Kvikmyndir

Twin Peaks: The First Season (Pilot, Episodes 1.1-2.2)

Leikstjórn: David Lynch (pilot, 1.2) og Duwayne Dunham (1.1)
Handrit: Mark Frost og David Lynch
Leikarar: Kyle MacLachlan, Michael Ontkean, Madchen Amick, Dana Ashbrook, Richard Beymer, Lara Flynn Boyle, Sherilyn Fenn, Warren Frost, Peggy Lipton, James Marshall, Everett McGill, Jack Nance, Ray Wise, Joan Chen og Piper Laurie
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1990
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Þegar lík ungrar stúlku finnst fer lífið í smábænum Twin Peaks úr skorðum. Til bæjarins kemur ungur alríkisfulltrúi að nafni Dale Cooper til að rannsaka málið og í ljós kemur að ekki er allt sem sýnist og svo virðist sem flestir bæjarbúa hafi eitthvað að fela.

Almennt um myndina:
Þegar þættirnir voru fyrst sýndir á ABC sjónvarpsstöðinni í Apríl árið 1990 varð strax ljóst að þar var á ferðinni ferskt og nýtt efni, en það virtist þó skiptast þannig að annaðhvort elskaði fólk þættina eða hataði. Kvikmyndatakan og klippingin eldast ljómandi vel og hentar hún þáttunum prýðilega. Mikið er um að atriði séu látnin renna saman, til dæmis þar sem verið er að mynda eina persónu, sem síðan dofnar út og í ljós kemur persóna úr öðru atriði. Klippitæknin, sem er notuð í þáttunum, gerir það að verkum að atriðin verða mun áhrifameiri og ná að fanga athygli áhorfandans. Mikið er líka af nærmyndum af leikurunum sem mynda ákveðin tengsl svo við náum að kynnast þeim betur. Einnig er töluvert um örstutt atriði sem virðast vera einskonar táknrænir váboðar fyrir það sem koma skal. Jafnt kvikmyndatakan sem og klippingin eru í eðli sínu einfaldar en ná þó fullkomlega fram þeim heildaráhrifum sem þættirnir kalla fram hjá áhorfandanum. Þess má líka geta að þættirnir fengu Emmy verðlaun fyrir klippingu á sínum tíma. Tónlistin er kafli útaf fyrir sig en hún er alveg hreint frábær, mjög dularfull en um leið rómantísk og á Lynch sjálfur texta við nokkur laganna. (“Twin Peaks” (1990). Twin Peaks FAQ: TV Episode Questions.)

Framleiddar voru tvær seríur, eða 29 þættir auk kynningarþáttarins, og lauk sýningu þeirra í júní árið 1991. Í raun var ekki stætt á því að halda framleiðslu þeirra áfram eftir að ljóstrað var upp um morðingjann. Það var þó eitthvað sem margir áhorfenda voru búnir að vera að biðja um allt frá fyrsta þætti. Lynch gerði auk þess tvær útgáfur af kynningarþættinum og var önnur þeirra í bíóútgáfu. Einnig var gerð myndin Twin Peaks: Fire walk with me sem í raun endar þar sem þættirnir byrja og nær hún þannig að nokkru leyti að svara þeim spurningum sem lágu í loftinu eftir að sýningu þáttana lauk. Einnig eru til mismunandi útgáfur af þáttunum eftir því fyrir hvaða markað þær eru en mestur er þó munurinn á útgáfum kynningarþáttarins. (Twin Peaks FAQ: TV Episode Questions.)

Meðal leikaranna er valinn maður í hverju rúmi. Að öðrum ólöstuðum fer Kyle MacLachlan stórkostlega með hlutverk sitt sem fulltrúi alríkislögreglunnar og gerir hann Dale Cooper ógleymanlegan með stórkostlegum leik sínum. Sheryl Lee átti upphaflega bara að leika líkið af Lauru en Lynch hreifst svo af fegurð hennar og leik í atriðinu sem tekið er í lautarferðinni að hann vildi endilega gera hlutverk hennar í þáttunum umfangsmeira og var það góð ákvörðun hjá honum því að hún fer vel með það. Sherilyn Fenn er einnig ógleymanleg í hlutverki hinnar sérlunduðu Audrey Horne.

MacLachlan lék einnig í myndunum Dune og Blue Velvet sem Lynch gerði en fjöldi annara leikara í þáttunum hafa komið fram í öðrum verkum Lynch og þykir bæði skemmtilegt og fróðlegt að vinna með honum. Hann er ekki þessi leikstjóri sem heldur sig við handritið frá A-Ö heldur á hann það allt eins til að bæta við og breyta ef hann sér eitthvað sniðugt eiga sér stað á meðal leikaranna. Til dæmis má nefna sýnina sem móðir Lauru, Sarah, fær af Bob við rúmstokkinn. Lynch fékk hugmyndina að sýninni þegar verið var að undirbúa myndatöku í herbergi Lauru og kom auga á einn leikmunavarðanna krjúpa við rúmstokkinn. (“Twin Peaks” (1990). Twin Peaks FAQ: TV Episode Questions.)

Samt sem áður eru það handritið og leikstjórnin sem gera þættina að því sem þeir eru. Lynch og Frost voru að vinna að því að koma ævisögu Marilyn Monroe á hvíta tjaldið en þeim gekk eitthvað hálf illa að halda sig við bókina og enduðu þeir á því að fara að vinna að Twin Peaks. Í þáttunum má finna þó nokkrar samlíkingar á milli Marilyn og Lauru auk ótal fleiri tilvitnana og samlíkinga við aðrar bíómyndir sem gaman getur verið fyrir áhugamenn að rýna í. (Trivia for “Twin Peaks” (1990).)

Twin Peaks eru jafnan ofarlega á lista þegar verið er að taka saman bestu „cult“ þættina sem gerðir hafa verið fyrir sjónvarp og árið 2004 völdu lesendur tímaritsins Broadcast Magazine þá á topp 10 listann yfir bestu sjónvarpsþættina. Þeir voru einnig tilnefndir til fjölda verðlauna á sínum tíma. Þeir storkuðu ríkjandi hefð í gerð sjónvarpsefnis með margbreytileika sínum. Blandað var saman morðgátu, gríni, yfirnáttúrulegum hlutum og drama auk þess sem skotið var inn vísunum í klassískar kvikmyndir, til dæmis Vertigo eftir Alfred Hitchcock, og ýmis konar menningarlegt efni, eins og þegar Dale kemur með ágrip af sögu Tibet og þjóðarinnar sem landið byggir. Þannig buðu þættirnir upp á alveg einstaka samsetningu sem ekki hafði áður sést í sjónvarpi. Þættirnir njóta enn mikilla vinsælda þrátt fyrir allan þann tíma sem liðinn er frá frumsýningu þeirra. Það má glöggt sjá á öllum þeim vefsíðum sem þáttunum eru tileinkaðar en þar má finna allar mögulegar og ómögulegar upplýsingar sem að þáttunum lúta. Enn þann dag í dag er haldin Twin Peaks hátíð á þeim stað sem þættirnir voru myndaðir. Einnig var gefið út tímarit sem hét „Wrapped in plastic“ og fjallaði alfarið um þættina auk þess sem dagbók Lauru Palmer var gefin út ásamt ævisögu Dales. Strax frá sýningu fyrsta þáttarins hófst hálfgert Twin Peaks fár sem er ríkjandi enn í dag. (Twin Peaks References. Mbl.is ­ Frétt. Twin Peaks Introduction.)

Þeir sem þekkja til verka David Lynch vita að hann fer ekki alltaf hefðbundnu leiðina. Hann á það til að fara alfarið sínar eigin leiðir, jafnt í starfi sem og einkalífi, sem síðan veldur því að hann er ekki allra, en aftur á móti öðlast hann gríðarlega viðurkenningu þeirra sem hann nær til. Twin Peaks er verk sem er mjög lýsandi fyrir vinnu hans en að sjálfsögðu er hann þó ekki einn um að eiga hugmyndina að þáttunum þar sem Mark Frost er með honum í liði. Jafnframt áttu þeir báðir sinn þátt í handritaskrifum, leikstjórn, leik og tónlist. Báðir eru þeir afkastamiklir höfundar en er Lynch þó öllu þekktara nafn. Er hann stundum nefndur „maðurinn sem gerir skrýtnu myndirnar“ en verk hans eru jafnan frekar súrrealísk og myrk og því ekki líkleg til þess að njóta almennra vinsælda. Hann hafnar nær alfarið notkun hefðbundins myndmáls og formgerðar í verkum sínum og súrrealískt myndmálið verður einstaklega gildishlaðið í hans höndum. Hversdagslegir hlutir öðlast áður óþekkta merkingu og geta falið í sér ýmiskonar tilbrigði við tilfinningar og tákn og oftar en ekki birtast þeir okkur á yfirskilvitlegan hátt. (Twin Peaks press kit. “Twin Peaks” (1990).)

Í Twin Peaks notar Lynch mjög mikið drauma og sýnir til að kynna áhorfandann fyrir persónunum og gefa þeim vísbendingar um það sem koma skal. Einnig notast hann töluvert við tvenndir og andstæður. Félagarnir Bob og Mike búa í Twin Peaks og er Bob kærasti Lauru. Einhenti maðurinn hýsir sál Mike sem var félagi morðingjans Bob. Laura er ljóshærð og Maddy frænka hennar er dökkhærð en þær eru leiknar af sömu leikkonunni. Dvergurinn og risinn, sem kemur fram í seinni seríunni mynda andstæður. Einnig má ætla að nafnið Twin Peaks sé tilvísun í þetta. Gott dæmi um súrrealísk vinnubrögð Lynch er atriðið þar sem einungis Dale tekur eftir mynd af mótorhjóli í auga Lauru á myndbandi sem var tekið stuttu fyrir dauða hennar. Draumar hafa mjög mikið að segja í vinnubrögðum súrrealistans og skipta þeir þar meira máli en raunheimur verksins. Er það svo í Twin Peaks að draumar hafa mjög mikið að segja, jafnt við lausn morðgátunnar, sem og að veita innsýn í hugarheim persónanna. (“Twin Peaks” (1990). Twin Peaks FAQ: TV Episode Questions.) Auk þess er að finna í þáttunum fjöldann allan af vísunum í eldri kvikmyndir.

Nokkur verka Lynch hafa náð þeirri stöðu að geta kallast tímamótaverk og njóta þau hylli hjá mörgum áhugamanninum um kvikmyndagerð. Þau eru mjög margbrotin, táknræn og jafnan er ekki allt sem sýnist. Þekktustu verk hans eru Eraserhead, The Elephant Man, Blue Velvet, Wild at Heart og Mulholland Dr. auk Twin Peaks verkefnisins. (Twin Peaks press kit.)

Sigurjón Sighvatsson stofnaði Propaganda films ásamt Steve Golin árið 1986 og var fyrirtækið fljótlega leiðandi í framleiðslu tónlistarmyndbanda og auglýsingagerðar fyrir útvarp og sjónvarp. Fyrirtækið stækkaði og dafnaði og fór fljótlega einnig að snúa sér að leiknu efni og var fyrirtækið einn af framleiðsluaðilum Twin Peaks. En Íslendingar áttu fleiri fulltrúa í Twin Peaks því í 5. þættinum koma nokkrir þeirra til bæjarins til að eiga í viðskiptum við Ben Horne, athafnamann staðarins. Þeir dvelja á sama hóteli og Dale og eru þeir honum til mikils ama með drykkju sinni og söng íslenskra laga langt fram á nætur. Sannir íslendingar í útlöndum og þjóðarstoltið kemur sterkt fram. (Biography for Sigurjon Sighvatsson.)

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þetta er einungis umfjöllun um kynningarþáttinn og fyrstu tvo þættina en með hverjum þættinum bætist sífellt við flóru táknfræðinnar. Þættirnir eru því kjörið efni fyrir áhugamenn á þessu sviði, því óvíða hef ég séð unnið eins markvisst með táknfræði á svo áhugaverðan hátt.

Mörg siðfræðistef koma fram í þáttunum en einnig þó nokkuð af guðfræðistefum. Það sem í upphafi virðist vera frekar rólegur og hefðbundinn bandarískur smábær leynir heldur betur á sér og þar er margt sem kraumar undir yfirborðinu. Íbúarnir virðast flestir hafa eitthvað að fela og margt er þar á seyði, jafnvel ókunn ill öfl sem hafa sitt að segja um framvindu mála.

Dauði Lauru vekur upp misjafnar tilfinningar hjá fólki og viðbrögð þeirra eru margvísleg. Foreldrar hennar syrgja hana mjög og angist þeirra er mikil. Faðir hennar stendur sig vel til að byrja með en brotnar síðan alveg niður þegar hann fer að dansa með mynd af henni í höndunum, grætur sáran og veinar. Dansinn endar þegar kona hans reynir að stöðva hann með þeim afleiðingum að glerið í rammanum brotnar, faðirinn sker sig og smyr blóðinu á myndina. Bestu vinir Lauru, James og Donna, syrgja hana en gleðjast jafnframt yfir því að nú geti þau tvö loksins náð saman en þau voru ástfangin án þess að hafa viðurkennt það fyrir sjálfum sér, því James hafði áður átt í leynilegu ástarsambandi við Lauru. En nú geta þau opinberað ást sína og leggja þau traust sitt hvort á annað til að komast í gegnum erfiðleikana. Bobby, kærasti Lauru virðist frekar vera reiður en sorgmæddur, en hann reiðist þegar hann kemst að því að Laura átti í sambandi við annan mann og auk þess var hún með peninga sem hann ætlaði að nota til fíkniefnakaupa. Einnig kemur í ljós að á sama stað og Laura var pyntuð, nauðgað og síðan myrt, var önnur stúlka, sem komst lífs af, en er þó það illa farin að hún getur ekki aðstoðað við rannsókn málsins. En kærleikurinn virðist þó almennt ríkja því flestir virðist taka atburðina nærri sér. Þó er oft erfitt að sjá hvort það er vegna samúðar eða ótta um eigin hag.

Svo virðist sem siðleysi ríki hjá mörgum bæjarbúa, mikið er um framhjáhöld og fólk hefur ekkert endilega heilagleika hjónabandsins í hávegum. Einnig virðist sem sumir séu að nota framhjáhaldið til að ná fram ákveðnum markmiðum og jafnvel hefndum.

Bærinn Twin Peaks er staðsettur rétt við landamæri Bandaríkjanna og Kanada og Kanadamegin við landamærin er staður sem kallast One Eyed Jack og er sambland af spilavíti og vændishúsi. Ben, athafnamaðurinn í bænum, er eigandi staðarins sem á eftir að koma mun meira við sögu síðar í þáttunum þegar farið er að rannsaka tengsl Lauru við hann.

Þó nokkuð er um hugboð, sýnir og drauma og í þeim birtast jafnan lykilatriði í lausn málsins. Þau fela í sér vísbendingar eða lausnir sem eru yfirleitt settar fram í gátuformi eða táknum. Sarah fær strax hugboð um að eitthvað sé að þegar Laura kemur ekki niður til að borða morgunverð. Einnig dreymir hana draum þar sem hún sér hönd í brúnum hanska lyfta upp steini og undir honum er hálsfesti með hálfu hjarta en Laura hafði borið hinn helminginn. James hafði haft þennan helming í sínum fórum en þau Donna ákváðu að grafa hann til að löggan færi ekki að gruna James um að hafa myrt Lauru. Síðar kemur í ljós að það var Dr. Jacobi, geðlæknir Lauru, sem tók menið úr jörðu en hann var hugfanginn af henni. Einnig sér Sarah sýn þar sem Bob, sem er frekar óhugnanlegur, síðhærður maður, krýpur við rúmstokkin hjá Lauru. En Bob er í raun illur andi sem tekur sér bólfestu í líkama fólks til að geta stundað illvirki sín. Uglur skipta máli því þeir eru í raun augu Bobs og fylgjast með í mannheimum fyrir hann. Ef Bob nær sér ekki í hýsil er andi hans fastur í „The Black Lodge eða Svartaseli“, sem er ekki góður staður til að vera á. Það eru einungis þeir sem hafa dulræna hæfileika og þeir fordæmdu sem sjá sýnir af Bob. Síðar kemur í ljós að Bob hafði tekið sér bólfestu í líkama föður Lauru og því var hún í raun myrt af föður sínum sem var að framfylgja vilja Bob. En skilgreiningin á Bob er helsta deiluefnið á milli manna á netinu, ekki eru allir á eitt sáttir og sitt sýnist hverjum í því máli. (Twin Peaks Mythos. Twin Peaks FAQ: TV Episode Questions.)

Sarah er ekki sú eina sem sér sýnir og er berdreymin. Dale býr einnig yfir þeirri gáfu. Hann tekur mikið mark á draumum sínum og notar þá til að leysa ýmiskonar vandamál og það er einnig í gegnum draum sem hann nær yfirskilvitlegu sambandi við Lauru. Það atriði er mjög súrrealískt og merkingarþrungið. Þar er að finna fjölda vísbendinga á lausn morðins á Lauru og öðru sem að því lítur. Þar sést Dale sitja í rauðu herbergi og er hann búinn að eldast töluvert. Í herberginu er dvergur í rauðum jakkafötum sem talar mjög skringilega og auk þess er þar kona sem er alveg eins í útliti og Laura og talar hún eins og dvergurinn. Herbergið er í raun einskonar biðsalur þar sem sálir hinna látnu eru dæmdar. Rauðu tjöldin afmarka veggina sem er inngangurinn að Svartaseli og eru þau mikilvæg vísbending fyrir Dale í rannsókn hans. Dvergurinn er andi sem dvelur í biðsalnum og er hann alltaf klæddur í rauð jakkaföt. Hann er í raun skapaður úr handleggnum sem Mike, vinur Bobs, tók af sér og í návist Mike sameinast dvergurinn honum. Mike hafði verið glæpafélagi Bobs en snúið baki við því líferni eftir að hafa séð ásýnd Guðs. Því fjarlægði hann handlegginn sem var húðflúraður með vísun í fyrra líferni hans. Heiti dvergsins er í raun „maðurinn frá öðrum heimi“ og er það tilvísun í drauminn þar sem hann segir við Dale að þaðan sem hann komi syngi fuglarnir fallega söngva og þar ómi alltaf tónlist. Hinn sérstaki framburður þeirra var gerður þannig að leikarnir voru látnir læra textann sinn aftur á bak og var hann síðan spilaður áfram, en framburðurinn er einkenni andanna sem eru í biðsalnum eða í Svartaseli. Í þessum draumi sér Dale sömu sýn og Sarah sá af Bob við rúmstokkinn í herbergi Lauru. Er draumurinn því í raun vísbending fyrir Dale um tilvist og tilgang hinna heimanna. (Twin Peaks Mythos.)

Einnig notar Dale draum sem hann hafði dreymt til að vinna úr þeim vísbendingum sem hann hefur í höndunum. Sá draumur byggði á hugmyndafræði Tíbeta og hafði fært honum skilning á því hvernig ákveðin afleiðslutækni hjálpaði til við að sameina huga og hönd og gæti þannig gert honum auðveldara að leysa þau mál sem hann vinnur að. En Dalai Lama og saga tíbetsku þjóðarinnar hafa veitt Dale innblástur jafnt í einkalífi sem og starfi. (Twin Peaks Mythos.)

Tré koma mjög mikið fyrir í þáttunum og gegna margbrotnu hlutverki. Bærinn er umkringdur þéttvöxnum skógi sem kallast Ghostwood Forest og þar er margt undarlegt á seyði auk þess sem ill öfl búa þar. Packhard sögunarmyllan gegnir stóru hlutverki í Twin Peaks, þar er einnig stundað skógarhögg auk þess sem talsvert er um bjálkakofa og furuhúsgögn. Þegar líkið af Lauru finnst liggur stórt fallið tré rétt við hlið hennar. Algengust í bænum eru tré sem nefnast Douglas fura og vekja þau áhuga Dales, en furutré tákna jafnan sveigjanleikann til að aðlagast og einnig greind. Tré geta geymt anda enda búa andar í mörgum þeirra. Margaret Lantermen, sem flestir bæjarbúa þekkja sem „Log lady“ gengur alltaf um með lítinn trjábol í fanginu, en í honum býr andi látins eiginmanns hennar. Hún hefur þá náðargáfu að geta átt í samskiptum við hann og í gegnum sýnir hennar hjálpar hún og leiðbeinir öðrum. Eitt sinn kemur hún að máli við Dale og segir honum að bolurinn búi yfir vitneskju um morðið á Lauru og býður honum að spyrja bolinn um það hvað hann hafi séð. En þrátt fyrir viðsýni sína og eigin hæfileika fær hann sig ekki til þess. Margaret býr ein með trjábolnum í bjálkakofa í skóginum rétt utan við Twin Peaks og eru trén og skógurinn henni mjög hugleikin. Í sumum útgáfunum er stutt myndskeið með henni á undan þáttunum þar sem hún er með stuttan formála að því sem koma skal en talar í gátum. Hugmyndin á bakvið þá trú að andar búi í trjám má líklegast rekja til þess að þegar við deyjum erum við í flestum tilfellum jarðsett og sameinumst náttúrunni á þann veg, „Af moldu ertu kominn og að moldu skaltu aftur verða“. Einnig má líta svo á að maðurinn og náttúran séu í raun eitt, sem er vísum í hinn forna náttúruátrúnað. Tré eru mjög táknræn í flestum trúarbrögðum og sérstakleg eru þau áberandi í keltneskum og norrænum trúarbrögðum. Rætur trjáa liggja í jörðu en greinar þeirra vísa í átt til himins. Þau eru sköpunarverk beggja heima líkt og mennirnir, einskonar millistig á milli himaríkis og heljar. Jafnt einstaka tré sem og trjáþyrpingar hafa verið dýrkuð af fornum menningarsamfélögum og þá sem bústaðir yfirnáttúrulegra vera og guða. Einnig hefur verið litið á þau sem möndul sem viðheldur gangi jarðar. Þekktast þessara trjáa er Askur Yggdrasils. Rætur þess og greinar ná allt frá himnum til miðgarðs og niður til undirheima og er tréð í raun undirstaða alls sem er. Úr Biblíunni eru skilningstré góðs og ills og lífsins tré þekktust en bæði eru staðsett í aldingarðinum í Eden. Skilningstré góðs og ills gaf af sér þann ávöxt sem varð til þess að Adam og Eva misstu sakleysi sitt, lærðu að þekkja mörkin á milli góðs og ills og voru loks gerð útlæg úr aldingarðinum í Eden, nauðbeygð til að tileinka sér jarðyrkju. Samkvæmt kristinni túlkunarhefð erfði mannkynið synd þeirra því þau óhlýðnuðust þeim fyrirmælum sem þau fengu í aldingarðinum Eden. (Biedermann, 1992: 350-351.; http://www.glastonberrygrove.net/mythos/; http://www.encyclopedia.com/html/Y!/Yggdrasi.asp; http://en.wikipedia.org/wiki/Forbidden_fruit; http://www.hobsgreen.com/calendar/trees.html; http://www.glastonberrygrove.net/mythos/.)

Rauður litur sést mjög víða í þáttunum. Auk draumsins í rauða herberginu birtast oft stutt innskot þar sem sést í rautt umferðarljós og virðast þau vera einskonar fyrirboði þess sem koma skal. Rauður er mjög táknþrunginn litur, hann er litur eldsins og táknar einnig vald Guðs. Hann er litur tilfinninga og tengist mjög ástinni. (Oddný Sen.)

Nóttin skiptir einnig máli því glæpirnir og illvirkin eiga sér öll stað að næturlagi. Nóttin er tími hins vonda og hið illa fer þá af stað. Hún er dimm og svört en svartur er litur dauðans og syndarinnar og jafnframt litur djöfulsins. (Oddný Sen.)

HeimildarskráBiedermann, Hans, (1992). Dictionary of Symbolism. Hulbert, James þýddi.United Kingdom: Wordsworth Reference.

Biography for Sigurjon Sighvatsson [1990-2005]. Skoðað Skoðað 08.04.2005 til 10.05.2005. Slóðin er: http://www.imdb.com/name/nm0797451/bio

Mbl.is ­ Frétt [2004]. Skoðað 08.04.2005 til 10.05.2005. Slóðin er: http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=3341757;restrict=1

Oddný Sen ([ártal vantar]). Heimur litanna. Leskaflar II: Táknfræði, mormónar, íranskar kvennamyndir. Guðfræðideild (vor 2005). Reykjavík: Háskóli Íslands.

Tree Symbolism-General [1999-2004]. Skoðað Skoðað 08.04.2005 til 10.05.2005. Slóðin er: http://www.hobsgreen.com/calendar/trees.html

Trivia for “Twin Peaks” (1990) [1990-2005]. Skoðað Skoðað 08.04.2005 til 10.05.2005. Slóðin er: http://www.imdb.com/title/tt0098936/trivia

Twin Peaks FAQ: TV Episode Questions [ártal vantar]. Skoðað 08.04.2005 til 10.05.2005. Slóðin er: http://www.twinpeaks.org/faqeps.htm

Twin Peaks Introduction [2003]. Skoðað Skoðað 08.04.2005 til 10.05.2005. Slóðin er: http://www.glastonberrygrove.net/info/

Twin Peaks Mythos [2003]. Skoðað 08.04.2005 til 10.05.2005. Slóðin er: http://www.glastonberrygrove.net/mythos/

Twin Peaks press kit [ártal vantar]. Skoðað 08.04.2005 til 10.05.2005. Slóðin er: http://www.lynchnet.com/tp/press.html

Twin Peaks References [ártal vantar]. Skoðað 08.04.2005 til 10.05.2005. Slóðin er: http://www.twinpeaks.org/refstop.htm

“Twin Peaks” (1990) [1990-2005]. Skoðað Skoðað 08.04.2005 til 10.05.2005. Slóðin er: http://www.imdb.com/title/tt0098936/

Wikipedia: The Free Encyclopedia [2005]. Forbidden Fruit. Skoðað Skoðað 08.04.2005 til 10.05.2005. Slóðin er: http://en.wikipedia.org/wiki/Forbidden_fruit

Yggdrasill on encyclopedia.com [2005]. Yggdrasill. Skoðað Skoðað 08.04.2005 til 10.05.2005. Slóðin er: http://www.encyclopedia.com/html/Y/Yggdrasi.asp

Persónur úr trúarritum: Guð
Sögulegar persónur: Dali Lama
Guðfræðistef: Dauði, kærleikur, traust, synd, þjáning, angist, endurlausn
Siðfræðistef: fíkniefnaneysla/sala, framhjáhald, hroki, morð, svik, ofbeldi, lauslæti, nauðgun, þjófnaður, sorg, launráð, ást, hatur, ótti, þjáning, lygi, einmanaleiki, vinátta, misþyrming, siðleysi, pynting, vændi, fjárhættuspil, heimilisofbeldi
Trúarbrögð: búddismi, kristni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Tíbet, kirkja
Trúarleg tákn: rauður, sjö arma kertastjaki, tré, nótt
Trúarlegt atferli og siðir: Borðbæn
Trúarleg reynsla: draumar, sýnir