Kvikmyndir

The Pledge

Leikstjórn: Sean Penn
Handrit: Jerzy Kromolowski og Mary Olson, byggt á skáldsögu eftir Friedrich Dürrenmatt
Leikarar: Jack Nicholson, Patricia Clarkson, Robin Wright, Aaron Eckhart, Dale Dickey, Costas Mandylor, Helen Mirren, Tom Noonan, Michael O’Keefe, Vanessa Redgrave, Pauline Roberts, Mickey Rourke og Sam Shepard
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2001
Lengd: 124mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0237572
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Rannsóknalögreglumaðurinn Jerry Black sver við hjálpræði sitt, sálu sína og kross Krists að hann muni finna morðingja ungrar telpu. Það hefði hann hins vegar betur látið ógert því að frá þeirri stundu er hann sviptur öllum sálarfriði.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Eftirfarandi fyrirmæli Jesú Krists eru að finna í Fjallræðunni: „Ég segi við yður, að þér eigið alls ekki að sverja, hvorki við himininn, því hann er hásæti Guðs, né við jörðina, því hún er skör fóta hans, né við Jerúsalem, því hún er borg hins mikla konungs. Og eigi skaltu sverja við höfuð þitt, því að þú getur ekki gjört eitt hár hvítt eða svart.“ (Mt 5:34-36.)

Í raun má segja að þetta sé inntak kvikmyndarinnar The Pledge, þótt hvergi sé til þeirra vitnað beinum orðum. Jerry Black er kominn á eftirlaun og dreymir um það eitt að geta eytt því sem eftir er ævinnar við stangveiðar. Síðasta vinnudaginn verður honum það hins vegar á að lofa móður lítillar telpu sem hafði verið myrt að finna morðingjann. Hann gengur meira að segja svo langt að sverja það við hjálpræði sitt, sálu sína og lítinn trékross, sem dóttirin hafði smíðað.

En hvernig getur maður, sem kominn er á eldri ár, sest áhyggjulaus í helgan stein með slíkt á samviskunni? Hjálpræði hans og sálarheill er að veði! Slagorð kvikmyndarinnar snýst einmitt um þessa sálarkreppu Blacks en það segir: „Rannsóknalögreglumaðurinn Jerry Black hefur gefið loforð, sem hann getur ekki brotið, að handsama morðingja, sem hann getur ekki fundið.“

Það áhugaverða við myndina er hvernig eiðurinn, sem Black sór, legst á sálu hans og breytir honum smám saman í illþýði, sem reynist litlu skárra en morðinginn sjálfur. Þegar Black kemst að því hvar morðinginn muni fremja næsta glæp sinn, flytur hann þangað og finnur líklegt fórnarlamb, átta ára telpu, sem hann notar sem tálbeitu. Hann meira að segja klæðir hana í föt, sem hann veit að morðinginn hrífst af, og smíðar handa henni rólu við þjóðveginn til að tryggja að morðinginn sjái hana örugglega.

Þar með reynist Black engu betri en morðinginn, enda tilbúinn að hætta lífi telpunnar (án vitundar móðurinnar) fyrir eigin ávinning. Unga telpan er því í raun aðeins peð í refskák tveggja vitfirrtra manna. Þannig umbreytir eiðurinn Black í ófreskjuna sem hann leitar svo mjög að.

Í kvikmyndinni er unnið markvist með fjölmörg tákn. Takið t.d. eftir svörtu fuglunum sem jafnan boða eitthvað illt, en þeir eru sýndir skömmu á undan fyrsta líkinu og síðan á helstu raunarstundunum, þ.e. þegar líf stúlkunnar er í hættu. Það er einnig áhugavert að morðinginn skuli klæðast svörtum fötum og keyra um á svörtum bíl, en mögulega má sjá þar tengsl við svörtu fuglana, fyrirboða válegra tíðinda. Svarti liturinn er ekki eina litastefið í kvikmyndinni því að rauði liturinn kemur einnig mikið við sögu, en öll fórnarlömb morðingjans eru klædd rauðum kjól. Rauður er að sjálfsögðu litur blóðsins og ástríðnanna.

The Pledge er fantagóð spennumynd sem gefur sér tíma til að segja söguna og spilar óspart á væntingar áhorfandans. Jack Nicholson er ómótstæðilegur að vanda en myndin skartar einnig fjölmörgum öðrum stórstjörnum eins og t.d. Aaron Eckhart, Mickey Rourke og Sam Shepard. Leikstjórn Seans Penn er jafnframt yfirveguð og fáguð í flesta staði.

Að lokum smá hugleiðing fyrir þá sem hafa séð myndina og vita hver morðinginn er. Það gladdi mig mikið að trúaði maðurinn skuli ekki hafa verið morðinginn því það er satt best að segja orðið ansi þreytandi að annan hver morðingi skuli reynast bókstafstrúarmaður úr einhverjum vakningarsöfnuði.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían
Hliðstæður við texta trúarrits: Mt 5:34-36
Persónur úr trúarritum: engill, Guð, Jesús Kristur
Guðfræðistef: eldskírn, hjálpræði, sál, vatn lífsins, skírn
Siðfræðistef: heimilisofbeldi, vímuefnaneysla, morð, nauðgun, sjálfsvíg
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross, svartir fuglar
Trúarlegt atferli og siðir: bæn