Kvikmyndir

The Man Who Wasn’t There

Leikstjórn: Joel Coen
Handrit: Joel Coen og Ethan Coen
Leikarar: Billy Bob Thornton, Frances McDormand, Adam Alexi-Malle, Michael Badalucco, Katherine Borowitz, Richard Jenkins og Scarlett Johansson.
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2001
Lengd: 116mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0243133
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Coen bræður hafa sjaldan verið betri en í þessari mynd. Reyndar hafa þeir oft fengist við Film Noir myndir áður, sbr. Blood Simple og Fargo, en nú ganga þeir alla leið. Myndin er ekki aðeins í svart-hvítu með áberandi notkun ljóss og skugga, heldur má finna í henni öll hefðbundnu stefin úr Film Noir myndunum að húmornum viðbættum. Aldrei hef ég séð eins fyndna Film Noir mynd og þessa.

The Man Who Wasn’t There er á allan hátt stórkostleg kvikmynd og á það sérstaklega við um kvikmyndatökuna, lýsinguna, leikstjórnina og leik Billys Bobs Thornton. Billy Bob leikur ekki Ed Crane, hann er hann.

Ed Crane er frekar uppburðarlítill maður, til að mynda kvæntist hann eiginkonu sinni eftir að hún nældi sér í hann og fékk hann til þess að ganga í það heilaga. Hann hefur aldrei tekið sjálfstæða ákvörðun, enda finnst honum lífið ekki vera þess virði að það taki því. Hann nennir ekki einu sinni að æsa sig yfir því að eiginkona hans skuli ekki vera honum trú, þetta er jú frjálst land. Hann talar lítið og á enga raunverulega vini. Það er nánast eins og hann hafi aldrei verið til.

Dag einn kemur athafnamaður í bæinn og segir Ed frá því að hann hyggist opna hreinsun en vanti bara 10000 dollara til að fjármagna verkið. Í fyrsta skiptið á ævinni ákveður Ed eitthvað sjálfur og býðst til að redda peningunum. Hann skrifar nafnlaust bréf til elskhuga eiginkonu sinnar og hótar að segja frá ef hann reiðir ekki fram 10000 dollara. En með þessari fjárkúgun kemur Ed af stað hryllilegri atburðarás en hann óraði fyrir.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það er í raun fátt um trúarstef í myndinni. Prestar, miðill og geimverur koma við sögu en ekkert af þessu skiptir miklu máli í myndinni.

Eins og flestar Film Noir myndir fjallar The Man Who Wasn’t There um einstakling sem drýgir synd og fer við það úr öskunni í eldinn. Film Noir myndir eru því í eðli sínu siðferðilegar dæmisögur, sem hafa þann boðskap að maður eigi aldrei að stytta sér leið í gegnum lífið með óheiðarleika, slíkt komi alltaf í bakið á manni.

Myndin er einkar áhugaverð frá sjónarhóli trúarlífssálarfræða þar sem hún fjallar um mann sem er í því vel þekkta en jafnframt sérkennilega ástandi að vera ekki þunglyndur, heldur fremur tilfinningalega „dauður“. Hann finnur ekki fyrir miklu, er þess vegna nánast sama um allt og alla og veit af því. Eins og titill myndarinnar ber með sér þá „er hann“ án þess að „vera þar“.

Sumir vilja rekja orsök þessarar tilfinningar (eða tilfinningarleysis) til brostinna tengslamyndunar í frumbernsku. Frá sjónarhóli guðfræðinnar bendir þetta til vanhæfni viðkomandi til að finna fyrir og lifa náð Guðs. Hjá þeim sem þannig er ástatt um sú leið jafnan farinn að gera annað hvort ekkert og dvelja í heimi dagdrauma eða gera eitthvað rótttækt, t.d. að fremja glæp.

Þegar örlögin valda því að Ed Crane fer að feta sig inn á glæpabrautina þá finnur hann í þeim sporum aðeins fyrir því að vera til – örlítinn neista, örlítinn vaxtarbrodd af einhverju öðru en lífvana hári sem sprettur endalaust. Í gegnum sekt og dóm þokast hann örlítið í áttina að sjálfum sér, en vonin um það birtist með táknrænum hætti í draumi eða trúarlegri upplifun rétt fyrir endalokinn í formi geimskips (og gerði það í reynd fyrir marga á eftirstríðsárunum!)

Eina leiðin fyrir mann í sproum Ed Crane til að lifna við er að rísa upp, annaðhvort í lífi komanda, eða með aðstoð annarrar manneskju sem myndi lána honum sína eigin náð allt þar til náð Guðs fengist reynd.

Persónur úr trúarritum: geimverur
Guðfræðistef: líf eftir dauðann
Siðfræðistef: áfengisneysla, dauðarefsing, fjárkúgun, framhjáhald, frelsi, morð, stríð
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: róðukross
Trúarlegt atferli og siðir: miðilsfundur