Kvikmyndir

The Violent Breed

Leikstjórn: Fernando Di Leo
Handrit: Fernando Di Leo og Nino Marino
Leikarar: Harrison Muller, Woody Strode, Henry Silva, Carole André, Debora Keith, Danika og Tommaso Palladino
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1983
Lengd: 87mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0086548

Ágrip af söguþræði:
Bandaríska leyniþjónustan CIA sendir fyrrverandi liðsmann sinn Mike Martin til Tælands til að hafa uppi á gömlum samherja, sem virðist genginn til liðs við eiturlyfjasmyglara, vopnasala og kommúnista.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það er ótrúlegt að ítalski kvikmyndagerðarmaðurinn Fernando Di Leo skuli bera ábyrgð á þessum ósköpum en hann gerði meðal annars úrvalsmyndina Caliber 9 tólf árum áður. Hér er hins vegar allt eins illa gert og hugsast getur. Myndatakan er algjörlega flöt, tónlistin ömurleg, handritið fáránlegt og samtölin svo illa skrifuð að þau verða oftar en ekki hreinlega hlægileg.Leikurinn er sömuleiðis afar slæmur enda er sem flestir leikararnir lesi textann beint upp af blaði. Annað hvort hlýtur Di Leo að hafa verið einstaklega illa fyrir kallaður eða með öllu áhugalaus um gerð kvikmyndarinnar því að hún er svo slæm að hún jafnast alveg á við það versta frá alræmdustu rulsmyndagerðarmönnum sögunnar, Jesú Franco og Edward D. Wood jr.Í myndinni kemur meðal annars við sögu alvopnaður órakaður gallabuxnaklæddur prestur, sem ferjar ungar tælenskar vændiskonur til búða eiturlyfjasmyglaranna, vopnasalanna og kommúnistanna, en hann fær að lokum byssukúlu milli augnanna frá Martin, sem segist endilega vilja senda hann beint til Guðs. Jafnframt verður hórumömmunni tíðrætt um gildi kraftaverka og vantrú austurlandabúa á þeim, þegar Martin virðist ætla að takast að bjarga henni í burt á gömlu mótorhjóli.Þess má að lokum geta að enda þótt myndin nefnist á ensku The Violent Breed, var kápumynd dönsku myndbandsútgáfunnar notað hér á landi með titlinum Violent Soldier.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 22:21; Mk 12:17; Lk 20:25
Guðfræðistef: kraftaverk
Siðfræðistef: manndráp, vændi
Trúarleg tákn: búddhastytta
Trúarlegt atferli og siðir: bæn