Kvikmyndir

Tystnaden

Leikstjórn: Ingmar Bergman
Handrit: Ingmar Bergman
Leikarar: Ingrid Thulin, Gunnel Lindblom, Birger Malmsten, Håkan Jahnberg, Jörgen Lindström, Lissi Alandh, Karl-Arne Bergman, Leif Forstenberg og Eduardo Gutiérrez
Upprunaland: Svíþjóð
Ár: 1963
Lengd: 94mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Tvær systur neyðast til að gera hlé á ferð sinni um fjarlægt land vegna veikinda annarrar þeirra. Þær dvelja á hóteli ásamt ungum syni heilbrigðu systurinnar en fyrir utan er herinn grár fyrir járnum.

Almennt um myndina:
Þetta er þriðja og síðasta myndin í svonefndum trúarþríleik Ingmars Bergman, en hinar myndirnar eru Eins og í skuggsjá (Såsom i en spegel) og Kvöldmáltíðargestirnir (Nattvardsgästerna). Um það má hins vegar deila hvort hægt sé að tala um sérstakan trúarþríleik í þessu sambandi því nokkrar af myndum Bergmans bæði fyrir gerð þessarra mynda og eftir þær eru ekki síður trúarlegar og taka að mörgu leyti á sömu viðfangsefnum.

Eins og í öðrum kvikmyndum Bergmans er kvikmyndatakan stórfengleg og hlutur leikarna að flestu leyti frábær. Persónusköpunin er djúp og samband helstu sögupersónanna hefur margþætta skírskotun og býður upp á ólíka túlkunarmöguleika. Myndin býður upp á margar áhugaverðar tengingar við líf og lífsviðhorf leikstjórans sjálfs.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin Þögnin (Tystnaden) ber nafn með rentu. Þar virðist svo sem Guð sé algerlega horfinn af sjónarsviðinu og gefi sig ekki einu sinni til kynna með óbeinum vísbendingum. Þögnin er eins og mara og hún verður svo áþreifanleg að persónurnar missa málið. Aðalpersónurnar eru tvær systur, ólíkar eins og svart og hvítt, en báðar þjást þær af einmanaleika og kvelja þær hvor aðra með ýmsum aðferðum. Ester er skynsöm, köld og skipulögð en Anna er ástleitin og tilfinninganæm. Hún fær þó enga hlýju í mannlegum samskiptun, nema frá ungum syni sínum Jóhanni að nafni.

Þessar systur eru tákngervingar andstæðra eiginda manneskjunnar en Jóhann er tákn fyrir samvisku þeirra og tenging þeirra við sameiginlega barnæsku. Samband systranna er á vissan hátt mjög náið, sem sést á því að þær þurfa ekki að skiptast á orðum til þess að vita nákvæmlega hvernig þeim líður. Þær vita báðar hvernig þær bregðast hvor um sig við og þessa vitneskju nota þær eingöngu til að kvelja hvora aðra. Þær ferðast um ókunnar slóðir og eru á leið heim til föðurhúsanna en neyðast til að gera hlé á ferðalaginu vegna veikinda Esterar. Faðir systranna er látinn og faðir drengsins er óþekkt stærð einhvers staðar heima í Svíþjóð.

Í miklu þjáningarkasti biður Ester þess eins að þurfa ekki að deyja í ókunnu landi heldur heima í húsi föður síns. Þær dvelja á gömlu og virðulegu hóteli í borginni Timoka sem gæti þýtt á eistnesku sá sem útrýmir. Svo virðist sem verið sé að undirbúa stríð í landinu, a.m.k. er vígbúnaðarvæðing í algleymingi. Það er klárlega verið að vísa til kalda stríðsins og vígbúnaðarkapphlaupsins. Í ískri og skruðningum skriðdrekans, sem ekur fram hjá hótelinu að næturlægi, má skynja urrið í villidýrinu sem býr í sameiginlegri dulvitund mannsins og lætur á sér kræla þegar mannleg samskipti hafa beðið skipbrot, þögnin verður ógvekjandi og stríð og ofbeldi eru á næsta leyti.

Systurnar þekkja engan og skilja heldur ekki málið sem talað er í landinu. Umhverfið er tilvalið fyrir guðsbirtingu í stíl við kóngulóarguðinn sem óséður setur upp vef sinn og bíður færist að stinga bráðina, deyfa hana og sjúga til sín næringuna úr henni. En hann birtist ekki einu sinni í því formi þótt nærvera hans sé þrátt fyrir allt yfir og allt um kring. Einu sjáanlegu hótelgestirnir, aðrir en systurnar, er hópur dverga, sem leika trúða í leikhúsi þar skammt frá. Þeir lifa í eigin heimi sem áréttar enn frekar veruleikaflóttann og þá annarlegu fjarlægð sem ríkir milli manna í landinu. En drengurinn er ekkert smeikur við dvergana og þeir fagna honum í sinn hóp þegar hann ráfar af tilviljun inn til þeirra. Þeir skemmta bæði sjálfum sér og honum við það að færa hann í kjól sem mætti túlka sem skrumskælda unglingavígslu. En drengurinn er ungur og saklaus og lítur á þetta sem leik.

Á það hefur verið bent að þjónninn á hótelinu, sem er bæði gamall og virðulegur, uppáklæddur í kjól og hvítt, eigi að tákna kirkjuna. Það er sem hann sé þarna bara af gömlum vana þar sem Guð sé horfinn og ekki lengurmeð inni í myndinni. Þó svo að hann geti ekki talað við gestina, veit þjónninn hvað hann á að gera. Hann kemur með mat og drykk og hlúir að sjúklingnum af augljósri vorkunsemi. Jóhann er mikið til einn síns liðs í þessu stóra hóteli þar sem móðir hans á í ástarævintýrum og frænka hans vinnur að þýðingum milli þjáningarkasta sinna. Þjónninn vekur þó brátt forvitni hans og hann þiggur af honum smá matarbita. Hann sýnir hins vegar myndinni engan áhuga, sem þjónninn réttir honum af syni sínum ! og fjölskyldu (söfnuðinum), og stingur henni undir teppi. Þjónninn veldur þó ekki aðeins þjónustuhlutverkinu heldur þekkir hann einnig kirkjutónskáldið Jóhann Sebastian Bach. Nafn hans er það eina sem hann getur sagt við systurnar og hýrnar þá yfir honum eins og hann sé að minnast gamals kunningja. Að öðru leyti er hann samt algerlega utan við atburðarás myndarinnar.

Ef einhvers staðar glittir í von fyrir mannkynið í myndinni þá er það í áhuga drengsins á því að læra tvö orð sem hann ekki skilur á tungumáli ókunna landsins. Ester móðursystir hans skrifar þau niður og fær honum að skilnaði þegar hann og móðir hans leggja af stað heim og skilja hana eina eftir til að deyja í þessu framandi landi.

Við þennan viðskilnað fjarlægist drengurinn móður sína og einbeitir sér að orðunum sem frænka hans sagði að myndu hjálpa honum að vinna bug á óttanum og einmanaleikanum. Í ljós kemur að þau merkja tvennt af því mikilvægasta sem þarf til að ná sambandi við aðrar manneskjur, hönd og andlit.

Sögulegar persónur: Johann Sebastian Bach
Guðfræðistef: þögn Guðs, kirkjan, heimurinn, sameiginleg dulvitund mannsins
Siðfræðistef: skyndikynni, vígbúnaðarkapphlaupið, hatur, mannleg samskipti, sjálfsfyrirlitning, ótti, einmanakennd
Trúarleg tákn: hönd, andlit, faðir, þjónn
Trúarleg reynsla: tónlist Bachs