Leikstjórn: Jim Reardon
Handrit: George Meyer
Leikarar: Dan Casteslaneta, Julie Kavner, Nancy Cartwright, Yeardley Smith, Hank Azaria og Harry Shearer
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1992
Lengd: 20mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 4
Ágrip af söguþræði:
Kaldan vetrarmorgun á sunnudegi neitar Hómer Simpson að fara með fjölskyldu sinni til kirkju. Hann skemmtir sér konunglega á meðan fjölskyldan er við það að frjósa í rafmagnslausri kirkjunni. Hómeri hefur sjaldan liðið betur og ályktar að best sé að hann fari aldrei aftur til kirkju. Hómer sannfærist ennfrekar þegar hann dreymir að Guð birtist honum í draumi og samþykji að hann iðki trú á sína eigin vegu. Marge eiginkona Hómers er miður sín yfir þessu og gerir allt sem í hennar valdi stendur til að Hómer haldi áfram að iðka kirkjusamfélagið. Þegar Hómer lendir í eldsvoða á heimili sínu og Ned Flanders og fleiri félagar bjarga honum frá dauða snýr Hómer aftur í kirkjuna.
Almennt um myndina:
Simpson-fjölskyldan er ein vinsælasta þáttaröðin sem sýnd hefur verið í Bandaríkjunum, þátturinn sem hóf göngu sína 1989, nýtur mikilla vinsælda og er ennþá í framleiðslu. Ólíkt öðrum vinsælum þáttaröðum eins og t.d. Friends og Fraizer er undirliggjandi mun meiri siðferðisboðskapur í Simpson-þáttunum. Þættirnir eru á tíðum mjög kaldhæðnir og gera hispurslaust grín að bandarísku samfélagi, stjórnmál, trúarbrögð, skólakerfi, menning og hugmyndafræði eru því ekki undanskilin í grín-satíru höfunda Simpson. Einn aðalkostur þáttanna er sá að þeir draga upp mynd af litlu samfélagi, búa yfir mörgum skemmtilegum karakterum sem eru nær endalaus uppspretta nýrra stefja og söguþráða.
Segja má að persónur þáttanna séu nokkurs konar fulltrúar fyrir ákveðna hópa, þar finnum við fyrir karaktera sem velflestir kannast við úr sínu samfélagi. Stundum er unnið sérstaklega með þessa karaktera og ljósi varpað á líðan þeirra og þannig skyggnst inn í hugarheim ólíkra stétta og aldursflokka. Í þessu tilliti er Apu fulltrúi fyrir innflytjendur, Mr. Burns er fégráðugur og kaldur kapítalisti, lögreglustjórinn er laturog áhugalaus ríkisstarfsmaður, Krusty er fulltrúi fræga fólksins og skemmtanaiðnaðarins, en einnig höfum við höfum fulltrúa úr kennarastétt, slökkviliðsmenn, spillta stjórnamálamenn, lækna, o.s.frv. Auðvelt er að finna fulltrúa fyrir ákveðnar trúarskoðanir og áherslur, en afar algengt er að persónur í Simpsons-þáttunum snúi sér til Guðs þegar þær lenda í vandræðum og erfiðum aðstæðum. Enginn fulltrúi stendur þó sérstaklega fyrir guðleysi sem er athyglisvert.
Að öðru leyti er gefin nokkuð góð mynd af þeim ólíku trúarskoðunum sem fyrirfinnast í vestrænum samfélögum. Ned Flanders og fjölskylda standa fyrir bókstafstrúarmanninn sem hefur helgað líf sitt trúnni. Apu stendur fyrir austræn viðhorf mystíkur og hindúisma. Lisa Simpson stendur fyrir kristna siðfræði, Bart stendur fyrir efann og væga neikvæðni í garð trúarinnar, Hómer er stendur fyrir nokkurs konar hægindastóls-guðfræði/þeisma og Krusty er nýttur í umfjöllun um gyðingdóm. Séra Lovejoy má síðan segja að sé fulltrúi fyrir stofnunarvæðingu trúarinnar.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þátturinn, Homer the Heretic sem hér verður tekin fyrir, er að mínu viti einn allra fyndnasti Simpson-þátturinn frá upphafi. Reyndar er ég ekki einn um þessa skoðun því áhangendur Simpson þáttanna völdu í ágúst 2004 þáttinn Homer the Heretic næstbesta Simpson þátt sem gerður hefur verið. Einnig völdu starfsmenn og teiknarar, sem komið höfðu að þáttunum 300 sem gerðir höfðu verið árið 2003, Homer the Heretic 8.besta þáttinn frá upphafi. (Sjá: www.snpp.com/guides/favepisodes.html.) Í þættinum er tekið á kirkjusókn og mikilvægi trúarinnar innan Simpson-fjölskyldunnar sem og þeim siðferðislegu spurningum sem koma upp þegar húsfaðirinn neitar að sækja kirkju. Málið er skoðað í spéspegli en jafnframt þannig að undirliggjandi er ákveðinn boðskapur, trúarstefin eru mörg í þættinum enda þema hans er algerlega trúarlegt.
Athyglisvert er að enginn sena í þættinum beygir frá þema þáttarins en algengt er að nokkrum þemum sé fléttað saman í hverjum Simpson-þætti.
Í upphafi þáttarins ákveður Hómer að vera frekar heima í hlýjunni heldur en að fara í kirkju á ísköldum vetrarmorgni. Einn á heimilinu gerir Hómer ýmislegt sem hann hefur aldrei þorað gera eins og pissa með opna hurðina, dansa á nærbuxunum og fleira í sama dúr. Á meðan á gleði Hómers stendur er afgangur fjölskyldunnar sýndur ásamt þorra bæjarbúa Springfield í ískaldri kirkjunni. Hér eru málaðar sterkar andstæður: köld og óspennandi kirkjan annars vegar og hlýtt og fjörugt heimilið hins vegar. Andstæðurnar milli kirkjusóknar og veraldlegrar afþreyingar eru ítrekað málaðar upp út allan þáttinn. En valið reynist ekki alveg svona einfalt þar sem Hómer þarf að svara spurningunni, af alvöru, hvort rétt sé að sleppa kirkjuferð af þeirri ástæðu einni að það sé skemmtilegra að vera heima. Hómer spyr fjölskyldu sína hvernig hafi verið í kirkjunni þegar þau koma heim, þegar þau segja frá dapri reynslu sinni í frosinni kirkjunni er Hómer fljótur að svara því til að hann hafi upplifað besta dag lífs síns og að hann hafi ákveðið að fara aldrei aftur í kirkju. Í kjölfarið hefst langur kafli þar sem Hómer þarf að svara ýmsum spurningum sem upp koma.
Marge trúir því ekki að hann ætli að vera börnum sínum svo slæm fyrirmynd, hún reynir að tala hann til, við matarborðið, en Hómer spyr hvort Guð sé ekki alls staðar og hvort hann þurfi endilega að fara í kirkju til að tala við hann, hvort hún haldi ekki Guð hafi sitthvað betra við tíman að gera en að velta því fyrir sér hann haldi sig einn klukkutíma á hverjum sunnudegi . Mark I.Pinsky höfundur bókarinnar the Gospel according to the Simpson bendir á að með því að með því að neita að fara til kirkju og spyrja Marge ,,What´s the big deal about going to some building on Sunday.” Sé Hómer einfaldlega að glíma við spurningu sem mannkynið hafi spurt í þúsundir ára. ,,Hvernig vill Guð að hann sé tilbeðin?” (Pinsky, Mark I. 2001:18 The Gospel according to the Simpsons. Westminster John Knox Press. Lousiville.) Jafnframt veltir Hómer því fyrir sér hvort það geti ekki verið að þau hafi valið vitlausa trú og séu að gera Guð reiðari með hverjum sunnudeginum. Bart Simpson hvetur Hómer áfram í rökræðunni með því að sína viðbrögð eins og gjarnan eru sýnd í karismatískum söfnuðum.
Marge tekur þessari nýju hugmyndafræði Hómers mjög illa og telur hann vera bregðast skildu sinni sem uppalandi. Hún biður mjög einlæglega fyrir Hómer, að honum heyrandi, við rúmstokkinn. Hómer hefur þó aðra hluti í huga og reynir að fá Marge til við sig áður en hann sofnar og dreymir þá að Guð komi og spjalli við hann þar sem hann er að horfa á sjónvarpið. Samtal Hómers og Guðs er mjög áhugavert, Guð tekur þakið af húsinu og stígur niður í stofuna til Hómers. Athyglisvert er að Guð er í sandölum og með sítt hvítt hár og skegg, andlit hans er þó aldrei sýnt en hann notar þéranir og talar virðulegt mál, einnig hefur hann fimm fingur en fólkið í Simpson hefur einungis fjóra. Samtalið hefst á eftirfarandi hátt:
God: Thou hast forsaken my Church!
Homer: [óttasleginn] Uh, kind-of… b-but…
God: But what?!
Homer: I’m not a bad guy. I work hard and I love my kids. So why should I spend half my Sunday hearing about how I’m going to hell?
God: Hmmm. You’ve got a point there. You know, sometimes even I’d rather be watching football. Does St. Louis still have a team?
Homer: No they moved to Phoenix.
Homer semur síðan við Guð um að hann megi tilbiðja hann á sinn eigin hátt. Í samtalinu milli Guðs og Hómers er að finna mjög áhugaverða punkta, sérstaklega ef þeir eru skoðaðir í ljósi hugmynda Íslendinga um trú. Í raun má segja að hugmyndir Hómers í spjalli sínu við Guð og röksemdirnar sem hann notar gegn Marge í eldhúsinu séu á margan hátt lýsandi fyrir trúarviðhorf Íslendinga eins og trúarlífskönnun Péturs Péturssonar og Björns Björnssonar sýnir. (Ritröð Guðfræðistofnunnar 3. 1990. Trúarlíf Íslendinga. Björn Björnsson og Pétur Pétursson. Háskóli Íslands Reykjavík.) Íslendingar eru upp til hópa trúaðir en blanda trúnni á sinn eigin hátt. Íslendingar teljast ekki kirkjuræknir, þeir trúa mikið á engla, kærleiksríkan Guð og eilíft líf. Helvíti, djöfulinn og erfðasyndin eiga hins vegar ekki eins miklu fylgi að fagna. Kennisetningar kirkjunnar vefjast því ekki síður fyrir Íslendingum en Hómer Simpsson. Margir taka eflaust undir viðhorf Hómers: I’m not a bad guy. I work hard and I love my kids. So why should I spend half my Sunday hearing about how I’m going to hell?
Í framhaldinu af draumi sínum sannfærist Hómer um að hann hafi á réttu að standa. Hann ákveður að segja alfarið skilið við kirkjuna og stofnar sín eigin trúarbrögð. Þar sem hann gengur um í garðinum við hús Simpsonfjölskyldunnar, klæddur kufli með fugla og íkorna á öxlunum og höfði (vísun í Franz frá Assísí) spyr Lisa hann samviskuspurningar. (Pinsky, Mark I. 2001:19 The Gospel according to the Simpsons. Westminster John Knox Press. Lousiville.) Hún spyr hann hvers vegna hann hafi ákveðið tileinka líf sitt guðlasti, Hómer virðist hafa hugsað þetta og ákveðið að baktryggja sig, hann segir Lísu að hafa engar áhyggjur því ef hann hafi rangt fyrir sér muni honum snúast hugur í andarslitrunum. Marge reynir allt sem í hennar valdi stendur til að fá Hómer til að snúast hugur, hún býður Séra Lovejoy í mat í þeim tilgangi að snúa Hómer, en án árangurs. Nágranninn ofurtrúaði Ned Flanders slæst í hópinn þegar hann kemst á snoðir um villutrú Hómers, til að sýna honum fram á að kristin trú þurfi ekki að vera leiðinleg syngur hann ásamt fjölskyldu sinni mjög svo hallærislegt sunnudagaskólalag.
Einn sunnudagsmorgunin þegar Hómer og börnin eru að horfa á teiknimyndir tilkynnir Marge börnunum að nú sé tími til að fara til kirkju. Bart spyr hvernig standi á því að þau þurfi að fara í kirkju meðan Hómer er heima að horfa á teiknimyndir. Marge tilkynnir Hómer að ef hann ætli að bregðast uppeldislegri skyldu sinni verði hún að segja börnunum að pabbi þeirra sé skrýtin (wicked) Hómer svarar með því að benda á annan mann sem álitin var skrýtin. Hann hafi verið með sítt hár og haft hugmyndir sem margir töldu skrýtnar (wicked) og allir hafi ekki alltaf verið sammála honum. (Hér er verið að vísa í lýsingar sem þekktar eru um Jesú) Hómer virðist því vera að koma með snjöll mótrök en eins og ævinlega og einkennandi er fyrir hans karakter kemur annað á daginn, hann er búin að gleyma hvað maðurinn heitir, og hver röksemdin var með sögunni og endar á að segja við Marge að maðurinn hafi alltaf keyrt bláan bíl!
Þegar fjölskyldan fer til kirkju stendur yfirskrift messunar á kirkjuskiltinu: ,,When Homer met Satan” Málaðar eru mjög sterkar andstæður milli kirkjunnar og Hómers. Presturinn segir að djöfullinn noti leiðir sem gleðja augað, á meðan er Hómer sýndur uppí rúmi að lesa klámblað. Næst minnir presturinn á 3. boðorðið um helgi hvíldardagsins og þá er Hómer sýndur að kaupa bjór og vindla. Því næst fer séra Lovejoy fer með vers úr orðskviðunum 16:18 ,,Drambsemi er undanfari tortímingar” og þau orð rætast á Hómer þar sem hann er sýndur upp í sófa með bjór, vindil og klámblað og fullyrðir svo að ,,everbody is stupid except me”. Að svo búnu sofnar Hómer, missir vindilinn á klámblað sem kviknar í og þaðan berst eldurinn áfram uns húsið er orðið alelda, tortímingin blasir við.
Ned Flanders (sem einhverra hluta vegna er ekki í kirkju!) kemur Hómer til bjargar og dregur hann hetjulega útúr brennandi húsinu. Segja má að hér minni Flanders á Jesú Krist að því leyti að hann sem hann frelsar Hómer frá dauðum. Einnig er athyglisvert að hann setur hendurnar út eins og Jesú á krossinum (kannski bara eðlilega staða til að láta sig svífa út af annari hæð?) þegar hann stekkur út úr húsinu af annari hæð.
Slökkvilið bæjarins kemur líka og slekkur eldinn og en það samanstendur af ólíkum fulltrúum bæjarbúa. Hindúanum Apu, gyðingnum Krusty, alkóhólistanum Barney og lögreglustjóranum Wiggum. Þegar fjölskyldan birtist segir Lisa ,,þetta var sannarlega inngrip Guðs” en í sama mund teygir eldurinn sig yfir í hús Flanders og Hómer telur það mjög skrýtið þar sem Flanders sé mjög trúrækin, um leið og hann sleppir orðinu birtist regnský sem slekkur eldinn í húsi Flanders. Þegar eldurinn hefur verið slökktur og allir eru samankomnir í eldhúsi Simpsonhjónanna segir Hómer að Guð hljóti að vera að kenna sér einhverja lexíu með þessu. Í fyrstu fellur hann á hné og biður Guð að refsa sér. Flanders bendir honum þá á að Guð hafi ekki kveikt í húsi hans. Séra Lovejoy segir honum að Guð hafi hins vegar unnið í hjörtum vina hans hvort sem þeir voru Kristnir, Gyðingar eða annarar trúar. Greinilegt er að höfundar þáttarins velja þessa einstaklinga markvisst í slökkviliðið til að fá sem fjölbreyttastan hóp, enda markmið þáttarins að ná til sem flestra áhorfenda. Athyglisvert er að Séra Lovejoy virðist ekkert vita um Hindúsima og flokkar Apu sem ,,miscellaneous” (að hann til heyri ýmis konar trúarbrögðum) Apu, svarar því til að hann sé Hindúi, og það séu 700 milljón Hindúar í heiminum í dag. Lovejoy svarar með lítilsvirðingu: ,,Ahw that´s super.” Atriðið er mjög fyndið, og gerir bæði lítið úr kunnáttu og Lovejoy á öðrum trúarbrögðum, en er að mati Mark I. Pinsky um leið lýsandi fyrir hversu flestir Bandaríkjamenn vita lítið um Hindúisma. Hómer iðrast og biðst fyrirgefningar á framkomu sinni, Marge til mikillar ánægju. Hann lofar að mæta í kirkju næsta sunnudag, þar sem hann er svo sýndur sofandi …
… og hann dreymir að hann hitt Guð á gangi í himnaríki og Guð segir honum að hafa engar áhyggjur enda misheppnist 9 af hverjum 10 trúarbrögðum á fyrsta árinu!
Eftir að hafa horft á þáttinn nokkru sinnum tók ég eftir að á nokkrum stöðum er lauma höfundar þáttanna inn ákveðnum boðskap. Þegar Marge er að rökræða við Hómer í eldhúsinu má sjá miða hangandi á skáp bak við hana þar sem stendur: God bless this m… og spurning hvort m-ið eigi að standa fyrir meal, mess, man eða marriage. Hvað nákvæmlega vakir fyrir höfundunum með þessum texta skal ósagt látið en ljóst er að hér er ekki um tilviljun að ræða. Einnig er áhugavert að skoða fyrirboðanna í ræðu séra Lovejoy þar sem orð hans rætast í gjörðum Hómers. Þá má spyrja sig hvort höfundar laumi inn fyrirboða þar sem tónlistargetraun í útvarpinu fjallar um mann (Cochran) sem klúðraði tónlistarferli sínum með því að gefa lýsa skoðunum sínum á trúarsviðinu (öfga hægri pólítík) ,,These thing I believe in” er þetta fyrir boði um að eins fari fyrir Hómer þegar hann lýsir því yfir hverju hann trúi? Um það skal ekki dæmt hér en þetta er í öllu falli athyglisverð hliðstæða Þá stendur skýrum stöfum In God we trust á peningnum sem Hómer finnur, sem fær áhorfandann aftur til að hugsa um trú.
Um umfjöllun fræðimannsins Gordon LynchÍ bókinni Understanding Theology and Popular Culture, tekur Gordon Lynch sérstaklega fyrir þáttinn Homer the Heretic. Hér verða meginniðurstöður Lynch raktar. Hann skiptir þættinum upp í þrjá meginhluta:
1. hluti (Hómer ákveður að fara ekki í kirkju) Nær frá upphafi þáttar og fram að því þegar Marge og börnin koma heim úr kirkju og Hómer tilkynnir þeim að hann muni aldrei aftur fara í kirkju.
2. hluti (Fólk að sannfæra Hómer um að snúa til baka í kirkjuna en hann neitar) Nær yfir allar rökræður Hómers við hina ýmsu aðila um trú sína og þangað til hann segir: ,,Everbody is Stupid except me.”
3. Hluti (Hómer er bjargað úr eldsvoða, áttar sig mikilvægi á trúarlegrar mótunar samborgara sinna og snýr aftur í kirkju) Þessi sena nær frá eldsvoðanum og út restina af þættinum.
Með því að skoða þáttinn útfrá þessum þremur þáttum getum við séð að þátturinn er byggður upp í kringum ákveðin lykilþemu og viðfangsefni:
• Andstæðunnar milli þess að verja tíma sínum í kirkju eða utan hennar, hér er teiknað upp hvernig ákvörðunin að fara ekki í kirkju getur fært skjótfengnari ánægju. (1.hluti)
• Rökin fyrir því af hverju fólk telur kirkjusókn mikilvæga og hvernig hægt er að neita þessum rökum (2. hluti)
• Gildi trúar og hvernig hún knýr fólk til að horfa í kringum sig og sína náunganum umhyggju. (3. hluti)
Þessi þrjú lykilþemu þáttarins eru síðan notuð að mati Lynch til að sýna fram á ákveðnar andstæður og spennu milli í samskiptum milli ólíkra persóna þáttanna.
• Skyldur (Marge) gegnt sjálfselsku (Hómer)
• Umhyggja fyrir öðrum (Marge) gegnt því að vera mannfjandsamlegur (Hómer)
• Mannlegri trúarafstöðu (Marge) gegnt dæmandi trúarsafstöðu (Lovejoy)
• Samúð með skipulögðum trúarbrögðum (Marge, Lovejoy) gegnt andúð gegn skipulögðum trúarbrögð (Hómer)
Þessar ólíku persónur gefa okkur því ólík svör við spurningunni um hvort og hvers vegna fólk ætti að taka þátt í kirkjustarfi. Út frá sjálfumglöðu sjónarhorni Hómers er það fráleitt að sækja kirkju, þar sem það er ekki nógu skemmtilegt. Frá sjónarhorni Lovejoy er það nauðsynlegt þar sem það gefur mögulegt færi á að sleppa við eilífa glötun í helvíti og frá sjónarhorni Marge er kirkjusókn nauðsynleg af ræktarsemi við Guð og náungan, og þannig mikilvæg stoð í miðlun góðs siðferðis. Boðskapur þáttarins er sá að það er gott að fara í kirkju þar sem það gerir fólk að betri manneskjum sem hugsa um náungann.
Lynch bendir síðan á að sú guðsmynd sem gefin er í þættinum er í takt við civil-religon, hugtakið sem Frakkinn Roussau setti fyrstur fram og gengur út á trú sem hjálpar fólki til að gæta að skyldum sínum við náungan. Trúarbrögð eru þannig kerfi og athafnir sem vísa til heilagra hluta. Trúin og skyldurnar fá þegnanna til þess að líða sem siðferðislegri og þar af leiðandi samfélagslegri heild. Þessar hugmyndir sérgreina Guð ekki sem hinn kristna Guð, heldur er hann almennt skilgreindur og nær þannig yfir öll megintrúarbrögðin. Þannig tala bandaríkjamenn almennt um Guð í allri opinberri umræðu og í þessum Simpson gætir hennar sterkt að mati Lynch.
Þegar Lynch greinir þáttinn guðfræðilega, útfrá hugtakinu um Civil religion sem Lovejoy virðist halda í heiðri í lokaræðu sinni í eldhúsinu hjá Hómer, vitnar hann í einn þekktasta gagnrýnanda Civil religion hugmyndarinnar, Stanley Hauerwas. Hauerwas heldur því fram að það sé til lítils að samþykja allar trúarstefnur í ljósi þess að þær leiði af sér betri samfélagsheild. Hann hafnar inklúsívri (heildar) túlkun á trúnni sem leggur áherslu, framar öllu, á gildi þess að lifa sem góður þjóðfélagsþegn. Það virki kannski vænlegt til árangurs fyrir kirkjuna að horfa mest á gildin sem efla samfélagið, en kirkja sem leggur áherslu eingöngu áherslu á það sé deyjandi kirkja, segir Hauerwas. Ef markmiðið er bara að lifa sem góður þjóðfélagsþegn, þá er allt eins hægt að breyta kirkjunni í góðgerðarklúbb. Civil-religion eyðileggur þannig hinn raunverulega trúararf og brýtur niður trúarhefðir, í nafni siðferðislegrar heildar. Hauerwas vill leggja áherslu á frelsunarhlutverk Krists og hvernig Gyðingar og Grikkir, eins og stendur í Rómverjabréfinu, geta orðið eitt í Kristi, en ekki í góðum gjörðum. Eins telur Hauerwas civil religion draga taum lýðræðislegra hugmynda um hvað sé rétt og rangt og það þvingi þannig kirkjuna til að sitja og standa eins og þjóðfélaginu hentar. Boðskapur ,,Homer the Heretic” er því guðfræðilega á hálum ís ef tekið er mið gagnrýni af Hauerwas. (Sbr. Gordon Lynch. 2005: 149-161. Blackwell Publishing. Oxford.)
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 5M 5:12 (3. boðorðið), Orð 16:18, Jer, Mt 6:9-13 (Faðir vor), Mt 7:26, 21:17, Lk 24:36, Jh 20:19, 20:21, 20:26 (Orð Krists: ,,Friður sé með yður”)
Hliðstæður við texta trúarrits: Guð gengur í kvöldsvalanum
Persónur úr trúarritum: Guð, Nói, Satan, Djöfulinn
Sögulegar persónur: Frans frá Assísí
Guðfræðistef: himnaríki, vitrun, helvíti, synd, kraftaverk,
Siðfræðistef: auðmýkt, hroki lygi, synd, girnd, foreldrahlutverkið, samábyrgð
Trúarbrögð: hindúismi, gyðingdómur, kristni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, himnaríki
Trúarleg tákn: kross, hindúa guð, gyðingahúfa
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, messa, prédikun, Bart hvetur Hómer áfram í evangelískum stíl þegar hann rökræðir við Marge
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: vísað í sögulegan atburð að því leiti að Hómer lýsir Jesú óbeint þar sem hann gleymir hver hefur verið kallaður wicked man
Trúarleg reynsla: bæn, vitrun í draumi