Kvikmyndir

To Kill a Dead Man

Leikstjórn: Alexander Hemming
Handrit: Portishead
Leikarar: Beth Gibbons, Geoff Barrow, Adrian Utley, Tim Bishop, Dave McDonald og Richard Newell
Upprunaland: Bretland
Ár: 1994
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0111441
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Eiginkona valdamikils manns er lögð inn á geðsjúkrahús eftir að hann er skotinn til bana úr launsátri af leigumorðingja. Hún sannfærist þó að lokum um að morðið hafi verið sviðsett af eiginmanninum, sem hafi vænst þess að hún myndi missa vitið, og einsetur sér því að hefna sín á honum.

Almennt um myndina:
Breska hljómsveitin Portishead er með þeim allra bestu, sem komið hafa fram á sjónarsviðið á síðast liðnum áratug. Stuttmyndin To Kill a Dead Man var í raun gerð til þess að Portishead gæti prófað að semja tónlist við kvikmynd, en svo fór að hún var notuð sérstaklega til kynningar á fyrsta diski hljómsveitarinnar, Dummy, þegar hann kom út síðar á því sama ári. Sömuleiðis var stuttmyndin endurklippt fyrir tónlistarmyndbandið Sour Time.

Vel má flokka stuttmyndina til film noir kvikmynda í ljósi kvikmyndastílsins og söguþráðarins. Svart-hvít kvikmyndatakan er glæsileg með afskaplega viðeigandi tónlist, en hvorki er sungið né talað í henni. Í rauninni er bæði myndin og tónlistin innblásin af njósnamyndum sjöunda og áttunda áratugarins, einkum þeirra mynda sem snillingarnir Lalo Schifrin og John Barry sömdu tónlist við. Ekki kemur á óvart að einn af meðlimum Portishead skuli á heimasíðu hljómsveitarinnar tilgreina bresku njósnamyndina The Ipcress File eftir Sidney J. Furie frá árinu 1965 sem eina af sínum uppáhaldsmyndum, enda minnir tökustíllinn, frásagnarmátinn og tónlistin í To Kill a Dead Man sérstaklega á hana.

Enda þótt Geoff Barrow, einn af aðalmönnum Portishead, segist ekki þola stuttmyndina og harmi þá ákvörðun að meðlimir hljómsveitarinnar skuli hafa leikið í henni, er óhætt að mæla með henni enda frábær og í raun vel leikin. Stuttmyndin hefur verið sýnd öðru hverju á tónlistarmyndbandastöðvunum MTV og VH1 en hana er einnig að finna á DVD diskinum Portishead: Roseland New York.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Helstu stef stuttmyndarinnar eru siðfræðileg og snúast um samsæri, svik og morð. Sú bölsýna mynd, sem dregin er upp af mannseðlinu er mjög í anda film noir kvikmyndanna, en skákin er notuð með táknrænum hætti til að sýna ákvarðanir og gjörðir sögupersónanna.

Guðfræðistef: mannseðlið
Siðfræðistef: morð, svik, samsæri