Leikstjórn: Sergio Corbucci
Handrit: Albert Band, José Gutiérrez Maesso og Ugo Liberatore
Leikarar: Joseph Cotten, Norma Bengell, Julián Mateos, Ángel Aranda, Gino Pernice, María Martín, Al Mulock, Aldo Sambrell, Ennio Girolami, Claudio Gora, Julio Peña, José Nieto, Giovanni Ivan Scratuglia, Álvaro de Luna og Benito Stefanelli
Upprunaland: Ítalía og Spánn
Ár: 1967
Lengd: 88mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var 1.85:1)
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Heittrúaður Suðurríkjaherforingi sættir sig alls ekki við ósigurinn í borgarastyrjöldinni og fær því þrjá syni sína til liðs við sig til að berjast gegn Norðurríkjunum. Þeir stráfella herflokk Norðanmanna úr fyrirsát og ræna mikilli peningasendingu úr fórum hans í von um að geta fjármagnað andspyrnuna og komið á fót nýjum Suðurríkjaher.
Peningunum koma þeir fyrir í líkkistu og halda af stað með hana í líkvagni yfir til mexíkönsku landamæranna undir því yfirskyni að þeir ætli að jarðsetja í fjölskyldugrafreitnum þekktan herforingja sem fallið hafði í orrustu. Í fylgd með sér fá þeir fyrst drykkfelda dansmær til að leika ekkjuna, en myrða hana síðan þegar hún lætur ekki lengur að stjórn. Þá neyða þeir aðra konu til liðs við sig, sem er á flótta vegna spilasvindls, en hún grípur einnig til sinna ráða og hefnir sín rækilega á þeim, þegar þeir myrða blindan hermann með köldu blóði, sem þekkt hafði raunverulegu ekkjuna.
Almennt um myndina:
Spaghettí-vestrinn The Hellbenders var einn af þeim fyrstu sem tekinn var í Almería á Spáni en þeir Sergio Leone og Sergio Corbucci voru fyrstir til þess að nýta sér þann mjög svo vinsæla tökustað sem staðgengil fyrir villta vestrið í kvikmyndum sínum. Sjálfur varð Corbucci einn afkastamesti og farsælasti spaghettí-vestra leikstjórinn með alls 13 slíkar myndir af þeim rúmlega 60 sem hann gerði á 40 ára starfsferli sínum. Enda þótt fyrstu spaghettí-vestrarnir hans hafi liðið fyrir lítið fjármagn, tókst honum að gera nokkra, sem þykja með þeim allra bestu, ekki síst Django (1966) og The Great Silence (1968).
Gamli Hollywood leikarinn Joseph Cotton, sem er hvað þekktastur úr fyrstu kvikmyndum Orsons Welles, The Citizen Kane (1941) og The Magnificent Ambersons (1942), leikur hér af sannfæringu Suðurríkjaherforingjann, sem tilbúinn er til að fórna öllu fyrir málstaðinn. Gullfallega brasilíska leikkonan Norma Bengell er sömuleiðis vel valin í hlutverk meinta spilasvindlarans, en hún lék t.d. í vísindahrollvekjunni The Planet of the Vampires (Mario Bava: 1965).
Framleiðslan á spaghettí-vestranum The Hellbenders hefur augljóslega ekki kostað mikið enda er t.d. látið nægja að greina frá mikilvægu átakaatriði undir lokin án þess að nokkuð sé sýnt frá því. Engu að síður eru mörg atriði myndarinnar vel útfærð og gotneskt hrollvekjuyfirbragðið viðeigandi, ekki síst aftakan í riddaraliðsvirkinu og líkránið þar um nóttina í steypiregni. Endir myndarinnar er sömuleiðis gegnsýrður af ítalskri bölsýni sem verður að teljast mjög við hæfi í þessu tilfelli.
Kvikmyndatakan er í höndum Enzo Barbonis, sem síðar átti eftir að setjast í leikstjórnarstólinn sjálfur, en hann gerði meðal annars spaghettí-vestrana vinsælu They Call Me Trinity (1971) og Trinity Is Still My Name (1972). Ruggero Deodato er hér skráður aðstoðarleikstjóri, en hann átti sömuleiðis eftir að leikstýra þekktum sérvitringamyndum síðar meir, einkum illræmdum mannætuhrollvekjum á borð við Cannibal Holocaust sem rataði á bannlista ótal kvikmyndaeftirlita, meðal annars hér á landi. Svo stendur kvikmyndatónskáldið Ennio Morricone sömuleiðis fyrir sínu en í þessu tilfelli notaði hann dulnefnið Leo Nichols.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Suðurríkjaherforinginn er heittrúaður enda tekur hann sér ekkert fyrir hendur nema að hafa sambænastund með sonum sínum fyrst. Hann er hins vegar sannfærður um hvað ætlast sé til af sér enda eru bænir hans fyrst og fremst þakkabænir fyrir þann heiður að fá að framkvæma vilja Guðs.
Það er einmitt að einni slíkri bænastund lokinni, sem hann stráfellir með sonum sínum og nokkrum aðstoðarmönnum herflokk Norðanmanna og stelur peningasendingunni úr fórum hans. Hann skýtur meira að segja aðstoðarmenn sína síðan til bana þar sem hann treystir ekki fyllilega hollustu þeirra. Fyrir vikið er herlögum komið á en það þýðir að stjórnarherinn fær að taka alla stigamenn og útlaga umsvifalaust af lífi sem hann kemst í tæri við og það án dóms og laga. Sjálfsréttlæting Suðurríkjaherforingjans leiðir því aðeins af sér bölvun yfir jafnt hann sem aðra, jafnvel þá sem síst skyldi.
Á leiðinni til mexíkönsku landamæranna kemur líkfylgdin við í smábæ þar sem prestur gefur sig á tal við hana. Þegar hann heyrir hvern eigi að jarðsetja, kannast hann strax við manninn og vill fá að halda minningarathöfn um hann í kirkjunni enda gamall fjölskylduvinur búsettur þar í nágreninu, hermaður sem misst hafði sjónina. Suðurríkjaherforinginn samþykkir það með semingi að taka þátt í athöfninni með sonum sínum og ‚ekkjunni‘, en blindi maðurinn áttar sig ekki á því að þar er ekki um réttu konuna að ræða. Þegar hins vegar kemur í ljós að hann er með myndir af henni í fórum sínum, sem hann vill endilega sýna öllum nærstöddum, sjá þeir sig tilneydda til að drepa hann og flýja af hólmi.
Í minningarræðunni hafði presturinn vitnað til þess að vegir Guðs væru margir og því léki enginn vafi á því að hann hefði leitt líkfylgdina á þennan áfangastað. Kaldhæðnin er fólgin í því að viðkoman í bænum varð til þess að einingin sundrast milli Suðurríkjaforingjans, sona hans og ‚ekkjunnar‘, sem verður þeim öllum dýrkeypt.
Undir lokin þegar þau eru nánast komin til landamæranna verður á vegi þeirra betlari sem nær að yfirbuga þau í því skyni að ræna þau. Hann tekur sér þó góðan tíma að hæðast að þeim með byssu í hendi og vitnar til Biblíunnar þegar hann fyrirskipar sonunum að berja hverja aðra. Fyrst spyr hann þá hvort þeir elski náungann eins og góða bókin segir (Mt 19:19) og hvetur þá síðan til að rétta hinn vangann samkvæmt boðum sömu bókar (Mt 5:39). Betlaranum verður samt ekki að ósk sinni þar sem þeim tekst að drepa hann, en allt verður þetta þó til þess að vélráð Suðurríkjaherforingjans enda í vegleysu (sbr. Sl 1:6).
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, Mt 5:39, Mt 19:19
Hliðstæður við texta trúarrits: Sl 1:6
Guðfræðistef: friður Guðs, vernd Guðs, eilífðin, vilji Guðs, helvíti, tákn af himni, frelsun, helgispjöll
Siðfræðistef: manndráp, stríð, svik, drykkjuskapur, ágirnd, hræsni, ofbeldi, þjófnaður, fjárhættuspil, svindl, nauðgun, dauðarefsing, aftaka, herlög, langrækni, fyrirgefning, liðhlaup, ölmusa, betl, bróðurkærleikur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: predikunarstóll, kross á leiði
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, minningarathöfn, predikun, sálmasöngur, kropið við sálmasöng, útför, spenna greipar, lúta höfði