Kvikmyndir

The Knock Out Cop

Leikstjórn: Steno
Handrit: Adriano Bolzoni, Rainer Brandt, Giovanni Simonelli og Franco Verucci
Leikarar: Bud Spencer, Dagmar Lassander, Werner Pochath, Enzo Cannavale, Joe Stewardson, Baldwyn Dakile, Giovanni Cianfriglia, Carel Trichardt, Desmond Thompson, Ottaviano Dell’Acqua, Antonio Allocca og Giancarlo Bastianoni
Upprunaland: Ítalía og Þýzkaland
Ár: 1977
Lengd: 109mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var 1.85:1)
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Ítalskur lögregluforingi flettir ofan af demantaþjófum og eiturlyfjasmyglurum í Suður-Afríku.

Almennt um myndina:
Hefðbundin ítölsk-þýzk gamanmynd með Bud Spencer sem lemur hnefanum oftar en ekki beint ofan á kollinn á skúrkunum og slær þá þannig í rot. Lífsspeki hans er einföld: „Lemdu fyrst og spurðu svo!“

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Ítalska lögreglan beitir öllum ráðum til að koma höndum yfir glæpalýðinn, sem ógnar heiðvirðum borgurum á götum úti, t.d. með því að dulbúast sem nunnur. Þannig lemur ein löggan dulbúin sem nunna nokkra bófa sundur og saman í strætisvagni í upphafi myndarinnar.

Í Suður-Afríku lítur munaðarlaus ungur blökkudrengur mjög upp til ítalska lögregluforingjans og kallar hann í sífellu Kiru eftir nautsterkum afrískum fjallaguði. Drengurinn neitar hins vegar að dveljast til lengdar hjá seinheppnum félaga lögregluforingjans með þeim orðum að hann sé enginn guð eins og Kiru.

Sjálfur ákallar seinheppni félaginn jafnan dýrlinginn San Gennaro þegar eitthvað bjátar á. T.d. biður hann dýrlinginn ákaft um kraftarverk þegar skúrkarnir loka hann ásamt lögregluforingjanum niðri í tómri ljónagryfju. Blökkudrengurinn, sem virðist geta komist hvert sem er án nokkurrar fyrirhafnar, birtist þá umsvifalaust með lyklana að dýflissunni og bjargar þeim burt, en félaginn heldur um tíma að þar sé dýrlingurinn mættur holdi klæddur.

Persónur úr trúarritum: afríski fjallaguðinn Kiru, draugur, dýrlingurinn San Gennaro
Guðfræðistef: helgispjöll, dauðinn, handanveruleikinn
Siðfræðistef: ofbeldi, morð, morðtilraun, þjófnaður, pyntingar, eiturlyfjasmygl
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg embætti: nunna, prestur, galdralæknir
Trúarlegt atferli og siðir: bæn
Trúarleg reynsla: bænheyrsla, kraftaverk