Kvikmyndir

The Simpsons Movie

Leikstjórn: David Silverman
Handrit: Matt Groening, James L. Brooks o.fl.
Leikarar: Dan Castellaneta, Julie Kavner, Nancy Cartwright, Yeardley Smith, Harry Shearer, Hank Azaria
Tónlist: Hans Zimmer
Framleiðsluland: Bandaríkin
Framleiðsluár: 2007
Lengd: 87
Hlutföll: 1.85:1
Tegund: Gamanmynd
Stjörnur: 3
Umfjöllun
Ágrip af söguþræði:
Það eru teikn á lofti í Springfield sem er orðinn að mengaðasta smábæ Bandaríkjanna. Þegar Hómer tæmir úr rotþrónni í stöðuvatnið grípur umhverfisstofnunin EPA í taumana og hylur bæinn með risastórum glerkúpli. Simpsons fjölskyldan sleppur þó út, en þarf að snúa aftur til að bjarga Springfield frá bráðri glötun.

Almennt um kvikmyndina:
Simpsons fjölskyldan hefur verið fastagestur á mörgum heimilum frá því þættirnir hófu göngu sína árið 1989. Þættirnir hafa notið mikilla vinsælda og það mátti því alveg búast við því að fjölskyldan rataði á hvíta tjaldið. Kvikmyndin var frumsýnd í sumar og hún hefur fengið góðar viðtökur. Stíllinn á myndinni kallast á við þættina. Hún geymir líka fjölmargar vísanir í aðrar kvikmyndir, m.a. í Titanic og An Inconvenient Truth.

Umfjöllun um trúar- og siðferðisstef:
Simpsons-þættirnir eru uppfullir af áhugaverðum trúar- og siðferðisstefjum. Kirkja og kristni er sýnilegur og stór hluti af samfélaginu í Springfield; kirkjuferðir eru tíðar og kristni nágranninn Flanders er áberandi. Kvikmyndin er engin undantekning þegar kemur að þessu. Flanders reynist Bart sem annar faðir og lykilatriði í myndinni gerist í kirkjunni.

Tvö stór trúar- og siðferðisstef eru tvinnuð saman í myndinni:

1. Umhverfismál
2. Heimsslit

Myndin hefst á tónleikum hljómsveitarinnar Green Day þar sem fjölmargir íbúar Springfield eru samankomnir. Þegar hljómsveitin hefur spilað síðasta lagið nefnir söngvarinn að nú vilji þeir ræða örlítið um umhverfismál (sveitin er meðal annars kunn fyrir áhuga sinn á þeim). Tónleikagestirnir bregðast þá ókvæða við. Þar með hafa umhverfismálin verið sett á dagskrá um leið og lögð er áhersla á það að bæjarbúar eru sér lítið meðvitaðir um þennan vanda.

Í myndinni er Hómer fulltrúi umhverfissóðanna. Þorpsbúar hafa sammælst um að hætta að losa sig við úrgang í ána og vatnið, en Hómer þarf að stytta sér leið og hendir rotþrónni í vatnið – það er dropinn sem fyllir mælinn og kemur atburðarásinni af stað.

Lisa Simpson er aftur á móti fulltrúi þess hóps vill vekja aðra til meðvitundar um umhverfisvandann. Hún er í myndinni látin kallast á við Al Gore og kvikmyndina An Inconvenient Truth og fær þannig í vissri merkingu stöðu spámanns.

Umhverfismálin eru stórt siðferðislegt vandamál, en í Simpsons kvikmyndinni eru þau jafnframt sett í heimsslitasamhengi. Annars vegar er ýjað að því að heimurinn líði undir lok ef ekkert er að gert; hins vegar vofir eyðing Springfield yfir og Hómer og fjölskylda þurfa að láta til sín taka. Heimsslitastefið er undirstrikað í atriði sem gerist í kirkjunni snemma í myndinni. Andinn kemur yfir afa Simpson fjölskyldunnar og hann mælir fram spádóm um yfirvofandi ógn.

Í myndinni eru í raun fléttaðar saman veraldlegar og trúarlegar hugmyndir um heimsslit. Umhverfismálin eru klárlega veraldlegur þáttur, en með opinberuninni í kirkjunni eru þau sett í trúarlegt samhengi. Sjá nánar um heimsslit í kvikmyndum: http://dec.hi.is/?greinar/2003/domsdagskvikmyndir.

Ýmis smærri stef koma fyrir í myndinni. Trúmaðurinn Flanders færir í orð s.k. sérhyggju um hjálpræði (exclusivism) þegar hann ræðir himnaríki við syni sína. Þeir sitja í kirkju og hann er að uppfræða þá um það hvernig beri að ávarpa Jesú á himnum („kallið hann hr. Krist“). Annar sonurinn spyr þá hvort Búddha verði líka á himnum og pabbinn segir það af og frá.

Annað undirliggjandi stef er spurningin „á ég að gæta bróður míns“. Hómer er framanaf mjög eigingjarn og hugsar ekki um aðra en sig sjálfan, en eftir að hafa hitt seiðkonu í Alaska lærist honum að leiðin áfram felst einmitt í því að hugsa um aðra. Á endanum verður hann svo bjargvættur Springfield.

Þau eru nokkur önnur þemu sem gæti verið áhugavert að skoða. Hér verður þó látið nægja að minnast á þau að sinni:
– Fyrirheitna landið (Alaska)
– Myndin af kristnu fólki og kristinni kirkju

Lykilorð
Hliðstæður við texta í trúarritum: Hærra minn Guð til þín (sálmur), 1M 4.9
Persónur úr trúarritum: Jesús Kristur, heilagur andi
Guðfræðistef: heimsslit, opinberun, köllun, spádómur, sérhyggja
Siðfræðistef: umhverfismál, mengun, skeytingarleysi
Trúarbrögð: kristni
Trúarleg tákn: kross
Trúarembætti: prestur, seiðkona
Trúarlegt atferli: messa, prédikun
Trúarleg reynsla: andsetning, spá