna fyrir systur sína. Menn eru myrtir af öðrum ástæðum heldur en hefndarástæðum, s.s vegna svika við fjölskylduna. Carlo er sá eini sem Micheal drepur og líta mætti á sem hefnd. Hann áleit Carlo eiga sök á morði Sonny, bróður síns. Þó er Carlo drepin í hreinsunarverkum Micheal, svo líta mætti á Carlo sem hluta af því að hreinsa hina svikulu út úr fjölskyldunni. Flest öll morð sem framin eru, hafa viðskiptalega þýðingu. Don Corleone segir það líka á fundinum með fjölskyldu-feðrunum að hefnd geti aldrei vakið upp son sinn. Hann hafnar því hefndinni sem úrlausn en morð af viðskiptalegum ástæðum getur alltaf þjónað sínu hlutverki.

HeimildarskráIMDb: www.imdb.com/title/tt0068646/combined
www.americanmafia.com
http://glasgowcrew.tripod.com/index.html

Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 2:24 og 1M 3
Persónur úr trúarritum: Adam, Guð, Jesú Kristur, Heilagur Andi, Satan
Guðfræðistef: fyrirgefning, skírlífi, afneitun illskunnar, guðstrú
Siðfræðistef: hefnd, manndráp, virðing, fíkniefnasala, morð, framhjáhald, heimilisofbeldi, valdabarátta, skipulagðir glæpir, kynþáttahatur,fjölskyldan, stríð, friður, nauðgun, ofbeldi, hefnd, lygi, þjófnaður, hótun, kúgun, græðgi, fjárhættuspil, vændi
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan, kommúnismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, líkhús, kirkjugarður
Trúarleg tákn: kross, kirkjuklukkur
Trúarleg embætti: prestar, kórdrengir, nunna, guðfaðir, guðmóðir
Trúarlegt atferli og siðir: skírn, brúðkaup, jarðaför, að sverja við guðsnafn, signing
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: jól