Leikstjórn: Russell Mulcahy
Handrit: Jim Carabatsos
Leikarar: Rick Schroder, Phil McKee, Jamie Harris, Wolf Kahler, Joachim Paul Assböck, Jay Rodan, Adam James, Daniel Caltagirone, Michael Goldstrom, André Vippolis, Rhys Miles Thomas, Arthur Kremer, Michael Brandon og Derek Kueter
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2001
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0287535
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Undir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar tekst bandarískri herdeild að brjótast í gegnum víglínu Þjóðverja í Frakklandi en er síðan umkringd af þeim lengst inni í Argonne skóginum án nokkurra vista í tæpa viku.
Almennt um myndina:
Fjölmargar góðar kvikmyndir hafa verið gerðar um hildarleik fyrri heimsstyrjaldarinnar. Einna mikilvægust er sennilega All Quiet on the Western Front eftir Lewis Milestone frá árinu 1930 enda þótt endurgerðin frá árinu 1979 eftir Delbert Mann verði að teljast betri. Sem dæmi um aðrar góðar fyrri heimsstyrjaldarmyndir mætti nefna Paths of Glory eftir Stanley Kubrick frá árinu 1957, The Blue Max eftir John Guillermin frá árinu 1966 og Trenches of Hell eftir Simon Wincer frá árinu 1999. Allar eiga þessar kvikmyndir það sameiginlegt að draga upp gagnrýna mynd af tilgangslausu blóðbaðinu, sem fæstir vissu ástæðuna fyrir.
Stríðsmyndin The Lost Battalion er sannsöguleg og segir frá majórnum Charles Whittlesey og hermönnum hans, sem tóku þátt í viðamestu hernaðaraðgerðum Bandaríkjamanna frá dögum borgarastyrjaldarinnar. Raunsær stíllinn er í anda nýlegra stríðsmynda á borð við Saving Private Ryan eftir Steven Spielberg frá árinu 1998 og sjónvarpsþáttaröðina The Band of Brothers frá árinu 2001 og er kvikmyndatökuvélin jafnan á fleygiferð í helstu bardagaatriðunum þar sem byssukúlur og sprengjur tæta í sundur hvern mannslíkamann á fætur öðrum. Margt af þessu er vel gert en kvikmyndatökumaðurinn er þó stundum skjálfhentur um of þegar engin ástæða er til.
Enda þótt Whittlesey majór sé jafnan ófeiminn við að tjá yfirboðurunum skoðanir sínar á tilgangslausri sóun þeirra á mannslífum í vafasömum hernaðaraðgerðum, er það samt þrautseigja hans og skilyrðislaus hlýðni sem verður til þess að markinu er að lokum náð. Hér er því um að ræða frekar gamaldags hetjustríðsmynd, enda hetjuskap hermannanna hampað hvað eftir annað og þeir sagðir vera þeir allra bestu bæði fyrr og síðar. Frekar klisjukennd samtöl eru í raun helsti veikleiki kvikmyndarinnar en hún verður engu að síður að teljast fengur fyrir alla áhugamenn um fyrri heimsstyrjöldina og stríðsmyndir almennt.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í lok eins bardagans kemur Whittlesey majór að deyjandi hermanni, sem óskar eftir því að hann lesi fyrir sig úr bænabókinni sinni, sem hann heldur við brjóst sitt. Þar sem bókin er svo gegnsósa af blóði að ekkert sést á síðunum, fer majórinn í staðinn með upphafsorð eins af Sálmum Gamla testamentisins utanbókar en þó eilítið stytt: „Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar. Frelsa mig og bjarga mér eftir réttlæti þínu, hneig eyru þín til mín og hjálpa mér. … því að þú ert bjarg mitt og vígi. … bjarga mér úr hendi illgjarna, undan valdi illvirkja og harðstjóra. Því að þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku.“ (Sálm. 71:1-5.)
Sálmurinn er því notaðar hér til huggunar með viðeigandi hætti, en sem dæmi um aðrar stríðsmyndir þar sem Sálmar Gamla testamentisins koma við sögu mætti nefna Patton eftir Franklin J. Schaffner frá árinu 1970, A Bridge Too Far eftir Richard Attenborough frá árinu 1977 og Saving Private Ryan eftir Steven Spielberg frá árinu 1998.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Sl 71:1-5
Siðfræðistef: stríð, manndráp, hetjuskapur
Trúarbrögð: Gyðingdómur
Trúarleg tákn: bænabók
Trúarlegt atferli og siðir: bæn