Kvikmyndir

Tough to Kill

Leikstjórn: Aristide Massaccesi [undir nafninu Joe D’Amato]
Handrit: Sergio Donati og Aristide Massaccesi [undir nafninu Joseph Mc Lee]
Leikarar: Luc Merenda, Donald O’Brien, Percy Hogan, Alessandro Haber, Laurence Stark, Piero Vida og Lorenza Rodriguez Lopez
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1978
Lengd: 85mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0169826
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Þegar nokkrir málaliðar í afskekktu Afríkuríki átta sig á því að mafían hafi lagt $1.000.000 til höfuðs eins þeirra, ákveða þeir strax að hlaupast undan merkjum og svíkja kauða í hendur henni.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Málaliðamyndin Tough to Kill er hræódýr átakamynd úr smiðju ítalska ruslmyndagerðarmannsins Aristide Massaccesi (1936-1999), sem oftast kallaði sig Joe D’Amato en notaði einnig nokkra tugi annarra dulnefna, þar á meðal fáein kvenmannsnöfn. Óhætt er að segja að Massaccesi hafi verið með þeim afkastamestu í kvikmyndaiðnaðinum, enda er hann sagður hafa leikstýrt að minnsta kosti 155 kvikmyndum á www.imdb.com, auk þess sem hann skrifaði fjölda kvikmyndahandrita, starfaði oftsinnis sem kvikmyndatökumaður og framleiddi bæði sína eigin myndir og annarra. Gæðin voru þó oftast í samræmi við það sem búast má við af slíkum afköstum en árið sem Massaccesi gerði Tough to Kill leikstýrði hann einnig fjórum öðrum kvikmyndum í fullri lengd.

Til marks um metnaðarleysi framleiðslunnar mætti nefna, að nafn eins aðalleikarans er ranglega stafsett með stórum stöfum Donal í stað Donald í upphafi myndarinnar, auk þess sem átakaatriðin eru jafnan eins ódýr og einföld sem hugsast getur. Meira að segja bútum úr hefðbundnum dýralífsmyndum er skotið inn í hvert sinn sem eitthvert rándýr kemur við sögu og virðist engu máli skipta þótt bæði kvikmyndatakan og umhverfið sé alls ólíkt. Gott dæmi um það er þegar einn málaliðinn liggur helsár góða stund úti á víðavangi þar sem vart stingandi strá er að finna. Skyndilega bregður honum hins vegar mjög og skýtur úr skammbyssu sinni eitthvert til hliðar við sig, en þá er sýnt hvar blettatígur lítur í hasti upp frá hálfétinni bráð sinni í miklu graslendi og hleypur á brott. Það er í rauninni alveg í samræmi við gæði myndarinnar, að hún skuli hafa verið ranglega nefnd Touch to Kill á kápu íslensku myndbandsútgáfunnar, en titillinn er límdur yfir sænska titilinn Dödspatrullen.

Persónusköpunin er auk þess ósköp einföld. Málaliðarnir eru allt saman hvítir uppgjafahermenn og glæpamenn á flótta undan réttvísinni, sem hugsa bara um eigin hag og hata allt og alla, blökkumenn þó alveg sérstaklega. Blökkumaðurinn Wabu gerist þjónn eins málaliðans og hagar sér lengst af sem hinn mesti einfeldningur meðan málaliðarnir stúta hverjum öðrum (meðal annars í handsprengjueinvígi) í baráttunni um launin en fyrir vikið situr hann eftir einn með alla fúlguna að lokum enda klókastur allra þegar upp var staðið. Ástæðan: Málaliðarnir töldu blökkumennina upp til hópa ómenntaða heimskingja og steingleymdu því að kristniboðar höfðu starfrækt skóla fyrir þá á svæðinu um nokkurt skeið!

Hliðstæður við texta trúarrits: Mt 28:19
Siðfræðistef: kynþáttahatur, manndráp
Trúarlegt atferli og siðir: kristniboð