Kvikmyndir

The Matrix Reloaded

Leikstjórn: Andy Wachowski og Larry Wachowski [undir nafninu Wachowski bræðurnir]
Handrit: Andy Wachowski og Larry Wachowski [undir nafninu Wachowski bræðurnir]
Leikarar: Laurence Fishburne, Gloria Foster, Carrie-Anne Moss, Keanu Reeves, Hugo Weaving og Jada Pinkett Smith
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2003
Lengd: 132mín.
Hlutföll: 2.40:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Matrix Reloaded er beint framhald af The Matrix. Í Matrix Reloaded eru vélmennin búin að komast að staðsetningu Síon, neðanjarðarborg mannanna í raunheimi. Vélmennin eru að grafa sig niður í áttinna að Síon á ógnarhraða, 250 þúsund talsins eða jafn mörg og íbúar í Síon. Myndin fjallar um tilraunir Neo, Morpheusar og Trinity til þess að komast að meginuppsprettu vélmennanna, svo bjarga megi Síon frá gjöreyðingu.

Almennt um myndina:
Matrix Reloaded er magnað afrek á kvikmyndasviðinu. Eftir að hafa horft á hana oftar en einu sinni hef ég ekki ennþá rekist á klippingu, leik, leikstjórn eða eitthvað annað því um líkt sem hefur stungið í augu. Svo virðist sem hún sé nánast fullkomin, en eins og með önnur mannanna verk er það ekki raunin. Á síðum eins og www.imdb.com er hægt að finna vísanir í ýmis mistök sem eru í myndinni. Dæmi um slík mistök er t.d. bílaeltingarleikurinn á hraðbrautinni, en þar eru byssukúlugöt á bíl sem er ekki enn búið að skjóta á. (Sjá: http://www.imdb.com/title/tt0234215/goofs skoðað 13. febrúar.)

En það sem skiptir kannski mestu máli er handritið og er það mjög gott, fullt af boðskap sem settur er fram á mjög svo myndrænan máta. Mörg atriði eru svo ótrúleg að maður getur ekki annað en velt því fyrir sér hvernig þau hafi verið gerð og á það ekki síst við um bardagaatriðin. Í þeim flýgur myndavélin allt í kringum og gegnum bardagann. Tæknibrellurnar í heild sinni eru ótrúlegar, enda voru sumar þeirra fundnar upp til þess eins að gera Matrix Reloaded að veruleika. Því þjóna tæknibrellurnar myndinni en ekki öfugt. Eitt dæmi um slíkt er bardagaatriðið þar sem Neo berst við Smith eftir að sá fyrrnefndi hittir véfréttina. (Það má til gamans geta að það tók 27 daga að taka upp þennan eina bardaga. http://www.imdb.com/title/tt0234215/trivia skoðað 12. febrúar.) Þar eru sumar tökurnar unnar algjörlega í tölvu eins og um tölvuleik sé að ræða, en þess á milli eru skot sem voru tekin upp með gamla laginu sem einmitt gerir það erfiðara að koma auga á hvenær um tölvugrafík er að ræða og hvenær ekki. En Matrix Reloaded er langt frá því að vera bara einhver Hollywood byssuhasar. Sagan er mjög vel upp byggð, full af táknum og duldum meiningum. Góð ræma sem heldur spennu út í gegnum alla myndina.

Matrix þríleikurinn er fullur af trúarboðskap og táknum. Boðskapur myndarinnar er sá sami og kjarni allra trúarbragða, því myndirnar fjalla um mannlega tilvist sem er jú megininntak allra trúarbragða. Betur verður farið í guðfræði myndarinnar hér að neðan.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Líkt og fyrri myndin, The Matrix, er Reloaded sneisafull af trúarstefum úr nánast öllum trúarbrögðum heimsins. Hægt er að greina myndina og allan þríleikinn út frá öllum þessara trúarbragða og eru því fjölbreyttir túlkunarmöguleikar fyrir hendi. Ekki gefst þó rúm til að greina frá öllum þeirra hér. Verður því athyglinni aðallega beint að klassískri kristinni guðfræði með örlítilli viðkomu inn á gnostísk kristin guðfræðistef, sem eru nokkur. Óhætt er að segja að það séu í raun mörg lög af túlkunarmöguleikum fyrir hendi því kvikmynd er bæði sjónrænt og hljóðrænt samspil. Myndmál og talmál eiga því oftar en ekki samspil við að skapa mjög djúpa vídd trúarlegs boðskapar. En við skulum byrja á að líta á nokkrar persónur myndarinnar.

Aðalsöguhetjan heitir Tómas Anderson en hann er einnig kallaður Neo. Neo þýðir hinn nýi en gæti einnig verið stafarugl fyrir „One“ , þ.e. hinn útvaldi. Anderson merkir mannssonurinn, en það var titill sem Jesús gaf oft sjálfum sér. Því er Neo Anderson hinn nýi mannssonur. (Þorkell Ágúst Óttarsson. 7. málsgrein.) Tómas aftur á móti er tilvitnun í gnostíska guðspjallamanninn sem og efasemdarlærisvein Krists. Tómas var einn af lærisveinum Jesú, sá sem sífellt efaðist, en einnig er hægt að sjá það hjá Neo. Tómasarguðspjall er eitt af hinum gnostísk-kristnu guðspjöllum og fjallar það um andlegan þroska lærisveins sem verður á endanum jafnoki meistara síns. Neo er sem sagt ósköp venjulegur maður sem nær vitundarástandi Krists og er því leiðbeinandi annarra að því að ná hinu sama vitundarástandi.

Hliðstæður Neos við messías eða Krist eru þó nokkrar í myndinni. Þegar hann stígur fæti í Síon ásamt áhöfn er tekið á móti honum sem frelsara. Fyrst er hann kemur úr skipinu Nebúkadnesar kemur drengur hlaupandi að honum og segir hann hafa bjargað lífi sínu, þ.e náð honum út úr Mótinu (The Matrix), en Neo neitar því og segir strákinn sjálfan hafa bjargað lífi sínu. (Sjá mín. 00:14:40 og 00:15:36.) Í þessu atriði er skírskotun í kristinn gnostisma, þar sem gnostisminn gerir ráð fyrir því að hver og einn frelsist fyrir eigin tilstilli en ekki frelsarans, hann sé einungis til að leiðbeina fólkinu. Þegar Neo fer svo lengra inn í Síon er fjöldi fólks sem tekur á móti honum með gjafir og bón um fyrirbænir. T.d. biður kona nokkur Neo um að fylgjast með syni sínum Jakobi, sem er starfsmaður um borð í skipinu Gnosis. (Sjá mín. 00:19:33.) Vart þarf að taka fram að í nafni þessa skips finnst ein augljósasta vísun þríleiksins í kristinn gnostisma. Einnig getur senan verið vísun í pálmasunnudag, þegar Jesús kemur ríðandi á asna til Jerúsalem og lýður Ísraels fagnar honum sem messíasi. Stutt myndskeið sýnir síðan hinar ýmsu helgimyndir af hinum ýmsu helgimönnum s.s. Jesú, Kristna, Rama, Búdda o.fl., áður en Neo fer á fund Véfréttarinnar. (Sjá mín. 00:39:16.) Hann er fær um að gera kraftaverk sem engin annar getur leikið eftir, innan sem utan Mótsins. Það má segja að Neo sé klæddur prestsklæðum í Reloaded, sem hann var ekki í fyrstu myndinni. Það gefur til kynna að honum hafi hlotnast embættisstaða sem meistari, rabbíi, prestur, messías o.s.frv.

Trinity eða Þrenningin ber með sér fjöldann allan af Kristnum merkingum. Hin heilaga þrenning, í kristinni guðfræði, táknar einingu Guðs, Krists og Heilags Anda/ föðurs, sonar og heilags anda. Heilagur andi er tenging mannsins við kristsvitundina, Guð og guðdóminn. Í myndunum minnir Trinity á heilagan anda sem hlúir að Neo, er hans stoð og styrkur í gegnum allar hans raunir og ber hann að lokum að kjarna Mótsins.

Nafnið Morfeus vísar til gríska draumaguðsins, þess sem er fær um að vekja menn upp úr svefni. Hutverki hans svipar hins vegar til Jóhannesar skírara, (Þorkell Ágúst Óttarsson, 9. málsgrein.) hann er sá sem kemur á undan frelsaranum og vitnar um hann. Einnig minnir hann á guðspjallamanninn Jóhannes, einkum og sér í lagi þegar hann flytur ræðuna fyrir íbúa Síon í hellinum/musterinu. (Sjá mín. 00:23:40.) Samkvæmt hefð Austur-kirkjunnar fékk guðspjallamaðurinn Jóhannes opinberun um heimsendi í helli á eynni Patmos og skrifaði í kjölfarið opinberunarbók sína. (Biederman, Hans. 1994 [1989]. S. 60.)

Rétt áður en útsendari Smith kemur fyrst fram í myndinni, er ritað á bílnúmeraplötu glæsikerru hans: „IS 5416“. (Sjá mín. 00:07:14.) Í Gamla testamentinu, Jesaja 54:16 stendur skrifað: „Sjá ég skapa smiðinn, sem blæs að kolaeldinum og framleiðir vopnið til sinnar notkunar og ég skapa eyðandann til þess að leggja í eyði.“ (Biblían. 1999 [1981].) Í þessum kafla vísar Jesaja í loforð Drottins um að hin ísraelska þjóð muni vera sigursæl í framtíðinni. Hann minnir fólk sitt á að hann hafi skapað allt og fullvissar það um að „ekkert vopn sem beitt er gegn ykkur mun sigra.“ (Biblían. 1999 [1981]. Jes 54: 17.)

Útsendari Smith minnir mikið á Lúsifer, hinn fallna engil, eða Satan. Hann er persónugerving hins illa og er öfundsjúkur óvinur mannkyns. Líkt og útsendarar kerfisins hafa englar Guðs ekki frjálsan vilja – einungis mannfólkið hefur hann. Lúsifer var sá engill sem gerði uppreisn gagnvart Guði. Hann þoldi ekki að maðurinn væri skapaður ofar sér, var kastað út úr himnaríki og reikar því um jörðina og herjar á mannkynið. (Lindemans, Micho F. 1999 [1997]. S. 1.)

Í 1. Pétursbréfi 5:8 segir „Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.“ (Biblían. 1999 [1981].) Líkt og Lúsifer má segja að Smith hafi verið gerður brottrækur úr kerfinu þegar Neo eyddi honum í fyrri myndinni. Í byrjun myndarinnar fær áhorfandinn vitneskju um að Neo hafi frelsað hann, eða að hann hafi valið að fela sig í kerfinu í stað þess að verða eytt. Smith virðist því vera frjáls, er uppfullur af sjálfum sér og er að berjast fyrir því sama og Neo, en á sínum eigin forsendum. Hans markmið er að skapa sitt eigið ríki innan Mótsins, með því að afrita sjálfan sig yfir á aðra eða gleypa bæði forrit sem og menn.

Eins og í fyrri myndinni má finna n.k. Júdas í þessari mynd. Þegar Bane og félagi hans fara að ná í skilaboð frá Véfréttinni kemst Smith á snoðir um áætlanir þeirra, nær þeim og tekur sér bólfestu í Bane líkt og Satan er sagður hafa gert við Júdas. (Sjá mín. 00:31:49.) Þannig kemst Smith inn í raunverulega heiminn og reynir eftir fremsta megni að bana Neo. Í lok myndarinnar er gefið til kynna að hann beri ábyrgð á gjöreyðingu skipaflota Síon.

Lyklasmiðurinn ber með sér nokkrar vísanir, hann er sá sem fer með allt lyklavald í Mótinu, er fær um að læsa og opna og hefur valdið að loka inni og frelsa. Í kirkjulegri hefð er það Heilagur Pétur sem er handhafi lyklavaldsins að himnaríki. Í lýsingum af dómsdegi, í Opinberunarbók Jóhannesar 20:1-3, er risastór lykill notaður til að læsa djöfulinn í botnlausum pytti í þúsund ár. Lykill merkir einnig aðferð til að afkóða falinn boðskap eða túlkun á tákni (Biedermann, Hans, 1994 [1989], s. 194) líkt og stendur í Lk 11:52: „Vei þér lögvitringar! Þér hafið tekið brott lykil þekkingarinnar. Sjálfir hafið þér ekki gengið inn og þeim hafið þér varnað, sem inn vildu ganga.“ (Biblían. 1999 [1981].) M.ö.o., með falskri túlkun á ritningunni hafið þið hindrað aðgang þeirra sem sækjast eftir þekkingu á Guði.

Þúsundáraríkið kemur fyrir í myndinni. Þegar Neo, Morpheus og Trinity fara af fundi Mervíkingsins og konunnar hans, Persephoniu, til að biðja hann um að afhenda þeim Lyklasmiðinn, fara þau í gegnum mikilfenglegan sal. Salurinn minnir mikið á dómkirkju og í miðjum salnum er stór mynd. Á myndinni er rómverska talan M inni í hring sem táknar þúsund, í kringum hana eru englar sem blása í dómsdagslúðra; vísun í Opinberunarbók Jóhannesar. Við endurkomu Krists, á dómsdegi, mun Kristur/Guð reisa Guðsríki á jörðu til handa hinum kristna lýð. Ríki þetta hefur verið nefnt Þúsundáraríkið. Þessi sena er mjög táknræn þar sem Neo, Morpheus og Trinity standa fyrir framan myndina á móti Mervíkingnum og gengi hans. (Sjá mín. 1:12:56.) Þau minna óneitanlega á hina heilögu þrenningu Guðs föðurins, sonarins og hins heilaga anda.

Þegar Neo fer á fund Véfréttarinnar í fyrsta sinn í myndinni þarf hann að berjast við Seraf sem er verndari hennar. Þegar Neo kemur inn í herbergi, sem er í austurlenskum stíl, situr Seraph á nokkurs konar altari við enda herbergisins. Neo sér hann sem bæði mann og skæran eldhnött. Þegar hann hefur sannað sig fyrir Seraf þá fellst hann á að vísa honum til Véfréttarinnar, opnar hurð og á húninum er mynd af vínberjaþrúgu. (Sjá mín. 00:39:30.) Seraf er vísun í stétt engla sem kallast Serafar og eru himneskir verðir í ríki Guðs. Þeir koma einungis við sögu í Jesajabók Gamla testamentisins og þá í tengslum við spámannsembætti Jesaja. Hebreska orðið saraf merkir „að eyða með eldi“. (Gigot, Francis E. 2003 [1912]. S. 1 ­ 2.) Í Jesaja 6:6-8 stendur:

„Einn serafanna flaug þá til mín. Hann hélt á glóandi koli, sem hann hafði tekið af altarinu með töng, og hann snart munn minn með kolinu og sagði: „Sjá, þetta hefir snortið varir þínar. Misgjörð þín er burt tekin og friðþægt er fyrir synd þína.“ Þá heyrði ég raust Drottins. Hann sagði: „Hvern skal ég senda? Hver vill vera erindreki vor?“ Og ég sagði: „Hér er ég, send þú mig!“ (Biblían. 1999 [1981].)

Hér má sjá hliðstæður við atriðið þegar Neo og Seraf hittast. Neo sér Seraf sem eldhnött, Seraf „hreinsar“ Neo og veitir honum aðgang að Véfréttinni. Véfréttin veitir Neo svo spámannsembætti þar sem hún segir hann geta ráðið í framtíðina, að hann horfi á tímalausan heim. Vínberjaþrúgurnar sem eru á hurðarhúninum eru kristið trúartákn og tákna Krist og lærisveina hans. Víngarðurinn er sömuleiðis tákn fyrir guðsríki og kirkjuna, og var í frumkirkjunni tákn Krists, tákn friðar og endurlausnar. Táknið tengist náið lífsins tré. (Karl Sigurbjörnsson. 1993. S. 36.)

Ólíkt kristinni og gyðinglegri guðfræði lítur gnostísk guðfræði neikvæðum augum á efni og líkama. Efnisheimurinn er einhverskonar blekking, gildra eða fangelsi. Allt sem er efnislegt er því illt og er markmið mannsins að komast undan eða frelsast frá efnisheiminum yfir í hinn andlega, sem er algóður og óháður. Líkt og fólkið sem lifir í Mótinu lifir hinn mannlegi hugur, samkvæmt gnostískri hugmyndafræði, að mestu leyti í sjálfskapaðri veröld blekkinga þar sem frelsunin felst í uppljómun í gegnum/með gnosis (þekkingu) sem fæst í gegnum Soffíu (innsæi). Í gnostískri guðfræði er Guð Gamla testamentisins, sem kallaður er Yaldabaoth, vondur sköpunarguð sem vill halda mannkyni í efnisheiminum. Ofar honum er svo algóður Guð. Hinn algóði Guð skapaði Soffíu sem skapaði svo aftur á móti Yaldabaoth. Soffía er innsæi, sem er greypt í hvert mannsbarn, og í gegnum hana öðlast maðurinn gnosis eða þekkingu. Með innsæi og þekkingu frelsast svo maðurinn frá efnisheiminum (Yaldabaoth), og kemst þannig aftur til upprunans, til hins eiginlega Guðs. Maðurinn er í raun andi/sál sem kemur frá hinum eiginlega Guði en er fastur í efnislíkama.

Hér má sjá hliðstæðu við Arkitektinn, Véfréttina og svo The Source, þar sem vegur bjargvættarins endar. Arkitektinum er hægt að líkja við Yaldabaoth. Hann er einungis forrit innan Mótsins. Í samtali við Neo segist hann vera skapari Mótsins. Hans hlutverk er að halda fólki innan þess sem og að viðhalda óbreyttu ástandi með öllum ráðum til þess að vélmennin fái haldið orkugjöfum sínum, mannfólkinu.

Véfréttinni mætti líkja við Soffíu eða innsæi. Arkitektinn nefnir hana innsæisforrit og móður Mótsins, því hún hafi komist að því að hægt er að halda fólkinu í blekkingu innan Mótsins ef það fær val eða frjálsan vilja. Hún hjálpar einnig þeim sem eru að reyna að frelsast úr Mótinu, sem sagt úr fáfræði og blekkingu yfir í skilning og sannleika. The Source eða Uppsprettan/móðurtölvan er svo hinn eiginlegi Guð sem stendur á bak við alla sköpunina.

Trú og traust eru rauðir þræðir í gegnum alla myndina. Neo þarf að trúa því að hann geti gert allt sem honum er ætlað og ætlast er til af honum. Morpheus trúir að Neo sé bjargvætturinn sem spádómurinn hefur greint frá og treystir því að hann muni frelsa mannfólkið úr Mótinu. Einnig trúir hann því að Neo muni koma í veg fyrir gjöreyðingu Síonar. Hann skeikar aldrei frá þessari trú sem veldur því að hann lendir upp á kant við varnarmálaráðherra Síonar, sem talar um að ekki trúi allir eins og hann trúir. Morpheus verður fyrir áfalli í lok myndarinnar þegar draumar hans hrynja til grunna. Allt sem hann trúði á átti sér engar forsendur, lokasetning hans lýsir því vel: „Mig hefur dreymt draum, en nú hefur sá draumur verið tekinn af mér.“ (Sjá mín. 01:59:02.)

Verndargripur kemur fyrir í myndinni, sem tengist trú og trausti, en kona Link færir honum einhverskonar talnaband. Hún trúir því að það hafi ávallt veitt henni lukku og kannski muni það veita henni Link aftur. (Sjá mín. 00:37:00.) Þar er einnig komið inn á ótta sem andstöðu trúarinnar. Í heimsendaræðu Morfeusar í musteri Síon segir hann óttann það versta sem hægt sé að bera í brjósti. (Sjá mín. 00:24:00.) Óttinn brýtur niður og leiðir menn í vonleysi, en trúin veitir kjark og von.

Í myndinni er varpað fram ýmsum álitlegum spurningum sem mannkynið hefur velt fyrir sér frá upphafi alda og trúarbrögð allra menningarheima hafa fengist við. Spurningar á borð við: Hvað er stjórn, val og frjáls vilji? Eru til algild lögmál í alheiminum á borð við orsök og afleiðingu? Stjórnast líf manna af forákvörðunum og örlögum eða mótar maðurinn líf sitt sjálfur? Er tilgangur með lífinu eða er það einungis draumleikur sem rúllar sífellt áfram í endalausu tilgangsleysi? Er Guð til? Myndin varpar fram spurningunum en reynir ekki endilega að svara þeim.

HeimildarskráBiblían. 1999 [1981]. Reykjavík: Hið Íslenska Biblíufélag.

Biedermann, Hans. 1994 [1989]. Dictionary of Symbolism: Cultural Icons and the Meaning Behind Them. James Hulbert (þýddi úr þýsku). New York: Merdian; Penguin Books USA, Inc.

The Corporate Mofo Guide. 2004. The Matrix Reloded. Skoðað 14. mars 2005. Slóðin er: http://www.corporatemofo.com/stories/051803matrix.htm.

Elaine Pagels. 1989 [1979]. The Gnostic Gospels. New York: Vintage Books; A DiviSíon of Random House, Inc.

Elaine Pagels. 1995. The Origin of Satan. New York: Vintage Books; A DiviSíon of Random House, Inc.

Gigot, Francis E. 2003 [1912]. The Catholic Encyclopedia, Vol. XIII. Seaphim, grein 13725b. Michael T. Barrett (þýddi). New York: Robert Appleton Company Online Edition. Skoðað 28. mars 2005. Slóðin er: http://www.newadvent.org/cathen/13725b.htm.

The Internet Move Database. 1990 ­ 2005. The Matrix Reloaded. The Internet Move Database, Inc. Skoðað 13. febrúar 2005. Slóðin er: http://www.imdb.com/title/tt0234215/goofs.

Karl Sigurðbjörnsson. 1993. Táknmál trúainnar. Reykjavík: Skálholtsútgáfan.

Lindemans, Micho F. 1999 [1997]. MCMXV – MMV Encyclopedia Mythica. Satan. Skoðað 28. mars 2005. Slóðin er: http://www.panthean.org/articles/s/satan.html.

Þorkell Ágúst Óttarsson. The Matrix. Deus X Cinema: Trúarstef Í Kvikmyndum. Skoðað 14. mars 2005. Slóðin er: http://www.dec.hi.is/?kvikmyndir/matrix.

Wikipedi, the Free Encyclopedia. 18. mars 2005. Demiruge. Skoðað 28. mars 2005. Slóðin er: http://en.wikipedia.org/wiki/Demiurge.

Wikipedia, the Free Encyclopedia. 24. mars 2005. Sophia. Skoðað 28. mars 2005. Slóðin er: http://en.wikipedia.org/wiki/Sophia

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Jes 54:16
Hliðstæður við texta trúarrits: Gamla testamentið, Nýja testamentið, 1M 2:5-25, 1M 6:1-4, Jes 6:6-8, Mk 9:23, Mt 6:22, Mt 7:7, Mt 12:33, Mt 14:57, Mt 16:18-19, Mt 17:20, Mt 18:20, Mt 19:28, Mt 21: 8, Lk 11:52 1. Pt 5:8, Jh 14:2, Op 20:1-3
Persónur úr trúarritum: Jesús Kristur, messías, mannssonur, Adam, Morpheus, Persephone, Seraf, Véfrétt, þrenning, Jóhannes skírari, Nebúkadnesar, Íkarus, Heilagur andi, draugar, varúlfar, vampýrur, Júdas
Sögulegar persónur: Mervíkingur
Guðfræðistef: kristgervingur, kraftaverk, trú, traust, heimsslit, veruleiki, forákvörðun, spádómur, ótti, von
Siðfræðistef: heiðarleiki, svik, loforð, andspyrnuhreifing
Trúarbrögð: gyðingdómur, kristni, buddismi, islam, hindúismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Síon
Trúarleg tákn: kross, musteri, talnaband, helgimyndir, vínberjaklassi, hrafnar, þúsundáraríkið (M), þrenningin, tvö sverð, mandala, talan tólf, fjöll
Trúarleg embætti: Spámaður, prestur
Trúarlegt atferli og siðir: bæn
Trúarleg reynsla: trúartraust, opinberun, draumur