Kvikmyndir

There is a Noose Waiting for You Trinity!

Leikstjórn: Alfonso Balcázar [undir nafninu George Martin]
Handrit: Enzo Doria [undir nafninu Ezio Passadore] og Giovanni Simonelli
Leikarar: George Martin, Klaus Kinski, Marina Malfatti, Augusto Pescarini, Susanna Atkinson, Daniel Martín, Fernando Sancho, Adolfo Alises, Luigi Antoniolinerra og Gustavo Branched
Upprunaland: Ítalía og Spánn
Ár: 1972
Lengd: 80mín.
Hlutföll: 1.66:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Trinity Harrison tekst að flýja úr fangelsi eftir að hafa beðið í sex ár eftir því að dauðadóminum yfir honum yrði framfylgt, en hann hafði skotið morðingja bróður síns og mágkonu til bana án þess að hirða um réttarkerfið og fjölskyldu sína. Þegar hann loks finnur eiginkonu sína og syni aftur á lítilli landareign fjærri gömlu heimahögunum, neitar hún að taka við honum aftur nema að hann lofi því að snerta aldrei skotvopn framar. Það reynist þó hægara sagt en gert enda svífst fjölmennur bófaflokkur einskis við að knýja smábændurnar í héraðinu til að afsala eignum sínum í hendur sér. Í ofan á lag mætir mannaveiðari á svæðið sem kýs frekar að ná hinum eftirlýstu dauðum en lifandi, en dágóð upphæð hefur verið lögð til höfuðs Trinitys.

Almennt um myndina:
Enda þótt aðalpersónan sé kölluð Trinity í enskri útgáfu myndarinnar á hún ekkert skilt við Trinity gamanmyndirnar með Terence Hill sem nutu mikilla vinsælda snemma á áttunda áratugnum. Þvert á móti tekur myndin sig háalvarlega og er hvergi gerð tilraun til nokkurrar gamansemi. Og í rauninni er það aðeins í ensku útgáfunni sem aðalpersónan er kölluð Trinity því að í ítölsku frumútgáfunni og þeirri þýzku er nafn hennar Clint. Titill myndarinnar á ítölsku er meira að segja Il ritorno di Clint il solitario sem lauslega má þýða á íslensku sem Einfarinn Clint snýr aftur. Hvert svo sem nafn aðalsöguhetjunnar er verður enski titilinn þó að teljast mun flottari, a.m.k. í ljósi þess að hér er um spaghettí-vestra að ræða.

Eins og ítalski titilinn gefur til kynna er hér um að ræða framhald spaghetti-vestrans Clint the Stranger (1967) sem einnig var gerð af Alfonso Balcázar og með George Martin í aðalhlutverki. Endurlit framhaldsmyndarinnar eru tekin úr honum og sýnd með rauðum filter.

Það besta við þennan spaghettí-vestra er annars vegar eðaltónlist Ennios Morricone sem þó hefði alveg mátt vera aðeins fyrirferðameiri og hins vegar leikarinn Klaus Kinski í hlutverki nær samviskulaus síðhærðs mannaveiðara sem keðjureykir vindla af mikilli innlifun. George Martin er auk þess ásættanlegur í hlutverki Trinitys en að öðru leyti er myndin frekar illa leikin og bæði enska og þýzka talsetningin víða hörmuleg. Raunar er hljóðsetningin æði íkjukennd á köflum og er sem sleggju sé slegið af miklu afli í járn þegar menn fá kjaftshögg í tíðum áflogum myndarinnar.

Ýmsilegt annað má finna að myndinni, svo sem klúðursleg samtöl, væmið fjölskyldudrama og metnaðarlaus kvikmyndataka. Ljóst er að Alfonso Balcázar er enginn Sergio Corbucci og enn síður Sergio Leone. Í heild er myndin í besta falli rétt miðlungsgóð, a.m.k. fyrir áhugamenn um spaghettí-vestra og aðdáendur Klaus Kinski sem geta vart látið hana fram hjá sér fara.

Myndgæðin á DVD diskinum frá Best Entertainment í Þýzkalandi eru fín og er boðið bæði upp á þýzka og enska talsetningu myndarinnar, en þýzki titillinn Ein Einsamer kehrt zurück er á kápumyndinni.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Ástæðan fyrir því að Trinity var dæmdur til dauða var fyrst og fremst sú að hann tók lögin í eigin hendur og myrti þá sem hann taldi ábyrga fyrir dauða bróður hans og mágkonu á brúðkaupsdegi þeirra. Fjölskyldan snýr líka við honum baki fyrir að hafa látið hefndina ráða ferðinni í stað þess að gæta að hag eiginkonu sinnar og barna. Samúð aðstandenda myndarinnar virðist þó öll með Trinity sem aðeins gerði það sem hverjum karlmanni bar, enda kemur á daginn að friðarhugsjónir eiginkonunnar reynast með öllu óraunsæjar þegar bófarnir taka að herja á hana og börn hennar. Þegar allt kemur til alls er það byssan í höndum hins réttláta sem leysir allan vandann.

Skúrkar myndarinnar eru allir alvondir og best geymdir undir grænni torfu, en þó er einn sem reynist að lokum ekki með öllu samviskulaus, þ.e. mannaveiðarinn sem smám saman sannfærist um ágæti málstaðar Trinitys og leyfir honum að hreinsa til í héraðinu áður en hann fer með hann til laganna varða og innheimtir það sem lagt var honum til höfuðs.

Svo má geta þess að kirkjan í myndarbyrjun ætti að virka kunnugleg á alla forfallna aðdáendur spaghettí-vestra enda hefur byggingin og raunar bærinn allure komið við sögu í ótal þeirra, t.d. The Four of the Apocalypse (Lucio Fulci: 1975).

Guðfræðistef: kraftarverk, samviskan
Siðfræðistef: hefnd, manndráp, ofbeldi, vændi, dauðarefsing, einelti, langrækni, fyrirgefning, loforð, bankarán, blekking, sviðsetning, ögrun, sjálfsvörn, slagsmál, veðmál, fyrirlitning, spilling, sakleysi, friður, vopn
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross á kirkju, kross á altari, kirkjuhandbók
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: hjónavígsla