Leikstjórn: M. Night Shyamalan
Handrit: M. Night Shyamalan
Leikarar: Bruce Willis, Haley Joel Osment, Toni Collette, Olivia Williams, Mischa Barton, Donnie Wahlberg, Peter Anthony Tambakis, Jeffrey Zubernis og Bruce Norris
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1999
Lengd: 103mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Dr. Malcolm Crowe er virtur barnasálfræðingur sem þjáist af samviskubiti yfir að hafa brugðist einum af skjólstæðingum sínum. Til að bæta fyrir misgjörðir sínar er hann staðráðinn í að hjálpa öðrum skjólstæðingi, ungum en mjög svo óöruggum og hræddum strák að nafni Cole Sear, en vandamál hans reynist allt annað en hann hafði talið í fyrstu.
Almennt um myndina:
Kvikmyndin The Sixth Sense skaut M. Night Shyamalan upp á stjörnuhimininn á sínum tíma en hún naut gífurlegra vinsælda í kvikmyndahúsum víða um heim og var mest leigða myndin árið 2000. The Sixth Sense var tilnefnd til sex óskarsverðlauna, þ.e. fyrir leikstjórn, handrit, klippingu, leik karls og kvenmanns í aukahlutverki og sem besta myndin það árið.
M. Night Shyamalan fæddist á Indlandi en var alinn upp Bandaríkjunum. Hann var sendur í rómversk-kaþólskan skóla þótt fjölskylda hans væri ekki kristinnar trúar, en greina má áhrif frá þeirri kirkjudeild í verkum hans. Shyamalan skrifar sjálfur handritin að myndum sínum, en hann hafði aðeins gert tvær myndir áður en hann gerði The Sixth Sense, þ.e. Praying with Anger (1992) og Wide Awake (1998). Sú síðast nefnda „státaði“ af einum verstu sýningartekjum ársins 1998, öfugt við The Sixth Sense sem ári síðar varð næst tekjuhæsta myndin, þ.e. á eftir Star Wars 1.
Ári síðar skifaði M. Night Shyamalan handritið að hinni frábæru barnamynd Stuart Little (1999) en það er eina handritið sem hann hefur skrifað án þess að leikstýra því sjálfur. Reyndar seldi hann fyrir löngu handrit eftir sig sem ber heitið Labor of Love en það fjallar um mann sem gengur þvert og endalangt yfir land til að sanna ást sína á nýlátinni eiginkonu sinni. Það handrit hefur hins vegar ekki enn verið kvikmyndað.
M. Night Shyamalan hefur lengi verið mikill aðdáandi teiknimyndabóka en næsta mynd hans Unbreakable (2000) varðaði einmitt söguheim þeirra. Tveimur árum síðan sendi Shyamalan síðan frá sér hina háguðfræðilegu mynd Signs (2002), en fyrir handrit hennar fékk hann hæstu greiðslu sem handritshöfundur hefur nokkurn tímann fengið, þ.e. heilar fimm milljónir dollara.
Helsti kostur M. Nights Shyamalan sem leikstjóri er hversu „gamaldags“ hann er. Eins og gömlu meistararnir reiðir hann sig á persónusköpun í stað tæknibrellna og gefur sér tíma til að segja söguna. Hann hefur sjálfur tjáð aðdáun sína á Alfred Hitchcock, en eins og Hitch birtist hann sjálfur í öllum myndum sínum að Wide Awake frátaldri. En það er ekki það eina sem tengir myndir Shyamalans saman. Helstu einkenni þeirra eru óvæntur endir og yfirnáttúruleg fyrirbæri. Um þessar mundir vinnur hann að gerð kvikmyndarinnar The Woods sem gerist árið 1897 og fjallar um þorpsbúa umkringda skógi þar sem goðsögulegar verur búa. Það er því ljóst að Shyamalan er langt frá því hættur að fjalla um hið yfirnáttúrulega.
The Sixth Sense er nokkuð vel heppnuð hryllingsmynd en hún er þó langt frá því að vera gallalaus. M. Night Shyamalan reiðir sig of mikið á lokafléttu myndarinnar (nokkuð sem Hitchcock hefði skammað hann fyrir). Það virkar vissulega vel við fyrsta áhorf að hafa óvæntan endi, en gallinn er hins vegar sá að myndin nær ekki sömu áhrifum við endurtekið áhorf. Það er eins og það sé fátt eftir þegar gátan er leyst. Þá fannst mér lausnin með móðurina sem drap dóttur sína frekar ódýr. Hversu líklegt er það að hún færi að hella eitri í mat dótturinnar beint fyrir framan hana inni í herbergi hennar þar sem myndatökuvél væri auk þess svo haglega komið fyrir að hún næði öllu saman á band? Móðirin fer nákvæmlega þangað með matinn þar sem best sést yfir í rúm dótturinnar. Þá er sumt í samtölunum frekar tilgerðalegt og pirrandi eins og þegar móðir Coles endurtekur stöðugt: „Líttu framan í mig!“ og Malcolm endurtekur í sífellu að viðurkenningin sem hann fékk frá borgaryfirvöldum hafi verið í dýrum ramma.
Tónlistin í myndinni er hins vegar nokkuð góð og það sama má segja um flesta leikarana. Þar ber einna helst að nefna Haley Joel Osment, sem leikur Cole, og Toni Collette, sem leikur móður hans Lynn. Bæði voru tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir leik sinn í myndinni.
Þótt Haley Joel Osment hafi skotist upp á stjörnuhiminninn með leik sínum í myndinni The Sixth Sense er það langt frá því að vera hans fyrsta mynd. Hann hóf leikferil sinn aðeins fjögurra ára gamall þegar hann lék í sjónvarpsauglýsingu, en innan nokkurra mánaða var hann búinn að fá tvö hlutverk í kvikmyndum og var annað þeirra eftirminnilegur sonur Forrests Gump í samnefndri kvikmynd (Robert Zemeckis: 1994). Hann hafði því leikið í 13 kvikmyndum áður en hann fékk hlutverkið í The Sixth Sense, aðeins um tíu ára gamall. Frá þeim tíma hefur hann vakið verðskuldaða athygli í kvikmyndum á borð við Pay It Forward (Mimi Leder: 2000), Artificial Intelligence: AI (Steven Spielberg: 2001) og Edges of the Lord (Yurek Bogayevicz: 2001).
Faðir Haleys Joels Osment er leikarinn Eugene Osment, en hann hóf leikferil sinn aðeins tólf ára. Eugene Osment hélt sig lengst af við leikhúsið en hefur tekið að sér nokkur smáhlutverk í kvikmyndum, oftast í myndum sonar síns. Yngri systir Haleys Joels Osment, Emily Osment að nafni, hefur einnig vakið athygli fyrir góðan leik, en hún hefur komið fram í þremur sjónvarpsþáttum (svo sem Friends) og leikið í sex kvikmyndum, en þekktastar þeirra eru líklega Spy Kids 2: Island of Lost Dreams (Robert Rodriguez: 2002) og Spy Kids 3-D: Game Over (Robert Rodriguez: 2003).
Toni Collette sló fyrst eftirminnilega í gegn í aðalhlutverki kvikmyndarinnar Muriel’s Wedding (P.J. Hogan: 1994) en hefur síðan leikið í myndum á borð við Changing Lanes (Roger Michell: 2002), About a Boy (Chris og Paul Weitz: 2002) og The Hours (Stephen Daldry: 2002). Toni Collette hefur hlotið fjölmargar tilnefningar og verðlaun fyrir leik sinn, en hún var t.d. tilnefnd til Golden Globes verðlaunanna fyrir Muriel’s Wedding og BAFTA verðlaunanna fyrir About a Boy (2002), að ógleymdri óskarsverðlaunatilnefningunni fyrir The Sixth Sense.
Að lokum má til gamans geta þess að þetta er önnur mynd Bruce Willis þar sem ein aðalpersónan heitir Cole og er talin vera veik á geði. Hin myndin er meistaraverkið Twelve Monkeys (Terry Gilliam: 1995), en í þeirri mynd segir Cole (leikinn af Bruce sjálfum): „Ég sé bara dautt fólk!“ („All I see are dead people!“) Þá er þetta einnig önnur mynd Bruce þar sem hann leikur geðlækni sem á við sálræn vandamál að stríða, en það hafði hann gert áður í myndinni Color of Night (Richard Rush: 1994).
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í þessari umfjöllun er uppljóstrað um endi myndarinnar, en mikilvægt er að áhorfendur viti ekki um hann áður en þeir hafa séð hana.
Í fyrsta skiptið sem Cole sér Malcolm tekur hann til fótanna og flýr inn í kirkju. Þar fer hann í sífellu með orðin: „De profundis clamavi ad te Domine.“ Malcolm skilur ekki orð hans og spyr hann hvað hann sé að segja. Cole endurtekur þá orð sín og segir honum að þau séu á latínu. Þegar Malcolm kemur heim til sín stuttu síðar fléttir hann upp í orðabók og kemst þá að því að drengurinn hafði farið með fyrsta vers 130. Sálms „Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn.“
Það er margt líkt með Sálmi 130 og kvikmyndinni The Sixth Sense og þá sérstaklega eftirfarandi hlutar sálmsins: „Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn, Drottinn, heyr þú raust mína, Lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína! […] Ó Ísrael, bíð þú Drottins, því að hjá Drottni er miskunn, og hjá honum er gnægð lausnar. Hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans.“ (Vers 1-2, 7-8.)
Flokka má skyldleikann í fjóra þætti, en fjallað verður um hvern og einn þeirra hér fyrir neðan.
1. Í Biblíunni er hugtakið djúp notað annars vegar um þjáningu og erfiðleika og hins vegar um ástand dauðra en hvort tveggja á vel við um myndina.
2. Þetta er iðrunarsálmur en í honum kemur bæði fyrir synd sálmaskáldsins og samfélagsins í heild. Til gamans má geta að sálmurinn er sjötti í röðinni af sjö iðrunarsálmum rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Ekki veit ég hvort þetta er tilviljun eða ásetningur en það á vel við að kvikmynd sem heitir Sjötta skilningsvitið skuli styðjast við sjötta iðrunarsálminn.
3. Í sálminum er lögð áhersla á mikilvægi þess að Drottinn hlusti, að hann heyri raddir manna og hlýði á kvalaróp einstaklingsins: „Heyr þú raust mína, Lát eyru þín hlusta.“ Tjáskipti eru einnig grundvallarþema í kvikmyndinni.
4. Sálmurinn er í raun bæn til Guðs og er lögð áhersla á aðstoð hans og hjálp. Eins og segir í sálminum getur Guð vegna miskunnar sinnar leysa hvers kyns erfiðleika. Hjálp er einmitt það sem flestir í myndinni þurfa á að halda. Það er einnig áhugavert að lausnin á vanda Coles og Malcolms leiðir einnig til margvíslegra lausna fyrir aðra.
ÞjáninginDjúpið, þ.e. þjáningin, birtist á ýmsan hátt í myndinni. Dr. Malcolm Crowe þjáist vegna þess að honum tókst ekki að hjálpa sjúklingi sínum en þau mistök liggja svo þungt á honum að jafnvel eftir andlátið er sál hans enn föst í þessum heimi. Hann þjáist einnig vegna þess að hann getur ekki talað við eiginkonu sína lengur en hann áttar sig ekki á því að ástæðan er sú að hann er dauður. Cole Sear þjáist hins vegar vegna þess að hann er skyggn og veldur það honum bæði óhug og ótta. Hann reynir samt að fela angist sína og lýgur að öllum um líðan sína. Þá á Cole enga vini og er fyrirlitinn af skólafélögum sínum.
En Malcolm og Cole eru ekki þeir einu sem þjást, því að móðir Coles, Lynn Sear, og eiginkona Malcolms, Anna Crowe, þjást einnig vegna þess hvernig komið er fyrir þeim. Lynn stendur ráðþrota frammi fyrir vanlíðan sonar síns og undarlegu hátterni hans en vandamál hans hafa lagst svo þungt á hana að hún er á barmi taugaáfalls. Anna á hins vegar erfitt með að jafna sig á dauða eiginmanns síns, en stöðug nærvera hans kemur í veg fyrir að hún nái að hefja nýtt líf og skilja við fortíðina. Óaðvitandi heldur Malcolm því Önnu í hyldýpi hryggðar og saknaðar og kemur í veg fyrir að hún geti leitt hugann að öðrum hlutum.
Þjáninguna má einnig greina hjá öðrum persónum myndarinnar, svo sem hjá kennara Coles sem var strítt í bernsku vegna málhelti og draugunum sem átta sig ekki á því að þeir eru dauðir og búa því við einangrun og einsemd.
Heimur hinna dauðu og syndinÞjáningarnar í myndinni tengjast allar á einn eða annan hátt dauðanum eða syndinni. Malcolm þjáist annars vegar vegna þess að hann veit ekki að hann er dauður og hins vegar vegna þess að hann gat ekki hjálpað skyggnum dreng. Cole þjáist vegna þess að hann óttast draugana sem virðast leita hann uppi. Anna þjáist vegna dauða eiginmanns síns og Lynn vegna sýna sonar síns. Þá liggur það einnig þungt á henni að hún hafði aldrei fyllilega sæst við móður sína áður en hún lést.
En það eru fleiri í „djúpinu“ en þessar tvær fjölskyldur. Allt í kringum Cole eru draugar sem eiga eitthvað óuppgert og geta því ekki fallist á að yfirgefa þennan veraldlega heim fyrr en þær hafa gert upp sakir sínar. Rétt eins og sálmaskáldið eru sumir þeirra (t.d. Malcolm og móðirin Lynn) þjakaðir af sektarkennd, sbr. eftirfarandi vers sálmsins: „Ef þú, Drottinn, gefur gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengist þá staðist?“
Aðrir vilja hins vegar koma á framfæri skilaboðum vegna synda annarra, sbr. ungu stúlkuna sem móðirin eitraði fyrir. Ofar öllu vill hún koma þeim skilaboðum til föður síns að móður hennar eitraði fyrir henni og er þegar byrjuð að gera hið sama við yngri systur hennar. Það er ekki fyrr en eftir að Cole kemur þessum skilaboðum til föður stelpunnar að hún getur yfirgefið þennan heim. Í þessu tilfelli felst lausnin ekki í því að bæta fyrir eigin misgjörðir heldur í því að uppræta synd annarra. Synd samfélagsins kemur einnig fyrir í sálminum en hann endar á eftirfarandi orðum: „Hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans.“
Heimili Malcolms og Coles eru einnig eins konar „hyldýpi“ því að nálægð drauganna veldur því að þar er stöðugur kuldi. Malcolm heldur sig einnig alltaf „niðri í“ kjallara sínum, sem er ískaldur vegna nálægðar hans og mögulega fleiri drauga, en í upphafi myndarinnar er einmitt gefið til kynna að aðrir draugar séu þar líka. Cole segir að hægt sé að finna fyrir draugum þótt maður sjái þá ekki: „Stundum finnurðu það innra með þér [að draugarnir séu nálægir], eins og maður falli hratt niður.“ Hér er nálægð drauganna einnig tengd við það sem er langt „niðri“. Draugarnir eru ekki aðeins umvafðir djúpinu, heldur vekja þeir sömu tilfinningar.
M. Night Shyamalan hefur sagt frá því sjálfur að hann hafi unnið meðvitað með rauða litinn í The Sixth Sense. Hann segir að rauði liturinn komi aðeins fyrir á hlutum sem tengjast dauðanum á einn eða annan hátt. Reyndar gengur þetta litaskema ekki alveg upp því að í einu atriðinu gengur hópur drengja í hafnarboltaliði með rauðar derhúfur á höfðinu. Það er ekki er ljóst á hvern hátt dauðinn tengist þessum hópi, ekki nema við eigum að skilja það svo að drengirnir muni allir láta lífið innan skams, en hvergi er minnst á slíkt í myndinni.
Hugmyndafræði myndarinnar samrýmist spíritismanum vel. Munurinn er einna helst sá að Cole getur aðeins séð drauga, sálir sem fastar eru í þessum heimi, ólíkt mörgum miðlum sem virðast geta haft samband við nánast hvern sem er. Reyndar þekkist það innan spíritismans að hjálpa þurfi sumum sálum sem ósáttar eru við dauðann, en reimleikar hafa einmitt verið útskýrðir þannig.
Sjálfur sækir M. Night Shyamalan hugmyndafræði sína til Indlands, eða eins og hann segir sjálfur í viðtali á DVD diskinum: „Ég er oft spurður að því hvort indversk-ameríska blandan hafi áhrif á kvikmyndagerð mína. […] Það væri kannski einna helst sú trú að líkaminn sé ekki upphaf og endir lífsins, að sálin haldi áfram. Það er nokkuð sem ég samþykki vegna allra indversku helgiathafnanna út af draugum, þar sem hús eru vernduð með helgiathöfnum gegn þeim. Þetta er eitthvað sem er viðurkennt þar og ég hélt að þetta væri algeng afstaða, en svo er líklega ekki.“
Það er löng hefð fyrir því að líta svo á að börn sjái drauga betur en fullorðnir, vegna þess að efahyggjan hafi ekki enn skotið þar rótum. Það gæti verið ástæðan fyrir því að barni er gefin þessi hæfni í myndinni en ekki fullorðnum manni. Þótt Cole sé ekki hefðbundinn miðill gegnir hann engu að síður miðilshlutverki. Hann kemur t.d. á framfæri skilaboðum til föður og systur stúlkunnar sem móðirin eitraði fyrir svo og skilaboðum frá ömmu sinni til móður sinnar.
Til gamans má geta að spíritismi hefur lengi verið nokkuð útbeiddur hér á landi, enda þótt áhrif hans innan kirkjunnar hafi snarminnkað á síðari árum og séu svo til engin núna. Ýmsar ástæður eru fyrir því að prestar og aðrir starfsmenn þjóðkirkjunnar eru upp til hópa afhuga spíritismanum nú á tímum. Margir telja að ekki sé hægt að hafa samband við framliðna, ýmist vegna þess að hinum látnu sé bannað það (sbr. t.d. Lk 16:19-31) eða vegna þess að sálir látinna séu hreinlega meðvitundarlausar eftir dauðann. Ýmsir benda á að ekki sé hægt að treysta einhverjum framandi öndum sem gætu komið fram undir fölsku flaggi og sumir telja önnur viðfangsefni fyrir kirkjuna hreinlega áhugaverðari og mikilvægari en óáreiðanleg samskipti við alls kyns miðla og handanheima. Miklu máli skiptir fyrir mörgum að í Biblíunni skuli það athæfi að leita frétta að framliðnum vera fordæmt (5M 18:10-12) og líkt við framhjáhald frá Guði. Maðurinn eigi að hafa samband við Guð einan án einhverra milliliða. Jafnframt er bent á að sá boðskapur sem spíritistar boði sé að mörgu leyti í litlu samræmi við kenningar kristinna manna, t.d. sé guðdómi Jesú Krists og friðþægingu hans einatt hafnað af hinum framandi öndum.
Helstu leiðtogar spíritismans hér á landi í byrjun tuttugustu aldarinnar voru séra Haraldur Níelsson, Einar H. Kvaran rithöfundur og Björn Jónsson ráðherra. Fram yfir miðja öldina aðhylltust nokkrir aðrir prestar þjóðkirkjunnar spíritismann og voru eindregnir talsmenn hans, einkum þó Benjamín Kristjánsson, Jón Auðuns, Sveinn Víkingur og Sigurður Haukur Guðjónsson, en segja má að hann hafi verið síðasti yfirlýsti spíritistinn meðal íslenskra presta. Ein helsta ástæðan fyrir áhuga margra þessara presta á spíritismanum í upphafi var sú að leita eftir sönnunum á framhaldslífi og ódauðleika sálarinnar, en þeir töldu að slíkar sannanir myndu sjálfkrafa staðfesta gildi kristinnar trúar.
Spíritisminn er þó enn til staðar í íslensku samfélagi eins og vinsældir einstakra miðla bera vott um og er hann að ýmsu leyti samofinn alþýðutrúnni. Sálarrannsóknarfélag Íslands má skilgreina sem spíritíska trúarhreyfingu en auk þess má finna spíritíska hugmyndafræði innan margra annarra trúarhópa í landinu, allt frá ýmsum nýaldarhópum til Heimsfriðarsambands fjölskyldna eins og moonistar nefna sig hér á landi.
TjáskiptiForsendan fyrir lausn allra vandamála í myndinni eru tjáskipti, þ.e. að hlusta á aðra og að greina frá vanlíðan sinni. Hér má sjá hliðstæðu við eftirfarandi vers sálmsins: „Drottinn, heyr þú raust mína, Lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína!“ Ljóst er að forsenda þess að sálmaskáldið fái lausn á vanda sínum felst í því að Drottinn hlýði á hann.
Cole losnar úr djúpinu þegar hann hlustar á draugana og hjálpar þeim. Móður hans líður einnig betur eftir að hafa heyrt um erfiðleika hans. Malcolm tekst að hjálpa Cole með því að fá hann til að tjá sig og trúa orðum hans. Þannig bætir Malcolm fyrir mistök sín (sem fólust í því að hlusta ekki á fyrri sjúkling sinn) en hann á samt enn eftir að ná sambandi við eiginkonu sína. Hér er það Cole sem launar honum greiðann með því að stinga upp á því að Malcolm tali við hana á meðan hún sefur. Malcolm fer að ráðum stráksins og nær þá loksins sambandi við hana. Þegar Anna spyr Malcolm hvers vegna hann hafi yfirgefið sig (og missir giftingarhring hans um leið) áttar hann sig á því að hann er dauður og getur þar með yfirgefið þennan heim. Hann kveður Önnu með þessum orðum: „Sofðu nú. Allt verður breytt í fyrramáli.“ Þar með eru Anna og Malcolm einnig laus úr djúpinu. Vandi annarra drauga í myndinni er einnig leystur með tjáskiptum, svo sem stelpunnar sem eitrað var fyrir og móður Lynn.
Myndin fjallar því kannski ekki fyrst og fremst um drauga heldur um mikilvægi tjáskipta, hvort sem það er á milli læknis eða sjúklings, hjóna eða foreldra og barna.
Hjálp GuðsAllir sem þjást í myndinni fá lausn mála sinna í lokin. Þetta sést hvað best á Cole sem hefur ekki aðeins yfirunnið ótta sinn gagnvart draugunum heldur einnig eignast vini í skólanum. Það er líklega engin tilviljun að Cole er í lokin sýndur sem Arthur konungur sveiflandi Excalibur. En er það eingöngu vegna eigin verka að hinir þjáðu í myndinni fá lausn mála sinna eða er það vegna handleiðslu Guðs? E.t.v. má sjá hér hliðstæðu við eftirfarandi vers úr Sálmi 130: „… og hjá [Drottni] er gnægð lausnar.“
Í myndinni kemur fram að Lynn biður reglulega til Guðs vegna erfiðleika Coles og eins og bent var á hér að framan biður hann einnig til hans þegar hann fer með fyrsta vers Sálms 130: „Úr djúpinu ákalla ég þig Drottinn.“ Það er ekki fyrr en í lok myndarinnar að áhorfandinn áttar sig á því Cole hafði farið með sálminn til að losna við Malcolm, sem þá var dauður. Við fyrstu sýn virðist sálmurinn ekki hafa haft nein áhrif, því að hann losaði Cole ekki við drauginn Malcolm. En ef vel er að gáð má í raun segja að bænasvarið hafi falist í því að Cole og Malcolm hittust, því að þeir leysa í sameiningu vanda hvors annars, sem og vanda Lynn, Önnu og annarra drauga.
Ljóst er að greina má hliðstæðu við Sálm 130 hvort sem hún var meðvituð af aðstandendum myndarinnar eða tilviljun ein. Hliðstæðan er reyndar svo skýr að myndin gæti allt eins heitið „Úr djúpinu“ eða „Djúpið“, enda er vitnað til þeirra orða í myndinni.
Kirkjan sem griðastaðurÍ gegnum aldirnar hefur verið litið á kirkjuna sem griðarstað og gerist það enn í dag að fólk leiti þangað á flótta. Skemmst er að minnast umsátursins í Palestínu þegar múslimar leituðu hælis í kirkju á flótta undan Ísraelsmönnum. Þegar Cole sér Malcolm í fyrsta skipti leitar hann griða í kirkju heilags Ágústínusar. Malcolm bendir meira að segja sjálfur á að kirkjan sé griðarstaður þegar hann segir við Cole: „Í Evrópu til forna faldi fólk sig í kirkjum. Það leitaði hælis þar.“ Cole hefur einnig komið upp eigin helgidómi í herbergi sínu og fyllt það af styttum af Jesú, Maríu mey og dýrlingum rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Í myndinni birtist því nokkuð vel sú helgi sem margir telja vera yfir kirkjum og helgum munum.
EineltiÍ myndinni eru að minnsta kosti tvö fórnarlömb eineltis. Cole er lagður í einelti í skólanum. Hann á enga vini og er uppnefndur „viðundur“ af skólafélögum sínum. Þegar Malcolm spyr Cole hvers vegna hann segi ekki móður sinni allt svarar hann: „Vegna þess að hún lítur ekki á mig eins og aðrir og ég vil ekki að hún geri það. Ég vil ekki að hún viti.“ Malcolm spyr þá: „Viti hvað?“ Og Cole svarar: „Að ég er viðundur.“
Eins og svo oft þegar einelti á sér stað fer fórnarlambið að trúa svívirðingunum sem það má þola. Cole er t.d. sjálfur farinn að trúa því að hann sé viðundur. Þá hefur stöðugt einelti sett mark sitt á hátterni hans. Hann er flóttalegur til augnanna og treystir ekki þeim sem á vegi hans verða. Hann þolir heldur ekki að fólk horfi á hann og túlkar tillit annarra sem hæðni.
Hitt fórnarlamb eineltisins í myndinni er kennari Coles, sem strítt hafði verið þegar hann var yngri vegna þess að hann stamaði. Það er áhugavert að sjá hvernig kennarinn bregst við þegar Cole minnir hann á eineltið í bernsku, en allt í einu fer hann að stama, rétt eins og hann hverfi aftur til fortíðar. Margir sem upplifa einelti á ævinni tala einmitt um að sárin grói aldrei fyllilega. Það er áhugavert að það er einmitt þessi sami kennari sem aðstoðar síðan Cole við að vinna sig úr eineltinu, en hann gerir það t.d. með því að láta hann hafa aðalhlutverk skólaleikritsins.
KöllunAð lokum kemur myndin inn á mikilvægi þess að fólk finni „köllun“ sína. Anna segir t.d. við Malcolm að hann eigi að vera stoltur af einstæðum hæfileikum sínum sem barnasálfræðingur og ánægður með að einhver kunni að meta þá. Slagorð myndarinnar er einnig: „Ekki eru allir hæfileikar til blessunar.“ Hér er auðvitað verið að vísa til þess að Cole er skyggn en það reynist reyndar blessun þegar yfir líkur. Það virðist því vera afstaða myndarinnar að allir séu fæddir með einhverja hæfileika og að það sé mikilvægt að hvert og eitt okkar finni þá og nýti.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Sl 130:1
Hliðstæður við texta trúarrits: Sl 130; Jh 8:32
Persónur úr trúarritum: Arthúr konungur, Guð, Jesús Kristur, María mey, draugur
Sögulegar persónur: dýrlingar
Guðfræðistef: dauði, ótti, synd
Siðfræðistef: dauðarefsing, einelti, heiðarleiki, lygi, morð, sektarkennd, þunglyndi, hæfileikar, fordómar, hefnd, reiði, skyggnigáfa, heimilisofbeldi, tjáskipti, draugagangur
Trúarbrögð: amish, rómversk-kaþólska kirkjan, spíritismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, altari
Trúarleg tákn: Excalibur, kirkjuklukka, kross
Trúarleg embætti: miðill, sóknarbarn
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, hjónavígsla
Trúarleg reynsla: sýn, skyggnigáfa, bænasvar