Kvikmyndir

The Natural

Leikstjórn: Barry Levinson
Handrit: Roger Towne
Leikarar: Robert Redford, Robert Duvall, Glenn Close, Kim Basinger
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1984
Lengd: 138mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Title?0087781
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Roy er efnilegur hafnaboltaleikmaður og virðist geta lagt heiminn að fótum sér. Ekki aðeins vegna þess að hann hefur náðargáfu heldur einnig vegna þess að hann á töfrakylfu. Á leið sinni frægðar og frama er hann særður lífshættulega af tálkvendi og hverfur í 16 ár. En nú er hann kominn aftur og staðráðinn í að láta drauma sína rætast. Vandinn er bara sá að myrkraöflin eru ekki á sama máli.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
The Natural er goðsöguleg mynd, full af tilvísunum og dýpri merkingu. Bent hefur verið á hversu vel myndin (sem og sagan sem hún er byggð á) fylgir hinni kristnu hjálpræðissögu. Roy er eins og Adam í Eden, saklaus og fullkominn (Eva er meira að segja heima í sveitinni) en fellur fyrir freistni hinnar illu konu og villist af leið (nú mun ég kjafta frá endinum svo lesandi góður ef þú vilt ekki vita meira þá slepptu því sem eftir er af þessari málsgrein). Eftir þrautir og erfiðleika ,,endurfæðist hann“ eftir að það er eitrað fyrir honum (rétt eins og með eplið, samkvæmt kristnum skilningi), rís upp og sigrast á hinum illu öflum. Að lokum vinnur hann Eden og Evu sína að nýju. Höfuð andstæðingurinn er meira að segja kallaður ,,snákurinn“. Það má einnig sjá vísanir í söguna af Samson og Dalílu í myndinni. Roy er eins og Samson forðum. Ósigrandi maður og mikil ógn fyrir fjandmenn hans. Samson var sterkur vegna þess að hann skar ekki hár sitt og Roy á einnig hæfileika sína að vissu leyti kylfunni sinni að þakka. Báðir eru illa leiknir af konum og báðir átta sig að lokum á sviksemi kvennanna og rísa upp og sigrast á fjandmönnum sínum.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Dm 13:2-16:31
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 2-3, Dm 13:2-16:31
Persónur úr trúarritum: Samson, Dalíla, Adam, Eva, Snákurinn
Guðfræðistef: synd