Kvikmyndir

The Road to Guantanamo

Leikstjórn: Michael Winterbottom með aðstoð Mat Whitecross
Leikarar: Riz Ahmed, Farhad Harun, Waqar Siddiqui, Afran Usman, Shahid Iqbal, Sher Khan, Jason Salkey, Jacob Gaffney og Mark Holden
Upprunaland: Bretland
Ár: 2006
Hlutföll: imdb.com/title/tt0468094/maindetails
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Fjórir breskir vinir, sem eru ættaðir frá Pakistan, ferðast til Afganistan. Þar lenda þeir í miðjum stríðsátökum með þeim afleiðingum að einn lætur lífið og hinir þrír eru sendir til Guantánamo fangabúðirnar í tvö ár, grunaðir um að vera hryðjuverkamenn.

Almennt um myndina:
The Road to Guantanamo hefur vakið mikla athygli og verið lofsömuð af flestum gagnrýnendum. Michael Winterbottom fékk Gullna björninn á Berlínarhátíðinni fyrir leikstjórn og myndin sjálf var jafnframt tilnefnd til sömu verðlauna.

Vissulega er The Road to Guantanamo áhrifamikil en ég get ekki sagt að margt í henni hafi komið mér á óvart. Helsti galli hennar sem heimildarmyndar er hins vegar að hún er allt of einhliða. Við fáum aldrei að heyra hlið Bandaríkjanna, ef frá eru talin skot af Bush og Rumsfeld (sjá nánar hér að neðan). Þá virðast drengirnir aldrei vera spurðir erfiðra spurninga, eins og hvers vegna þeir fara í svona langan tíma til Afganistan þegar þeir eiga í raun að vera að undirbúa giftingu. Myndin er einfaldlega þeirra saga, þeirra hlið á sannleikanum. Ekki það að ég gruni þá um stórlygar, en í vandaðri heimildamynd er reynt að gæta þess að báðar hliðar fái að njóta sín. Mér fannst aldrei vera reynt að afhjúpa einhvern sannleika. Myndin virðist vera myndskreyting við frásögu drengjanna.

Þetta er að mestu leikin heimildamynd, með viðtalsskotum inn á milli. Mér fannst leikurinn oft ótrúverðugur, sérstaklega hvað amerísku hermennina varðar.

Nú hljómar þetta eins og það sé fátt gott um þessa mynd að segja. Svo er alls ekki, hún er bæði þörf, sterk og hugvekjandi. Og ef eitthvað sannar mikilvægi hennar þá er það sú staðreynd að tveir leikarar myndarinnar og tveir af drengjunum sem lentu í hörmungunum voru yfirheyrðir í Bretlandi þegar þeir voru á leið heim frá Berlínarhátíðinni þar sem myndin var verðlaunuð. Samkvæmt BBC var einn þeirra spurður hvort hann hygðist halda áfram að gera pólitískar kvikmyndir.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Myndin hefst á orðum Bush þar sem hann segir: „The only thing I know for sure is that these are bad people“ Ef þetta er það sem Bush vissi fyrir víst, þá gef ég ekki mikið fyrir ágiskanir hans. Í raun má segja að markmið myndarinnar sé að afsanna þessi orð Bush og í raun einnig orð Rumsfeld um að mannréttindalög hafi ekki verið brotin í Guantánamo.

Bandaríkin eru í stríði við öfgamenn sem segjast berjast í nafni Guðs en þegar á myndina líður á maður ávallt erfiðara með að sjá muninn á íslömskum öfgamönnum og hermönnum Bandaríkjanna. Í raun virðast Bandaríkin ekki aðeins vera í stríði gegn hryðjuverkum heldur einnig í heilögu stríði gegn islam og menningu múslima. Mikið er gert úr því hvernig trú múslimanna er hædd, þeim er refsað fyrir að leggjast á bæn, Kóraninum er sýnd vanvirðing og það er ýjað að því að þeir geti ekki verið vesturlandabúar ef þeir iðki trú sína. Ef markmiðið var að draga úr trúarsannfæringu drengjanna þá virðist það hafa farið fyrir ofan garð og neðan. Einn þeirra segist meira að segja hafa lítið sinnt trú sinni fyrr en eftir þessa reynslu.

En fordóma er ekki aðeins að finna hjá þeim sem birtast í myndinni. Áhugavert er að lesa umræður á netinu. Þar virðist fólk skiptast í tvær fylkingar, þá sem eru reiðir yfir því sem gerðist og þá sem sjá ekkert athugavert við framferði Bandaríkjamanna, enda hafi múslimar ráðist á Bandaríkin fyrst. Allir múslimar eru því lögleg skotmörk eftir 11. sept. Svona viðbrögð fékk mann til að leiða hugann að því hvað þetta sama fólk myndi segja ef kristinn maður væri pyntaður vegna þess að hann lagðist á bæn, eða Biblía hans væri vanvirt. Maður veltir því fyrir sér hvort trúfrelsið hafi líka hrunið 11. september eins og turnarnir tveir.

Það er margt sem minnir á helförina í myndinni. T.d. þegar hópi manna er safnað saman í gám þar sem þeir eru við það að kafna. Síðan er skotið á gáminn með þeim afleiðingum að meirihluti þeirra sem eru í honum láta lífið. Við þetta bætast hrottalegar pyntingar, niðurlæging og svelti.

Mennskan er þó ekki gjörsamlega glötuð. Fangarnir fá smátt og smátt betri meðferð í Guantánamo, eftir því sem hermennirnir og fangarnir kynnast betur og í myndinni er að finna fallega senu þar sem bandarískur hermaður hjálpar einum drengjanna þegar hættuleg kónguló kemst inn í búrið hans. En þetta eru nánast undantekningar sem sanna regluna. Svo virðist sem mennskan hafi að mestu einnig hafa hrunið með turnunum tveimur.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Kóraninn
Guðfræðistef: heilagt stríð, trúfrelsi
Siðfræðistef: hjálpsemi, stríð, þjófnaður, fjöldamorð, mannréttindi, lygar, pyntingar, fordómar
Trúarbrögð: islam
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: moska
Trúarlegt atferli og siðir: Skipulagt hjónaband, gifting, bæn
Trúarleg reynsla: Endurlausn