Kvikmyndir

Three Bullets for a Long Gun

Leikstjórn: Peter Henkel
Handrit: Keith C. van der Wat, byggt á sögu eftir Beau Brummell
Leikarar: Beau Brummell, Keith C. van der Wat, Patrick Mynhardt, Don McCorkindale, Tullio Moneta og Janis Reinhardt
Upprunaland: Þýzkaland og Suður-Afríka
Ár: 1970
Lengd: 80mín.
Hlutföll: 1.33:1

Ágrip af söguþræði:
Kani bjargar mexíkönskum bófa frá aftöku í von um að hann hafi hinn helminginn af fjársjóðskorti. Brátt kemur þó í ljós að þeir eru ekki einir um að vera á höttunum eftir fjársjóðinum.

Almennt um myndina:
Leiðinlegur og illa gerður spaghettí-vestri sem aldrei þessu vant var ekki tekinn í Evrópu heldur í Suður-Afríku. Þótt sögusviðið eigi að vera Mexíkó má sjá skjaldbökur á röltinu úti í óbyggðum auk þess sem einkennisbúningar stjórnarhersins eru í engum tengslum við raunveruleikann. Ótrúlegt en satt þá var gert framhald af þessari mynd með titlinum They Call Me Lucky (Keith van der Wat: 1973).

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Sögupersónurnar signa sig í tíma og ótíma og nefna guðsmóðurina oftsinnis á nafn, ekki síst mexíkanski bófinn. Jafnframt ræða Kaninn og bófinn um uppáhaldsritningartexta frænda þess síðar nefnda án þess þó að það komi nokkurn tímann fram hver hann hafi verið.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían
Guðfræðistef: guðsmóðir
Siðfræðistef: manndráp, aftaka, einvígi, nauðgun, hýðing, pynting, spilasvindl, rússnesk rúlletta
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: signing, bæn, biblíulestur