Leikstjórn: Mario Camus
Handrit: Mario Camus, Mario Cecchi Gori, José Vicente Puente, Miguel Rubio, Alberto Silvestri og Franco Verucci, byggt á sögu eftir Manolo Marinero
Leikarar: Terence Hill, Maria Grazia Buccella, Fernando Rey, Mario Pardo, Máximo Valverde, Ángel Lombarte, Carlo Alberto Cortina, Manuel Alexandre, Manuel de Blas, William Layton, José Manuel Martín, Carlos Otero og Andrés Resino
Upprunaland: Ítalía og Spánn
Ár: 1971
Lengd: 94mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Tveir leigumorðingjar eru fengnir til að myrða byltingarsinnaðan stjórnmálaleiðtoga í Mexíkó sem ferðast um meðal alþýðunnar ríðandi á asna og reynir að fá hana til að rísa upp gegn því misrétti sem landeigendurnir beita hana. Þar sem stjórnmálaleiðtoginn fer huldu höfði og gerir aldrei boð á undan sér, reynir annar leigumorðinginn að komast inn í innsta hring helstu fylgismanna hans til að ná þar færi á honum.
Almennt um myndina:
Allmargir spaghettí-vestrar eru í raun pólitískar dæmisögur í marxískum anda, enda litu ýmsir vinstri sinnaðir ítalskir og spánskir kvikmyndagerðarmenn á vestrann sem kjörinn vettvang til að koma hugsjónum sínum á framfæri við almenning á sjöunda og áttunda áratugnum. Þekktustu dæmin um slíka spaghettí-vestra eru A Bullet for the General (Damiano Damiani: 1965), The Big Gundown (Sergio Sollima (1966), Kill and Pray (Carlo Lizzani: 1968), Blood and Guns (Giulio Pertroni: 1968) og sá sem er hér til umfjöllunar. Reyndar segir í sumum handbókum um spaghettí-vestra að sögusviðið sé Spánn en aðrar tala um Mexíkó og er það m.a. gert á bakkápu íslenska myndbandsins frá JS video. Marxisminn gegnsýrir þó efnistök myndarinnar og er byltingin sögð eina leiðin til að vinna bug á kúgun alþýðunnar, en ráðandi stéttir beita öllum ráðum til að viðhalda völdum sínum og láta hiklaust myrða þá sem kunna að ógna þeim, eða eins og það er orðað á einum stað: „Það eina sem almúgurinn skilur er svipann.“
Terence Hill leikur annan leigumorðingjann grafalvarlegur á svip og hefur sjaldan ef nokkurn tímann verið betri en í því hlutverki, en honum hefur alltof oft hætt til að ofleika í myndum sínum. Enda þótt leigumorðinginn sé nefndur Trinity í titli myndarinnar (heitir raunar Marcó í sjálfri myndinni) á hún ekkert skilt við Trinity gamanmyndirnar svo nefndu með þeim Terence Hill og Bud Spencer í aðalhlutverkum. Þeir sem gera sér vonir um heimskuleg slagsmálaatriði með gnægð hnefahögga og steikarpönnubarsmíða munu verða fyrir vonbrigðum, enda er glóran öllu meiri hér.
Þrátt fyrir nokkuð áhugaverð efnistök er myndin samt frekar flatneskjulega gerð og eru hljóðsetningin og klippingarnar sérstaklega klúðurslegar. Versti gallinn er þó hversu langdregin myndin er á köflum og hæfir tónlistin henni engan veginn þá sjaldan sem hún heyrist.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Hliðstæðan milli byltingarsinnaða stjórnmálaleiðtogans og Jesú Krists er augljós, en báðir ferðast þeir um landsbyggðina og segja dæmisögur um kjör manna og breytni þeirra hverjum þeim sem heyra vill til að rétta hlutskipti þeirra. Áður en stjórnmálaleiðtoginn kemur til þorpsins þar sem leigumorðingjarnir sitja fyrir honum veit enginn hvernig hann lítur út en flestir bíða hans samt þar af mikilli eftirvæntingu. Fram kemur að þeim hafði verið lofað að einhver yrði sendur til að sameina alþýðuna og kenna henni að berjast fyrir réttindum sínum. Þegar járnsmiðurinn í þorpinu hlustar á barnaskólakennarann tala af mikilli eftirvæntingu um hvað þessi stjórnmálaleiðtogi muni gera fyrir fólkið segir hann eilítið vantrúaður: „Þetta hljómar eins og hann sé annar Jesús.“
Að lokum kemur stjórnmálaleiðtoginn til þorpsins ríðandi á asna eins og Jesús Kristur gerði þegar hann hélt til Jerúsalem. Sviðsetningin þar sem hann sest niður með fólkinu og flytur þeim fagnaðarerindi marxismans í búningi dæmisagna er jafnframt sláandi lík þeim biblíumyndum sem finna má í ótal biblíusögubókum fyrir bæði börn og fullorðna. Sumir þorpsbúanna verða samt fyrir nokkrum vonbrigðum að stjórnmálaleiðtoginn skuli líta út eins og hver annar betlari en hann hrífur þá engu að síður með boðun sinni um leið og hann fer að tala. Strax að loknum fyrsta málsverðinum skipar hann einum þorpsbúanum að þrífa skóna sína en skammar hann síðan fyrir að hlýða slíkri skipun og kallar hann þræl þegar hann reynir að biðjast afsökunar því að það eigi enginn að umbera órétt og ávallt beri að svara fyrir sig. Boðskapur stjórnmálaleiðtogans kristallast í þessum orðum hans: „Ég er kominn til að segja ykkur frá nýjum og frjálsum heimi þar sem allt tilheyrir öllum og allir hafa sömu réttindi.“
Þó svo að vísunin í Jesú Krist verði að teljast augljós er ekki þar með sagt að boðskapur stjórnmálaleiðtogans sé í samræmi við hann, en sjálfur þvoði t.d. Jesús fætur lærisveina sinna til að gefa þeim eftirdæmi, að þeir ættu að koma eins fram við hverja aðra og hann gerði við þá. Stjórnmálaleiðtoginn í myndinni þvoði hins vegar enga fætur heldur skammaði þá sem slíkt gerðu og sagði þeim að berjast fyrir rétti sínum með ofbeldi ef nauðsyn krefði.
Beinast liggur við að líta á leigumorðingjann Marcó (Trinity) sem Júdas, en hann reynir að komast inn í innsta hring fylgismanna stjórnmálaleiðtogans til þess eins að svíkja hann og myrða. Og þegar honum tekst það að lokum verður það aðeins til þess að fylgismennirnir öðlast fyllri skilning á því hvað felst í frelsinu og þjappar það þeim saman. Þeir neita að vinna fyrir landeigendurna nema þeir fái ýmis grundvallarréttindi eins og afmarkaðan vinnutíma og sérstakan verkalýðssjóð og gefa ekki eftir þótt þeir séu beittir mikilli hörku.
Smám saman fær Marcó samúð með málstað alþýðunnar og gengur að lokum til liðs við hana, en félagi hans og bróðir starfar áfram sem leigumorðingi á vegum landeigendanna. Það verður honum hins vegar ekki til gæfu, enda svíkja landeigendurnir hann og drepa, en þá heitir Marcó þess að hefna hans grimmilega. Það þýðir þó ekki að Marcó komist upp með gjörðir sínar og biður dauðinn hans að lokum, enda segir einn helsti landeigandinn að hann muni bölva þeim degi sem hann fæddist (orðalagið minnir á Jer. 20:14).
Hliðstæður við texta trúarrits: 3M 24:20, Jer 20:14, Mt 21:1-11, Mk 11:1-11, Lk 19:28-38, Jh 12:12-19, Jh 13:4-20
Persónur úr trúarritum: Jesús Kristur
Guðfræðistef: frelsun, jesúgervingur, júdasargervingur
Siðfræðistef: manndráp, launmorð, fjárhættuspil, sæmd, samviskan, félagslegt misrétti, blekking, svik, hefnd, bylting
Trúarbrögð: kommúnismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross við kirkju, róðukross
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: kirkjuklukknahringing, útför, predikun