Kvikmyndir

The Lord of the Rings: The Return of the King

Leikstjórn: Peter Jackson
Handrit: Fran Walsh, Phillippa Boyen og Peter Jackson, byggt á skáldsögu eftir J.R.R. Tolkien
Leikarar: Elijah Wood, Sean Astin, Orlando Bloom, Viggo Mortensen, Ian McKellen, Andy Serkis, Billy Boyd, Dominic Monaghan, John Noble, Mirando Otto, David Weham, Bruce Hopkins, Bernhard Hill, Liv Tyler, Hugo Weaving, Cate Blanchett, John Rhys Davies og Karl Urban
Upprunaland: Nýja Sjáland og Bandaríkin
Ár: 2003
Lengd: 192mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Lokaorrustan um Miðgarð er hafin. Fróði og Sómi, undir leiðsögn Gollris, halda áfram hættulegri ferð sinni í átt að eldum Dómsdyngju til að tortíma hringnum eina. Aragorn berst við að uppfylla arfleið sína er hann leiðir örmagna her sinn gegn vaxandi mætti Sargons Myrkradróttins til þess að hringberinn geti lokið för sinni.

Almennt um myndina:
Þegar fyrsta bindi Hringadróttinssögu kom út árið 1954 fögnuðu lesendur þessu tímamótaverki. Bækur Tolkiens áttu eftir að fara sigurför um heiminn og því ekki að undra að þríleikur Peters Jackson feti í sömu fótspor. Það er ljóst að Peter Jakson hefur unnið afrek í að koma til áhorfenda stórbrotnasta verki sem nokkru sinni hefur verið kvikmyndað. Peter Jackson hefur unnið við myndina 16 stundir á dag í fimm ár. Heill her af leikurum, tæknimönnum, búningahönnuðum, listamönnum og stadistum sem eru um 26 þúsund talsins, hafa unnið sem einn maður að gera þennan draum Jacksons að veruleika. (Sjá: www.hollywoodjesus.com/lotr_returne.htm.)

Myndin er svo mögnuð að ég vil staðhæfa það að Fellowship of the Ring og The Two Towers voru aðeins upphitanir. Þetta hljómar einkennilega því að hinar tvær voru hrein snilldarverk, en þær höfðu jafnframt galla sem lokamyndin sleppur algjörlega við. Fyrsta myndin var á stundum langdregin og sú síðari leið fyrir að vera með hvorki upphaf né endi, þannig að áhorfandinn var í rauninni í lausu lofti megnið af þeirri mynd. Sem dæmi um sérstöðu The Returne of the King er hægt að benda á að venjuleg mynd inniheldur um 200 myndskeið eða senur. Þessi mynd inniheldur 1488. Í fyrstu myndinni voru um 560 tæknibrellur, Two Towers hafði 800 og The Returne of the King 1500. (Sjá: www.imdb.com/title/tt0405185/.)

Jafnframt nær frammistaða leikara hámarki í þessari síðustu mynd. Elijah Wood og Sean Astin hafa aldrei áður verið eins kröftugir, og sama má eiginlega segja um Viggo Mortensen, Ian McKellen og Andy Serkins sem sýnir snilldartakta í túlkun sinni á persónu Grollins. Að ógleymdum John Noble sem leikur Dynólf, hinn syrgjandi föður.

Það eina sem ég hef út á myndina að setja er samspil tónlistar og klippingar. Að mínu mati er tónlistin sjálf stórkostleg, hins vegar verður myndin afar fyrirsjáanleg þegar sigurstef tónlistarinnar byrjar að hljóma þegar hámark senunnar er og það dregur úr spennunni. Það er eins og klipping og tónlist nái ekki saman að þessu leyti. Klipping og myndartaka skipa einn stærsta þáttinn í að gera mynd góða að mínu mati. Vissulega verða allir þættir að ná saman til að skapa samsvarandi meistaraverk og The Return of the King er. Hins vegar er það klippingin sem ræður söguþráðinum og gerir myndina að því sem hún er. Þrátt fyrir þessa hnökra varðandi tónlistina, þá nær myndin að halda manni föngum frá upphafi til enda. Samspil klippingar og myndartöku myndar samfellt flæði sem skilar sögunni á magnþrunginn hátt til áhorfanda.

Í fyrsta sinn í sögunni eru þrjár myndir kvikmyndaðar sem ein. Myndirnar þrjár voru allar teknar upp í einum rykk, sem eflaust skýrir þessa samfellu. Hins vegar ætti það líka að segja til um hversu mikið verk var að setja þessa þætti saman, því að lokaatriði myndarinnar var t.d tekið upp með fyrstu upphafstökum á þríleiknum.

Myndin hefur unnið fjölda verðlauna og þ.a.m vann hún 11 óskarsverðlaun, sem besta myndin, fyrir leikstjórn, listræna stjórnun, tæknibrellur, handrit sem byggt er á áður birtu efni, klippingu, förðun, hljóðblöndun, tónlist og lag. (Sjá: http://www.lordoftherings.net/film/trilogy/.) Myndin er einnig í öðru sæti á topp 250 lista um bestu kvikmyndir frá upphafi á Imdb.com, á eftir Guðföðurnum. Hlaut 9 í einkunn eins og Guðfaðirinn, sem sýnir að flestir áhorfendur eru á sama máli og kvikmyndaakademían. (Sjá: www.imdb.com.)

Það má því með sanni segja að þessi mynd býður áhorfendum til veislu, þar sem boðið er upp á dýrindis kræsingar, í formi tæknibrellna, búninga og bardagasena en jafnframt spilar hún á allan tilfinningaskalann, allt frá hinni mestu gleði til dýpstu örvæntingar.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þegar ég byrjaði að horfa á myndirnar út frá guðfræðilegum áherslum þá fannst mér ansi langsótt að finna einhver guðfræðistef. Í myndunum þremur kemur hvergi fyrir orðið Guð og á meðal milljón orða Hringadróttinssögu kemur aldrei fyrir orðið Guð. Miðgarður virðist vera guðlaus veröld. Engar kirkjur eða kapellur er að finna í Miðgarði, engin augljós trúartákn eða bænir. Hins vegar er í mínum huga augljóst að guðleg náð ríkir yfir Miðgarði. Persónurnar lifa í veröld þar sem töfrar eru raunverulegir, þar sem trú, von og kærleikur geta látið atburði gerast. Þessi þrenning getur yfirstigið raunveruleikann og jafnvel orsakalögmálið. Meginkjarni myndarinnar er barátta góðs og ills, en sagan er einnig um fórn, freistingu og frjálsan vilja, sem að mínu mati sýna að andi trúarinnar svífi yfir vötnum. Siðferðisstefin eru því líka fjölmörg.

Við nánari skoðun inniheldur The Return of The King mikið af trúar- og siðferðisstefjum. Myndin nær hámarki á flestum sviðum miðað við hinar tvær á undan og þessi stef eru engin undartekning. Sem þríleikur fjalla allar myndirnar um yfirvofandi heimsslit, þar sem tilveru mannsins er ógnað. Jafnframt er hér á ferðinni ævintýramynd sem er sveipuð hulu goðsagna, sem nær að spyrja áhorfandann krefjandi spurninga. Myndin fjallar um hluti sem hver einasti maður stendur frammi fyrir og á auðvelt með að samsama sig með, eins og vináttu, trausti, ást, tilgangi lífsins, illsku, grimmd, synd og flestar ýtrustu tilvistarspurningar mannsins.

Tolkien var kaþólikki og lifði á tímum mikilla umbreytinga. Heimstyrjöldin síðari var í hámarki og hann var sjálfur kvaddur á stríðsvöllinn í fyrri heimstyrjöldinni og í þeirri síðari barðist sonur hans. Reynsla hans og líf spinnast eðlilega inn í bækurnar og handrit myndanna. Hann hafði sérlega mikinn áhuga á norrænni trú, lærði íslensku og vann álfamálið sem hann bjó til fyrir Hringadróttinssögu út frá íslensku og finnsku. Trúin var mikill drifkraftur í lífi hans. Hann krafðist þess að Edith kona hans tæki upp kaþólska trú áður en hann giftist henni og hann átti í miklum guðfræðilegum samræðum við félaga sína í „Blekbændunum,“ en þeir hittust reglulega og lásu fyrir hvorn annan verkin sem þeir voru að vinna, íslendingasögur og klassísk ensk fræði. Í gegnum allt sitt líf sinnti hann trú sinni af nærgætni. (Michael White. Tolkien. Ævisaga. 2001.)

Áhrif frá rómversku kaþólsku kirkjunni þótti mér skýrust í persónusköpun kvennanna sem gegna litlu en veigamiklu hlutverki í myndunum þremur. Arvin, Galadíel og Jóvin minna allar á Maríu mey, en þó með ólíkum hætti. Arvin er nokkurs konar anima, ímynd hinnar flekklausu og dáðu guðsmóður. Jafnframt er hún ódauðleg, en afsalar sér dauðleika sínum af ást til Aragons. Hún er einnig drifkraftur Aragons og þegar hann er að gefast upp, birtist Arvin í draumi og hvetur hann til þess að halda áfram. Faðir Arvin kemur jafnframt til hans á ögurstundu, með endurgert sverð konungsins af Gondors og hvetur hann til að gangast við hlutverki sínu og berjast. Eldron segir honum að máttur Arvinar fari þverrandi eftir því sem illska Saurgon eykst. Eftir þetta atriði verður kúvending á Aragon, hann endurheimtir von sína og kraft, óttast ekki dauðann og tekur á móti arfleið sinni og því hlutverki sem honum var ætlað.

Galadríel er önnur tegund heilagrar guðsmóður. Það sést greinilega í eftirfarandi tveim atriðum. Annars vegar þegar Fróði er að bugast í hellinum eftir bardagann við risavaxna kónguló og er gjörsamlega örmagna. Hann sér Galadríel í sýn, þar sem hún reisir hann upp og hvetur hann áfram. Hún segir að Fróði einn geti fundið leiðina, það er hlutverk hans að bera hringinn og engin annar geti gengt því hlutverki. Hún kemur líka fram í lokin í síðustu för álfanna í annan heim, tekur á móti farþegum með útbreiddan faðminn, sem minnir óneitanlega á kristnar íkonamyndir.

Jóvin sýnir líka að það sem enginn lifandi maður geti framkvæmt, gerir hún vegna þess að hún er kona. Allar þessar konur eiga það sameiginlegt að láta lítið fyrir sér fara í myndinni, en birtast á ögurstundu og breyta gangi mála.

Aðrar áhugaverðar hliðstæður við kristna trú er t.d í byrjunarskoti myndarinnar þar sem Smjagall og Djagall eru saman að veiða. Smjagall handleikur orm sem beitu á öngulinn. Ormurinn er hér áhugaverð hliðstæða við höggorminn og fall mannsins í 1M 3. Ormurinn veiðir fiskinn sem dregur Djagall út í vatnið þar sem hann finnur hringinn. Smjagall drepur svo frænda sinn til þess að komast yfir djásnið. Hliðstæða við bróðurmorð Kains og Abels kemur einnig upp í hugann. 1.M 4.1-16, en eftir að Kain drepur bróðir sinn gerir Guð hann landflótta og Kain flakkar um jörðina og þarf að fela sig fyrir augliti Drottins. Smjagall fellur og syndin verður allsráðandi hjá honum. Hobbitarnir ráku hann á brott frá „Paradís“ þar sem náttúran og friðsæld er ríkjandi, inn í „helvíti“ þar sem sektin ákallaði samvisku hans og kallaði hann morðingja. Smjagall talar um sjálfan sig í fleirtölu þar sem tvenns konar öfl togast á í honum. Annars vegar er hann þjakaður af samvisku sinni og hins vegar ræður syndin ríkjum. Eins og Drottinn segir við Kain í 1.M 4:7 að ef hann geri rétt þá muni hann vera upplitsdjarfur, en ef hann gerir ekki rétt, þá liggur syndin við dyrnar hjá honum. Líkt og Kain er hann bannfærður og hrakin á brott, hann grætur yfir einmannaleika sínum. Sekt hans leiðir til þess að hann umbreytist í Grollir og gleymir bragði brauðsins, hljóði trjánna og mýkt vindsins, hann gleymir jafnvel sínu eigin nafni. Illskan hefur sigrað, hann er orðin Grollir. Vald hringsins ræður ríkjum.

Áhugavert er að skoða atriðið þegar Aragon, Legolas og Gimli fara inn í fjallið þar sem her hinna fordæmdu og dauðu ræður ríkjum. Ferð hans þangað endurspeglar hrylling helvítis. Aragon er áhugaverð kristshliðstæða í þessu atriði, hann stígur niður til heljar til að frelsa þá frá tortímingu og glötun. Þeir sem fara inn í fjallið eiga ekki afturkvæmt, en Aragon er ekki venjulegur dauðlegur maður, hann er erfingi konungsríkis Gondors rétt eins og Jesú er erfingi konungsríkis Guðs. Herinn sveik eið sem hann gerði við konung Gondors og hraktist þess vegna inn í fjallið. Þeir eru dauðir en una sér ekki hvíldar, á þá hafa verið lögð álög sem verða ekki rofin fyrr en þeir efna heit sitt við konunginn. Aragon einn getur veitt þeim þennan frið, en fram að því hafa þeir dvalið í hreinsunareldi helvítis. Senan sýnir ríki hinna dauðu í grænum lit sem táknar oft sjúkleika og óeðlilegt ástand.

Þegar Aragon er krýndur auðvelt að finna hliðstæður í Opinberunarbókinni. Hinn huldi konungur verður að lokum opinberaður í mikilli dýrð. Hann er orðin konungur, fólkið gleðst og gefur honum dýrðina. Hann er jafnframt þess verðugur að eignast Arvin og brúður hans hefur búið sig. Gandálfur krýnir hann, eins og sönnum spámanni sæmir og segir að nú hefjist dagar konungsins, megi þeir verða blessaðir. Að mínu mati líkist Gandálfur spámönnum Biblíunnar. Hann er trúr sannfæringu sinni, leiðir þjóðirnar áfram og gagnrýnir ríkjandi stjórn.

Einnig er að finna nokkrar kristshliðstæður hjá Fróða. Hann gengur sinn via dolorosa veg og ber þunga byrgði fyrir allan heiminn. Hann ber hringinn og sú byrgði er þung, eins og Kristur var þjakaður af byrgði krossins. Fróði fórnar sjálfum sér til þess að aðrir megi lifa, og hann einn getur lagt í þessa ferð sem verður mannkyninu til heilla. Þegar hann mætir Selob eða Skellu risavaxinni kónguló, gengur hann í gegnum vissan dauða og upprisu. Fróða er einnig freistað við þrumugný efsta dags, rétt eins og Krists var freistað eftir skírn sína.

Ferðalag Fróða tekur 13 mánuði, hann er síðan í rúm 4 ár í Héraði áður en hann fer í aðra ævintýraferð. Hann dvelur sem sagt í rúm 3 ár á meðal lærisveina sinna, eftir að hann stenst freistingar illra afla. Einnig verð ég að skjóta hér inn í tímasetningar Tolkiens í Hringadróttissögu. Í B viðauka Hringadróttissögu er sagt að föruneytið yfirgefi Rivendell til að hefja för sína þann 25. desember. Dagurinn sem Fróði stenst freistingu sína og nýtt tímabil hefst er þann 25. mars. Í fornensku hefðinni sem var Tolkien afar hugleikin, er 25. mars dagsetning fyrsta föstudagsins langa, daginn sem Kristur er krossfestur. Helstu atburðir sögunnar eiga sér því stað á tímabilinu milli fæðingar Krists (samkvæmt ríkjandi hefð) til dauða hans 25. mars. (Michael White. Tolkien. Ævisaga. 2001.)

Fyrst og fremst fjallar The Return of the King um heimsendi, sem er grunntónn sem aðrir þættir spila eftir. Á þessum ógnartímum stendur maðurinn frammi fyrir ýtrustu tilvistarspurningum lífsins eins og tilgangi hans, eilíft líf, dauða og hvað taki við eftir dauðann. Arvin afsalar sér ódauðleika sínum vegna ástar sinnar til Aragons. Gandálfur gefur Pippin hjartnæma lýsingu af lífinu eftir dauðann og segir honum að dauðinn sé ekki endanlegt ástand og í lok myndarinnar fara álfarnir á skipi sínu inn í annan heim. Tilgangur lífsins byggir á þeim grunni að hafa einhvern tilgang, hver sem hann annars kann að vera, að gefast ekki upp þó að okkur finnist engin önnur leið vera fær.

Leikur John Noble í hlutverki Dynólfs er áberandi dæmi um uppgjöf, vantrú og dýpstu örvæntingu. Sorg hans og sorgarferli sem leiðir til botnlausrar örvæntingar og sturlunar, þar sem hann missir alla dómgreind og hreinlega gefst upp sýnir hvað getur gerst ef við missum vonina. Sorg hans verður svo yfirþyrmandi að hann óskar þess að Faramír eftirlifandi sonur hans hefði dáið í stað Borimírs. Hann játar þessa ósk fyrir Faramír og hvetur hann jafnframt til þess að feta í fótspor bróður síns, sýna sama hugrekki og hann og fara í dauðadæmt stríð við orkana. Maður spyr sig hvort að þetta sé merki um föður sem gerir upp á milli sona sinna á svona afgerandi hátt eða er þetta merki um dýpstu örvæntingu sorgar og þess ferils sem sorgin getur fetað. Ég tel að Dynólfur sé blindaður af sorg sinni, hann sér ekkert ljós í hyldýpi myrkursins, ekki einu sinni eftirlifandi son sinn. Hann hefur engan kraft og enga mótstöðu. Eina orkan sem hann finnur fyrir er reiði og þeirri reiði beinir hann að þeim sem hann elskar og treystir fyrir sínum tilfinningum og það er Faramír eini eftirlifandi sonur hans. Það kemur líka í ljós þegar Faramír kemur nær dauða en lífi til baka. Myrkrið sem umlykur Dynólf er svo svart að hann sér ekki að sonur sinn er enn á lífi og ætlar að brenna hann lifandi og sjálfan sig í leiðinni. Hann hefur glatað öllu, þegar hann er búin að missa vonina þá er ekkert eftir nema dauðinn. Í mínum huga er vonin stærsti þátturinn í þessari mynd, þar sem máttur vináttu, trausts og hugrekki einstaklingsins heldur velli þrátt fyrir eyðileggingarmátt myrkraaflanna.

Tolkien skrifar inn í aðstæður þar sem þjóðarmorð, stríð og eyðilegging áttu sér stað. Stríð er fyrirferðamikið siðferðisþema í myndunum þremur. Við sjáum að okrarnir eru með mikið af stríðsvélum og vopnum og mun meiri áhersla er á tæknilega útfærslu stríðsvéla en hjá bandalagi hringsins. Þeir fara líka í stríð af afar ólíkum ástæðum. Drifkraftur Saurgons er yfirráð og valdagræðgi, en drifkraftur bandalagsins er að sýna samstöðu, hugrekki og að framfylgja þeim eið sem þeir höfðu svarið hvorum öðrum. Markmið Saurgons er að eyða og ná völdum en markmið bandalagsins er að varðveita og verjast. Saurgon stendur fyrir eyðingamætti nútímalífs, hætturnar af tækniframförum, mengun og ofneyslu. Miðgarður er veröld þar sem nútímatækni er víðsfjarri og bandalagið leggur fram sín eigin gildi sem eru vænlegri en hin nútímalegu gildi sem Saurgon stendur fyrir. Þar er hugrekki besta vörnin, en ekki tól eða tæki, völd og græðgi.

Ansdtæða góðs og ills, náttúru og iðnaðar, vináttu og spillingar, efning eiða og svik er það sem myndin leggur upp með og skilar því í orðum, verkum og myndmáli til áhorfandans. Heimsslitin eru sýnd í litum og árstíðum, ljósi og myrkri. Svart og hvítt er notað til að auðkenna gott og illt. Gandálfur notar töfrasprota til að hrekja heri Saurgons á brott því þeir dvelja í myrkri og þola ekki ljósið. Því nær sem dregur Mordor og dyrum Dómsdyngju verða dagarnir dekkri og umhverfið verður eyðilegra. Stjörnurnar hætta að skína og þögnin verður þrúgandi. Gandálfur missir sjónar af Fróða vegna þess að myrkrið verður þykkra því nær sem dregur að vistarverum Saurgons. Fróði og Sámur nota ljós Jarendils, dáðustu stjörnu álfanna í báráttu sinni við Selob, sem lýsir í myrkrinu þegar öll önnur ljós eru slokknuð. Þjóðan og Aragon koma með lið sín þegar birta tekur af degi. Von, sigur og líf eru táknuð með ljósi eða sólarupprás og auðvelt er að finna samsvarandi hliðstæður í Biblíunni og fleiri trúarritum. Í Biblíunni er von og sigur oft táknuð með sólarupprisu og lýsing eða birta breytir óbærilegu ástandi í sigur. Margar myndlíkingar Biblíunnar sýna að lífið er ljós en dauðinn er myrkur. Þar má nefna t.d Sl:27.1, Jh. 1:4-5 og 8.12.

Saurgon er tákn myrkraaflanna, sem geta birst í mörgu. Út frá guðfræðilegum nótum gæti hann verið hinn fallni engill Lúsifer eða djöfullinn og út frá siðfræðilegum nótum gæti Saurgon verið eftirlíking af stríðsbrölti nútímans, græðgi og valdníðslu. Hann stendur fyrir öllu því illa sem við getum ímyndað okkur. Eina leiðin til þess að yfirvinna ógnarvald Saurgons er bandalag hringsins, sem samanstendur af ólíkum kynþáttum. Sameiginlega með seiglu, von og vináttu er lagt í ferð til að stöðva hið illa. Ég tel að hringurinn sem slíkur hafi ekkert vald einn og sér. Hringurinn er tákn vilja Saurgons sem skapaði hann og hellti í hann grimmd sinni, illgirni og valdagræðgi. Hringurinn eini hefur það hlutverk að hann knýr alla þá sem hafa hann undir höndum til að taka afstöðu og velja. Þar kemur upp í hugann spurningin um hvernig maðurinn á að standast illsku heimsins? Boðskapur Hringadróttinssögu er að maðurinn hefur val og á tímum fjölhyggjuþjóðfélags getum við lært að ef ólíkir þjóðflokkar standa saman getum við í von, trú og kærleika sigrað allt. Hringurinn getur verið tákn alls sem maðurinn þráir, sem leiðir til þess að hann missir dómgreind sína og skynsemi, verður sjálfhverfur og eigingjarn, gleymir gildi vináttu, trausts og samstöðu.

Fróði, Aragon og Gandálfur sýna áhorfendanum að það er hægt að standast freistingar, það er líka eðlilegt að við föllum í freistni eins og Fróði þarf að standa frammi fyrir. Rauði þráðurinn er hvað gæti gerst ef eyðileggjandi hvatir okkar ná að blómstra og frelsunarboðskapurinn og lausnin felst í því hvernig æskilegar dyggðir okkar geti náð að vinna á þessum hneigðum. Siðferðisboðskapur Krists er mér ofarlega í huga, þar sem hann bendir okkur á að fylgja sér og við munum öðlast eilíft líf, að líkja eftir sér í hógværð og auðmýkt, með trú, von og kærleika að leiðarljósi.

Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 4:2-16, Pd 9:3, Jes 53:4-5, Sl 27.1, 38:5, Mt 10:28, Mt 11:28, Mt 23:33, Jh 1:4-5, 5:25, Jh 8.12 1Kor 15:52, P 2:17, P 12:9, Opb 2:3, Opb 19:5
Persónur úr trúarritum: galdramenn, dvergar, álfar, tröll, spámenn, draugar
Guðfræðistef: dauðinn, eilíft líf, heimsslit, frelsi, kristshliðstæða, mannseðlið, réttlæti, syndin, tilgangur lífsins, barátta góðs og ills, upprisa, vantrú, örlög, sorg og sorgarferli, græðgi
Siðfræðistef: heiðarleiki, stríð, hjálpsemi, morð, náttúruvernd, svik, sjálfsvíg, ofbeldi, illska, ótti, fíkn, vinátta
Trúarbrögð: ásatrú, þjóðtrú
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: hlið helvítis, himnaríki, Miðgarður
Trúarleg tákn: örn, fiskur, galdrastafur, stjarna, kristalskúla
Trúarleg embætti: sjáandi, galdramaður
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, jarðarför, bölvun, særing
Trúarleg reynsla: andsetning, draumar, sýn, endurlausn, köllun, álög