Leikstjórn: Pedro Almodóvar
Handrit: Pedro Almodóvar
Leikarar: Cecilia Roth, Marisa Paredes, Penélope Cruz, Candela Pene og Antonia San Juan
Upprunaland: Spánn og Frakkland
Ár: 1999
Lengd: 101mín.
Hlutföll: 2.35 :1
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Kvikmyndin Todo sobre mi madre fjallar um einstæða móður að nafni Manuela sem missir einkason sinn, Esteban, á unglingsaldri. Æðsta ósk Estebans var að fá að kynnast pabba sínum sem Manuela yfirgaf áður en hann fæddist. Í kjölfar dauða hans yfirgefur Manuela Madríd og leggur í ferðalag til Barcelona til að finna Lolu, barnsföður sinn. Á ferðalagi hennar fáum við að kynnast bæði gömlum og nýjum vinum Manuelu sem allir tengjast lífi hennar á örlagaríkan hátt.
Almennt um myndina:
Kvikmyndin lætur varla nokkurn ónortin. Litríkar persónur og óvenjulegur söguþráður gera hana einstaka. Örlög persónanna fléttast saman á ótrúlegan hátt og ekki er hægt að segja fyrirfram hvernig myndin endar.
Höfundur tónlistarinnar er Alberto Iglesia og tekst honum mjög vel til. Í dramatískustu atriðunum notar hann harmonikku sem kemur mjög vel út.
Kvikmyndatakan er góð. Dæmi um áhrifaríka töku er þegar Manuela krýpur hjá deyjandi syni sínu eftir að hann hefur lent í bílslysi, myndavélinni er beint á ská að Manuelu til að undirstrika ótta hennar.
Leikurinn í myndinni er mjög góður. Manuela í túlkun Ceciliu Roth er frábær í hlutverki sínu og gefur öllum tilfinningum eins og gleði, sorg og vonbrigðum lit og fyllingu. Einnig er leikur Antoniu San Juan í hlutverki Agrado frábær og er senan þar sem hún segir frá lífi sínu á sviði leikhúsins einstaklega skemmtileg og verður til þess að áhorfandanum fer að þykja mjög vænt um persónuna.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Myndin er full af siðfræðstefum og sterkast af þeim er lækningin í gegnum fyrirgefninguna og þroskaferil sorgarinnar. Önnur siðfræðistef koma líka fyrir eins og andlát, veikindi, minnihlutahópar og vinátta og tengsl milli fólks af ólíkum uppruna.
Persónurnar sem koma við sögu í myndinni tengjast bæði í gegnum Lolu, sem áður hét Esteban en hann breytti sér í kvenmann, og sonum hans tveimur sem bera sama nafn og viðbrögðum kvennanna gagnvart þeim. Jafnframt tengjast þær á örlagaríkan hátt í gegnum kvikmyndina “All About Eve” (1950), leikritið “A Streetcar Named Desire” (Sporvagninn Girnd, 1947) eftir Tennessee Williams og að lokum ónefnt leikverk eftir Garcia Lorca. Þannig verða þessi þrjú verk táknræn fyrir örlög sögupersónanna og lyklar að gátunni um tilfinningalíf þeirra.
Hér á eftir mun ég gera grein fyrir tengslum aðalpersónu myndarinnar, Manuelu, við aðra persónur og siðfræðistefin sem tengir þau saman, í lokin tek ég svo fyrir áberandi liti í myndinni og hvernig þeir tengjast kristinni trú.
Manuela og LolaÁður en Lola breytti sér í kvennmann hét hann Esteban, en þau Manuela voru gift og þaðan er nafnið á syni þeirra tilkomið. Lola fór illa með Manuelu meðan á hjónabandi þeirra stóð. Hann fór að vinna í öðru landi eftir að þau giftu sig og ætlaði að sækja Manuelu en gerði það ekki. Tvö ár liðu þangað til Manuela fór á eftir honum og þá hafði hann látið breyta sér í konu. Manuela sætti sig við þetta að lokum, fannst hann vera lítið breyttur fyrir utan það að hann var komin með stærri brjóst en hún sjálf. Manuela yfirgaf Lolu á meðan hún gekk með Esteban, og sagði Lolu aldrei frá því að hún væri ófrísk. Hún var honum mjög reið og kom sér aldrei til þess að segja syni þeirra frá pabba sínum. Þegar þau hittast í lok myndarinnar er Manuela honum enn mjög reið og ásakar hann fyrir að drepa allt sem hann komi nálægt. En Manuela fær samúð með Lolu vegna aðstæðna hans og hún gefur honum tækifæri á að hitta Esteban, son hans og Maríu Rosu. Með því fyrirgefur hún honum. Manuela segir Lol!u frá syni þeirra og gefur honum dagbókina hans þar sem stendur að æðsta ósk hans að sé að kynnast pabba sínum. Sorg Manuelu gefur henni styrk til fyrirgefningar. Og með því að segja sannleikann og fyrirgefa Lolu er greinilegt að Manuelu líður betur. Lola er mikill áhrifavaldur i myndinni, nær allar persónur myndarinnar tengjast henni með einum eða öðrum hætti á mjög siðferðislega flókin hátt.
Manuela og EstebanSamband þeirra mæðgina er mjög gott. Esteban á þá ósk heitasta að hún segji sér frá pabba hans en hún hefur aldrei komið sér að því vegna þess hve ólíkur faðir hans er stöðluðu föðurímyndinni.
Eftir andlát Estebans er Manuela beðin um að gefa úr honum líffæri. Þarna er Manuela komin í aðra stöðu en vanalega þar sem hún vinnur sem tengiliður við líffæragjafir. Í kjölfarið brýtur Manuela þær reglur sem hún hefur hingað til brýnt fyrir öðrum og fer meðal annars og fylgist með þeim einstaklingi sem fékk hjartað úr Estebans. Í þessu atriði kemur svo sterkt fram að ekki er hægt að segja til hvernig maður bregst við aðstæðum fyrirfram, og best að dæma ekki aðra of hart.
Samband Manuelu og AgradoÞær kynntust í gegnum Lolu, barnsföður Manuelu á þeirra yngri árum. Auk þess eiga þær það líka sameiginlegt að Lola hefur farið illa með þær báðar. Lola hélt fram hjá Manuelu á meðan þau voru gift tuttugu árum áður og sveik Agrado með því að stela öllu innbúinu hennar nokkru áður en Manuela kemur til baka til Barcelona í leit að Lolu og hefur ekki sést eftir það. Samband vinkvennanna er mjög sterkt og Manuela er alveg fordómalaus gagnvart kynhneigð Agrado sem er kynskiptingur, og þær veita hvor annari stuðning í baráttu sinni í lífinu.
Manuela og María RosaÞær hittast í trúboðsstöð nunnanna, þar sem María Rosa er starfandi nunna. Manuela og Agrado koma þar í leit að vinnu. María Rosa vill allt fyrir þær gera og er mjög fordómalaus gagnvart þeim þrátt fyrir mikla andstöðu rómversk-kaþólsku kirkjunnar gegn samkynhneigð. María Rosa hrífst strax að Manuelu, ef til vill vegna hins sterka móðureðli hennar, en í sambandi Mariu Rosu og móður hennar ríkir ekki trúnaður. María Rosa trúir Manuelu fyrir því að hún sé ófrísk og Manuela kemst að því að barnsfaðir hennar er fyrrverandi eiginmaður hennar, Lola. Eftir að María Rosa greinist með HIV-smit í mæðraskoðun, flyst hún inn til Manuelu sem annast hana. María Rosa biður Manuelu að annast barnið sitt ef eitthvað skyldi koma fyrir hana. Þær tengjast sterkum böndum og María Rosa ákveður að skíra son sinn Esteban eftir syni Manuelu. María Rosa deyr eftir fæðinguna og Manuela tekur Esteban að sér. Hann er smitaður af alnæmisveirunni og Manuela fer aftur með hann til Madríd til að leita lækningar við sjúkdómnum. Þarna kemur fram tenging við leikritið „Sporvagninn Girnd“ þar sem Stella fer frá ofbeldisfullum eiginmanni þegar hún hefur eignast barn. Í lok myndarinnar kemur Manuela aftur til Barcelona með Esteban á læknaráðstefnu, því hann sýnir svörun við lyfi sem verið er að þróa gegn alnæmi. Ferð Manuelu frá Madríð til Barcelona er táknræn fyrir hana. Hún er búin að gera upp fortíðina og er reiðubúin að halda áfram óttalaus.
Manuela og Huma RojasManuela sér fyrst Humu Rojas þegar og hún og Estebsan sonur hennar fara að sjá hana í hluverki Blanche Dubois í leikritinu Sporvagninn Girnd, en Manuela lék systur hennar, Stellu, fyrir tuttugu árum síðan og Lola var í hlutverki eiginmanns hennar, Kowalskis. Eftir leiksýninguna deyr Esteban í slysi eftir að hafa reynt að fá eiginhandaáritun hjá Humu Rojas. Skömmu eftir að Manuela flyst til Madrídar fer hún að sjá sömu sýningu og hittir þá Humu Rojas. Huma Rojas býður Manuelu vinnu eftir að hafa beðið Manuelu að hjálpa sér að leita að ástkonu sinni á götum Barcelona þar sem hún var að leita sér að fíkniefnum. Manuela þiggur það, enda var það með ráðum gert, nákvæmlega eins og í kvikmyndinni „All About Eve“, sem þau Manuela og Esteban, sonur hennar, horfðu á kvöldið áður en hann lést. Manuela tengist því Humu Rojas persónulegum böndum eftir að hafa ásakað hana fyrir að hafa óbeint valdið dauða Esteban. En eftir því sem vinátta þeirra þróast og hún kynnist þjáningarfullu sambandi hennar við ástkonu sína, fyrirgefur Manuela Humu.
Á sama tíma og Manuela fyrirgefur barnsföður sínum, skilur Huma við ástkonu sína og byrjar að leika í leikriti eftir Garcia Lorca. Hún túlkar þar sonarmissi með fallegum, látlausum og tilfinningaþrungnum leik, og lýsir því hvernig hún sleikti blóð látins sonar síns í sorginni, eins og skepnurnar gera. Með þessu er Huma Rojas að einhverju leyti að túlka missi Manuelu og sorg hennar sem hún hefur svo vel fengið að kynnast í gegnum hana.
Litir og táknRauði liturinn er mjög áberandi í myndinni. Hann er einna táknrænastur í atriðinu þegar Esteban deyr. Stór veggmynd af Humu Rojas rauðklæddri er í bakgrunni en Manuela stendur álengdar í rauðri káðu. Þetta gefur til kynna að eitthvað er í vændum. Enda deyr Esteban rétt á eftir. Rauði liturinn er ekki bara notaður þarna. Allar aðalleikonurnar eiga til dæmis rauða kápur. Manuela er í rauðri peysu í bæði skiptin sem hún fer að sjá Sporvagninn og aftur er hún í sömu peyu þegar hún fer með Maríu Rosu til læknisins.
Í trúnni er rauður litur andans, eldsins, blóðsins og kærleikans en einnig hvítasunnunnar og píslarvottanna. Í myndinni tengist liturinn blóði, eins og dauða Estebans en kannski má líka tengja rauðu kápur vinkvennanna við kærleikann sem er á milli þeirra.
Hvíti liturinn kemur líka við sögu og þá helst í tengslum við dauða Maríu Rosu. Hún klæðist hvítri peysu í mæðraskoðun, og hvíti liturinn sjúkrastofunni er mjög afgerandi í senunni áður en hún deyr. Liturinn tengist dauðanum í myndinni og hægt er að tengja hann upprisustefinu í kristinni hefð. Hann er einnig litur óendanleikans og Maria Rosa lifir áfram í Esteban yngsta, enda er það hún sem tengir allar persónur saman í lokin.
HeimilidirKarl Sigurbjörnsson, tákn trúarinnar, bls.93 94, Skálholtsútgáfan
http://spanish.about.com/library/weekly/aa122799a.htm?terms=todo+sobre+m…
http://www.imdb.com/title/tt0185125/plotsummary
http://www.sonypictures.com/classics/allaboutmymother/frames.html
Guðfræðistef: Dauðinn, tilgangur lífsins, sorg og sorgarviðbrögð, fyrirgefning
Siðfræðistef: Lesbía, kynskiptingar, vímuefni, einstæð móðir, alnæmi, líffæragjafar, vændi, fordómar, vinátta, traust, ást, veikindi, málverkafalsanir (móðir Mariu Rosa falsar málverk)
Trúarbrögð: Rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Kirkja, trúboðsstöð nunnanna
Trúarleg tákn: Maríulíkneski
Trúarleg embætti: Nunnur
Trúarlegt atferli og siðir: Jarðaför