Kvikmyndir

The Shawshank Redemption

Leikstjórn: Frank Darabont
Handrit: Frank Darabont, byggt á smásögunni Rita Hayworth and Shawshank Redemption eftir Stephen King
Leikarar: Tim Robbins, Morgan Freeman, Bob Gunton
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1994
Lengd: 142mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Andy Dufresne, fyrrverandi bankastarfsmaður og raunar varaforseti í stórum banka (leikinn af Tim Robbins), er dæmdur í tvöfalt lífstíðarfangelsi fyrir meint morð á eiginkonu sinni og elskhuga hennar. Vistin í Shawshank fangelsinu einkennist af miklu harðræði og kúgun þar sem ofbeldi er daglegt brauð. Þrátt fyrir að fara ekki varhluta af ofbeldinu missir Andy aldrei vonina og það er hún sem heldur honum gangandi.

Almennt um myndina:
Kvikmyndin The Shawshank Redemption er í 2. sæti á lista Internet Movie Database yfir vinsælustu kvikmyndir allra tíma. Hróður myndarinnar og vinsældir hafa aukist með árunum því að í upphafi var fátt sem benti til slíkra vinsælda. Hún var vissulega tilnefnd til sjö Óskarsverðlauna 1994 en varð að lúta í lægra haldi fyrir Forest Gump og fékk engin verðlaun þegar upp var staðið.

Myndin er byggð á skáldsögu Stephen King ‘Rita Hayworth and the Shawshank Redemption’ frá árinu 1982. Hún fjallar um vináttu tveggja einstaklinga í Shawshank-fangelsinu í Maine, von, iðrun, ranglæti og að lokum flótta og frelsi. Efni myndarinnar virðist við fyrstu sýn engan veginn sérlega frumlegt en þannig er unnið úr því að hér er á ferðinni mynd sem verðskuldar þær miklu vinsældir sem henni hafa hlotnast. Myndin er háguðfræðileg, einstaklega vel leikin og fagmannlega unnin í alla staði. Hún vinnur á við kynni. Þetta er svo sannarlega mynd sem þolir að horft sé á hana oftar en einu sinni.

Andy kemur í Shawshank-fangelsið árið 1946 og við sjáum í upphafi hvernig þeir fangar sem eru fyrir í fangelsinu veðja um hver nýju fanganna muni brotna niður fyrstu nóttina í hinum nýju og óhuganlegu vistarverum sínum. Ellis ‘Red’ Redding, önnur söguhetja myndarinnar, veðjar á Andy en reynist ekki sannspár, ekki heyrist hljóð frá Andy alla nóttina. Áhorfendur fá hins vegar þegar innsýn í ofbeldið í fangelsinu þegar fangaverðir refsa grimmilega einum nýju fanganna fyrir það eitt að hafa brotnað niður, grátið hástöfum og orðið eins og barn sem vildi fara heim og kallaði á mömmu sína í örvinglan sinni og angist. Barsmíðarnar sem hann mátti sæta voru slíkar að þær leiddu hann til dauða. Daginn eftir spurði Andy samfanga sína hvort þeir þekktu nafn þess sem dó. Þeir sýndu honum með látbragði og óhefluðu orðbragði að spurningin væri út í hött. Þessi maður væri dauður og þeim stæði nákvæmlega á sama um hver hann hefði verið.

Andy er í sjálfu sér engin ofurhetju og auðvelt er fyrir áhorfandann að samsama sig með honum og finna til þeirrar skelfilegu tilhugsunar að vera dæmdur til svo harðrar refsingar fyrir brot sem maður hefur ekki framið. Andy er til dæmis alveg ófær um að verjast ítrekaðri nauðgun þriggja samfanga sinna, ‘systranna’ svokölluðu, sem gera tvö fyrstu ár hans í fangelsinu að hreinu helvíti. Fangaverðirnir láta ekki heldur sitt eftir liggja í ofbeldi og margs konar harðræði og fangelsisstjórinn sjálfur er holdgervingur harðræðisins. ‘

Andy er einrænn og blandar í fyrstu lítt geði við aðra fanga, virðist enda af öðru sauðahúsi. En þar kemur að hann kynnist ‘Red’ (Morgan Freeman) sem þegar hefur afplánað tuttugu ára fangelsi og verið synjað um náðun. Hann er sögumaður myndarinnar og er leikur Freemans hreint stórkostlegur. Áhorfandinn hlýtur að undrast stórum yfir að slíkur leikur skuli ekki hafa dugað til Óskarsverðlauna.

Þar kemur að Andy öðlast sérstöðu meðal fanganna er fangaverðirnir og einkum fangelsisstjórinn komast að því að þeir geta nýtt sér kunnáttu hans á sviði banka- og skattamála til að hagnast og ‘þvo’ sína ‘óhreinu’ peninga. Hinn nýi starfsvettvangur Andys gerir honum kleift að leggja á ráðin um eigin björgun.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Fangelsistjórinn færir öllum föngum Biblíu við komu þeirra í fangelsið en ávarpar þá jafnframt þannig: ‘Ég trúi á tvennt: aga og Biblíuna. Hér fáið þið hvort tveggja. Treystið á Drottin. Rass ykkar tilheyrir mér. Velkomnir í Shawshank.’ Exodus-stefið er fyrirferðamikið í myndinni eins og betur verið vikið að hér að aftan. En fyrst og fremst er hún óður til vonarinnar.

Red, önnur aðalpersóna myndarinnar, er yfirvegaður og viðfelldinn blökkumaður. Hann hefur orð á sér fyrir að geta útvegað alls kyns varning og þar kemur að Andy notfærir sér það. Vinátta þeirra Andys og Red er eitt meginstef myndarinnar. Bent hefur verið á eftirfarandi orð Prédikarans í umfjöllun um myndina og eiga þau vissulega vel við um þá vináttu sem tekst með þeim Andy og Red.

„Betri eru tveir en einn, með því að þeir hafa góð laun fyrir strit sitt. Því að falli annar þeirra, þá getur hinn reist félaga sinn á fætur, en vei einstæðingnum sem fellur og enginn annar er til að reisa á fætur. Sömuleiðis ef tveir sofa saman, þá er þeim heitt , en sá sem er einn , hvernig getur honum hitnað? Og ef einhver ræðst á þann sem er einn, þá munu tveir geta veitt honum mótstöðu, og þrefaldan þráð er eigi auðvelt að slíta. (Préd 4:9-12).“

Þegar Andy lýsir yfir sakleysi sínu við Red svarar sá síðarnefndi: ‘Þú fellur vel inn í hópinn hér. Þú veist væntanlega að hér eru allir saklausir?’ Þetta er að sjálfsögðu háð enda voru þeir vistaðir í sérstöku öryggisfangelsi þar sem fanganir höfðu aðra og alvarlegri glæpi á samviskunni en stöðumælabrot.

Sögumaðurinn Red upplýsir okkur um að í fangelsi geri maður hvað sem er til að dreifa huganum. Það sem hann vissi hins vegar ekki, né nokkur innan veggja fangelsisins, var hvað Andy hafði fyrir stafni að næturlagi. Þó hafði Red útvegað honum múrhamar en hafði jafnframt reiknað út að það tæki 600 ár að grafa sér göng út úr fangelsinu með slíkum hamri. Það tók Andy hins vegar innan við tuttugu ár að grafa slík göng og plakat af Ritu Hayworth gegnir þar stóru hlutverki því að á bak við plakatið opnuðust göngin sem leiddu til frelsins, Exodus. Veggspjöld af Marlien Monroe og Rachel Welsh leystu smám saman upphaflega veggspjaldið af hólmi.

Tengslin við 2. Mósebók og frásögn þess rits af frelsun hinna hebresku þræla úr ánauðinni í Egyptalandi eru undirstrikuð með því að fangelsisstjórinn finnur múrhamar Andys inni í Biblíu eftir flótta hans úr fangelsinu og Biblían opnast á þeim stað að við áhorfandanum blasir orðið Exodus (brottför). Það eykur á kaldhæðnina að til þess rits sótti fangelsisstjórinn sína grundvallarreglu, þ.e. bannið við að leggja nafn Guðs við hégóma (2. Mósebók 20:7). En Andy er sloppinn úr prísundinni í Shawshank-fangelsinu þegar fangelsisstjórinn illræmdi finnur hamarinn inni í Biblíunni, hefur öðlast það frelsi sem hann gaf aldrei upp vonina um að öðlast. Áhorfendur minnast þess þá e.t.v. að fangelsisstjórinn hafði afhent Andy Biblíuna með orðunum: ‘Hjálpræðið (frelsunin) felst í henni.’ Raunar eiga Andy og fangelsisstjórinn það sameiginlegt að kunna Ritninguna utanbókar. Þegar fangelsisstjórinn gerði einu sinni skyndileit í klefa Andys sat sá síðarnefndi og las í Biblíunni. Aðspurður um hvort hann ætti sér uppáhalds ritningarstað svaraði Andy: ‘Vakið því, þér vitið ekki, nær húsbóndinn kemur . . .’ Fangelsisstjórinn svaraði að bragði að þetta væri úr Markúsarguðspjalli 13:35. Síðan fór hann með sinn uppáhalds ritningarstað: ‘Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.’ Og Andy reyndist vita að þessi orð voru úr Jóhannesarguðspjalli 8:12.

Þáttaskil verða í myndinni þegar fangelsistjórinn hafði látið myrða fanga sem nýkominn var í fangelsis og bjó yfir vitneskju sem sýnt gat fram á sakleysi Andys. Þegar Andy færði sögu fangans unga í tal við fangelsisstjórann varð það til þess eins að fanginn var myrtur en Andy sjálfur settur í mánaðarlanga einangrun sem síðar var tvöfölduð.

Yfir peningaskáp fangelsisstjórans er mynd með eftirfarandi texta: ‘Dómurinn kemur og það mjög fljótt’ (His Judgment Cometh and that Right Soon’). Þessi orð vekja með áhorfendum þá trú að fangelsistjórinn muni fyrr eða síðar hljóta makleg málagjöld, muni hljóta sinn dóm.

Vert er að taka eftir því að hugtökin fæðing og endurfæðing skipta miklu máli í myndinni. Þegar Andy hefur skriðið í gegnum 500 metra langt rör af saur og stendur nakinn úti í rigningunni lyftir hann höndum með opnum lófum til himins eins og í bæn. Þetta er ekki í fyrsta sinn í myndinni sem við sjáum nakinn líkama Andys. Í báðum tilfellum má skoða nekt hans sem svo að hún sé tákn fyrir það að verið sé að afklæða hann hinu gamla og undirbúa hann undir nýtt líf. Fyrra skiptið var er hann var afklæddur og settur í sturtu eða öllu heldur ‘smúlaður’. Í báðum tilfellum tengir sögumaðurinn Red við fæðingu. Er hann lýsir inngöngu Andys í fangelsið segir hann: ‘Þeir láta þig þramma inn nakinn eins og þú varst er þú fæddist.’ Og er hann lýsir flótta Andys gegnum skolprörið (sem hjá mér skapaði hugrenningatengsl við flótta hinna hebresku þræla í gegnum Rauða hafið, 2M 14) segir Red: ‘Hann kom út um hinn endann eins ferskur og hreinn eins og nýfætt barn.’ Í báðum tilfellum er nektin sýnilegt tákn um fæðingu, endurfæðingu – umskipti frá hinu gamla til hins nýja. Á svipaðan hátt notar Páll postuli líkinguna af barnsfæðingu til að lýsa því hvernig Andinn með von frelar ekki aðeins mannkynið heldur sköpunina í heild sinni (sjá Rm 8:22-23).

Red vinur Andys öðlast loks frelsi eftir fjörutíu ára vist í fangelsinu og sú tala minnir okkur á fjörutíu ára óbyggðagöngu Ísraelsmanna á leiðinni til fyrirheitna landsins. Í þessu tilfelli er fyrirheitna landið Mexíkó, það land sem Andy hafði sagt honum frá og beint honum til. Þar hittast þeir að lokum á sólríkri ströndu svo áhorfandinn öðlast trú á gildi vonarinnar. ‘Vonin er góð, kannski það allabesta og hið góða deyr aldrei’ fáum við að heyra í myndinni en áður hafði ‘Red’ varað Andy við því að vonin væri hættuleg. En vonin verður sér ekki til skammar í þessari mynd heldur þvert á móti. Í hugann koma ýmis orð Ritningarinnar um vonina, svo sem: ‘Von hinna hrjáðu bregst eigi sífellt’ (Sl 9:19) og ‘von þín mun eigi að engu verða’ (Ok 23:18), Andy sleppur á ótrúlegan hátt og býr jafnframt í haginn fyrir vin sinn og sendir honum þessi skilaboð: ‘Ég mun svipast eftir þér og hafa skákborðið tilbúið.’ Þessi orð skapa hugrenningatengsl við orð Jesú í Jóhannesarguðspjalli um að hann muni fara á undan lærisveinunum til að búa þeim stað (Jh 14:2-3). Kvikmyndin endar á orðum sögumannsins Reds og það segir sína sögu að í lokaorðum hans kemur setningin ‘ég vona’ fjórum sinnum fyrir. Hann sem áður hafði sagt að vonin væri hættuleg á lokaorð myndarinnar: ‘I hope.’ Vel má því taka undir þau orð Bryna P. Stones í ágætri umfjöllun hans um myndina að hún sé dæmisaga til útskýringar á kristinni von.

Lokasena myndarinnar sem sýnir hvíta ströndina í Mexíkó og bláa víðáttu Kyrrahafsins myndar óneitanlega sterka andstæðu við einangrun og innilokun fangelsins.

Ekki er ofsagt að þessi velheppnaða kvikmynd sé sannkallaður óður til vonar og vináttu og hafi að geyma kraftmikla guðfræði vonarinnar. Ég get meira að segja tekið undir orð Bryan P. Stone í ágætri bók hans Faith and Film þar sem hann segir: ‘The Shawshank Redemption er dæmisaga til útskýringar á kristinni von’ (s. 183).

EndurlausnarhugtakiðEkki verður skilið svo við trúarlega þætti þessarar frábæru myndar án þess að fara nokkrum orðum um hugtakið ‘redemption’ (endurlausn) þar sem það kemur fyrir í sjálfum titli myndarinnar. Nærtækast virðist að telja að hugtakið vísi einfaldlega til flótta Andys úr fangelsinsu og til þess frelsis sem hann öðlaðist þar með. Við nánari íhugun virðist það hins vegar alls ekki fullnægjandi. Áður en lengra er haldið er rétt að huga að notkun endurlausnarhugtaksins hjá Deutero-Jesaja (þ.e. Jes k. 40-55):

Guðfræði D-Jesaja stendur föstum fótum í hinni heilögu hefð. Eins og Ísrael varð við Sínaí að heilagri þjóð vegna frumkvæðis Yahweh og andsvars fólksins, þannig varð þjóðin að útvöldum lýð í frelsuninni af Egyptalandi. Exodus var skilinn sem endurlausnarathöfn (Ex 15:3 [J]; 6:6 [P]; Ps 77:15.). Hugtakið „endurlausnari“ er komið úr fjölskylduréttinum (Sjá Rutarbók!). Endurlausnaranum (eða „lausnarmanninum“), sem nánasta karlkyns ættingja, bar skylda til að standa vörð um hagsmuni skjólstæðings síns. Ef ættinginn var seldur í þrældóm bar endurlausnaranum t.d. að kaupa hann lausan. Væri blóði ættarinnar úthellt bar endurlausnaranum sömuleiðis skylda til að hefna þess. Þýðing hugtaksins í D-Jesaja sést best á því hversu oft það er notað sem titill. Yahweh er endurlausnari (goel ) Ísraels og hann uppfyllir skyldur sínar sem endurlausnari með því að greiða lausnargjaldið fyrir þjóð sína (43:3). Nýi þátturinn í endurlausnarskilningi spámannsins er fólginn í hinni eskatólógísku sýn. Muilenburg segir, að halda megi því fram að allur hinn eskatólógíski atburður sem tengdur er komu Drottins sé fólginn í endurlausninni. Þessa atburðir dregur hann saman á eftirfarandi hátt:

a. Frelsun úr herleiðingunni á sama hátt og frelsað var úr ánauðinni í Egyptalandi forðum (43:5-7; 45:13; 48:20; 49:9,11,14; 52:2-3; 55:12-13)
b. Dómur yfir óvinum Ísraels (41:11nn; 49:25-26; 51:23)
c. Snúið heim til Palestínu (40:9-10; 43:20; 49:11; 51:11; 55:12-13)
d. Jerúsalem endurbyggð (44:26; 45:13; 49:16-17; 51:3; 52:9)
e. Endurreisn hinnar heilögu borgar (52:1; 54:11-12)
f. Endurreisn landsins sem hliðstæða gjafar landsins (44:26; 49:8,19)
g. Þjóðunum „snúið“ (45:20-23; 51:4-5; sbr. 49:6).

Endurlausnin er í annan stað andlegs eðlis. Yahweh huggar þjóð sína og afmáir syndir hennar (43:25; 44:22;54:8). Spámaðurinn sækir mjög gjarnan myndmál sitt yfir endurlausnina í orðaforða hernaðarins. Hið nýja tímaskeið hefst með sigri Yahweh yfir óvinum sínum (40:9-10; 42:13). „Armleggur Yahweh“ er eitt aðal táknið sem notað er til að lýsa hinum guðlega mætti. „Armleggur hans aflar honum yfirráða“ (40:10) og „grundvallar jörðina“ (48:12) og „dæmir þjóðirnar“ (51:5). Ástæðuna til þess að D-Jesaja notar sköpunarstefið jafn oft og raun ber vitni er sú að í sköpuninni hefur Guð reynst vera máttugur drottinn og í ljósi þess fær um að endurleysa Ísrael.

Víkjum þá aftur að endurlausninni í kvikmyndinni The Shawshank Redemption. Þar kemur skýrt fram að Andy er ekki bara með hugann við eigin flótta, fjarri því. Hann leitast með ýmsu móti við að bæta kjör samfanga sinna. Með mikilli þrautseigju tekst honum að afla styrkja til að byggja upp mjög gott bókasafn innan fangelsisins. Hann stendur einnig fyrir fullorðinsfræðslu meðal fanganna til að gera þeim lífið bærilegra og styrkja stöðu þeirra ef og þegar þeir fá lausn úr fangelsinu.

Þegar Andy hefur sannfært yfirfangavörðinn um að þiggja skattaráðgjöf sína þá biður hann um laun til handa samverkamönnum sínum innan fangelsis, þrjá bjóra á mann. Red sögumaður myndarinnar segir að bjórinn hafi orðið til þess að fangarnir hafi um stund fundið til frelsis. Sama gerist þegar Andy stelst frá bókasafninu til að spila eina af aríum Mósart þannig að hún hljómaði út um allt fangelsið. Einnig þá fáum við að heyra að fangarnir hafi um stutta stund fundið til frelsis.

Við megum heldur ekki gleyma því að hefndin er hluti af endurlausnarhugtaki Gamla testamentisins og Andy nær svo sannarlega að koma fram hefðnum gagnvart fangelsisstjóranum. En síðast en ekki síst sjáum við hvernig stemmningin breytist innan fangelsisins eftir flótta Any. Það er ekki laust við að í hugann komi samfélag lærisveinanna eftir upprisu frelsarans. Og Andy býr í haginn fyrir Red þannig að þegar hann loks fær náðun þá hefur Andy þegar búið honum stað og þeir hittast í fyrirheitna landinu, Mexíkó.

Endurlausnarhugtakið er því mun víðtækara í myndinni en svo að það nái bara til flótta Andys.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Exodus, 2M 20:7, 5M 5:11, 2Kro 20:20, Ok 3:5, Jes 26:4, Mk 13:35, Jh 8:12.
Hliðstæður við texta trúarrits: 2M 14, Pred 4:9-12, Sl 9:19, Ok 23:18, Jh 14:2-3, Rm 8:22-23.
Sögulegar persónur: Mozart, Einstein
Guðfræðistef: Endurlausn, frelsi, fyrirheitna landið, Guð, von, kraftaverk, kærleikur, vinátta, traust á Guði, fjörutíu ára óbyggðaganga, sannleikur, synd
Siðfræðistef: Morð, nauðgun, ofbeldi, ranglæti, agi, sekt, sakleysi, mútur, peningaþvottur, dómur, refsing, hjónaskilnaður, framhjáhald, sjálfsvíg, hefnd, endurhæfing, náðun, skilorð, spilling, svardagi, ‘svartir peningar.’
Trúarbrögð: Kristni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkjugarður, helvíti
Trúarlegt atferli og siðir: Bæn
Trúarleg reynsla: Endurfæðing