Kvikmyndir

The Others

Leikstjórn: Alejandro Amenábar
Handrit: Alejandro Amenábar
Leikarar: Nicole Kidman, Fionnula Flanagan, Christopher Eccleston, Elaine Cassidy, Eric Sykes, Alakina Mann og James Bentley
Upprunaland: Frakkland, Spánn, Bandaríkin
Ár: 2001
Lengd: 100mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0230600
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Börn ungu ekkjunnar Grace eru með ljósofnæmi og því býr fjölskyldan í stöðugu myrkri innan veggja heimilisins. Einn daginn bankar þjónustufólk upp á og býður fram þjónustu sína. Grace tekur þeim fegins hendi en fer að gruna að þau séu ekki öll þar sem þau eru séð þegar undarlegir hlutir fara að gerast í húsinu.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
The Others er fyrsta myndin sem spænski leikstjórinn Alejandro Amenábar gerir í Hollywood en hér er á ferð stór góð hryllingsmynd. Þess má geta að önnur mynd eftir sama leikstjóra “Abre los ojos” (Opnaðu augun) var sýnd á Íslandi fyrir stuttu en hún fékk nokkuð góða dóma hér á landi sem og annars staðar.

Margar hryllingsmyndir síðari ára flaska á því að þær gefa sér ekki nægilega mikinn tíma til að leggja grunnin að atburðarrásinni, kynna helstu sögupersónur og skapa rétta andrúmsloftið. Í stað þess er anað af stað frá fyrstu mínútu og hvert hræðsluatriðið á fætur öðru skellur á áhorfandanum þannig að þegar loka átök nálgast er maður orðinn hundleiður á síendurteknum sjokkmeðferðum (sem eru hætt að virka) og stendur hvort eð er á sama um aðalpersónur myndarinnar vegna þess að maður kynntist þeim aldrei náið.

Ofan á þetta bætist að margar hryllingsmyndir í dag reiða sig allt of mikið á tæknibrellur og virðast gleyma því að það sem maður sér ekki er oft óhugnanlegra en það sem maður sér. Spielberg sannaði þetta eftirminnilega í myndinni Jaws en hákarlinn varð enn hryllilegri vegna þess að hann sást ekki fyrr en í lok myndarinnar. Maður hræðist nefnilega mest það sem maður þekkir hvorki né sér.

The Others fellur ekki í fyrrnefnda grifju. Hún reiðir sig ekki á ódýr hræðsluatriði eða tæknibrellur heldur byggir hún hægt og rólega upp spennu og kynnir aðstæður og persónur vel þannig að þær verða trúverðugar og áhugaverðar. Síðast en ekki síst er þess gætt að segja aldrei meira en nauðsyn krefur þannig að áhorfandinn veit aldrei hvert myndin stefnir eða hvað gerist næst.

Það er ómögulegt að fjalla um trúarstefið í The Others án þess ljóstra upp um fléttuna. Því vil ég biða alla þá sem ekki hafa séð myndina en hyggjast sjá hana að hætta lestrinum strax. Þetta er ein af þeim myndum sem maður á að vita sem minnst um þegar maður sér hana.

Flétta myndarinnar er á margan hátt svipuð fléttunni í The Sixth Sence. Móðir sem myrti börnin sín og svipt sig lífi, lifir í afneitun og heldur að hún og börnin séu enn á lífi. Áhorfandinn fær síðan ekki að vita sannleikann fyrr en í lok myndarinnnar. Munurinn er hins vegar sá að í The Sixth Sence sá aðalpersónan aðeins hina lifandi en í þessari mynd sér Grace aðeins hina dauðu.

Þótt sagan sé ekki alveg ný af nálinni þá stendur hún engu að síður fyrir sínu vegna þess hversu vel hún er sögð. Ég var persónulega mjög hrifinn af The Sixth Sence en The Others er að mínu mati bæði betri kvikmynd sem og hryllingsmynd.

The Others er hlaðin trúarstefjum. Það er nánast stanslaust verið að lesa upp úr Biblíunni eða ræða um trúarleg málefni, eins og um líf eftir dauðann, mikilvægi sannsögli, refsingu Guðs, helvíti, trúverðugleika Biblíunnar og svo mætti lengi telja.

Áhugaverðasta biblíutilvísunin er líklega þegar dótturinni er refsað með því að láta hana lesa upphátt úr Biblíunni. Það fyrsta sem við heyrum er þegar hún les um það þegar Adam og Eva voru rekin úr Eden. Næst heyrum við þegar hún er les um það þegar Abraham ætlaði að fórna Ísak. Það er merkilegt að hún ætlar aldrei að komast í gegnum kaflann og er henni að lokum skipað að hætta lestrinum.

Ég held að það sé engin tilviljun að þessi texti skuli vera lesinn upp því myndin fjallar einnig um það þegar foreldri drepur barn sitt. Munurinn er hins vegar sá að Abraham framkvæmir ekki verknaðinn en Grace myrðir börnin sín. Það er áhugavert að Grace skipar dóttur sinni að hætta lestrinum rétt áður en engillinn bjargar Ísak. Lestur sögunnar af Adam og Evu og fórnar Ísaks er því á vissan hátt vísbending um hinn hulda harmleik fjölskyldunnar.

Rétt eins og í The Sixth Sence er spíritismi fyrirferðamikill í myndinni. Það ætti að vera gleðiefni fyrir flesta Íslendinga, enda hefur þjóðin löngum verið höll undir spíritismann, eins og stór fjöldi miðilsfunda hér á landi sýnir glöggt. Í myndinni er ekki aðeins að finna miðilsfund, heldur gengur flétta myndarinnar líka út á það að þunn lína sé á milli þessa heims og þess næsta.

Slagorð myndarinnar er einnig af sama meiði: “No door is to be opened before the previous one is closed.” Hér er ekki aðeins verið að vísa til þess að það mátti aldrei opna dyr fyrr en búið var að loka þeim sem komið var inn um, heldur einnig til þess að Grace, eiginmaður hennar og börn gátu ekki komist áfram (inn um nýjar dyr) vegna þess að þau höfðu ekki gert upp fortíðina (lokað dyrum fortíðar).

Spíritisminn mun líklega fara í taugarnar á mörgu kirkjuræknu fólki en það er ekki það eina í myndinni sem mun fara fyrir brjóstið á þeim. Í myndinni er efast um kenningar Biblíunnar og Grace, sem var strangtrúuð, efast sjálf að lokum um kenningar kristninnar um handann heim.

Nafn myndarinnar The Others (Hinir) er einnig áhugavert því það gefur myndinni siðferðilegan blæ. Grace og börn hennar halda að hitt fólkið í húsinu (sem sést ekki) séu draugar, á meðan hið gagnstæða á við, þ.e. hinir ósýnilegu eru lífandi en þau eru dauð. Þetta minnir á íslenska máltækið “Þeir kasta skyrinu sem eiga það.“ Hversu oft gerist það ekki að við eignum öðrum okkar eigin syndir? Og hvað vitum við í raun og veru um okkar eigið ástand? Getur verið að við séum eins blind og Grace og fjölskylda hennar? Myndin er því skemmtilegt innleg í umræðu um fordóma.

Í myndinni er talað um spænsku píslarvottana Justus (13 ára) og Pastor (yngri en 9 ára) sem neituðu að hafna Kristi (enn einu sinni er vísað í barnaborð) en hægt er að lesa um þessa merku bræður á eftirfarandi slóð: http://users.erols.com/saintpat/ss/0806.htm

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblía, 1M 1:1-2:4, 1M 3, 1M 6:9-9:17, 1M 22:1-19, Mt 6:9-13, Lk 11:2-4, Maríubæn
Hliðstæður við texta trúarrits: 5M 18:10-12, 1S 28, 1Kron 10:13, Jes 8:19-20, Lk 16:19-31
Persónur úr trúarritum: draugur, engill, Guð, helagur andi, Jesús Kristur, María mey, Satan
Sögulegar persónur: Justus, Pastor
Guðfræðistef: bölvun, reimleiki, písladauði, skírn
Siðfræðistef: lygi, morð, sjálfsvíg, stríð
Trúarbrögð: spíritismi, kristni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: grafreitur, helvíti, hreinsunareldurinn
Trúarleg tákn: kross, dúfa, talnaband
Trúarlegt atferli og siðir: altarisganga, blessun, bæn, miðilsfundur
Trúarleg reynsla: sýn