Leikstjórn: Søren Kragh-Jacobsen
Handrit: John Goldsmith og Tony Grisoni, byggt á sögu eftir Uri Orlev
Leikarar: Jordan Kiziuk, Patrick Bergin, Jacob Rasmussen, Jack Warden, James Bolam, Simon Gregor, Lee Ross, Michael Byrne, Heather Tobias, Suzanna Hamilton og Sian Nicola Liquorish
Upprunaland: Danmörk, Þýskaland og Bretland
Ár: 1997
Lengd: 107mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Hinn ellefu ára Alex (Jordan Kiziuk) sleppur undan SS-sveitum nasista þegar faðir hans og frændi eru teknir höndum og fluttir á brott úr gettóinu í Varsjá. Mjög fáir Gyðingar eru þá eftir í gettóinu en Alex felur sig í holu undir hálfhrundu húsi þar sem hann býr um sig, dregur að sér ýmsa gagnlega muni úr yfirgefnum íbúðum og heldur baráttuþreki sínu í þeirri einlægu von og trú að Stefan faðir hans (Patrick Bergin) muni koma og sækja hann eins og hann hafði lofað.
Almennt um myndina:
Leikstjóri myndarinnar er Daninn Søren Kragh-Jacobsen, sem er m.a. þekktur fyrir myndir sínar „Drengirnir frá St. Petri” og „Sjáðu sæta naflann minn”. Leikararnir koma frá ýmsum löndum og er myndin einkum fjármögnuð af Bretum, Hollendingum og Þjóðverjum. Hún er tekin í Póllandi og Þýskalandi en er með ensku tali að öðru leyti en því að Þjóðverjarnir eru látnir tala þýsku. Þar sem leikararnir eru af ýmsu þjóðerni er framburður þeirra á enskunni talsvert mismunandi. Hér er því um alþjóðlega kvikmynd að ræða og e.t.v. hefur ætlun leikstjórans einmitt verið að sýna með þessu víddina í óhugnaði nasismans og helfarar þeirra.
Margt er vel gert í þessari athyglisverðu mynd og það er góð hugmynd að nýta söguna af Róbinson Krúsó á þann hátt sem gert er. Raunar fannst mér sem vinna hefði mátt enn betur með þá snjöllu hugmynd þó að ég skuli viðurkenna að þegar ég horfði á myndina öðru sinni fannst mér Róbinson Krúsó gegna jafnvel stærra hlutverki en ég hafði gert mér grein fyrir við fyrsta áhorf. „Eyjan” í heiti myndarinnar vísar t.d. strax á söguna. Felustaður Alexar er eins og eyðieyja skipbrotsmanns þar sem hann bíður björgunar. Músin Snjór er hliðstæða við Frjádag og talar Alex oft við hana um hættuna sem stafar af „mannætunum” þarna úti. Músin reynist Alexi ekki aðeins félagsskapur heldur hjálpar hún honum að hafa mat sem leynist enn í sumum hinna yfirgefnu íbúða.
Ég minnist þess einhvern tímann að hafa heyrt viðtal við leikkonuna Betty Davis þar sem hún lagði áherslu á að kvikmyndirnar ættu að vera ævintýralegri en lífið sjálft. Það má vissulega segja um þessa mynd því að hlutskipti fárra Gyðinga í helförinni var að komast undan, allra síst barna sem þurftu að bjarga sér ein og yfirgefin.
Margt í þessari mynd er sannarlega með ævintýralegum blæ og heldur ótrúverðugt. Á móti má segja að kraftaverk hafi þurft til að lifa slíka vist af eins og Alex gerir og að ekkert hafi verið trúlegt við að slíkt gæti gerst.
Séð hef ég þá gagnrýni á myndina að betra hefði verið að taka hana í svart-hvítu. Ég er ekki sammála því. Litanotkunin þjónar tvímælalaust tilgangi í myndinni, ekki síst með því að skerpa muninn á hinni óhugnanlegu tilveru innan gettósins og hins daglega lífs handan múranna. Þennan mun sjáum við m.a. úr fylgsni Alexar og í gegnum sjónauka hans.
Vel má tala um innrím í þessari mynd á þann veg að eitt atriði er alloft látið ríma við annað á áhrifaríkan hátt og með svipuðum hætti og Hilmar Oddsson sýndi okkur fram á að ætti við um mynd hans Kaldaljós á afmælissýningu Deus ex cinema nýverið.
Tónlistin í myndinni er eftir Pólverjann Zbigniew Preisner, sem vann alloft með hinum kunna leikstjóra Krzysztof Kieslowski. Meginstefið er sérlega fallegt og fellur mjög vel að myndinni.
Myndin er byggð á áhrifaríkri skáldsögu Uri Novels sem er að hluta til sögð byggð á hans eigin reynslu.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Myndin byrjar á ósköp hefðbundinn hátt þegar um helfararmynd er að ræða. Byssuskot heyrast og SS-sveitir storma inn í gettó þar sem Gyðingum er smalað saman af mikilli harðneskju og grimmd, eftir að „valið” (selection) hefur átt sér stað. Þeir eru síðan reknir upp í flutningabíl sem flytur þá á ókunnan áfangastað. Það er hins vegar óvenjulegt við myndina að áhorfendur hennar fá aldrei að sjá útrýmingarbúðir heldur sýnir hún fyrst og fremst sjónarhorn hins ellefu ára Alexar. Að því leyti minnir myndin á hina margverðlaunuðu kvikmynd Romans Polanskis Píanóleikarann (2002) sem lýsir einnig einsemd og einangrun manns sem lifði af veruna í gettóinu og komst undan.
Aðalpersóna þessarar myndar er barn. Þrátt fyrir það er myndin ekki eins óhugnanleg og margar eða flestar helfararmyndir. Ástæðan er ekki síst fólgin í þeirri von sem hún boðar. Hún greinir frá því sem var undantekning frá reglunni í helförinni, þ.e. ungum gyðingadreng sem komst af. Annars fáum við í upphafi myndarinnar dálitla innsýn í líf barnanna í gettóinu. Foreldrarnir voru í vinnu og „við krakkarnir þurftum að passa okkur sjálf á daginn” eins og Alex orðar það sem sögumaður. Að sjálfsögðu voru líkurnar hverfandi litlar á því að ellefu ára drengur gæti komist undan einn síns liðs í gettóinu eftir eyðingu þess því að SS-sveitirnar leituðu reglulega að fólki sem kunni að hafa falið sig í rústum þess. Líkurnar á því að faðir hans, sem fluttur hafði verið burt af SS-mönnum, kæmi til baka voru sömuleiðis harla litlar.
Það eru einkum fernt sem heldur lífinu í Alex: (1) Óbilandi trú hans á að faðir hans muni koma og sækja hann, (2) bókin af Róbinson Krúsó sem dregur úr einsemd hans auk þess að kenna honum ýmislegt um hvernig komast megi af við vonlitlar aðstæður og (3) loks er félagsskapur lítillar, hvítrar músar sem Alex nefnir Snjó. (4) Og auðvitað þurfti fjórða atriðið að koma til, þ.e. einfaldlega heppni.
Faðir Alexar og Boruch, frændi hans (Jack Warden), vitja hans í draumi þar sem frændi hans segir: „Hlébarðar geta ekki klifið tré.” Merking draumsins lýkst upp fyrir Alexi daginn eftir þegar hann sér í gegnum sjónauka dúfur óhultar uppi á turni. Það verður til þess að hann flytur úr holunni og upp á efstu hæð í hálfhrundu húsi. Þangað var ekki unnt að komast nema með kaðalstiga sem Alex útbýr sér og nýtir þar þekkingu sem Borch gamli frændi hans hafði veitt honum í hvernig hnýta skyldi trausta hnúta úr snæri.
Þessi breyting á vistarverum skiptir sköpum í myndinni. Þaðan fær Alex útsýni yfir múrinn og yfir til lífsins handan hans. Það kemur líka á daginn að flutningurinn mátti ekki verða öllu seinna. Rétt á eftir storma SS-sveitir eina ferðina enn inn í gettóið og finna tólf manna fjölskyldu í fylgsni skammt frá holunni þar sem Alex hafði búið sér skjól. Þrátt fyrir að líf Alexar í felum sé að sjálfsögðu ósköp tilbreytingalítið þá drífur ýmislegt á daga hans. Hann verður meira að segja þýskum hermanni að bana með byssu sem faðir hans hafði eftirlátið honum og sagt honum til um hvernig ætti að nota. Þannig bjargar hann tveimur andspyrnumönnum sem ella hefði verið bráður bani búinn og hjúkrar öðrum þeirra meira að segja dögum saman. Alex kemst einnig í samband við velviljað fólk utan gettósins og á í tvígang kost á að komast í burtu en hann kýs að dvelja áfram sem næst holunni þar sem faðir hans vissi síðast af honum. Svo sannfærður er hann um að faðir hans snúi aftur til að sækja hann enda hafði hann kvatt hann með orðunum: „Bíddu mín, sama hvað gerist.” Sú von átti heldur ekki eftir að verða sér til skammar.
Trúarleg stef eru vissulega til staðar í myndinni eins og yfirleitt í helfararmyndum. Hér verða þó ekki gerðar að umtalsefni allar þær fjölmörgu siðferðispurningar sem jafnan vakna þegar helförina ber á góma á einn eða annan hátt: Gott og illt takast á. Ólýsanleg grimmd andspænis fórnandi kærleika og ást.
Verndargripur Alexar í myndinni er eitt þekktasta trúartákn gyðingdómsins, þ.e. mesúsan svokallaða (hylki sem trúaðar Gyðingar festa á dyrastafi híbýla sinna). Eitt sinn er hann heyrir í fylgsni sínu torkennilegt hljóð út úr myrkrinu heldur hann mesúsunni á lofti fyrir framan sig eins og í varnarskyni. Loks notar hann hylki þetta eins og legstein á gröf músarinnar er hún deyr í lok myndarinnar. Boruch frændi Alexar hafði gefið honum mesúsuna með orðunum: „Hafðu gamla verndargripinn hjá þér, hann verndar þig gegn illum öflum.”
Alex lærir latnesku orðin ‚Dominus vobiscum‘ (Drottinn sé með yður) og ‚et cum spiritu tuo‘ (og með þínum anda) til að geta sýnt, ef á þyrfti að halda, að hann geti varla verið Gyðingur. Þegar Alex hefur flust úr holunni upp í nýtt fylgsni á efstu hæð hússins byrjar hann á nýju tímatali og merkir með eldspýtu: ‚Fyrsti dagur.‘ Þó að skyldleikinn hér sé augljós við söguna af Róbinson Krúsó skapar þetta atriði myndarinnar ekki síður hugrenningatengsl við sköpunarsögu Biblíunnar (1M 1:4). Alex er tekinn að skapa sinn eigin heim úr óreiðunni, dálítinn kosmos úr þeim kaos sem umlykur hann. Áhorfandinn fyllist á þessari stundu aukinni von fyrir hönd Alexar, að hið góða kunni að eiga einhverja von andspænis illskunni.
Þegar Alex verður þýskum hermanni að bana verður hann mjög miður sín – raunar enn niðurdregnari en í flestum tilfellum öðrum þrátt fyrir það hversu mikið hafði bjátað á hjá honum. Andspyrnumaðurinn sem hann bjargaði með því að drepa SS-manninn spyr þá hvað að honum ami. Hann svarar: ‚Ég drap hann.‘ Auðvitað hefur ungi Gyðingadrengurinn kunnað boðorðin sín og því má sjá hér óbeina tilvísun í boðorðið: „Þú skalt ekki morð fremja“ (2M 20:13).
Mér hefur fyrir löngu lærst að þegar epli eru notuð í kvikmyndum þá er það nánast aldrei gert af tilviljun heldur er langoftast um trúarlega skírskotun að ræða til paradísarsögunnar (syndafallssögunnar) beint eða óbeint. Epli koma fyrir á áhugaverðan hátt í þessari mynd. Þegar Alex er í fyrsta sinn kominn út úr gettóinu í gegnum göng sem andspyrnumaður hafði sýnt honum þá er það fyrsta sem verður á vegi hans kassi fullur af eplum og tekur hann eitt þeirra. Mér hefur virst að í kvikmyndum standi epli yfirleitt fyrir (1) ást og tilhugalíf, (2) hættuástand eða (3) synd, t.d. þannig að sjáist sögupersóna borða epli megi allt eins búast við að hún reynist morðingi eða eitthvað slíkt. Í þessu tilfelli held ég að fyrsti og annar liðurinn eigi báðir við. Alex er kominn út úr gettóinu og borðar epli sem táknar þá hættu sem hann er nú kominn í. Það kemur enda á daginn að hættan stafar ekki bara frá SS-mönnum heldur allt eins Pólverjum. Þannig er það vissulega í raunveruleikanum. Táningskrakkar elta Alex brátt uppi og hrópa á eftir honum ‚litli júðafiskur‘, en þá er það vinkona hans Stasya sem kemur honum til hjálpar. Hana hafði Alex oft séð í gegnum sjónauka sinn þar sem hún var úti í glugga handan múrsins. Þegar hann hittir hana svo inni í bakaríi bítur hann í epli. Það er mér vísbending um ást þeirra á milli eða a.m.k. náið vináttusamband enda reynist hún honum sönn hjálparhella og segir hann vera frænda sinn þegar pólsku krakkarnir ætla að lúskra á honum. Síðan tekur hún hann heim til sín og móðir hans býður honum að koma með þeim upp í sveit, sem hann raunar afþakkar. Hann vill heldur bíða föður síns.
Vel má svo tala um eins konar upprisu í niðurlagi myndarinnar þegar Alex sem á nýjan leik er kominn í holuna sína — sem að þessu sinni er auð og tóm — rís upp úr henni til móts við föður sinn þegar öll von virðist úti.
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 1:4, 2M 20:13
Guðfræðistef: ‚Dominus vobiscum‘ (Drottinn sé með yður), frelsun, trú, von, kærleikur, traust, sköpun, upprisa
Siðfræðistef: stríð, helförin, morð, fórn, kynþáttahatur
Trúarbrögð: gyðingdómur, nasismi, kristni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, skriftastóll, altari
Trúarleg tákn: Davíðsstjarna, mesúsa, róðukross, maríulíkneski, kristslíkneski, epli, hakakross
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: syndajátning, signun, greftrun