Kvikmyndir

Thirteen (2003)

Leikstjórn: Catherine Hardwicke
Handrit: Catherine Hardwicke og Nikki Reed
Leikarar: Evan Rachel Wood, Nikki Reed, Holly Hunter, Jeremy Sisto, Brady Corbet, Deborah Unger, Kip Pardue, Sarah Clarke, Vanessa Anne Hudgens, Ulysses Estrada, Sarah Cartwright, Jenicka Carey, Jasmine Salim, Tessa Ludwick og CeCe Tsou
Upprunaland: Bandaríkin og Bretland
Ár: 2003
Lengd: 100mín.
Hlutföll: Líklega 1.77:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Hin þrettán ára gamla Tracy er vel gefin og fyrirmynda nemandi. Hún er saklaus og eilítið barnaleg en þráir að vera fullorðinsleg og vinsæl. Henni tekst að vingast við vinsælustu stelpu skólans, Evu, en hún kynnir Tracy fyrir kynlífi, eiturlyfjum og þjófnaði.

Almennt um myndina:
Þetta er frumraun leikstjórans Catherine Hardwicke en hún fékk leikstjórnarverðlaun á Sundance kvikmyndahátíðinni fyrir myndina. Catherine Hardwicke er þó enginn nýgræðingur í kvikmyndagerð enda hefur hún aðallega komið að sviðsmyndum og listrænni hönnun áður.

Catherine Hardwicke skrifaði handritið í samvinnu við hina kornungu Nikki Reed (fædd 1988) og segir sagan að þær hafi kynnst þegar hún var í sambandi við föður hennar. Reed hafði verið í sömu stöðu og Tracy í myndinni og ráðlagði Catherine Hardwicke henni að vinna í sínum málum með því að halda dagbók. Reed skrifaði hins vegar kvikmyndahandrit um reynslu sína sem Hardwicke lagaði síðan til og kvikmyndaði. Reed skrifar ekki aðeins handrit myndarinnar heldur leikur hún einnig Evu í myndinni.

Það er mikið um snöggar klippingar í Thirteen. Myndavélin er stundum á hreyfingu, henni er hallað þegar eitthvað fer úrskeiðis, aðdráttarlinsunni er beint að hlutum sem skipta máli, litir hverfa nánast úr myndinni til að draga fram innri líðan, myndavélin flýtur þannig að áhorfandanum finnst hann sjálfur vera undir áhrifum og svo mætti lengi telja. Það er því ýmsum meðulum beitt í kvikmyndatöku og klippingu. Ekkert af þessu er reyndar nýtt en allt er þetta hins vegar notað markvisst og meðvitað, kannski aðeins um of.

Leikararnir í myndinni standa sig mjög vel og þá sérstaklega Evan Rachel Wood (Tracy) og Holly Hunter sem leikur móður hennar. Handrit myndarinnar er hins vegar helsti gallinn. Við fáum aldrei almennilega útskýringu á hegðun Evu eða uppruna hennar og í raun vitum við í lokin nánast ekkert um hana. Það verður að teljast galli, þar sem hún er næst stærsta hlutverk myndarinnar.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Til er sér kvikmyndaflokkur sem ég kalla „evumyndir“. Allar eiga þessar myndir það sameiginlegt að fjalla um konur sem heita Eva eða vísa til Evu Biblíunnar á annan hátt. Þessar Evur eiga það sameiginlegt að hafa enga stjórn á kynhvöt sinni, virða ekki reglur samfélagsins og neita að ganga inn í hefðbundna kvenímynd. Sem dæmi um evumyndir má nefna Eva (Jospeh Losey: 1962), Et Dieu… créa la femme (Roger Vadim: 1956), And God Created Woman (Roger Vadim: 1988), The Lady Eve (Preston Sturges: 1941), Choose Me (Alan Rudolph: 1984) og La Nouvelle Ève (Catherine Corsini: 1999).

Hér er persónuleiki Evu áþekkur því sem er að finna í öðrum evumyndum. Eva er dökkhærð á meðan Tracy er ljóshærð. Hún er þjófótt, lygin, svikul, lauslát og siðlaus. Eva reynir við nánast hvern einasta karlmann sem á vegi hennar verður og skiptir aldur þar litlu máli eða hvort hann er unnusti vinkonu hennar. Hún fær Tracy meira að segja til kyssa sig blautum kossi og taka þátt í hópkynlífi. Ástæðan fyrir því að Evur eru yfirleitt svona lauslátar í kvikmyndum er líklega sú að kynlíf hefur lengi verið tengt við fall mannsins. Þar sem Evu er oft kennt um fallið er hún holdgervingur fallsins, þ.m.t. kynlífsins.

Eva virðir engar samfélagslegar reglur og hún fer t.d. út í garð til að míga þótt aðrir sjái til. Þá virðist hún ekki þekkja hugtökin tryggð og vinátta. Hún kastar frá sér vinkonu sinni þegar hún kynnist Tracy og mergsýgur hana síðan og fjölskyldu hennar. Eve reynir ekki að bæta samband Tracyar og móður hennar, Melanie, heldur leggur hún sig fram um að reyna að koma í staðinn fyrir dótturina og ýtir þannig Tracy til hliðar. Hún virðist ljúga því að hún geti ekki horfið aftur heim því að hún hafi verið misnotuð kynferðislega frá níu ára aldri og að móðir hennar sé útdópuð hóra. Reyndar fáum við aldrei staðfestingu á því að þetta sé lygi en margt í myndinni bendir til þess. Þá biður hún Melanie að lokum að ættleiða sig, en þegar hún hafnar því snýr hún bakinu við Tracy. Til þess að hefna sín á Tracy kjaftar hún frá dópneyslu hennar og kennir henni meira að segja um að hafa afvegaleitt sig.

Eva er hér því enn í freistingarhlutverkinu sem henni hefur svo lengi verið eignað í sögunni af Adam og Evu. Reyndar segir hvorki í frumtexta Biblíunnar að Eva hafi freistað Adams né að hann hafi ekki vitað hvaðan ávöxturinn kom. Hefðin hefur hins vegar gert Evu að siðlausri drós sem er ófær um að virða almenn siðferðisgildi samfélagsins og dregur því aðra með sér í svaðið.

Það er áhugavert að Eve er með kross um hálsinn í kvikmyndinni. Þess ber þó að geta að kross hennar virðist fyrst og fremst vera til skrauts, en ólíkt krossum flestra annarra er hann ekki látlaus heldur vandaður „tískukross“.

Þótt hér sé um evumynd að ræða fjallar hún fyrst og fremst um áhrif eiturlyfjaneyslu. Þótt Eve sé að mestu kennt um fall Tracyar er ljóst að vandann er einnig að finna heima fyrir. Móðir hennar er óvirkur alki, bróðir hennar er hasshaus og kærasti móður hennar kókaínfíkill. Ekki bætir það úr skák að faðir hennar er svo upptekinn í vinnunni að hann hefur engan tíma til að sinna börnunum.

Í upphafi myndarinnar er Tracy efnilegt skáld og fyrirtaks nemandi. Hún er elskuleg stelpa en utangarðs og eilítið barnaleg. Hún þráir hins vegar að vera í hópi vinsælu og „heitu“ stelpnanna í bekknum og þá sérstaklega í slagtogi við Evu. Leið hennar inn í hópinn er í gegnum tískuna. Hún losar sig við gömlu fötin sín og kaupir sér ný. Það er áhugavert að við upphafi myndarinnar gengur Tracy fram hjá auglýsingarskilti þar sem stendur: „Fegurð er sannleikur.“ Síðar í myndinni þegar Eva hefur svikið hana gengur Tracy aftur fram hjá þessu sama skilti en þá er búið að útkrota auglýsinguna. Það er því eins og hinn falski heimur tísku og fegurðar sé fallinn.

Fall Tracyar á sér stað smám saman. Hún byrjar að stela til að ganga í augun á Evu og fær sér síðan tungu- og naflahring. Þá fer hún að skera sig, að því er virðist til að refsa sér fyrir óþekkt sína. Eva er reyndar svo hrifin af þessu hátterni hennar að hún tekur heilluð utan um hana og segist elska hana þegar hún kemst að því. Tracy hættir einnig nánast að borða en næringarskorturinn hefur veruleg áhrif á skapferli hennar. Þá byrjar hún að nota eiturlyf og stunda kynlíf að áeggjan Evu, aðeins þrettán ára gömul. Það er reyndar nokkuð gert úr því hversu mikið tískuheimurinn gerir út á kynlíf stálpaðra barna. Tracy stelur t.d. barnalegum nærbuxum með mynda af bangsa á og áletruninni: „Viltu negla mig?“ Tracy gengur algjörlega inn í þessar kröfur samfélagsins en í einni senunni segir hún hróðug við móður sína um leið og hún bendir á brjóst sín og mjaðmir: „Enginn brjóstahaldari, engar nærbuxur.“

Þegar Eva yfirgefur Tracy hefur hún náð botninum. Í myndinni er botn hennar sýndur með því að liturinn hverfur að mestu og myndatakan er þannig að manni finnst eins og maður sé sjálfur undir áhrifum eiturlyfja. Það er ekki fyrr en Melanie tekur utan um dóttir sína og dvelur með henni alla nóttina að litur kemur aftur í myndina og við heyrum meira að segja fuglasöng fyrir utan gluggann.

Það er áhugavert að leið Tracyar út úr fallinu er í gegnum móður hennar en nánast alla myndina gengur Melanie í peysu með mynd af stórum krossi framan á. Tracy, bróðir hennar og Eva ganga hins vegar mjög oft í peysu með áletruninni: „Chaos God“, þ.e. „Guð glundroðans“.

Framsetning myndarinnar á falli og bata Tracyar er frekar einfeldningsleg. Það tekur Tracy aðeins þrjá mánuði að ná botninum og svo aðeins einn dag að koma sér út úr öllu saman aftur. Þá er það aldrei útskýrt hvers vegna eiturlyfin virðast hafa lítil sem engin áhrif á Evu, sem virðist lifa fyrir það eitt að leggja líf annarra í rúst. Það hefur oft verið bent á það að Bandaríkin séu hræðslusamfélag, að óttinn við náungann gegnsýri samfélagið. Þessi mynd gerir út á þann ótta. Þótt vissulega séu vandamál heima fyrir þá er það fyrst og fremst vegna utan að komandi illsku sem hin saklausa Tracy villist af leið.

Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 3
Persónur úr trúarritum: Guð, Eva
Siðfræðistef: eiturlyfjaneysla, áfengisneysla, lygar, fegurðardýrkun, tíska, þjófnaður, heimilisofbeldi, kynferðisleg misnotkun, vanþakklæti, kvalarlosti, átröskun, samkynhneigð, kynþáttafordómar, reiði, auglýsingamennska, vændi
Trúarbrögð: zen búddhismi
Trúarleg tákn: kross, svartur, hvítur
Trúarleg embætti: miðill