Kvikmyndir

The Legend of 1900

Leikstjórn: Giuseppe Tornatore
Handrit: Alessandro Baricco
Leikarar: Tim Roth, Pruitt Taylor Vince, Clarence Williams III, Bill Nunn, Mélanie Thierry, Easton Gage, Cory Buck, Peter Vaughan, Niall O´Brien, Alberto Vasquez, Gabriele Lavia, Vernom Nurse, Harry Ditson, Norkio Aida og Norman Chancer
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1998
Hlutföll: www.imdb.com/Title?0120731
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Trompetleikari kemur inn í verslun ensks veðmangara skömmu eftir seinni heimsstyrjöldina og hyggst selja trompetinn sinn. Veðmangarinn kannast við laglínu sem hann leikur á trompetinn í kveðjuskyni því hann átti það á upptöku á vaxplötu með óþekktum píanóleikara. Trompetleikarinn getur sagt honum sögu píanóleikarans því þeir höfðu kynnst um borð í millilandaskipinu Virginíu sem sigldi milli Englands og Bandaríkjanna á fyrri hluta 20. aldar.

Píanóleikarinn hafði verið skilinn eftir nýfæddur um borð í skipinu og tekinn í fóstur af einum af kyndurum þess. Honum var gefið nafnið Danny Boodman T.D. Lemons 1900 en var almennt kallaður 1900 í höfuðið á árinu sem hann fæddist. Hann elst síðan upp um borð í skipinu og þegar fram líða stundir kemur í ljós að hann er undrabarn í píanóleik. Á endanum verður hann hluti af hljómsveit skipsins og leikur fyrir farþegana og orðstír hans breiðist út. Þrátt fyrir hæfileika sína og hvatningu frá vini sínum trompetleikaranum getur hann ekki hugsað sér að fara í land og reyna þar fyrir sér. Hann lifir því alla ævi um borð í skipinu og þegar það hættir að sigla milli Evrópu og Ameríku og er tekið til niðurrifs hrynur veröld hans.

Almennt um myndina:
Paradísarbíóið (Nuovo Cinema Paradiso) frá árinu 1988 er langþekktust mynda ítalska kvikmyndaleikstjórans Giuseppe Tornatore, en hún fékk Óskarsverðlaunin sem besta erlenda myndin árið 1990. Kvikmyndin The Legend of 1900 er frá árinu 1998 og hefur ekki náð nærri eins langt og Paradísarbíóið, en hún var þó sýnd á kvikmyndahátíð hér á landi á sínum tíma. Hún þykir segja frumlega og skemmtilega sögu um snilling sem virtist geta allt nema það að lifa venjulegu lífi. Þá hefur myndin að geyma frábæra tónlist.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin The Legend of 1900 felur í sér heimspekilegar vangaveltur um tilveru manns sem lifir alla sína ævi um borð í skipi. Skipið verður því táknmynd veraldarinnar sem hann lifir í. Það er veröld sem hann þekkir og getur tekist á við en í landi er önnur veröld sem er alltof stór og flókin fyrir hann. Þegar skipinu er lagt og það tekið til niðurrifs verða nokkurs konar heimsslit í lífi þessa manns sem hann þarf að horfast í augu við. Þegar vinur hans, trompetleikarinn, reynir að telja hann á að fara frá borði áður en skipsskrokknum er sökkt eiga þeir athyglisvert samtal sín á milli um lífið og tilveruna. Þar kallar 1900 veröldina „píanó Guðs“ og hann veltir fyrir sér stöðu manns sem hefur ekki búið í neinu landi og er hvergi til á skrá. Hann veltir því meira að segja fyrir sér hvort og hvernig eins fáránlegt nafn og 1900 sé skráð í lífsins bók á himnum (sbr. Lk 10.20 og Opb 3.5).

Myndin er því í vissum skilningi heimsslitamynd, a.m.k. í lífi eins manns. E.t.v. má segja að sú skýrskotun sé víðtækari því staðreyndin er sú að farþegastraumurinn liggur frá hinum gamla heimi Evrópu til hins nýja í Ameríku. Farþegarnir eru því að kveðja veröld sem var og ætla sér að takast á við nýja. Munurinn á þeim og píanóleikaranum er hins vegar sá að hann gat ekki hugsað sér að kveðja sinn gamla heim til að takast á við nýjan. Þess vegna ferst hann með þeirri veröld sem honum var ómögulegt að segja skilið við. Í Nýja testamentinu er horft fram til nýrrar veraldar guðsríkisins þar sem hinn fyrri heimur er horfinn og nýr tekið við (sbr. Opb 21.1nn). Í því samhengi snýst spurningin um að tilheyra hinni nýju veröld guðsríkisins.

The Legend of 1900 er eitt dæmi af mörgum um kvikmynd þar sem Sálmur 23 er lesinn í tengslum við útför. Hann er lesinn að hluta þegar látinn er kvaddur um borð í skipinu áður en hann fær vota gröf.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Sl 23, Lk 10.20, Opb 3.5, 20.15
Persónur úr trúarritum: Guð
Guðfræðistef: heimsslit
Trúarlegt atferli og siðir: útför