Kvikmyndir

‘Tis Pity She’s a Whore

Leikstjórn: Giuseppe Patroni-Griffi
Handrit: Giuseppe Patroni-Griffi, Alfio Valdarnini og Carlo Carunchio (byggt á samnefndu leikriti eftir John Ford)
Leikarar: Oliver Tobias, Charlotte Rampling, Fabio Testi, Antonio Falsi, Rik Battaglia, Angela Luce og Rino Imperio
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1971
Lengd: 100mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0069678
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Þegar Giovanni snýr heim eftir langvarandi námsdvöl í Bologna á Ítalíu einhvern tímann á síðmiðöldum, verður hann yfir sig ástfanginn af Önnubellu, gjafvaxta systur sinni. Hann reynir fyrst árangurslaust að fá munkinn Bonaventura til að leggja blessun sína yfir kenndir sínar en ákveður síðan að vinna bug á þeim með því að beita sjálfan sig hinu mesta harðræði. Að lokum sannfærist hann um að örlögin verði ekki umflúin og fær systur sína til að gefast sér í leynd, en fyrir vikið kalla þau ekki aðeins bölvun yfir sig heldur einnig allt heimilisfólk sitt.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
‘Tis Pity She’s a Whore er sennilega þekktasta leikrit Johns Ford, en það mun hafa verið skrifað í síðasta lagi árið 1633, þ.e. nokkrum árum áður en hreintrúarmenn gerðu svo að segja út af við leikhúslífið á Englandi. Kvikmyndaútfærsla Patroni-Griffis einfaldar söguna nokkuð með því að sleppa flestum hliðarfléttunum og sögupersónunum, sem tengjast þeim og einblína í staðinn á þráhyggju Giovannis og afleiðingar hennar. Óhætt er að segja, að það hafi tekist vel í þessu tilfelli, enda þykir kvikmyndin hrein snilld. Jerry Vermilye tilgreinir hana t.d. sem eina af hundrað bestu kvikmyndum Ítala í bók sinni Great Italian Films og segir hana virkilega þess virði að vera enduruppgötvuð. Myndin er líka gullfalleg, enda sviðsmyndin, myndatakan og tónlistin einstaklega vönduð og ávallt í fullu samræmi við framvindu sögunnar og sálarástand sögupersónanna. Sem dæmi um táknræna framsetningu myndmálsins mætti nefna litanotkunina (rauði liturinn er t.d. tákn um syndina), klæðaburð sögupersónanna (Giovanni verður t.d. hamslaus þegar hann losar um hálsskraut sitt sem einna helst minnir á hundsól), ómálaðan tréútskurðinn sem m.a. endurspeglar fjölskylduna og hvítu flöggin sem blakta á ströndinni þegar systkinin sjá enga færa leið lengur úr ógöngum sínum. Glæsileg ásýnd kvikmyndarinnar kemur svo sem ekkert á óvart í ljósi þess hverjir standa að baki hennar. Sviðsmyndin var hönnuð af listamanninum Mario Ceroli, kvikmyndtakan var í höndum Vittorio Storaro (sem meðal annars kvikmyndaði Apocalypse Now fyrir Francis Ford Coppola) og tónlistin var samin af hinum mjög svo afkastamikla Ennio Morricone, en hún verður að teljast með því besta, sem frá honum hefur komið.

Meginþema kvikmyndarinnar er siðleysi syndarans, sem táldregur systur sína, getur með henni barn og færir þannig bölvun yfir þau og allt þeirra fólk. Hann reynir allt hvað hann getur til að réttlæta girnd sína til systurinnar og sættir sig ekki við aðvaranir vinar síns, munksins Bonaventura. Í örvæntingu sinni kastar hann sér snemma í myndinni ofan í djúpan brunn í klausturgarðinum og reynir þar að svelta sig í hel. Myndatakan af Giovanni, þar sem hann liggur í leðjunni í botni brunnsins og lyftir þjáður hendi sinni til himins, minnir töluvert á Sálm 130, þar sem segir: „Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn, Drottinn, heyr þú raust mína, lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína! Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist? En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttast þig.“ Giovanni ákveður hins vegar að hafna Guði og lúta forlögunum einum. Hann heldur heim á leið og játar systur sinni ást sína. Allt verður honum leyfilegt, þegar hann snýr baki við Guði, en hann getur samt ekki umflúið afleiðingar gjörða sinna.

Reyndar úrskurðar biskupinn, sem málið er lagt fyrir, að systirin sé bróðurnum sekari, þar sem hún hafi látið til leiðast að drýgja hór með honum, og bætir við, að það sé synd, að þessi göfuga kona skuli vera hóra. Biskupinn segir Guð engu að síður miskunnsaman í garð iðrandi syndara og því beri rómversk-kaþólsku kirkjunni að annast bæði móðurina og ‚bastarðinn‘, sem þannig hafi verið getinn í synd. Því verði Annabella að ganga sem fyrst í löglegt hjónaband og forðast bróðurinn um ókomna tíð. Fyrir valinu verður helsti vonbiðill Önnubellu, Soranzo, sem er alls ókunnugt um stöðu mála, en um leið og hann áttar sig á henni eftir brúðkaupið, sver hann þess dýran eið að hefna sín á Giovanni og öllu fólki hans. Hvað systkinin varðar er sú hefnd í samræmi við lögmálið, sem segir, að þeir, sem framið hafa sifjaspell, skuli upprættir úr þjóð sinni (III. Mós. 18:9, 29). Soranzo lætur sér þó ekki aðeins nægja að drepa Giovanni, heldur saxar hann líkið í sundur og lætur kasta því fyrir hunda. Má þar finna vissa samsvörun við örlög hórkonunnar Jesebel, en lík hennar var einmitt etið af hundum (I. Kon. 21:23 og II. Kon 9:36). Reyndar fólst hórdómur Jesebels fyrst og fremst í hjáguðadýrkun, en segja má, að það hafi Giovanni einnig gert með því að snúa baki við Guði og gera örlögin að drottni sínum. Þegar Bonaventura birtist að lokum til að biðja fyrir sálu Giovannis, aðvarar Soranzo hann með þeim orðum, að fyrirbæn fyrir slíkum guðlausum níðingi geti allt eins reynst Guði vanþóknanleg og því sé frekar við hæfi að biðja fyrir þeim, sem þurfi á því að halda. Ef velja ætti einhvern ritningartexta sem yfirskrift myndarinnar, myndi Róm. 6:23 sennilega lýsa henni best: „Laun syndarinnar er dauði …“

Kvikmyndin ‘Tis Pity She’s a Whore er listrænn harmleikur, sem enginn kvikmyndaáhugamaður ætti að láta fram hjá sér fara. Hún er þó vart við hæfi þeirra allra viðkvæmustu.

Hliðstæður við texta trúarrits: 3M 18:9, 29, 1Kon 21:23, 2Kon 9:36, Sl 130, Rm 6:23
Guðfræðistef: forlagatrú, helvíti, synd
Siðfræðistef: sifjaspell, þráhyggja, hefnd, dyggð, ábyrgð
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: klaustur
Trúarlegt atferli og siðir: trúlofun, brúðkaup, fyrirbæn
Trúarleg reynsla: Guðsafneitun