Kvikmyndir

Tillsammans

Leikstjórn: Lukas Moodyson
Handrit: Lukas Moodyson
Leikarar: Lisa Lindgren, Michael Nyqvist, Gustav Hammarsten, Anja Lundkvist og Jessica Liedberg
Upprunaland: Svíþjóð
Ár: 2000
Lengd: 106mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Title?0203166
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Tillsammans er gerð af Lukas Moodyson, þeim sama og gerði meistarastykkið Fucking Åmål. Það er líklega ekki auðvelt að fylgja slíkri mynd eftir, en Moodyson tekst prýðilega upp með þessari mynd. Hér beinir hann spjótum sínum að hippamenningu og kommúnulífi áttunda áratugarins. Myndin segir frá Elísabetu og börnum hennar, sem flytja í kommúnuhúsið Tillsammans eftir að eiginmaður hennar leggur á hana hendur. Þar býr bróðir Elísabetar, Göran ásamt fleirum. Áhorfandinn fær að fylgjast með þessu fólki og sambúð þeirra, þar sem sumt gengur vel og annað ekki.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Litla samfélagið Tillsammans endurspeglar ef til vill marga af þeim hópum sem voru til staðar á þessum tíma. Þannig býr í húsinu harðskeyttur sósíalisti, kona sem glímir við kynhneigð sína, klæðskiptingur, par sem vill umfram allt ala barnið sitt upp vel og svo Göran og kærasta hans sem lifa í „opnu“ sambandi.

Til að byrja með gengur allt vel, en svo fara að koma brestir í samfélagið litla. Þannig áttar Göran sig á því að „opna“ sambandið hans og Lenu er í raun allt annað en uppbyggilegt og að hann vill þetta ekki. Hið sama á við um mörg af þeim gildum sem hópurinn aðhyllist. Af „prinsipástæðum“ vilja þau t.d. ekki eta kjöt eða horfa á sjónvarp. En þegar kröfurnar um að eta kjöt og horfa á sjónvarp eru settar fram (ekki síst af börnunum) þá þarf þetta litla samfélag að horfast í augu við sjálft sig og glíma við ýmsar grundvallarspurningar. Í ljós kemur að frelsið, sem þau leggja svo mikið upp úr, er ef til vill ekki eins mikið og þau töldu. Þannig eru börnin neydd til að gangast undir þetta líf, án þess að þau vilji það. Göran sér að hið opna samband leiðir í raun til þess að kærastan traðkar á honum og svo mætti lengi telja.

Fyrst og fremst Tillsammans þó mynd um mannlegt samskipti, þar sem á athyglisverðan hátt er sýnt fram á hvernig frelsi er ávallt í ákveðnu samhengi, frá einhverju og til einhvers. Um leið birtir myndin skemmtilega sýn á heim þess „átrúnaðar“ sem kommúnulífið var á sínum tíma.

Framhald umræðunnar á umræðutorginu

Guðfræðistef: frelsi, iðrun, afturhvarf, fórnfýsi
Siðfræðistef: heimilisofbeldi, framhjáhald, samkynhneigð, frjálst kynlíf, ofbeldi, jafnrétti, lygi, klám, skilnaður, áfengissýki, einelti, einmanaleiki, sættir, kynferðisleg áreitni, fasismi, kommúnismi, grænmetisætur