Inngangur
Rannsóknir á trúarstefjum í kvikmyndum hafa átt sér stað í um 30 ára skeið, lengst af aðeins í litlum mæli en saga þessara rannsókna er stutt hér á landi. Íslenskir guðfræðingar létu nokkuð til sín taka þegar hin umdeilda mynd Síðasta freisting Krists eftir Martin Scorsese var sýnd árið 1988. Þessi skrif snérust þó að mestu um meint guðlast myndarinnar, frekar en fræðilega úttekt á guðfræði hennar eða túlkun á guðspjöllunum. Þá tóku til dæmis til máls guðfræðingarnir Gunnar J. Gunnarsson og Gunnlaugur A. Jónsson. Pétur Pétursson skrifaði einnig sama ár grein í Lesbók Morgunblaðsins um uppgjör Ingmar Bergman við kristna trú í kvikmyndum sínum. Allir áttu þessir guðfræðingar eftir að koma að rannsóknum á trúarstefjum í kvikmyndum síðar meir.
Eftir þessi skrif var hljótt á meðal guðfræðinga á Íslandi um þessi efni. Gunnar J. Gunnarsson rauf þessa þögn þegar hann hóf að skrifa reglulega um trúarstef í kvikmyndum í tímarinu Bjarma frá árinu 1995. Bjarni Randver Sigurvinsson skrifaði einnig grein í Lesbók Morgunblaðsins árið 1997 um Mattheusarguðspjall Pasolinis. Tveim árum síðar lét Gunnlaugur A. Jónsson aftur að sér kveða með nokkuð ítarlegri grein um trúarstef í kvikmyndum í bókinni Heimur kvikmyndanna sem kom út árið 1999.
Markvissar rannsóknir á trúarstefjum í kvikmyndum hófust síðan hér á landi með stofnun rannsóknarhópsins Deus ex cinema 4. júlí árið 2000. Stofnun hans á rætur að rekja til áhuga Gunnlaugs A. Jónssonar á menningaráhrifum Biblíunnar, en rannsóknir sínar kallaði hann áhrifasögu Biblíunnar. Gunnlaugur hafði kennt samnefnd valnámskeið til nokkurra ára og margoft lýst áhuga sínum á að taka kvikmyndir sérstaklega fyrir, fræðasvið sem hann kvaðst hafa litla þekkingu á. Það var síðan þegar undirritaður fékk nýsköpunarsjóðsstyrk til að rannsaka biblíustef í stríðsmyndum sem Deus ex cinema var stofnað. Allt frá stofnun þessa rannsóknahóps hefur Deus ex cinema verið í fararbroddi á rannsóknum á trúarstefjum í kvikmyndum, haldið fjöldann allan af fyrirlestrum og ráðstefnum, sent frá sér greinar og bækur og haldið úti samnefndum vef.
Á þeim rúmum tveimur árum sem liðin eru frá stofnun Deus ex cinema hafa ákveðnar aðferðir og sérhugtök orðið til. Í þessum fyrirlestri mun ég því að miklu leyti sækja í dýrmæta reynslu rannsóknarhópsins. Mun ég fyrst leitast við að skilgreina trúarstef í kvikmyndum. Þá mun ég fara nokkrum orðum um flokkunarkerfi Deus ex cinema og helstu sérhugtök, með áherslu á biblíustef. Að lokum ræði ég stuttlega um ólíkar nálganir í rannsóknum á biblíustefjum í kvikmyndum.
Áður en lengra verður haldið er rétt að skilgreina hugtakið kvikmynd. Í hugum flestra eru kvikmyndir það sem við sjáum í bíó eða sækjum á myndbandaleigur. Vandinn við þessa notkun er sá að þá vantar okkur samheiti sem spannar allar hreyfimyndir. Því fer betur á því að kalla myndir sem eru framleiddar fyrir bíó bíómyndir. Þar með getum við nota hugtakið ,,kvikmynd“ sem safnheiti yfir myndir sem hreyfast, enda er það merking orðsins. Til eru ólíkar tegundir kvikmynda, svo sem tónlistarmyndbönd, heimildamyndir, teiknimyndir, bíómyndir, sjónvarpsmyndir og fréttamyndir. Lengi vel voru tölvuleikir ekki taldir til kvikmynda, þótt myndirnar hreyfðust, en það er þó að breytast, þar sem algengt er orðið að frægir leikarar ljái þeim rödd sína og koma jafnvel fram í þeim í eigin persónu. Hér verður þó megin áherslan á bíómyndir.
Algengasta spurningin sem við fáum er sú hvort við séum ekki bara að lesa einhverja hluti inn í kvikmyndirnar, með öðrum orðum að um oftúlkun sé að ræða. Þessi spurning felur í sér mjög einfalda sýn á hvað trúarstef í kvikmyndum eru. Því er nauðsynlegt, áður en lengra er haldið, að útskýra helstu grunnþætti slíkra rannsókna.
Trúarstef
Það er grundvallaratriði að menn geri sér grein fyrir því að hugtakið ‚trúarstef’ er safnheiti sem vísar til ólíkra fræðigreina eins og ritskýringar, trúfræði, trúarheimspeki, sálgæslu, siðfræði, kirkjusögu og almennrar trúarbragðafræði. Þar af leiðandi má segja að trúarstef séu í flestum, ef ekki öllum kvikmyndum. Það er til dæmis erfitt að ímynda sér nokkra þá bíómynd, sem ekki geti talist siðfræðileg á einhvern hátt, þ.e. að ekki komi við sögu siðfræðileg vandamál eins og lygar, framhjáhald eða morð. Rétt eins og trúin fjalla kvikmyndir um lífið og því hlýtur sérhver kvikmynd að hafa einhverja trúarlega vídd.
Vissulega eru sumar kvikmyndir trúarlegri en aðrar. Kvikmyndir um nunnur eða rabbína eru til dæmis líklegri til að hafa fleiri trúarstef en spennumyndirnar Die Hard eða Rambo. Slíkt er þó aldrei sjálfgefið. Spennu- og ævintýramyndir geta nefnilega allt eins verið háguðfræðilegar og nægir þar að nefna Star Wars myndirnar og The Matrix. Flokkunarkerfi Deus ex cinema er gott dæmi um víðfeðmt viðfangsefni þessara fræða.
Flokkunarkerfi Deus ex cinema
Þegar aðstandendur Deus ex cinema ákváðu að setja upp samnefndan vef var farið út í þá vinnu að flokka trúarstef í kvikmyndum. Sú vinna er enn í gangi, enda tekur vinnuskemað stöðugum breytingum með aukinni reynslu og þekkingu af viðfangsefninu. Í dag eru flokkarnir alls 13 en þeir eru: Beinar tilvísanir í texta í trúarritum, hliðstæður við texta í trúarritum, persónur úr trúarritum, sögulegar trúarpersónur, guðfræðistef, siðfræðistef, trúarbrögð, goðsögulegir staðir og helgistaðir, helgidagar og sögulegir atburðir, trúarleg tákn, trúarembætti, trúarlegt atferli og trúarleg reynsla. Fjallað verður ítarlegra um fyrstu þrjá flokkana síðar í fyrirlestrinum.
Beinar tilvísanir í texta í trúarritum
Í fyrsta flokkinn eru skráðar allar beinar tilvísanir í trúartexta, hvort sem það er Biblían, Mormónabók eða eitthvert annað trúarrit. Skráningin getur verið allt frá því að vera heiti á trúarriti sem minnst er á í kvikmynd eins og Bhagavat-Gita til ákveðins vers í trúarriti eins og 1M 4:7.
Hliðstæður við texta í trúarritum
Þótt ekki sé vitnað beint í trúartexta fer það oft samt ekki á milli mála að verið sé að vinna með þann texta. En í þennan flokk eru ekki aðeins skráðar óbeinar vísanir í trúarrit heldur einnig hliðstæður, jafnvel þótt textinn sé yngri en kvikmyndin sem um ræðir. Það sem skiptir máli er að hliðstæða hugsun sé að finna í myndinni og trúarritinu.
Persónur úr trúarritum
Í þennan flokk eru skráðar allar þær persónur sem koma fyrir í trúarritum, jafnvel þótt þær hafi aðeins nafn utan ritanna, eins og tengdadóttir Heródesar sem fengið hefur nafnið Salóme, eða Lillith sem hefðin segir vera fyrstu eiginkonu Adam. Einnig gildir einu þótt persónurnar hafi einhvern tíman verið til eða ekki eða hvort þær eru mennskar, andar eða dýr. Hrafnar Óðins, Huginn og Muninn, eiga því til dæmis einnig heima í þessum flokki. Þá ber að sjálfsögðu að skrá alla trúarbragðahöfunda í þennan flokk.
Sögulegar trúarpersónur
Hér eru skráðar allar þær persónur sem gegnt hafa mikilvægu hlutverki í trúarsögunni en eru ekki hluti af trúnni sjálfri eða trúarritum hennar. Dæmi um slíkar persónur eru til dæmis Ágústínus kirkjufaðir, Marteinn Lúther og Móðir Theresa. Ólíkt flokknum hér að framan verða þessar persónur að vera mennskar og að hafa einhvern tímann verið til.
Guðfræðistef
Guðfræðistef er nokkuð víður flokkur en sem dæmi um hugtök má nefna dauðann, eilíft líf, endurholdgun, frelsið, heimsslit, karma, kristsgervinga, kraftaverk, krossfestinguna, mannseðlið, miskunn Guðs, réttlætið, syndina, tilgang lífsins, tvíhyggju, upprisu, vantrú og örlög. Undir þennan flokk heyra einnig viðfangsefni sem tilheyra sálgæslunni eins og sorg og sorgarferli. Í stuttu máli má segja að í þennan flokk lendi tilvistarleg, guðfræðileg og sálgæsluleg viðfangsefni.
Siðfræðistef
Eins og nafnið gefur til kynna er hér skráð allt sem getur flokkast sem siðfræðilegt, en það getur verið eins fjölbreytilegt og auðmýkt, fíkniefnaneysla, fjölkvæni, fordómar, framhjáhald, genabreytingar, heiðarleiki, hernaður, hégómi, hjálpsemi, hroki, kynferðisleg misnotkun, kynþáttahatur, mannát, mannréttindi, morð, náttúruvernd, svik, sifjaspell, sjálfsvíg, ofbeldi og þjófnaður.
Trúarbrögð
Í þennan flokk eru ekki aðeins skráð trúarbrögð eða trúargreinar mannkynsins, eins og islam, falun gong eða rómversk-kaþólska kirkjan, heldur einnig trúarstefnur eins og nýöld og spíritismi og hópar sem geta haft trúarleg einkenni eins og nasismi, húmanismi og kommúnismi.
Goðsögulegir staðir og helgistaðir
Hér eru skráðir goðsögulegir og sögulegir staðir sem gegna einhverju trúarlegu hlutverki, hvort sem það er himnaríki, hlið helvítis, Valhöll, kirkja, trúboðsstöð, Rómarborg eða steinahringirnir (Stonehenge) á Salisburysléttunni í Suður-Englandi.
Helgidagar og sögulegir atburðir
Dæmi um helgidaga er til dæmis sunnudagurinn, jólin eða föstuendahátíðin hjá múslimum. Margir sögulegir atburðir hafa trúarlega þýðingu og dugar þar að nefna atburði eins og tíma frumkirkjunnar, krossfarirnar, siðbótatímann og helförina.
Trúarleg tákn
Trúarleg tákn eins og krossinn gegna oft mikilvægu hlutverki í kvikmyndum. Hér er þó ekki aðeins átt við tákn eins og hálfmána, davíðsstjörnuna, dúfu, fisk eða epli heldur einnig trúarlega hluti eins og talnaband, mesúsu, maríumynd, altari, skírnarfont, tarot spil, kerti og kirkjuklukkur. Þá hafa dýr og litir oft táknræna merkingu eins og glóbrystingur, kráka, einhyrningur og svartur, rauður og hvítur litur. Goðsögulegir hlutir falla einnig í þennan flokk eins og askja Pandóru og hamar Þórs.
Trúarembætti
Það fyrsta sem fólki dettur væntanlega í hug þegar minnst er á trúarembætti er prestur, nunna, jesúíti, kardínáli, páfi, rabbíni, gúrú eða eitthvað þess háttar. Þessi flokkur er þó mun víðari en það og myndu til dæmis altarisdrengir, kirkjukórar, spákonur, miðlar og seiðskrattar einnig teljast til hans, enda gegna þau öll einhvers konar trúarlegu hlutverki.
Trúarlegt atferli
Til þessa flokks teljast allar þær gjörðir sem hafa á einhvern hátt trúarlega merkingu. Augljósustu dæmin eru líklega bænin, signing, skírn, jarðarför, hjónavígsla og skriftir. En hér eiga einnig heima atferli eins og fjárframlög til trúarsafnaða, trúboð, sálmasöngur, fótaþvottur, lófalestur, bölvun, særing, að gefa einhverjum illt auga og að senda góðar hugsanir.
Trúarleg reynsla
Í síðasta flokkinum er tekin fyrir hvers kyns trúarleg reynsla eins og andsetning, bænasvar, draumar, endurlausn, kraftaverk, kristssár, köllun, leiðsla, meyjarfæðing, opinberun og sýn.
Af þessari upptalningu er ljóst að trúarstef eru margþætt. Ekki er nóg að líta aðeins á trúartexta, trúarbrögð eða trúarembætti heldur ber einnig að huga að trúartáknum, sögulegum atburðum og trúarlegri reynslu svo eitthvað sé nefnt.
Kosturinn við að hafa flokkunarkerfi sem þetta er sá að það hjálpar fólki að hugsa um trúarstef út frá víðari sjónarhorni. Með því að hafa alla þessa þætti í huga er líklegra að maður taki eftir þeim stefjum sem koma fyrir í kvikmyndum. Flokkarnir eru einnig þægilegir fyrir alla grunnvinnu, en markmið Deus ex cinema er að setja upp leitarvél þannig að með einni fyrirspurn geti tölvan fundið allar þær kvikmyndir þar sem kristsgervingar, bænir eða einhyrningar koma fyrir. Slíkur gagnagrunnur auðveldar síðan að sjálfsögðu alla úrvinnslu, en að henni mun ég víkja máli mínu nú.
Biblíustef
Frekar en að gera grein fyrir rannsóknaraðferðum allra fræðigreina á trúarstefum í kvikmyndum verður hér fyrst og fremst lög áhersla á það sem nefnt hefur verið biblíustef. Varast bera að líta á trúar- og biblíustef sem samheiti. Eins og áður sagði eru trúarstef safnheiti en biblíustef undirflokkur.
Aðferðin á að mestu rætur að rekja til ritskýrenda Nýja – og Gamla testamentisins en að sjálfsögðu er hægt að beiti henni á hvaða trúartexta sem er, hvort sem um er að ræða Kóraninn, Bhagavat-Gitu eða norræna og gríska goðafræði. Aðferðin ætti jafnvel að vera nytsamleg í rannsóknum á þekktum bókmenntum, eins og leikritum Shakespears og Paradísarmissi Miltons. Í þessari umfjöllun mun ég þó afmarka mig við Biblíuna. Þeir sem rannsaka biblíustef í kvikmyndum fást að mestu leyti við fyrstu þrjá flokkana í flokkunarkerfi Deus ex cinema, þ.e. beinar tilvísanir í texta Biblíunnar, hliðstæður við texta hennar og biblíupersónur. Þessar rannsóknir minna um margt á það sem Gunnlaugur A. Jónsson kallar áhrifasaga Biblíunnar, þó svo að þær rannsóknir eru víðari og snúa að mun fleiri menningarþáttum en kvikmyndum.
Biblíustef má flokka á eftirfarandi hátt: Biblíumyndir, gervingar og stef, vísanir og hliðstæður.
Biblíumyndir
Biblíumyndir er líklega auðveldasti flokkurinn en hér er átt víð kvikmyndir eins og The Green Pastures (1936), The Ten Commandments (1956) og Jesus Christ Superstar (1973). Allar eiga þessar myndir það sameiginlegt að sögur Biblíunnar eru kvikmyndaðar með einum eða öðrum hætti.
Flokkunin er þó ekki með öllu vandræðalaus. Hvar á til dæmis að flokka myndir eins og Ben Hur (1959) og The Robe (1953), en báðar fjalla þær um einstaklinga sem sjá Jesú Krist augliti til auglitis og verða aldrei samir eftir það. Myndirnar fylgja samt ekki Jesú Kristi (sem sést varla í myndunum) heldur uppskálduðum hremmingum aðalpersónanna og trúarvakningu þeirra. Þótt hér sé um skáldverk að ræða er engu að síður ljóst að markmið kvikmyndagerðamannanna er að sýna fram á áhrifamátt og hjálpræði Jesú Krists. Í ljósi þessa er líklega eðlilegast að flokka slíkar myndir sem biblíumyndir eða að minnsta kosti sem undirflokk biblíumynda.
Rannsóknir á biblíumyndum ganga fyrst og fremst út á að skoða hvernig frásögn Biblíunnar hefur verið túlkuð, þ.e.a.s. að hvaða leyti kvikmyndin er frábrugðin texta hennar og þá sérstaklega hvaða ástæður geti legið þar að baki. Dr. Arnfríður Guðmundsdóttir lektor hefur til dæmis rannsakað hvernig persóna Jesú í kvikmyndum hefur breyst í tímans rás. Í eldri myndum eins og King of Kings (1961) og The Greatest Story Ever Told (1965) er Kristur upphafinn og fjarlægur en í nýrri myndum eins og Jesus Christ Superstar (1973) og The Last Temptation of Christ (1988) er hann hins vegar orðinn mjög mennskur og jafnvel ógeðfelldur.
Stef og gervingar
Margir kvikmyndagerðarmenn hafa farið þá leið að setja sögur Biblíunnar í nýtt samhengi. Í þessum myndum er atburðarásin áþekk því sem gerist í Biblíunni og vísað er beint í texta hennar. Í slíkum tilfellum er ýmist unnið með stef, eins og edenstefið eða einstaka persónur Biblíunnar, eins og Jesú Krist.
Dæmi um hið fyrrnefnda er kvikmyndin Pleasantville (1998), en hún fjallar um systkin, sem send eru inn í svart-hvítan sjónvarpsþátt, þar sem heimurinn er fullkominn. Enginn þjáist eða lýður skort og allir eru sáttir við líf sitt. Eftir komu systkinanna í þáttinn fer heimurinn hins vegar að falla. Karlinn, sem sendi systkinin inn í þáttinn, ákveður þá að refsa þeim með því reka þau burt úr þættinum og aftur inn í hinn raunverulega heiminn. Í myndinni er nokkrum sinnum vísað beint í söguna af Adam og Evu. Áhugaverðasta vísunin er líklega sú þegar karlinn, sem sendi þau inn í þáttinn, segir strákinn vera sekan og sýnir honum máli sínu til stuðnings upptöku af því þar sem hann bítur í fagurrautt epli. Það dylst fáum sem séð hafa þessa mynd að verið er að vinna markvíst með söguna af Adam og Evu, nema hvað hér hefur hún verið heimfærð upp á nútímann og boðskapnum verið breytt töluvert.
Edenstefið er aðeins eitt af stefjum í Biblíunni. Dæmi um önnur stef er til dæmis exódusstefið, dómdagsstefið, sköpunarstefið, bróðurmorðsstefið, landnámsstefið og útvalningarstefið. Exódusstefið er nokkuð vinsælt í kvikmyndum og má þar til dæmis nefna The Night of the Hunter (1955) og Lawrence of Arabia (1962). Langvinsælast allra þessara stefja er þó líklega dómsdagsstefið og má þar til dæmis nefna Omen myndirnar (1976, 1978, 1981 og 1991), The Devil’s Advocate (1997) og The Four of the Apocalypse (1975).
Sálmar Gamla testamentisins eru oft viðfangsefni í kvikmyndum en hæpið er að tala almennt um sálmastef, þar sem fjölmörg og ólík stef koma þar fyrir. Eðlilegra er að vísa til hvers sálms fyrir sig. Textar eins og sálmarnir eru eilítið frábrugðnir fyrrnefndum stefjum því að þar er ekki verið að vinna með ákveðna sögu heldur ljóðrænar bænir. Dæmi um notkun sálma í kvikmyndum eru til dæmis Kolya (1996) þar sem sálmur 23 gegnir veigamiklu hlutverki og The Wings of the Dove (1997) þar sem söguþráðurinn er að stórum hluta sóttur í Sálm 55.
Stef vísa sem sagt til tiltekinnar sögu eða texta í Biblíunni. Þegar unnið er hins vegar með persónur Biblíunnar er ekki talað um stef heldur gervinga. Hér er kristsgervingurinn langvinsælastur, en besta dæmið um kristsgerving er líklega kanadíska myndin Jésus de Montréal (1989). Myndin fjallar um leikarann Daniel sem fenginn er til að setja á svið píslasöguna. Daniel ákveður að leika Jesú sjálfur en brátt fer hans eigið líf að endurspegla ævi og starf frelsarans. Hann rekur fólk út með svipu, rétt eins og Kristur í musterinu, ögrar trúaryfirvöldum og lætur svo lífið á krossinum. Í lokin eru líffæri Daniels flutt í aðra og verður því dauði hans til þess að aðrir fá sýn og nýtt hjarta og þar með nýtt líf.
Bilið á milli stefja og gervinga er í raun hárfínt. Í flestum kvikmyndum þar sem unnið er með stef Biblíunnar er einnig að finna gervinga sem og öfugt. Í kvikmyndinni Pleasantville má til dæmis segja að systkinin séu adam- og evugervingar. Hér eru þó ýmis frávik. Í kvikmyndinni Pi (1998) er til dæmis að finna sterkt edenstef án þess að hægt sé að tala um einhverja gervinga. Sumar sögur eru einnig svo tengdar persónunum Biblíunnar að hentugra er að tala um gervinga en stef. Þetta á til dæmis við um Jesú Krist og Samson og Dalílu. Af þessu er ljóst að þótt lítill merkingarmunur sé á hugtökunum stef og gervingur er engu að síður hagkvæmt að greina á milli persóna og sögunnar sem þær koma fyrir í.
Samsömun
Samsömun er nátengd gervingum en þar er engu að síður um grundvallar mun að ræða. Gervingar líkjast ómeðvitað ákveðnum persónum en þegar talað er um samsömun taka persónur myndarinnar meðvitaða ákvörðun um að líkja eftir sögulegum trúarpersónum.
Eitt besta dæmið um samsömun er líklega kvikmyndin Edges of the Lord (2001) en þar ákveður ungur drengur, Tolo að nafni, að taka á sig syndir mannanna eins og Jesús Kristur og lætur meira að segja binda sig upp á n.k. kross. Það væri hæpið að kalla drenginn kristsgerving af tveim ástæðum. Annars vegar vegna þess að hann færir engum hjálpræði og hins vegar vegna þess að hér er ekki verið að setja sögu Jesú Krists í nýtt samhengi heldur er verið að lýsa þjáningum drengsins, sem birtast á þennan óhugnanlega hátt.
Svipuð dæmi eru í kvikmyndunum Elizabeth (1998) þar sem Elísabet drottning gengur inn í hlutverk Maríu meyjar og Zelly and Me (1988) þar sem ung stúlka, Phoebe að nafni, brennir sig með eldspítum til að vera eins og Jóhanna af Örk.
Vísun
Oftar en ekki er vitnað í Biblíuna í kvikmyndum án þess að það hafi mikið með viðfangsefni hennar að gera. Dæmi um slíkt er til dæmis þegar 23. sálmur er lesinn við kistulagningu eða útför eins og í kvikmyndunum City of the Living Dead (1981) og The Legend of 1900 (1998) eða þegar einhver er bundinn upp á kross án þess að hann hafi endilega hjálpræðislega stöðu. Í slíkum tilvikum væri hæpið að tala um stef eða gervinga og eðlilegra að tala um vísanir. Í kvikmyndinni Hannibal (2001) væri til dæmis eðlilegra að tala um kristsvísun, jafnvel þótt Hannibal sé bundinn upp á kross, enda fjöldamorðinginn og mannætan hæpinn kristsgervingur. Svipuðu máli gegnir um krossfestingarnar í spaghettí-vestrunum A Professional Gun (1968) og Django Kill! (If You Live, Shoot!) (1966). Krossfestingin táknar þar aðeins kúgun frelsishetjunnar enda þótt hún eigi að öðru leyti ekkert sameiginlegt með Kristi guðspjallanna. Vísanir eru því notaðar þegar vitnað er í Biblíuna án þess að verið sé að vinna með textann eitthvað frekar og gildir þá einu hvort um sögu, texta eða persónu er að ræða.
Að sjálfsögðu er það síðan alltaf álitamál hvar mörkin á milli vísana og stefja eða gervinga liggja. Þetta á sérstaklega við um kristsgervinga, af þeirri einföldu ástæðu að þar er viðfangsefnið hvað viðkvæmast. Fæstir ættu í vandræðum með að sætta sig við að um edenstef sé að ræða í kvikmyndinni Pleasantville, jafnvel þótt túlkunin sé ekki í neinu samræmi við viðteknar kenningar kirkjunnar. Öðru máli gildir hins vegar um vafasamar kristsvísanir eins og í tilfelli Marquis de Sade í kvikmyndinni Quills (2000) eða Hannibals. Þótt líf þessara sjúku einstaklinga sé tengt atburðum úr ævi Krists og unnið sé úr þeim tengslum fengjust fæstir til að samþykkja að um kristsgervinga sé að ræða. Hjálpræðishlutverkið verður einnig að einhverju leyti að vera til staðar, jafnvel þótt aðeins sé um veraldlegt hjálpræði að ræða eins og í tilviki Súpermans.
Vísanir eru oftast ekki eins guðfræðilega áhugaverðar og stef eða gervingar en þær eru engu að síður góð heimild um vinsældir og stöðu einstakra texta eða persóna úr Biblíunni.
Hliðstæða
Í mörgum tilfellum svipar söguþræði kvikmynda til sagna í Biblíunni án þess að um beinar vísanir eða sýnilega meðvitaða úrvinnslu sé að ræða. Í slíkum tilfellum er við hæfi að tala um hliðstæður. Kostur hugtaksins er fyrst og fremst sá að ekki er þörf á að sýna fram að um meðvitaða úrvinnslu hafi verið ræða. Í stað þess er hægt að bregða á leik og stilla upp tveim textum (og hér tala ég um texta í mjög víðri merkingu, þ.m.t. kvikmyndir) hlið við hlið, jafnvel þótt augljóst sé að tengsl séu ekki til staðar.
Þegar hliðstæður eru rannsakaðar er því ekki verið að leita að innbyggðu biblíustefi eða meðvitaðri úrvinnslu höfundar (jafnvel þótt um slíkt geti engu síður verið að ræða) heldur eru áþekk mynstur eða minni skoðuð. Svo dæmi sé tekið, þá er vitað að aðstandendur James Bond myndarinnar From Russia With Love (1963) voru að einhverju leyti að vinna með söguna af Samson og Dalílu. Þar sem engar beinar vísanir eru hins vegar í söguna, er eðlilegra að tala um hliðstæðu en samson- og dalílugervinga.
Gott dæmi um hliðstæður eru til dæmis kvikmyndir þar sem einhver persónan hefur hjálpræðislegt hlutverk en litlar eða engar beinar vísanir til Krists eru til staðar. Hér má til dæmis nefna kvikmyndina Dead Poets Society (1989) þar sem persóna Robins Williams, John Keating, minnir um margt á ævi og starf frelsarans.
Þegar hliðstæður eru rannsakaðar reynir oft á sköpunargáfu fræðimannsins og jafnvel hæfni hans til að lesa hluti inn í textann. Að sjálfsögðu verður þó að gæta þess að taka skýrt fram að aðeins sé um hliðstæðu að ræða, hliðstæðu sem er engu áreiðanlegri en fylgni í fylgnirannsóknum.
Nálganir
En það að greina kristsvísanir eða exódusstef í kvikmynd er aðeins fyrsta skrefið í rannsóknum á biblíustefjum í kvikmyndum. Í raun má líkja slíkri vinnu við heimildaöflun. Úrvinnsla þessara heimilda er hins vegar margþætt. Til hægðarauka hef ég dregið upp eftirfarandi skema og mun ég útskýra hvern þátt fyrir sig:
Textinn í nýju samhengi
Miðkassinn heitir ,,Textinn í nýju samhengi“ en þar er átt er við texta Biblíunnar í kvikmyndinni. Þetta eru þau dæmi sem safnað hefur verið og markmiðið er að vinna úr, t.d. stef eða hliðstæður. Hinir fjórir kassarnir eru þeir þættir sem hafa áhrif á það hvernig textinn er notaður og túlkaður.
Biblían
Biblían er að sjálfsögðu helsti áhrifaþátturinn, enda textinn upprunalega þaðan kominn. Æskilegt er að hefja rannsóknina á því að lesa texta Biblíunnar svo hægt sé að átta sig á því hvað hafi breyst í hinum nýja texta og að hvaða leyti sá texti er frábrugðinn texta Biblíunnar. Þótt ekki sé alltaf nauðsynlegt að ritskýra textann þá er slík vinna engu að síður æskileg. Hægt er þó að stytta sér leið með því að styðjast við ritskýringar virtra fræðimanna.
Að þeirri rannsókn lokinni er nauðsynlegt að athuga hvaða áhrif þessi breyting hefur á túlkun biblíutextans. Því er ekki aðeins verið að rannsaka að hvaða leyti textinn er frábrugðinn biblíutextanum heldur einnig hvernig hinn breytti texti breytir merkingu biblíutextans og gefur honum nýtt innihald. Það að kristsgervingur sé í kvikmynd eða að finna megi hliðstæðu við exódusförina er ekki endilega áhugavert í sjálfu sér. Það sem er áhugavert er hvernig þessi stef eru túlkuð í myndinni og hvaða nýju ljósi túlkunin varpar á texta Biblíunnar.
Kvikmyndin
Lengst til hægri er kassi sem kallast kvikmyndin. Hér er nauðsynlegt að spyrja hvaða áhrif biblíutextinn hafi á fléttu sögunnar, þ.e. hvort það skipti máli fyrir kvikmyndina að skírskotað er til Biblíunnar eða hvort tilvísunin mætti missa sín. Þegar hefur verið fjallað nokkur ítarlega um þennan þátt hér að ofan í umfjölluninni um biblíumyndir, stef, gervinga, vísanir og hliðstæður, og mun ég því ekki endurtaka það hér.
Í rannsóknum sem þessum er oft áhugavert að rannsaka sama stefið, biblíupersónuna, gervinginn, vísunina eða hliðstæðuna í ólíkum kvikmyndum og bera þær síðan saman. Sjálfur hef ég fengist við að rannsaka edenstef í kvikmyndum og greint þar ólíka flokka og túlkun á sögunni af Adam og Evu. Sömu aðferð er að sjálfsögðu hægt að beita á öll önnur biblíustef í kvikmyndum, hvort sem það er kristsgervinga, Júdas eða 13. kafli 1. Korintubréfs.
Menningin og náttúran
Ég hef nú fjallað um lárétta þáttinn í þessu skema, þ.e. hvernig texti Biblíunnar hefur breyst í nýju samhengi og hvernig hinn breytti texti er notaður í þeirri kvikmynd sem hann er hluti af. Einnig hef ég fjallað um hvernig nýtt samhengi textans túlkar texta Biblíunnar og gefur honum oft nýja vídd. En þessi lárétta nálgun er algjörlega sögulaus og til þess að bæta úr því er einnig hægt að skoða menningarlegan bakgrunn kvikmyndarinnar sem og höfund hennar þ.e. hinn lóðrétta þátt.
Grunnspurningin hér er því að hvaða leyti menningin og náttúran hefur áhrif á túlkun textans. Svo dæmi sé tekið af kvikmyndinni Blade Runner þá hef ég sett fram þá kenningu að finna megi þar edenstef. Ég tel að þá dimmu mynd sem dregin er upp af manninum þar sem skapara, megi rekja til hættunnar á kjarnorkustríði sem gegnsýrði samfélagið á kaldastríðstímabilinu. Pólitískt ástand getur því haft áhrif á notkun og túlkun samfélagsins á textum Biblíunnar.
En það er ekki nóg að rýna bara í samtímann. Biblíutextar hafa oft fengið nýtt hlutverk eða nýja merkingu vegna einhvers sem gerðist í fortíðinni og þessi breytta notkun eða túlkun hefur síðan lifað áfram. Rætur slíkra breytinga er ekki aðeins að finna í menningu fyrri tíma heldur einnig oft í röngum lesháttum, þýðingum og túlkunum. Því er oft nauðsynlegt að rannsaka gamlar þýðingar og ritskýringar. Dæmi um mikilvægi rangrar þýðingar er t.d. 23. sálmur, en ástæðuna fyrir því að hann er svo vinsæll jarðafarasálmur er að miklu leyti að rekja til þess að 4. versið, ,,jafnvel þótt ég fari um dimman dal“ var lengst af þýtt ,,dauðans skugga dal“ (Viðeyjarbiblía). Þar með var dauðinn tengdur 23. sálmi svo sterkum böndum að hann er líklega vinsælasti jarðafarasálmur Gamla testamentisins. Þessa þýðingarvillu er einnig að finna í erlendum þýðingum. Í King James þýðingunni segir t.d. ,,Yea, though I walk through the valley of the shadow of death“. Þýðingin er væntanlega flestum kunnug enda lesin við flestar jarðafarir í bandarískum kvikmyndum.
Náttúran hefur einnig oft mikil áhrif á það hvernig við skiljum texta Biblíunnar. Skuggi er t.d. mjög jákvæður í Gamla testamentinu, enda hitinn oft óbærilegur á söguslóðum Biblíunnar. Íslendingar hafa hins vegar fátt gott um skugga að segja, sbr. orðatiltækið að standa í skugga einhvers. Gunnlaugur A. Jónsson hefur bent á gott dæmi um áhrif náttúrunnar. Í sálmi Valdimars Briems sem ortur er út af Sl. 137 lýsir hann herleiðingu Júdamanna til Babýlon með orðunum ,,Vjer dveljum hjer í hörðu’ og köldu landi“. Þessi lýsing passar ekki við Babýlon en hún samræmist hins vegar íslenskri náttúru vel.
Þótt þekking á menningarlegum bakgrunni geti hjálpað við skilning á þeim texta sem verið er að rannsaka, þá á hið gagnstæða að sjálfsögðu einnig við. Sá texti sem verið er að rannsaka getur einnig sagt okkur heilmikið um menningu okkar.
Höfundurinn
Menningin er ekki eini sögulegi þátturinn sem hefur áhrif á notkun og túlkun textans því reynsla og bakgrunnur höfundarins hefur stundum mikið að segja. Þó er oft erfitt að greina þátt höfundar í kvikmyndum. Kvikmyndir eru t.d. stundum byggðar á skáldsögum en sjaldnast skrifar höfundur skáldsögunnar handritið svo þar erum við strax komin með tvo höfunda. Í ofanálag eru handritshöfundar oft margir og handbragð framleiðanda, leikstjóra, leikara, kvikmyndatökumanns og þess sem klippir myndina skiptir einnig miklu máli, svo eitthvað sé nefnt. Höfundarnir eru í raun margir og því oft erfitt að fjalla um höfundinn í kvikmyndinni.
Frá þessu eru að sjálfsögðu frávik en það eru mörg dæmi þess að leikstjórinn hafi mjög frjálsar hendur og skrifi handrit kvikmyndanna sjálfur, framleiði þær og leiki jafnvel í þeim. Við slíkar aðstæður er að sjálfsögðu auðveldara að fjalla um þátt höfundar.
Þáttur höfundar sést ekki aðeins í lífsreynslu hans, hann er einnig að finna í pólitískum viðhorfum hans, trú og menntun, svo eitthvað sé nefnt. Leikstjóri og höfundur handritsins að kvikmyndinni Pleasantville er t.d. yfirlýstur demókrati og leyna pólitísk viðhorf hans sér ekki í myndinni.
Að lokum er einnig áhugavert að spyrja um áhrif textans á höfundinn? Er þetta texti sem hefur mótað hann á einhvern hátt eða haft dramatísk áhrif á líf hans? Áhrif Rómverjabréfsins (einkum Róm 1:17) á Lúther er gott dæmi um texta sem hefur haft mikil áhrif á höfundinn.
Niðurlag
Ég hóf þennan fyrirlestur með því að vitna í þá algengu spurningu hvort ekki sé verið að lesa einhverja hluti inn í kvikmyndirnar. Ég hélt því jafnframt fram að þessi spurning fæli í sér mjög einfalda sýn á hvað trúarstef í kvikmyndum væru. Það er von mín að þessi yfirferð sýni fram á hversu víðfeðmt þetta rannsóknarsvið er. Meira að segja innan undirflokks, eins og biblíustef, er að finna ólíkar nálganir og aðferðir.
Það væri vissulega gaman að fjalla um aðra undirflokka eins og siðfræði, sagnfræði og trúfræðilega nálgun, svo eitthvað sé nefnt, en tíminn leyfir það ekki hér. Þess í stað vil ég ljúka með eftirfarandi fullyrðingu: Það er enn verið að skrifa Biblíuna og flestir höfundar hennar eru enn ekki fæddir. Um leið og einhver vinnur með texta Biblíunnar er sá hinn sami að endurtúlka hann og setja í nýtt samhengi. Hann eða hún er ekki aðeins að skoða nútíma samfélag út frá texta Biblíunnar, heldur einnig Biblíuna út frá nútíma samfélagi. Því má segja að þeir sem vinna með texta Biblíunnar í listum séu að vissu leyti að endurskrifa texta hennar. Þess vegna er svo mikilvægt að guðfræðingar rannsaki Biblíuna í menningunni eða taki jafnvel þátt í þessari mótun og endurskrifum.