Kvikmyndir

Turn Here

Leikstjórn: John Lyde
Handrit: John Lyde, byggt á sögu eftir Richard A. Dove
Leikarar: Adam Abram, Jesse Angeles, Linda Thornton, Jackson Newell, Brent Wursten, Ralph Crabb, Gary Downey og Lorien Lyde
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2002
Lengd: 7mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Bíl með ungbarni er stolið og tilkynnir þjófurinn lögreglunni nokkru síðar símleiðis hvar hann hafði skilið hann eftir. Tveir ungir lögreglumenn eru umsvifalaust kallaðir á vettvang en finna ekkert og fellur móðirin þá örvæntingarfull á kné og leitar til Guðs í bæn. Skömmu síðar finna lögrelgumennirnir hvernig Guð leiðir þá rétta leið þar sem bíllinn hafði verið skilinn eftir á afviknum stað og reynist barnið þar óhullt.

Almennt um myndina:
Hér er um að ræða eina af mörgum stuttmyndum bandaríska kvikmyndagerðarmannsins Johns Lydes, sem jafnan fæst við trúarlíf mormóna í verkum sínum en sjálfur er hann virkur meðlimir í trúarhópi þeirra, Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu. Í raun er hann einn fjölmargra mormóna sem allt frá byrjun 21. aldarinnar hafa lagt fyrir sig kvikmyndagerð með ágætum árangri, en þar má kannski fremstan telja Richard Dutcher sem gerði mormónamyndirnar God’s Army (2000) og Brigham’s City (2001).

Stuttmyndin Turn Here er byggð á smásögu sem sögð er sannsöguleg og birtist í tímaritinu Ensign Magazine sem gefin er út af kirkjunni og kallaðist til fjölda ára Vonarstjarnan hér á landi. Myndin er í heild fagmannlega gerð og ágætlega leikin þótt leikararnir í hlutverkum lögreglumannanna verði að teljast nokkuð unglegir. Hún er aðgengileg sem aukamynd á DVD diskinum af mormónatrúboðamyndinni The Field Is White (2002) eftir sama kvikmyndagerðarmann.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í myndarbyrjun lýsir annar lögreglumaðurinn efasemdum sínum um eigið ágæti í starfi þar sem myrkustu hliðar mannlífsins er daglegt brauð, eiturlyfjasala, áfengisneysla, græðgi, kynferðislegt siðleysi og ofbeldi, en allt þetta rekur hann til áhrifa djöfulsins í föllnum heimi. Athygli vekur að þetta eru lýsingar á aðstæðum í Utah þar sem meginþorri íbúanna teljast mormónar, en það fylki er að sjálfsögðu ekki laust við félagsleg vandamál frekar en önnur fylki Bandaríkjanna. Félagi lögreglumannsins lætur meira að segja í ljós efasemdir um umhyggju Guðs þegar í ljós kemur að þjófurinn hafði ekki sagt rétt til um hvar hann hafði skilið bílinn með ungbarninu eftir. Bænheyrslan veitir lögreglumanninum hins vegar sjálfstraustið á nýjan leik enda er hann þess fullviss að Guð hafi bænheyrt móðurina með því að senda hann að lokum þangað sem barn hennar var að finna.

Hvort sem sagan telst sönn eða ekki er myndin greinilega gerð af einlægni og fagmennsku. Í raun er hér um að ræða hugljúfan vitnisburð um bænheyrslu kærleiksríks Guðs sem leiðir lögreglumennina þangað sem þörf er á, en undir handleiðslu hans beygja þeir inn á hliðarveg án þess að hafa hugmynd um að þangað hafði þjófurinn einmitt farið með bílinn. Handleiðslan felst í orðunum „Beygðu hér!“ sem koma óvænt upp í huga annars lögreglumannsins þar sem þeir eru á ferð og hlýðir hann því umsvifalaust. Slíka vitnisburði má finna í ótal kristilegum tímaritum og hefði þessi allt eins getað birst einhvers staðar annars staðar en hjá mormónum, enda koma sérkenningar þeirra um t.d. eðli guðdómsins og fortilveruna hvergi við sögu sem þeir hafa svo lengi verið gagnrýndir fyrir af helstu kristnu kirkjudeildunum. Í sjálfu sér á það ekki að skipta máli hér enda er það algengt sjónarmið kristinna manna að Guð heyri bænir allra sem til hans leita, óháð aðstæðum þeirra, hvers eðlis sem hún er hv!erju sinni.

Boðskapur myndarinnar er sá að Guð lætur sig sérhvern mann varða enda elskar hann hvern og einn. Það er boðskapur sem kristnir menn ættu almennt að geta verið sammála mormónum um­ og raunar margir aðrir líka.

Persónur úr trúarritum: Guð, Satan
Guðfræðistef: trú, bæn, handleiðsla, efi, áhrif Satans, umhyggja Guðs, kærleiki Guðs
Siðfræðistef: þjófnaður, mannrán, samhyggð, fangelsi, siðleysi, glæpir, eiturlyfjasala, áfengisneysla, græðgi, kynferðislegt siðleysi, ofbeldi, stolt
Trúarbrögð: mormónar
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, falla á kné, spenna greipar
Trúarleg reynsla: bænheyrsla, handleiðsla