Leikstjórn: Roman Polanski
Handrit: Ronald Harword, byggt á endurminningum Wladyslaw Szpilman
Leikarar: Adrien Brody, Maureen Lipman, Frank Finlay, Ed Stoppard, Emilia Fox, Thomas Kretschmann, Julia Rayner, Jessica Kate Meyer, Michal Zebrowski, Wanja Mues, Richard Ridings, Nomi Sharron, Roy Smiles, Joachim Paul Assböck og Thomas Lawinky
Upprunaland: Pólland, Þýzkaland, Frakkland, Bretland og Holland
Ár: 2002
Lengd: 142mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 4
Ágrip af söguþræði:
Myndin er byggð á endurminningu pólska píanóleikarans Wladislaw Szpilman (1911-2000) sem lifði af dvöl í Varsjá-gettóinu en sá á eftir allri fjölskyldu sinni í útrýmingarbúðir nasista og skrifaði minningar um þá lífsreynslu fljótlega eftir lok stríðsins. Sjálfur dó hann ekki fyrr en í hárri elli árið 2000. En það nægði ekki til að hann lifði það að sjá þessa mynd. Saga hans er sögð af mikilli nákvæmni og byggir fyrst og síðast á persónulegri sögu hans. En myndin er líka óvenjulega persónuleg fyrir leikstjórann Roman Polanski vegna svipaðrar lífsreynslu hans í æsku enda kveðst hann hafa notað talsvert af æskuminningum sínum í myndinni. Þó að myndin sé fyrst og síðast tengd persónu Szpilmans gefur hún góða og trúverðuga mynd af þróun atburða í Varsjá á árunum 1939 til 1945. Frásögn myndarinnar er yfirleitt áberandi hlutlaus en það kemur ekki í veg fyrir að áhorfandinn hlýtur að taka einarða afstöðu gegn þeim viðbjóði og hryllingi sem þarna átti sér stað. Hún gerist að mestu innan gettósins í Varsjá og lýsir stigmöguninni í kúgun Gyðinga þar og brottflutning þeirra til útrýmingarbúða þó að búðirnar sjálfar sjáist aldrei í myndinni. Við fáum hins vegar nokkra innsýn í hina ótrúlegu uppreisn Gyðinga gettósins í ársbyrjun 1943 en eins og yfirleitt í myndinni sjáum við þá atburði aðeins út um glugga og með augum Szpilmans.
Síðari hluti myndarinnar er nánast einleikur Adriens Brody í hlutverk Szpilamans og lýsir því hvernig hann flýr úr einum felustaðnum í annan og kemst stöðugt undan nasistum, oftast með hjálp vinveittra Pólverja.
Almennt um myndina:
Leikstjórinn Roman Polanski, sem sjálfur komst af sem barn úr gettóinu í Krakow, hefur sagt að um að leið og hann hafi lesið sögu Szpilmans hafi hann verið sannfærður um að hann hlyti að gera mynd eftir sögunni. Jafnframt hefur hann lýst því yfir að hann hafi leitast við að vera fyllilega trúr sögunni og greina frá atburðum eins og þeir gerðust í raun og veru, hvorki draga úr né bæta við. Myndinni hefur enda verið hrósað af sérfræðingum í helfararfræðum fyrir að vera mjög sagnfræðilega nákvæm.
Polanski, sem er pólskur Gyðingur, var meðal þeirra kvikmyndaleikstjóra sem Steven Spielberg bauð að gera Schindler’s List áður en hann ákvað að gera myndina sjálfur. Polanski hafnaði boðinu um að gera slíka helfararmynd, fannst sem það efni stæði honum of nærri, ekki síst vegna þess að sú mynd gerðist í heimaborg hans, Krakow. Hann var vissulega sannfærður um að sá tími kæmi að hann myndi gera mynd um helförina en vildi fyrst vera visst um að geta tryggt listrænt hlutleysi þannig að myndin yrði ekki bara hefðbundin áróðursmynd. Næstum tíu árum síðar fannst honum sem hann hefði öðlast nægilega fjarlægð gagnvart efninu til að takast á við það.
Myndin hefst 23. september 1939. Þjóðverjar hafa gert innrás í Pólland nokkrum vikum áður. Einn virtasti píanóleikari Pólverja, Szpilman, situr við píanóið í húsi pólska ríkisútvarpsins og spilar noktúrnu eftir Frédéric Chopin (1810-1849) í beinni útsendingu þegar sprengjum frá Luftwaffe tekur að rigna yfir borgina og á útvarpshúsið þannig að glerbrotum rignir inn í upptökuherbergið. Engu að síður heldur Szpilman áfram að spila eins og hann trúi því að árásin muni ekki skaða hann og ganga yfir fljótt. Það er kannski vísbending um þá von sem býr í brjósti hans í gegnum myndina og sú von er augljóslega tengd tónlistinni og þá ekki síst tónlist Chopins. E.t.v. mætti jafnvel segja að tónlistin standi fyrir vonina í kvikmyndinni og ekki síður fyrir menninguna andspænis glundroða og ómennsku.
Einhverjum dögum eftir þessa árás fellur Varsjá og Szpilman sér þýska hermenn þramma inn í borgina. Áhrifin á líf Gyðinga koma fljótt í ljós og fara stigvaxandi. Smám saman eru lífi þeirra settar margs konar skorður og þar kemur að þeim er smalað saman inn í afmarkað svæði í borginni, Gyðinga-gettó. Lætur nærri að um hálfri milljón Gyðinga hafi þar verið þjappað saman á um tveggja ferkílómetra svæði.
Polanski verður ekki sakaður um reyna að spila á tilfinningar áhorfenda og ýmsum hefur orðið tíðrætt um hlutleysislega nálgun hans á viðfangsefninu. Á vissum stöðum byggir Polanski þó á þeirri reynslu sem hann varð fyrir sem barn. Segja má að það dragi úr hlutleysi hans en hann leggur áherslu á að hann sé að greina frá atburðum sem hann man mjög vel eftir. Hann forðast að gera einhliða djöfla úr nasistum og hefja Gyðinga upp til skýjanna. Við fáum að kynnast góðhjörtuðum nasista, sem hreinlega bjargar lífi Szpilmans seint í myndinni, og við fáum líka að kynnast illmennum meðal Gyðinga og Pólverja. Vissulega eykur það á trúverðugleika myndarinnar. En ekki vantar neitt á það heldur að við fáum innsýn í þann hrylling og þá ótrúlegu grimmd sem átti sér stað innan gettósins og vissulega birtast nasistar fyrst og fremst sem ótrúleg illmenni.
Eitt dæmi af fjölmörgum er þegar gömlum manni í hjólastól er kastað út af svölum á 4. hæð húss út í opinn dauðann aðeins vegna þess að hann var hann ófær um að sýna nasistum lotningum með að standa upp þegar þeir réðust inn í íbúð fjölskyldu hans. Þennan atburð sjáum við út um gluggann á íbúð fjölskyldu Szpilmans eins og svo marga aðra atburði. Þá sjáum við drukkna hermenn nasista berja Gyðinga og heyrum þá sjálfa gefa þá skýringu að þeir séu með barsmíðunum að halda upp á nýjárshátíð sína. Á öðrum stað niðurlægja þeir Gyðinga, jafnt gamalmenni og bæklaða, með því að láta þá dansa við undirleik tónlistar. Skelfilegra dæmi er þegar við sjáum ungan Gyðingadreng barinn til dauða er hann hafði skriðið gegnum holu út úr gettóinu, væntanlega í þeim tilgangi að nálgast fæðu fyrir fjölskyldu sína. Við þá sjón minnist maður þess að það var einmitt í gegnum slíka holu sem Polanski sjálfur flúði sem ungur drengur út úr gettóinu í Krakow. Við sjáum líka hvernig hópur Gyðinga í kvaðavinna innan gettósins er látinn leggjast á jörðina og þeir síðan skotnir í höfuðið hver á fætur öðrum fyrir hreina geðþóttaákvörðun viðkomandi nasistaforingja.
Þannig að víst er enginn skortur á óhugnaði í þessari mynd frekar en öðrum helfararmyndum en Polanski dvelur aldrei við slíkt eða veltir sér uppúr. Sumum gagnrýnendum hefur meira að segja þótt nóg um hlutleysislega nálgun hans á viðfangsefninu. Andpænis óhugnaðinum sjáum við líka hvernig fólk reynir með öllum tilækum ráðum að gera sér lífið eins bærilegt og unnt er þó að í flestum tilfellum hafi það fyrst og fremst snúist um að halda lífi. En minnistæð er mynd af manni sem fór um gettóið í gervi eins konar trúðs til að leitast við að skemmta hinum hrjáðu börnum.
Að baki þessari persónu í myndinni mun vera maður sem er vel þekktur úr sögu helfararrannsókna. Hér mun um að ræða Janusz nokkurn Korczak, lækni, kennara og barnabókahöfund (1878-1942). Hann lét sér mjög umhugað um börn í gettóinu, ekki síst munaðarlaus börn og hélt úti munaðarleysingjaheimili í gettóinu en áður hafði hann starfrækt tvö barnaheimili utan gettósins, eitt fyrir börn Gyðinga og annað fyrir kristin börn. Það er í minnum haft að hann neitaði að þiggja frelsi sér til handa þegar hann átti þess kost vegna þess að hann vildi ekki yfirgefa börnin og lét í þess stað lífið með þeim í Treblinka útrýmingarbúðunum. (Þetta kom fram í fyrirlestri Dalia Ofer, prófessors í helfararfræðum (Holocaust studies) við Hebreska háskólann í Jerúsalem hélt við HÍ 19. sept. 2003. Erindið hennar bar heitið „Daily life in East European Ghettos: Class, Gender, and Authority“. Í kvikmyndinni Uprising eftir Jon Avnet, sem fjallar um uppreisn Gyðinga í gettóinu í Varsjá 1943 er fjallað nánar um Janusz Korczak og hið merka starf sem hann vann í þágu barna innan gettósins. Í þeirri mynd er sannarlega enginn trúðsbragur á honum helur birtist hann sem mjög kærleiksríkur og virðulegur maður í senn og raunar verður að segjast að kvikmyndin The Pianist gefur mjög villandi mynd af honum sé hann á annað borð fyrirmyndin að ‚trúðnum‘ myndinni).
Myndin The Pianist er um margt ólík flestum helfararmyndum og verðskuldar vissulega það lof sem hún hefur hlotið. Hún er einstök í sinni röð og sú aðferð Polanskis að sýnir okkur alla atburðarásina í gegnum augu Szpilmans er sérlega vel heppnuð. Oft sjáum við atburði þar sem Szpilman er ekki sjálfur þátttakandi í gegnum glugga og með augum hans, eins og áður var vikið að. Gluggar gegna vissulega stóru hlutverki í myndinni. Sú nálgun efnisins reynist mjög áhrifarík. Þá er það mjög óvenjulegt í helfararmynd að áhorfandinn fær aldrei að sjá útrýmingarbúðir. Hann sér, með augum Szpilmans, þegar Gyðingum, konum, börnum og gamalmennum, er smalað upp í lestirnar eins og sauðfé sem verið að leiða til slátrunar. Áhorfandi sér föður Szpilans skera karamellu í sex hluta og deilda út til fjölskyldu sinnar áður en hún er rekin inn í lest. Þetta var síðasta sameiginlega máltíð þeirra og skapar óneitanlega hugrenningatengsl hjá kristnum áhorfendum við hina síðustu kvöldmáltíð.
Komu Gyðinganna til útrýmingarbúðanna sjáum við aldrei vegna þess að Szpilman sá það aldrei með eigin augum sjálfur. Minnisstætt er hins vegar þegar hann segir við aðra systur sína að hann harmi að hafa ekki kynnst henni betur. Það reynast síðustu orðin sem þeim fara á milli.
Polanski hefur sagt að hann geri sér vonir um að með þessari mynd geti hann dregið úr líkunum á því að hliðstæðir atburðir eigi sér stað í nánustu framtíð. Vissulega hlýtur maður að vona að þessi mynd ásamt öðrum svipuðum fái einhverju áorkað í þeim efnum þó að myndin geri mann vissulega svartsýnan á hið mannlega eðli. Það reynist samt við sig og við höfum svo sannarlega séð atburði eftir síðari heimsstyrjöldina sem vitna um ótrúlega mannlega grimmd og þjóðarmorð. En því má ekki gleyma að í þessari mynd kynnumst við ekki bara illmennum heldur góðhjörtuðum manneskjum sem tilbúnar eru að hætta lífi sínu til að koma náunga sínum til hjálpar.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Fljótt á litið virðast trúarlegir drættir myndarinnar vera ótrúlega litlir. Ég minnist þess ekki áður að hafa séð mynd sem fjallar um Gyðinga þar sem flest af hinum trúarlegu táknum sem við yfirleitt setjum í samband við gyðingdóm (s.s. mesúsah, bænasjal, kippa (kollhúfa), sjö- eða átta arma kertastjaki o.s.frv.) sjást hreinlega ekki.
Í upphafi myndarinnar sjáum við hins vegar Kristslíkneski gnæfa yfir einu af torgum Varsjárborgar og er myndavélinni oftar beint að þessu líkneski. Hér er um að ræða endurgerð af stórri bronsstyttu af Jesú Kristi þar sem hann ber kross. Stytta þessi stóð fyrir framan barokk kirkju hins heilaga kross í miðri Varsjá. Eins og fram kemur í myndinni varð uppreisn pólskrar neðanjarðarhreyfingar og ekki síst Gyðinga í gettóinu gegn hinum máttuga þýska her til þess að borgin var lögð í rústir. Kirkjan var eyðilögð og Kristslíkneskið lá á jörðunni, sundurskotin en önnur hönd hennar benti til himins, sem tákn um þjáningu Drottins. Þannig sjáum við líkneskinu bregða fyrir í rústum borgarinnar í lok myndarinnar. Þar sem stytta þessi kemur alls fjórum sinnum fyrir í myndinni er augljóst að henni er ætlað hlutverk og beinast liggur við að halda því fram að það hlutverk sé að sýna að Drottinn þjáist með Gyðingum og öðrum þeim íbúum Varsjár sem urðu fórnarlömb nasista.
Beinar tilvitnanir í trúarlega texta koma ekki fyrir í myndinni og lítið fer fyrir trúarlegu atferli eða umræðum um það sem við venjulega köllum trúarlegar spurningar. Þetta er vissulega meðal þess sem er sérstætt og óvenjulegt við þessa helfararmynd. En ekki er allt sem sýnist. Mynd sem þessi hefur vissulega trúarlegar skírskotanir þó ekki væri nema fyrir hinar siðferðilegu spurningar sem hún vekur.
Snemma í myndinni er atriði sem mér finnst tvímælalaust hafa trúarlega skírskotun. Szpilman ætlar á veitingastaðinn Cafe Paradiso með vinkonu sinni eftir að nasistar hafa hernumið Varsjá. En skilti reynist komið á hurð veitingastaðarins þar sem segir að Gyðingum sé meinaður aðgangur. Þetta atriði finnst mér kallast á við paradísarsögu Biblíunnar þegar Adam og Eva eru rekin úr aldingarðinum Eden (1M 3:23). Í beinu framhaldi af atvikinu við veitingahúsið kemur vitneskjan um að Gyðingar eiga ekki heldur aðgang að almenningsgörðum borgarinnar. Það finnst mér styðja það að nafnið Paradiso á veitingastaðnum sé engin tilviljun heldur eigi sé því ætlað að skapa hugrenningatengsl við paradísarsögu Gamla testamentisins og Edengarðinn. Jafnframt þjónar þetta atriði augljóslega þeim tilgangi að sýna að hinir ljúfu og áhyggjulausu tímar eru að baki og eitthvað mikið verra er í vændum.
Á einum stað heyrum við fullorðinn mann segja: ‚Ég trúi ekki lengur á Guð.‘ Það er þegar hann horfir upp á að verið er að flytja sonarson hans í burtu með valdi, væntanlega í útrýmingarbúðirnar. Sú spurning hefur oft verið rædd, einkum meðal Gyðinga, hvort hægt sé að trúa á Guð eftir helförina. Hvar var Guð þegar þessi óhugnaður átti sér stað? Af hverju svaraði hann ekki bænum þjóðar sinnar? Á einum stað sjáum við mann biðja til Guðs þegar búið er af safna saman miklum mannfjölda til brottflutnings. Annars eru hinar svokölluðu trúarlegu spurningar ekki til umræðu í myndinni, a.m.k. ekki á yfirborðinu. En myndin vekur þeim mun fleiri slíkar spurningar. Við verðum vissulega vitni að mannlegri reisn í myndinni, náungakærleika og þránni eftir að halda fjölskyldum sínum saman, þránni eftir að halda lífi hvað sem það kostaði.
Seint í myndinni sjáum við nasistaforingjann Wilm Hosenfeld sýna kærleika í verki og hreinlega bjarga lífi Szpilmans. Það gerist er hann finnur Szpilman í húsi einu í rústum Varsjárborgar, þar sem hann hefur fundið sér felustað uppi á lofti. Eftir að hafa hlýtt á Szpilman spila á píanó sem var í hálfhrundu húsinu færði hann honum mat og síðar er nasistar urðu að flýja borgina vegna þess að Rauði herinn var á næsta leiti kom foringi þessi og færði Szpilman að skilnaði frakka sinn með þeim orðum að sjálfur ætti hann annan. Hér koma óneitanlega í huga orð frelsarans eins og þau birtast í Lúkasarguðspjalli: ‚Sá sem á tvo kyrtla gefi þeim er engan á og eins gjöri sá er matföng hefur‘ (Lk 3:11). Þegar Szpilman reynir að þakka Hosenfeld fyrir hjálpina og lífgjöfina svarar hann: „Þakkaður ekki mér, þakkaður Guði“ og segir að það hafi væntanlega verið vilji Guðs að þeir kæmust af. ‚Við verðum að trúa því,‘ bætir hann við. Hér minnumst við orða gamla Gyðingsins fyrr í myndinni þar sem hann sagðist ekki lengur trúa á Guð. En þýski foringinn sem á þessari stundu sá fyrir sér ósigur Þjóðverja virtist enn skynja einhvern tilgang Guðs með öllu saman. Spurningin um tilvist Guðs og tilgang er vissulega áleitin andspænis öllum þeim óhugnaði og þeirri miklu grimmd sem nær fram að ganga í þessari sögulegu mynd.
Nasistaforinginn Hosenfeld er óneitanlega meðal minnistæðustu persónanna í myndinni og hann fær áhorfandann til að halda í trúna á mennskuna þrátt fyrir allan óhugnaðinn. Við sjáum líka mynd af fjölskyldu þessa nasista á borði hans þannig að augljóslega er leitast við að sýna hann í mjög mennsku ljósi.
Myndin gefur ekki einhlýtt svar við því hvers vegna Szpilman komst af frekar en allur þorri Gyðinganna. Vissulega kann að blasa við að þar hafi einfaldlega röð tilviljana ráðið miklu. En ýmsir aðstandendur myndarinnar hafa talað um vonina sem sterkt afl í því sambandi og ekki síður tónlist hans. Þrá hans eftir að fá að spila tónlist aftur hafi þarna haft sitt að segja og fyrst og síðast virðist mér tónlistin hér skipta meginmáli. Því má ekki gleyma að oft var honum bjargað vegna þess hver hann var, þ.e. þekktur tónlistarmaður. En hitt skiptir líka máli og hafði ekki svo lítið að segja að minningin um tónlistina og það hvernig hún ómar í höfði hans heldur Szpilman gangandi í einsemd hans, hann spilar ‚í hljóði‘, æfir fingur sínar og heldur þannig í mennsku sína og þá von að hann eigi eftir að spila á nýjan leik á opinberum vettvangi. Sjálfur hefur Polanski tjáð sig um að hann telji vonina sem tengist tónlistinni hér hafa skipt meginmáli.
Myndin endar á svipaðan hátt og hún byrjar með því að við sjáum Szpilman á nýjan leik spila Chopin.
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 3:23; Jes 53:7, Jer 12:3, Sl 22:22, Lk 3:11, P 8:32, 2Tm 4:17
Guðfræðistef: Guð, guðsafneitun, von, samviska, trú
Siðfræðistef: félagslegt misrétti,Gyðingahatur, kynþáttahatur, niðurlæging, ofbeldi, morð, pyntingar, stríð, svik, uppreisn
Trúarbrögð: Gyðingdómur, nasismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Paradís
Trúarleg tákn: Blá Davíðsstjarna, hakakross, mynd af eirormi
Trúarlegt atferli og siðir: Bæn
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: Nýjarshátíð
Trúarleg reynsla: Helförin