Kvikmyndir

The Third Miracle

Leikstjórn: Agnieszka Holland
Handrit: Johan Romano, byggt á bók eftir Richard Ventere
Leikarar: Ed Harris (Frank Shore), Anne Heche (Roxanne),Amin Muller-Stahl (Werner kardináli), Charles Haid (Biskup Cahill), Barbara Sukkowa (Helen O’Regan), James Gallanders (bróðir Gregory), Ken Jamaes (faðir Paul Panak), Michael Rispoli (John Leone), Jade Smith (María táningur), Caterina Scorson (María yngri), Susan Henley (Systir Margaret), Monique Mojica (systir Mary Catherine), Rony Clanton (Higgins), Kenny Robinson karl í móttöku gistiheimilisins), Susan Henly (Sister Margaret), Ivan Lukac (ungur prestur í Slóvaníu), Patrik Minar (ungur þýskur hermaður), Pavol Simon (pabbi Helenar), Angela Fusco (kona sem vann á gistiheimilinu)
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1999
Lengd: 119mín.
Hlutföll: 1.33.1 (var 1:85:1)
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Faðir Frank Schurr, vonsvikinn, einmana og miðaldra rómversk-kaþólskur prestur, er fenginn til að rannsaka hvort hugsanlegt kraftaverk hafi átt sér stað í tengslum við látna konu sem margir vilja að verði gerð að dýrlingi.

Almennt um myndina:
Myndin gefur raunsæja mynd af því sem er að gerast bak við tjöldin í rómversk-kaþólsku kirkjunni en ólíkt mörgum kvikmyndum sem deila á kirkjuna dregur Holland upp sanngjarna mynd og hvorki áfellist hana né kastar steinum í hana. Hún dregur og upp raunsæja mynd af trúarlífi aðalpersónunnar sem sveiflast milli sannfæringar og efa. Fyrri hluti myndarinnar minnir á Law and Order eða aðra líka sjónvarpsþætti þar sem Frank er allur í því að rannsaka mál Helenar líkt og andlegur rannsóknarlögreglumaður, enda spurður oftar en einu sinni hvort hann sé lögga af viðmælendum hans. Seinni hluti myndarinnar má líkja við The Practice enda eins konar courtroom drama. Sá þráður myndarinnar sem snýr að rómantíkinni er þunnur, slitróttur og litlaus. Megin spurning myndarinnar er hins vegar trúarlegs eðlis svo sem hvað er dýrlingur og hvað sé kraftaverk. Leikstjórinn Agnieszka Holland (Europa Europa, Washington Square og Shot in the Heart) svarar þeirri spurningu ekki beint en bendir á að kraftaverkin eru jú alltaf fyrir augunum á okkur aðeins ef við lítum til himna í auðmýkt. Nokkuð sem hvorki vísindalegar blóðprufur eða kennivald kirkjunnar geta sannað eða afneitað.

Myndin víkur helst til mikið út frá bókinni og nánast endurskrifar hana á köflum. Það er svolítið kindugt að myndin er í raun tekin í Toronto Kanada en látin gerast í Bandaríkjunum, hugsanlega vegna þess að Bandaríkjamenn eru svo ófúsir til að horfa á kvikmyndir nema að þær hafi Hollywood stimpil á sér en ef til vill frekar vegna þess að kvikmyndaiðnaðurinn í Hollywood er hræddur við samkeppni. Ástarblossinn milli föður Franks og Roxanne er yfirborðslegur og falskur, líklega af ásettu ráði til að sýna hvernig tvær einmana persónur geta verið einmana saman. Persónusköpun föður Franks er trúverðug en persóna Roxanne er hins vegar ótrúverðug og líflaus. Myndin er helst til hæg en það stafar kannski af því að John Romano hefur aðallega skrifað langar þáttaraðir fyrir sjónvarp, t.d. ALF (1986) og Hill Street Blues (1981). Íslenskur texti myndarinnar er oft hallærislegur, t.d. þegar Helen er sögð vera lömuð en á enskunni er sagt að hún hafi verið lay woman, þ.e. kvenleikmaður innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar.

Áhugavert er að The Third Miracle kom út þegar Hollywood var nánast að fjöldaframleiða drauga og hræðslumyndir. Ed Harris fer með aðalkarlhlutverkið en hann og Holland höfðu áður unnið saman í To Kill a Priest (1988) sem Holland leikstýrði en Harris lék þar rannsóknarlögreglumann sem heillast af persónu prests sem myrtur var af póslku lögreglunni, og leikur þar að sumu leyti svipað hlutverk og í „The Third Miracle“. Ed Harris leikur hinn lífsþyrsta og aðlaðandi föður Frank Shore sem glímir í senn við trú sína, efa, ást og ekki síður kennivald og spillingu rómversk-kaþólsku krikjunnar. Þar sem að myndin kom út þegar umræðan um samkynhneigð og kynferðislega misbeitingu meðal kaþólskra presta var í hámarki má líta á gagnkynhneigð Franks sem íróníska hæðni. Myndin sýnir á kaldhæðinn hátt hvernig sjálfið og starfsjálfið hjá föður Frank rekast illilega á.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Myndin líkt og bókin sem hún byggir á fjallar um virtan en vonsvikinn, einmana, miðaldra og andlega áttavilltan guðfræðing og uppgjafa prest, föður Frank Schurr, sem leitar skjóls á gistiheimili fyrir heimilislausa, en hinn langi armur kirkjunnar leitar hann uppi í persónu hins stórfurðulega Cahill biskup og setur honum það verkefni að rannsaka hvort hugsanlegt kraftaverk hafi átt sér stað í Chicago.

Myndin hefst annars á myndskeiði frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar þegar bandamenn fljúga yfir smáþorp í Slóveníu og flóðgáttir himinsins opnast af ærandi sprengjum, en varnalausir og saklausir þorpsbúar flýja sem fætur toga undan ósköpunum. Þar á meðal er Helena O’Regan, þá lítil stúlka, sem finnur þörf hjá sér að snúa við í miðjum hildarleiknum og hlaupa að kirkjunni og þegar hún krýpur í bæn á kirkjutröppunum og horfir til himins hverfur sprengjugnýrinn skyndilega en dúfur flögra um himininn í stað sprengjanna.

Safnaðarmeðlimir í kirku hins heilaga Stanislausar í Chicago trúa því að marmarastytta heilagrar Maríu meyjar gráti tárum af blóði og hafi gert svo í nóvember mánuði síðustu sjö árin. Prestur safnaðarins, Paul Panak (Paul James), sem hefur það eitt markmið að skapa fjölmiðlafár og græða peninga á öllu saman, trúir því að þessir atburðir tengist dauða Helen O’Regan (Barbara Sukowa), litlu stúlkunnar frá Slóvaníu sem síðar fluttist til Bandaríkjanna og kaus að búa sem leikmaður í klaustrinu og gera þar góðverk.

Uppgjafaprestinum Föður Frank er gefið erfitt hlutskipti því að hann yfirgaf kaþólsku kirkjuna vegna vonbrigða eftir að hafa flett ofan af kraftaverki sem reyndist vera mannaverk og þar með rænt fólki voninni og trú þeirra á raunveruleg kraftaverk. Eftir þá atburði varð hann þekktur undir nafninu eða frekar uppnefninu kraftaverkaeyðirinn eða „the miracle killer“. Hann tekur engu að síður hlutverkið að sér vegna hollustu við kirkjuna; nefnilega að rannsaka hvort Helen hafi framkvæmt kraftaverk og ætti fyrir vikið að vera gerð að dýrlingi (canonísering).

Eftir að faðir Frank hefur tekið verkefnið að sér fer hann á fund föðurs Panek, prests heilags Stainslaus. Í sama mund og hann nálgast kirkjuna flýgur flugvél yfir með miklum gný og lítur hann þá til himna en horfir síðan á umkomulausan söfnuðinn í tilbeiðslu og þá á maríulíkneskið. Í lok þessa stutta en áhrifamikla myndskeiðs sést hvar hvít dúfa lyftir sér til himins af höfði styttunar.

Á fundi þeirra föður Franks og föður Paneks rifjar sá síðar nefndi upp daginn fyrir sjö árum er hann hélt minningarmessu um Helenu og segir eitthvað á þá leið að Helen er á himnum með Jesú og Maríu Guðsmóðir og að hún horfi niður frá himnum. Á sömu stundu kemur María littla (Catarina Scorson) sem þjáðist af átuberklum inn í kirkjuna alheil en blóðug eftir að hafa snert styttuna. María ánetjast síðar eiturlyfjum og slæmum siðum og deyr en rís aftur upp til lífs.

Eitt af fyrstu verkefnum föður Franks er að yfirheyra Roxanne (Anne Heche), dóttur Helenar, sem hann fellur fyrir nokkurn veginn um leið og hann lítur hana augum. Þau sitja svo ein saman á bar eitt kvöldið og spjalla þegar Frank játar að hann óttist það að verða ástfanginn, en hann lætur undan tilfinningum sínum og kynhvöt eftir mikla sálarangist og trúarglímu. Í lok myndarinnar sést hvar Roxanne mætir föður Frank keyrandi barnavagn sem gæti þá verið hið raunverulega þriðja kraftaverk en kaþólska kirkjan krefst þriggja kraftaverka hið minnsta svo að einstaklingur geti verið tekinn í tölu heilagra. Myndskeiðið þegar Frank hleypur út í kirkju í miðri ástarsenu sýnir átökin í lífi hans, að hann finnur sig knúinn til að rannsaka líf látinnar konu frekar en að vera með lifandi konu. Roxanne sem gat illa skilið hvers vegna móðir hennar yfirgaf hana sem ungling til að þjóna Guði upplifir höfnunina aftur í kynnum sínum við Frank.

Innri barátta föður Franks birtist og í því að hann vílar ekki fyrir sér að drekka vodka af stút með Roxanne í kirkjugarðinum og dansa við hana nánast á leiði móður hennar. Ef til vill gæti persóna Roxanne verið tilvísun í evustefið þar sem segja má að hún tæli Frank og leiði hann í freistni.

Aftur sjáum við Maríu litlu inn í kirkjunni en nú sem villuráfandi ungling sem dottið hafði í dópið. Hún rifjar upp fyrir föður Frank hvernig Helen snart hana og hún varð alheil. Faðir Frank vílar ekki fyrir sér að brjóta upp söfnunarbauk kirkjunnar til að gefa Maríu fyrir dóp og er honum umhugað að fá að vita hvort hún hafi beðið til Helenar eða Guðs því hafi hún beðið til Helenar telst það sönnun þess að hún heyrir bænir og sé því dýrlingur. Svar Maríu kemur föður Frank hins vegar í opna skjöldu því að hún segir að hún hafi beðið til Helenar um að hún mætti deyja en hún var dauðvona sem barn áður en hún læknaðist af átberklum.

María, útskúfaður fíkill, verður loks að dauðaósk sinni og er myrt síðar í myndinni en vaknar aftur til lífsins eftir að hafa verið aftengd og sögð látin. Atriðið vekur hugrenningartengsl við frásögnina þegar Jesús vakti Lazarus aftur til lífs og jafnvel vísun til Maríu Magdalenu sem Jesús snart og breytti þannig lífi hennar til betri vegar.

Ósvífni Franks gagnvart regluveldi rómversk-kaþólksku kirkjunnar birtist samt ekki fyrst og fremst í því að hann brýtur upp safnaðarbauk kirkjunnar til að gefa Maríu sem er fallinn dópisti nokkra dollara, heldur frekar í orðaskaki hans við erkibiskupinn Werner sem virðist telja sig jafnan Guði ef ekki Guð sjálfan.

Mál Helenar fer fyrir einskonar dýrðlingaráð sem er leitt af þýskum kardinálanum Werner (Armin Muller-Stahl), eins konar talsmanni djöfulsins (devel´s advocate) sem er í raun embætti innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Guðfræði Werners er í anda skynsemishyggjunnar, því að hann dregur úr eða jafnvel hafnar yfirnátturlegum gjörningum en gerir sér þó að lokum ljóst í lokaatriði myndarinnar að sjálfur hafði hann orðið vitni að kraftaverki sem hermaður í Slóveníu þegar lítil stúlka kraup niður á kirkjutröppurnar og sprengjurnar sem voru í þann veginn að sprengja hann í tætlur breyttust í friðardúfur. Hvorki þetta atriði né það þegar María rís upp aftur til lífs eftir að hafa verið aftengd og úrskurðuð látin er í bókinni. Athyglisvert er að eftir að myndinni lýkur er hljóðlausu atriði skeitt við sem er og í upphafi myndarinnar og myndin þannig römmuð inn. Í þessu atriði er sýnt hvernig sprengjurnar verða að þyrpingu dúfna og árettað að kraftaverk séu raunveruleg.

Tvö áhrifamikil myndskeið sýna föður Frank ákalla Guð og biðja að Guð gjöri hann veðugan. Atriðið vekur ákveðin hugrenningartengsl við dæmisöguna um týnda soninn sem játar fyrir föður sínum að hann sé ekki verðugur. (Lúkas 15.18.) Líkt og týndi sonurinn telur faðir Frank sig ekki verðugan nærveru skapara síns en þráir þó fullvissu trúarinnar og þiggur altarissakramenntið þegar líða tekur á myndina. Trúarbarátta og örvænting föður Franks er meira sannfærandi í bókinni þar sem hann meðal annars finnur sig á nektarbúllu og káfar þar á brjóstum súludansara eftir að hafa messað, útdeilt og þegið altarissakramenntið. Faðir Frank glímir við Guð sinn, efast og finnst eins og Guð hafi prettað sig samanber samtalið við Roxanne um að hann hafi tekið loforð af Guði að pabbi hans læknaðist ef hann færi í prestinn. Frank varð prestur en pabbi hans dó skömmu síðar. Lækningarkraftaverkið var því blekking.

Víða í sálmunum er talað um að Drottinn líti niður af himni (Sálm. 14.2, 33.13). Sömuleiðis er talað um á öðrum stöðum að hinn trúaði líti til himins (Job 35.5, Jes.40.26, Sálm 123.1 og í Sálmi 121: Ég hef augu mín til fjallanna hvaðan kemur mér hjálp. Hjálp kemur frá drottni skapara himins og jarðar.) Þau eru einmitt fjölmörg atriðin í myndinni þar sem kvikmyndavélinni er beint til himins. Fyrst í gegnum augu Helenar litlu á kirkjutröppunum með maríulíkneskið sem hún kyssir og í sama myndskeiði í gegnum augu þýska hermannsins sem lítur í angist upp til himins og sér sveitir orrustuflugvéla steypast yfir hann. Hjálp þeirra beggja, saklausa barnsins og blóðuga hermannsins, kemur vissulega af himnum ofan í mynd friðardúfunnar, tákn um nærveru Heilags anda. Myndin er um einstaklinga sem horfa til himins og leita hjálpar. Það er athyglisvert að dánardagur Helenar var 28. nóvember en þann dag er lesið úr Sálmi 19.2-5 í rómversk-kaþólskri messu. Sálmurinn er lofsöngur og hefst þannig:

Himnarnir segja frá Guðs dýrð
Og festingin kunngjörir verkin hans handa.
Hver dagurinn af öðrum mælir orð,
Hver nóttin af annari talar speki.
Engin ræða, engin orð,
Ekki heyrist raust þeirra.
Og þó fer boðskapur þeirra um alla jörðina
Og orð þeirra til endirmarka heims.

Áhugavert er að Helen heyrist aldrei mæla orð í myndinni sem er e.t.v. skýrskotun til orða sálmsins sem segja: Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra. En líkt og segir í sálminum fer þögull boðskapur Helenar hins vegar um víðan heim.

Spyrja má hvort inntak myndarinnar er ef til vill það að kraftaverk sé svar Guðs við neyð mannanna og birtist í hljóðlátri nærveur Heilags anda í líki friðardúfanna, fyrirgefningarinnar og náðarinnar. Holland svarar þessu svo á heimasíðu sinni: „The message of this religious film is that more miracles abound in life than can ever be explained. And most of them have nothing to do with statues that weep tears of blood.“ (Sjá: http://www.perfectnet.com/holland/.) Þ.e. lífið er stútfullt af kraftaverkum sem ekki lúta lögmálum rökhugsunnar en það er einmitt boðskapur myndarinnar.

Samhliða þessu guðfræðistefi er bein tilvitnun í Tertullíanus kirkjuföður sem sagði: Credo quia impossible. Það skírskotar til þess að trúin sé í raun hið eiginlega kraftaverk, óútskýranleg – hafin yfir lögmál og rökhyggju. Þessi hugsun kemur fram í titli bókar föður Franks „God within“ og gefur ákveðin hugrenningartengsl við sálm 40.8 („O my God your law is within my heart“, þ.e. „að gjöra vilja þinn Guð minn er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér“) og sálm 46.5 („God is within her, she will not fall“, þ.e. „Guð er í henni, eigi mun hún bifast“).

Það er og athyglisvert að þennan sama dag, 28. nóvember, er lesið úr Lúkasarguðspjalli 6.12-16 sem er frásögnin af útvalningu postulanna. (Sjá: http://www.nccbuscc.org/nab/index.htm.) Þessi frásögn kallar á spurninguna hvort faðir Frank hafi verið að útvelja Helenu í tölu heilagra líkt og Jesús útvaldi postulana.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Beinar tilvísanir í texta í trúarriti er ekki að finna í myndinni en hins vegar fer Frank með innsetningartexta heilagrar kvöldmáltíðar í bókinni.
Hliðstæður við texta trúarrits: Sl 19, Sl 46.5, Sl 40.8, Lk 15.18
Persónur úr trúarritum: Jesús, María Mey
Sögulegar persónur: Tertullíus kirkjufaðir, heilög Elísabet frá Ungverjalandi, heilagur Ágústínus
Guðfræðistef: Kraftaverk, Guð, forboðin ást, traust, lögmálshyggja, kærleikur, trúarsannfæring og fullvissa, efinn, satan, fallin kona
Siðfræðistef: von og falsvon, blekking kirkjupólitík, skírlífi og kynferðislegt samlífi, félagslegt misrétti
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, klaustur, kirkjugarður, pílagrímar
Trúarleg tákn: kross, dúfur
Trúarleg embætti: prestur, kardináli, munkur, nunna, páfi
Trúarlegt atferli og siðir: Bæn, brauðsbrotning
Trúarleg reynsla: Uppljómun, bænheyrsla, upprisa