Leikstjórn: Giuseppe Rosati (undir nafninu Aaron Leviathan)
Handrit: Giuseppe Rosati (undir nafninu Aaron Leviathan)
Leikarar: Gloria Guida, Joseph Cotten, Adolfo Celi, Janet Agren, Anthony Steel, Alida Valli, Leonard Mann, Franco Ressel og Paul Müller
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1979
Lengd: 87mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0079340
Einkunn: 1
Ágrip af söguþræði:
Þegar enskur auðjöfur ferst í dularfullu flugslysi, taka líklegustu arftakar fjármálaveldisins að deila um yfirráðin og týna þeir fyrir vikið tölunni hver á fætur öðrum.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Miðlungs gulmyndarmorðgáta í anda Agöthu Christie (sem meira að segja er nefnd á nafn af einum lögreglumanninum í myndinni). Enda þótt kvikmyndin gerist öll í Englandi og fjalli að mestu um enskt yfirstéttarfólk, eru leikararnir augljóslega fæstir enskir, auk þess sem sumir tökustaðirnir minna meir á meginland Evrópu en Bretlandseyjar. Af gulri mynd að vera er The Perfect Crime jafnframt óvenju mild enda aðeins bönnuð börnum innan 12 ára af íslenska kvikmyndaeftirlitinu. Hrottafengnasta atriðið er sennilega þar sem Joseph Cotten rífur úr sér gangþráðinn með vasahníf og fellur dauður niður, en það atriði er alls ekki eins blóðugt og það kann að hljóma.
Í upphafi myndarinnar er hluti Sálms 23 fluttur við útför auðjöfursins en gegnir að öðru leyti engu markverðu hlutverki. Af hefðbundnum siðfræðiþemum er hins vegar nóg að taka eins og við er að búast.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Sl 23:2-4
Siðfræðistef: morð, svik, lygi, framhjáhald, græðgi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarlegt atferli og siðir: útför, biblíulestur