Kvikmyndir

The Texas Chain Saw Massacre

Leikstjórn: Tobe Hooper
Handrit: Kim Henkel, Tobe Hooper
Leikarar: Marilyn Burns, Allen Danziger, Paul A. Partain, William Vail, Teri McMinn, Edwin Neal, Jim Siedow og Gunnar Hansen
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1974
Lengd: 83mín.
Hlutföll: http://us.imdb.com/Details?0072271
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Fimm ungmenni fara á bernskuslóðir tveggja þeirra. Eitthvað hefur siðferði og gestrisni nágrannanna hrakað í millitíðinni því í stað þess að þeir bjóði unglingunum í mat hakka nágrannarnir þá niður í matarkistu fjölskyldunnar.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Keðjusagarmorðinginn er ein frægasta hryllingsmynd allra tíma. Ekki vegna þess að hún er svo góð, heldur vegna þess að hún er svo ógeðsleg. Helstu trúarstef myndarinnar er sá átrúnaður sem birtist í henni. Í fyrsta lagi er stjörnuspeki gert hátt undir höfði en ef fimmmenningarnir hefðu farið að ráðleggingum stjörnuspárinnar hefði ekki farið svona illa fyrir þeim. Í öðru lagi er heilmikið daður við galdratrú í myndinni. Alls konar galdratákn og særingar eru í myndinni en margt af því minnir á mun yngri mynd, The Blair witch Product! Í þriðja lagi er trú á forboða mjög áberandi í myndinni. Myndin byrjar á því að sýna dautt dýr á veginum en um leið veit áhorfandinn að þetta verður ekki ferð til fjár.

Nú hef ég ekki gert nákvæma rannsókn á hryllingsmyndum en mér finnst eins og þessi þrjú atriði séu mjög algeng í unglings-splatter-hryllingsmyndum. Hefðbundinn átrúnaður en oftast sniðgenginn (nema í þeim tilfellum þegar morðinginn er sjálfur brjálaður biblíuþumbari) en í staðinn býr dulúðin og mátturinn í göldrum, hjátrú og stjörnuspeki.

Eitt það óhugnalegasta við þessa mynd er sú staðreynd að það er ekki aðeins einn maður sem hefur gengið af göflunum, heldur heil fjölskylda. Gildismat og siðferði þessarar fjölskyldu er allt annað en það sem almennt gengur og gerist. Myndin sýnir ólíkan siðferðisgrunn og hvað getur gerst þegar lög og reglur samfélagsins eru sniðgengnar.

Í stuttu máli má segja að boðskapur myndarinnar sé tvíþættur:
1) Lestu ávallt stjörnuspána þína og farðu í einu og öllu eftir henni, annars gæti farið illa!
2) Passaðu þig á kjötgerðarmönnum í Texas, þeir eru allir ófríðir og hættulegir geðsjúklingar.

Siðfræðistef: grafarrán, morð, kvalarlosti
Trúarbrögð: galdratrú, hjátrú, stjörnuspeki
Trúarlegt atferli og siðir: særingar