Leikstjórn: Jon Amiel
Handrit: Dennis Potter
Leikarar: Michael Gambon, Janet Suzman, Patrick Malahide, Lyndon Davies, Joanne Whalley
Upprunaland: Ástralíka og Bretland
Ár: 1986
Lengd: 396mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0090521
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Glæpasagnahöfundurinn Philip Marlow liggur illa haldinn á sjúkrahúsi vegna hræðilegs húðsjúkdóms. Í svefnrofum og óráði blandast saman bernska Marlows, persónur úr glæpasögu hans um syngjandi njósnarann og tonn af dægurlögum frá fimmta áratugnum. Brátt verður ljóst að sjúkdómur Marlows tengist óuppgerðri fortíð hans og nagandi samviskubiti. Batahorfurnar velta því á því að honum takist að sættast við drauga fortíðar.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Uppgjör Philip Marlow við fortíðina tengist að stórum hluta einnig uppgjöri hans við trúna. Vegna syndar í bernsku missir Marlow trú á mannkynið og Guð. Eftir það er líf hans innantómt og fullt af biturð og hatri út í sjálfan sig og aðra. Marlow þarf því ekki aðeins að sættast við fortíð sína heldur einnig við Guð.
Eitt helsta einkenni Biblíunotkun í þessari mynd er að það er alltaf verið að vísa í bækur Biblíunnar. Ein senan er dæmigerð fyrir þetta. Þegar falleg hjúkrunarkona er að smyrja kremi í kring um getnaðarlim Marlow reynir hann að koma í veg fyrir stinningu með því að hugsa um eitthvað leiðinlegt. Eitt af því leiðinlega sem hann hugsar um er Biblían: ,,Hugsaðu um eitthvað leiðinlegt… Biblían, biblíusálmar, Ljóðaljóðin! Brjóst þín. Nei!!!“ Hér verður Marlow á þau leiðu mistök að hugsa til Ljóðaljóðanna, sem er erótískasta bók Biblíunnar. Sem dæmi kemur orðið brjóst fyrir átta sinnum í þessari stuttu bók og þar á meðal má finna eftirfarandi setningar: ,,Unnusti minn er sem myrrubelgur, sem hvílist milli brjósta mér.“ (1:13) og ,,Ó, að brjóst þín mættu líkjast berjum vínviðarins.“ (7:8). Það er því skiljanlegt að Ljóðaljóðin bættu ekki aumt ástand Marlows.
Á öðrum stað í myndinni er Marlow hugsað til Job og tengir þjáningu Jobs við sína eigin þjáningu. Sú tilvísun er einkar viðeigandi því rétt eins og Job glímdi við ástæðuna fyrir áþján sinni þarf Marlow að finna orsökina að sjúkdómi sínum. Munurinn á Job og Marlow er þó sá að Marlow er syndum hlaðinn en Job var syndlaus. Þjáning Marlows er afleiðing syndar en Job þjáist vegna þess að Guð vill reyna ást hans.
Eins og áður sagði eru tengsl milli syndar og sjúkdóms sterk í myndinni. Húðsjúkdómurinn hörfar um leið og Marlow fer að gera upp sakir fortíðar. Slík tengsl eru mjög biblíuleg en á tímum Krists var það t.d. útbreidd skoðun að sjúkdómar væru refsing Guðs vegna syndugs lífernis. Jesús segir jafnframt þegar hann læknar sjúka að syndir þeirra séu fyrirgefnar, en reyndar deila guðfræðingar um hvernig beri að túlka þau orð. Jobsbók og Sálmarnir eru einnig full af slíkum viðhorfum. Það er því áhugavert að þessi Freudiska ,,nútíma“ hugmynd er í raun ævagömul. Í staðinn fyrir refsandi Guð er komin ,,refsandi“ undirmeðvitund.
Þessi stórkostlega sjónvarpsmynd var sýnd í ríkissjónvarpinu fyrir nokkrum árum en hún hefur einnig verið gefin út á myndbandi í Bretlandi og Bandaríkjunum. Allir þeir sem hafa gaman að vel leiknum kvikmyndum með súrrealísku ívafi ættu ekki að láta þetta meistaraverk fram hjá sér fara. Nú er bara að vona að myndirnar komi út á DVD á næstunni.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, Jobsbók, Sálmarnir, Ljóðaljóðin, Esk 37:1-10, Mt 6:9-13, Mt 9:1-8, Mt 14:24-33 Markúsarguðspjall, Mk 2:1-12, Mk 6:48-52, Lk 11:2-4, Jh 5:1-15, Jh 6:16-21
Persónur úr trúarritum: engill, Guð, Jesús Kristur, Job, Jónas, miskunnsami samverjinn, Nói
Guðfræðistef: holdsveiki, hvíldardagurinn, illska, kynlíf, kærleikur, refsing Guðs, sköpun
Siðfræðistef: framhjáhald, lauslæti, lygi, morð, sjálfsvíg, þjófnaður
Trúarbrögð: kristin trú
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: paradís
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, sálmasöngur, trúboð