Leikstjórn: Don Medford
Handrit: William W. Norton, Gilbert Alexander og Lou Morheim
Leikarar: Oliver Reed, Gene Hackman, Candice Bergen, Simon Oakland, Ronald Howard, L.Q. Jones, Mitch Ryan, William Watson, G.D. Spradlin, Rayford Barnes, Bernard Kay, Richard Adams, Dean Selmier, Sarah Atkinson, Francesca Tu og Emilio Rodriques Guiar
Upprunaland: Bretland og Spánn
Ár: 1971
Lengd: 106mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var sennilega möttuð 1.66:1)
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Ólæs bófaforingi er búinn að fá nóg af útlegðinni í óbyggðum Texas og rænir kennslukonu til að geta lært að lesa og skrifa og orðið að betri manni. Eiginmaður kennslukonunnar er auðugur stórbóndi á leið í veiðferð með nokkrum af helstu ráðamönnum samfélagsins, en þegar hann fréttir af ráninu heldur hann strax á eftir mannræningjunum ásamt félögum sínum og fellir þá einn af öðrum.
Almennt um myndina:
Spaghettí-vestrarnir þykja flestir mun blóðugri en fyrirmyndirnar frá Bandaríkjunum og urðu sumir jafnvel alræmdir fyrir hrottaskap, en þar eru jafnan tilgreindar myndirnar Django (Sergio Corbucci: 1966), Django Kill! If You Live, Shoot! (Giulio Questi: 1967), Cut Throats Nine (Joaquin Luis Romero Marchent: 1971), The Four of the Apocalypse (Lucio Fulci: 1975) og The Hunting Party, sú sem er hér til umfjöllunar.
Bófarnir eru margir óheflaðir misindismenn sem nauðga og drepa eftir því sem þeim best líkar hverju sinni, en frammámenn samfélagsins reyndast jafnvel enn grimmari þegar á reynir, ekki síst eiginmaður kennslukonunnar. Hann nýtur þess að kvelja þær konur sem hann sefur hjá og auðsýnir eiginkonu sinni hina mestu fyrirlitningu. Samt getur hann ekki afborið tilhugsunina um að ótíndir bófar kunni að nauðga henni og tekur því sem svívirðingu gegn sér. Fyrir vikið unir hann sér ekki hvíldar fyrr en hann hefur leitað uppi alla bófana og fellt þá og er kona hans þar ekki undan skilin eftir að hann kemst að því hvaða hug hún ber til bófaforingjans.
Leikararnir eru flestir góðir, ekki síst Oliver Reed sem ólæsi bófaforinginn sem þráir betra hlutskipti og Gene Hackman í hlutverki stórbóndans grimma. Báðir þessir leikarar eiga einstaklega auðvelt með að bregða sér í hlutverk valdboðshneigðra áhrifamanna með mikla persónutöfra. Ýmsir kunnir skapgerðarleikarar í aukahlutverkum koma einnig við sögu í myndinni og skila sínu með ágætum, einkum þó Simon Oakland og G.D. Spradlin.
Myndin er að mörgu leyti vel gerð og er tónlist Ítalans Riz Ortolani sérstaklega fín, en hann er einn af þekktustu tónskáldum spaghettí-vestranna á eftir Ennio Morricone. Ekki er þó laust við að kvikmyndir Sam Peckinpah komi upp í hugann við áhorfun myndarinnar, enda svífur andi hans þar yfir vötnunum í bæði kvikmyndastílnum og klippingunum. Myndin var tekin öll í Almeira á Spáni þar sem ófáir spaghettí-vestrar voru gerðir.
Vegna þess hversu hrottfengin myndin er hefur hún oftast verið sýnd í verulega styttum útgáfum. Meðal þess sem klippt hefur verið í burt eða stytt er nærmynd af kú sem er slátrað í myndarbyrjun, atriði þar sem stórbóndinn kvelur nakta kínverska vændiskonu með logandi vindli, barsmíðar við nauðgunartilraun, nokkur blóðug manndráp og ill meðferð á hesti þar sem hann steypist fram yfir sig á miklum spretti. Öll þessi atriði eru hins vegar í íslensku myndbandsútgáfunni frá Tefli hf., sem bönnuð er börnum yngri en 16 ára samkvæmt kvikmyndaeftirliti ríkisins.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Stórbóndinn grimmi vanvirðir ekki bara helgi lífsins heldur líka trúna. Þegar hann heldur af stað í veiðiferðina sýnir hann félögum sínum nýja tegund af riffli sem er tvöfalt langdrægari en gömlu Winchester-rifflarnir og segir hróðugur:„Kristur sjálfur gæti ekki skotið af lengra færi!“
Kennslukonan er skiljanlega allt annað en sátt við að hafa verið rænt og bætir það ekki skap hennar þótt í ljós komi að tilgangurinn hafi verið sá að fá hana til að kenna bófaforingjanum að lesa og skrifa. Hún segir því fokvond við hann: „Hver heldur þú að þú sért? Þykist þú vera Drottinn almáttugur? Rænir þeim sem þú villt, gerir hvað sem þú villt! Þú ert villidýr!“ Engu að síður fer hún smám saman að meta bófaforingjann að verðleikum og verður ástfangin af honum, jafnvel þótt hann hafi nauðgað henni fljótlega eftir að hafa rænt henni. Það eru ekki síst vegna þessara sinnaskipta kennslukonunnar sem myndin hefur verið gagnrýnd hvað mest.
Persónur úr trúarritum: Jesús Kristur, Drottinn
Guðfræðistef: guðlast, almætti Drottins
Siðfræðistef: manndráp, nauðgun, ofbeldi, mannrán, framhjáhald, svall, kvalarlosti, pyntingar, vændi, afbrýðisemi, ást, þráhyggja, sjálfsvíg
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: kirkjuklukknahringing, sálmasöngur, bæn